06.01.1943
Sameinað þing: 13. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 261 í D-deild Alþingistíðinda. (3918)

20. mál, kjarnafóður og síldarmjöl

Finnur Jónsson:

Hv. þm. Mýr. (BÁ) vildi enn halda fram, að það hefði verið einhver trygging í því fyrir þá menn, sem panta síldarmjöl, ef þeim hefði verið gert að skyldu að panta það fyrir lok ágústmánaðar, eins og hann sagði, að stæði í l. ákvæði um. Nú er það ekki í l., heldur hitt, að mjöl skuli panta fyrir lok septembermánaðar. Þess vegna er, samkv. 12. gr. l. um síldarverksmiðjur ríkisins, búið að afgreiða mjög mikið af síldarmjölinu í lok septembermánaðar, og til frekari skýringar vil ég slá upp 1. málsgr. 12. gr. l. um síldarverksmiðjur ríkisins. Hún er svona:

„Síldarverksmiðjum ríkisins skal skylt að selja samvinnufélögum, bæjarfélögum, hreppsfélögum og búnaðarfélögum það síldarmjöl, sem slík félög panta fyrir 30. september ár hvert.“ (BÁ: Ekki einstaklingum. — HermJ: Var það ekki selt einstaklingum nú?) Síldarverksmiðjurnar höfðu enga heimild til þess að skammta síldarmjöl. Þess vegna var það skylda stjórnar Búnaðarfélags Íslands, sem fulltrúa ríkisstj. að koma á skömmtun á þessari vöru og fá sett 1. um það efni.

Hv. 2. þm. Rang. hélt því fram, að ég vildi láta verðlagsn. níðast á framleiðendum í landinu. Þetta er ekki rétt. En ég hef sagt, að það vantaði grundvöll fyrir verðlagsákvörðunum á vörum bænda. Nú er vitað, til hvers hv. 2. þm. Rang. var settur í kjötverðlagsn., hann var settur þar til þess að bjóða upp kjötverðið á móti Framsfl. Hvaða grundvöll hann hefur fyrir sínum verðlagsákvörðunum, getur hann ekki sýnt fram á eða sannað, því að sá grundvöllur er ekki til. Ef þeir, sem telja sig vera málsvara bænda, vilja hafa hreint mjöl í pokanum, hvers vegna vilja þeir þá ekki láta finna vísitölu fyrir afurðaverði bænda? Hvers vegna eiga bændur að því leyti að vera öðruvísi settir en embættismenn, sjómenn og verkamenn, sem taka laun sín eftir vísitölu? Það er vegna þess, að hv. 2. þm. Rang. vill hafa tilefni til hess að nota verðlagið á landbúnaðarafurðum sem kosningabeitu í héruðum landsins. Það hefði nú ekki verið goðgá, þó að ríkisstj. hefði látið fara fram rannsókn á því, hvort kjötverðlagsn., þegar hún ákvað kjötverðið í haust, hefði reiknað með því, að það fengjust uppbætur úr ríkissjóði til Iandbúnaðarins, sem næmu 4—5 þús. kr. á hvert býli í landinu. Og það hefði verið gott, ef hv. 2. þm. Rang. hefði verið undir það búinn að færa einhver rök fyrir, að svo hefði verið. Meðan slík rök koma ekki fram, er full ástæða fyrir hæstv. ríkisstj. að athuga, hver grundvöllur er undir verðlagi því á landbúnaðarvörum, sem hér hefur verið sett, og hvort rétt sé að halda sér við þær samþykktir, sem gerðar hafa verið um uppbætur úr ríkissjóði, þegar slíkur háttur er hafður á störfum kjötverðlagsn. eins og þegar þessi maður (lngJ) var settur inn í þá n.