10.02.1943
Efri deild: 52. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 162 í B-deild Alþingistíðinda. (392)

119. mál, verðlag

Fjmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. —– Ég skal þá fyrst koma að fyrirspurn hv. 3. landsk. um það, hvað líði þeim frv., sem stj. hefði í hyggju að leggja fyrir þingið í sambandi við dýrtíðarmálin. Eins og ég gat um í útvarpsræðu minni nú fyrir nokkrum dögum í sambandi við fjárlfrv., þá er stj. þeirrar skoðunar, að á meðan ekki er úr því skorið, hvort þingi verður frestað, sé þýðingarlaust að leggja fram nokkur frv. um þessi mál, þar sem þau mundu daga uppi, ef þingi yrði frestað. Hins vegar skal ég taka það fram, að stj. hefur þessi frv. með höndum nú og er að vinna að þeim, og það er það eina, sem ég get sagt hv. 3. landsk. í því efni, og það munu ekki líða margir dagar þangað til stj. mun láta eitthvað frá sér heyra í þessu efni. En verði þinginu ekki frestað, verður það ekki fyrr en það kemur saman að nýju. Ég get ekki að svo komnu máli farið nánar inn á það, hvað stj. hugsar sér í þessum efnum, enda efa ég, að það mundi greiða nokkuð fyrir málunum, þó að slíkt yrði gefið upp, áður en þessi mál yrðu tekin til formlegrar umræðu í þinginu.

Þá skal ég víkja lítils háttar að þeim deilum, sem hafa sprottið út af framkvæmd verðfestingarl. í sambandi við hinar svokölluðu skömmtunarvörur. Um þetta hefur þegar töluvert verið rætt og ritað. Ég skýrði frá mínu sjónarmiði í útvarpsumræðu og hef ekki miklu við það að bæta, en vil þó enn taka það fram, að það verð á þessum vörum, sem nú gildir, var sett 2. des. s.l., og það hefur verið hið löglega verð í landinu síðan, en þeir, sem áttu eldri birgðir, eru skyldir til þess að selja þær með lægra verði. Nú vill hv. 3. landsk. halda því fram, að þetta sé ekki aðalatriði málsins, en ég vil samt halda því fram, að þetta sé aðalatriðið, vegna þess að I. gera beinlínis ráð fyrir því, ef ágreiningur rís um það, við hvaða verðlag skuli miðað, að þá sé hægt að skera úr því. Það hefði mátt kallast hlægilegur skrípaleikur að banna verzlunum að selja þessar vörur fyrir það verð, sem fyrir löngu var búið að ákveða af opinberri nefnd sem rétt og löglegt. Árangurinn af því hefði eðlilega orðið sá, að 1. marz hefðu vörurnar aftur orðið að hækka upp í það verð, sem réttilega hefur verið ákveðið á þeim vörum, eins og ég hef áður tekið fram. Þetta var framkvæmdaratriði, sem ég hygg, að allir í mínum sporum hefðu afgr. á sama hátt, enda var það fullkomlega réttmætt og löglegt.

Ég ætla svo ekki að fara nánar út í þetta. Ég vænti þess, að þetta sé svo skýrt og rætt, að það verði ekki efni til áframhaldandi deilu. Út af því, hvort verðfestingarl. falli niður, þegar þetta frv. verður samþ., eða eigi að gilda til 28. febr., þá vil ég segja það, að það er a.m.k. minn skilningur, þó að það sé nokkur breyt. gerð á l. um þetta, að ráðstafanirnar eigi að standa til 28. febrúar, og á ég þar náttúrlega við, að landbúnaðarvörurnar hækki ekki til þess tíma.

Út af brtt. á þskj. 278, sem hv. þm. Barð. hefur borið fram, er ég honum sammála um, að það sé nauðsynlegt að hafa eftirlit með þessu, en vil benda honum á, að það er ekki nauðsynlegt að setja slíka heimild inn í þessi l. Viðskiptaráð hefur samkv. öðrum l. fullkomið vald til þess að fullnægja þessu. Ég vil mælast til þess, að þessi brtt. verði ekki samþykkt, en vil heita flm. því, ef hann telur það nokkurs virði. að viðskiptaráði skuli verða send þessi till. með beiðni ráðuneytisins um, að þetta verði sérstaklega tekið til greina í störfum ráðsins, en eins og tekið hefur verið fram, getur viðskiptaráð sett hvaða reglur, sem það vill, um innflutning og gjaldeyri, og undir það ætti þetta að koma. Að því leyti, sem verðlag kemur hér inn í, er sjálfsagt hægt með verðlagsákvæðum að hafa áhrif á það, sem aflaga fer í þessu efni.

Að síðustu vil ég geta þess, að mér þykir nú orðinn fulllangur dráttur á því, að þetta frv. næði samþykki þingsins. Það er ekki þessari hv. d. að kenna, — ég skal viðurkenna það —, en ég vil mælast til þess, að frv. verði samþ. eins og það er komið til d.