06.01.1943
Sameinað þing: 13. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 258 í D-deild Alþingistíðinda. (3914)

20. mál, kjarnafóður og síldarmjöl

Sveinbjörn Högnason:

Hv. þm. A.-Húnv. byrjaði mál sitt á því að segja, að þessar umr. væru nokkuð undarlegar. Og ég get vel skilið það, að eftir því sem þetta mál rifjast upp, finnist honum og fleirum því vera þannig farið, því að málið er vissulega harla undarlegt og sennilega það undarlegasta, sem hæstv. Alþ. hefur nokkurn tíma horft upp á. Hvernig á málum þeim, sem hér hefur verið rætt um, hefur verið haldið í höndum ríkisstj., er áreiðanlega eitt af þeim undarlegustu málum, sem komið hafa fyrir á síðustu árum, svo ekki sé meira sagt. Því er þannig háttað, að Alþ. ákveður að selja síldarmjöl við tiltölulega lágu verði til bænda til þess að hægara sé. fyrir þá að afla þess, og úthlutun á því til þeirra síðan framkvæmd þannig, að menn fyrst í stað eru látnir fá allt, sem þeir hafa pantað af því, en síðan sett stopp við, svo að margir fá ekki nema kannske helming af pöntunum og sumir alls ekki neitt. En hv. þm. A.-Húnv. ætti ekki að þykja þetta undarlegt í sjálfu sér, því að þetta eru stjórnarhættir íhaldsins bæði hér og annars staðar, handahóf, hlutdrægni og hirðuleysi, ekki að hafa almenningsheill fyrir augum, heldur hjálpa einstökum mönnum, þó að þjóðarheildin og fjöldi manna bíði stórtjón og baga fyrir það. Þetta hefur nú orðið í þessu máli. Þegar veittur hefur verið styrkur til þess að lækka verð á þessari vöru, þá er það vitanlega gert til þess, að síldarmjölið geti komið að sem beztum notum fyrir neytendur í landinu, og þá verður annaðhvort að skammta það eða sjá um, að nægilega mikið sé til af því í landinu til þess að veita það öllum, sem vilja fá það. Annars er opin leið fyrir hlutdrægni, þannig að sumir stórgræði á verðlækkuninni, en aðrir bíði tjón fyrir vöntun á vörunni og verði að skera fé sitt. En það er eðlilegt, að þetta fari svo í höndum þessa flokks, Sjálfstfl., því að hans sjónarmið er ekki þjóðarhagsmunir heldur hagsmunir einstakra manna.

Eitt vil ég spyrja fyrrv. ríkisstj. um. Hvenær og hvar fékk hún vitneskju um það, að ekki væri hægt að fullnægja öllum pöntunum á síldarmjöli? Tveimur dögum fyrir kosningar í haust lét hún auglýsa, að allir gætu fengið nóg síldarmjöl, því að nóg væri til af því í landinu. En tveim dögum eftir kosningar, 20. okt., lét hún hins vegar auglýsa, að ekki væri hægt að láta menn hafa nema 60% af pöntunum þeirra á síldarmjöli. Hvaðan fékk ríkisstj. upplýsingar um það á þessum fáu dögum, að hún hafði sagt og látið auglýsa það tveimur dögum fyrir kosningar, sem reyndist ósatt í þessu máli? Getur fyrrv. ríkisstj. borið Búnaðarfélag Íslands sem skjöld fyrir sig í þessu efni? Mér þætti æskilegt að fá svar við þessu, m. a. vegna þess, að hv. 2. þm. Rang. auglýsti það á öllum fundum fyrir kosningar, að allir þar austur frá gætu fengið nóg síldarmjöli Sumir þar hafa fengið nóg síldarmjöl, en sumir ekki neitt. Þess vegna er það einkennilegt, er hv. þm. A.-Húnv. heldur því fram, að pantanir hafi verið afgreiddar hlutfallslega jafnt. Hvernig gátu líka kaupfélög vitað það í haust, að þau yrðu svikin um 40% af pöntunum sínum? Fyrstu mennirnir, sem síldarmjöl tóku, fengu allt, sem þeir höfðu pantað, vegna þess að engum datt í hug, að stjórnin sviki gefin loforð. Engum datt í hug, að sú ríkisstj. sæti í landinu, sem sviki í þessu efni svo sem raun varð á.