06.01.1943
Sameinað þing: 13. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 255 í D-deild Alþingistíðinda. (3911)

20. mál, kjarnafóður og síldarmjöl

Bjarni Ásgeirsson:

Ég skal ekki vera margorður, en ég þarf. að svara nokkrum orðum úr ræðum þeirra hv. þm. Borgf og hv. þm. G.-K. Hv. þm. G.-K. komst þannig að orði, að mér færist lítilmannlega að vilja færast undan ábyrgð, sem ég og Búnaðarfélag Íslands bærum í þessu máli. Nú er ekki ætlun mín að skorast undan ábyrgð á því, sem miður hefur farið, sem ég tel, að réttilega megi eigna Búnaðarfélagi Íslands. En ég vildi leiðrétta missagnir, sem fram hafa komið um afskipti Búnaðarfélags Íslands af málinu. Hitt finnst mér ekki sómalegt af háttv. þm. G.-R. að vilja bera Búnaðarfélag Íslands sem skjöld fyrir sig í öllum þeim ádeilum, sem hann hefur orðið fyrir í þessu máli, og það langt um efni fram. Því að sannleikurinn er sá, að Búnaðarfélag Íslands var aldrei til ráða spurt í þessu máli, fyrr en komið var fram á haust og málið komið í fullkomið öngþveiti. Ég hef leitað í bréfum Búnaðarfél. Ísl. og hvergi fundið þess vott, að ríkisstj. hafi skrifað því nokkurn staf um þetta mál fyrr en í haust. Þess vegna vil ég leiðrétta það hjá hv. þm. G.-K., sem hann fullyrti hér á fyrri fundi, að nákvæmlega sömu aðferðir hefðu verið hafðar á þessu ári sem á undanförnum árum viðkomandi pöntunum og úthlutun á síldarmjöli. Það er ekki rétt, að svo hafi verið, því að ef þeirri reglu hefði verið fylgt, eins og að undanförnu, að láta pantanir á síldarmjöli vera komnar fyrir mánaðamótin ágúst og september, þá hefði verið tími til þess að hafa skömmtun og skiptingu á síldarmjölinu, sem hefði komið bændum að notum. Og þá hefðu þær birgðir komið bændum að fullum notum, sem Búnaðarfélag Íslands stakk upp á, að skyldi vera haldið eftir í landinu. Ef pantanir hefðu komið fyrir 1. sept., þá hefði verið hægt að skammta eftir pöntunum og þeim birgðum, sem til voru í landinu, og þá hefði betur farið en fór. Og ef stjórn Búnaðarfélags Íslands hefði verið kunnugt um þessar miklu pantanir þannig í tæka tíð, þ.e.a.s., ef þeirri sömu reglu hefði verið fylgt í þessu efni og gert hefur verið á undanförnum árum, þá hefðu skammtanir getað farið fram nógu snemma.

Hv. þm. G.-K. tók það óstinnt upp fyrir mér, þegar ég sagði, að skýrslur, sem sendar voru, hefðu verið óábyggilegar. Þær voru það vegna þess, að þær pantanir, sem okkur voru sendar og okkur var skipað að vinna úr, voru ekki allar þær pantanir, sem þá voru fyrir hendi og fram komnar. Það vantaði allar pantanir fyrir síldarverksmiðjuna á Hjalteyri. Við víssum ekkert um þær og tókum ekkert tillit til þeirra. Auk þess var, að eftir að við skömmtuðum síldarmjölið; var tekið við pöntunum frá Síldarverksmiðjum ríkisins, er við gátum ekki tekið til greina, af því að þær komu svo seint. Þess vegna urðu þær upplýsingar, sem við gáfum, rangar. Ég tel þó, að samkvæmt þessum upplýsingum og þeim, sem síðar komu fram, þá hefði verið hægt að láta meira en 60% til þeirra manna, sem ekki voru búnir að fá allt sitt síldarmjöl afgreitt. En það raunalegasta við þetta allt er það, að ekki einu sinni þessi 60% hafa verið afgreidd.

Ég hef hitt bændur, sem hafa fengið einn 30%, annar 40% og hinn þriðji 50% af því síldarmjöli, sem þeir hafa pantað. Einn þessara manna, sem hefur stórt bú, sagði mér, að ekkert lægi fyrir honum annað en að slátra þremur of kúm sínum bráðlega. Þessir menn hafa eðlilega sagt: Hvar eru þessi 75%, sem ríkisstj. lofaði okkur í haust? og: hvar eru þessi 60%, sem ríkisstj. lofaði okkur? Og ég hef ekki getað svarað þessu nema með nokkrum kinnroða fyrir hönd Búnaðarfélags Íslands og sérstaklega með kinnroða fyrir hönd ríkisstj., sem gaf þessar skýrslur, sem ég hef getið.