09.02.1943
Sameinað þing: 23. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 270 í D-deild Alþingistíðinda. (3933)

20. mál, kjarnafóður og síldarmjöl

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Þetta mál var rætt mikið við fyrri umr., og þrátt fyrir það, að við hv. 1. þm. Skagf. (SÞ) og ég höfum skrifað undir nál., sem hefur inni að halda dagskrártill., óskuðum við sérstaklega eftir því, að brtt. á þskj. 227 yrði samþ. Við gengum til samkomulags inn á að afgreiða málið með rökst. dagskrá, sem við vorum þó ekki alls kostar sammála um, hvernig orða skyldi. Við urðum sammála í n. um, að nauðsyn bæri til þess, að ríkisstj, sæi um innflutning á kjarnfóðri til landsins. Lengra náði samkomulagið ekki. En með því væri bætt úr þeirri þörf, sem brýnust er nauðsyn að bæta úr. En það, sem næst lá fyrir samkv. þáltill., var það að athuga líka, hvort þeir menn, sem vitað er um, að hafi orðið fyrir miklu misrétti við þá úthlutun síldarmjöls, sem átti sér stað í haust, gætu ekki á einhvern hátt fengið bættan skaða sinn, svo að þeir sætu við nokkuð líkt borð og hinir, sem fengu síldarmjölið ódýrt. Og með tilliti til þess höfum við hv. 1. þm. Skagf. og ég flutt brtt. um, að aukið verði nokkrum orðum við dagskrártill. á þskj. 226, þar sem við ætlumst til. þess, að samhliða því að ríkisstj. er treyst til þess að sjá um, að fluttur verði til landsins nægur fóðurbætir, þá láti hún rannsaka, hvort ekki sé hægt að bæta eitthvað úr því misrétti, sem menn urðu fyrir í haust við úthlutun síldarmjölsins. Það er upplýst hér í umr. áður og ekki hrakið, að margir menn, sem þó höfðu pantað, fengu ekkert síldarmjöl, þegar aðrir fengu allt, sem þeir pöntuðu, og urðu þess vegna að kaupa miklu dýrari fóðurbæti.

Verði þessi till. til rökst. dagskrár, með brtt. okkar 1. þm. Skagf. samþykkt, get ég fyrir mitt leyti sætt mig við hana, enda þótt því sé fjarri, að hún nái þeim tilgangi nema að nokkru leyti, sem í þáltill. var upprunalega. Ég vona, að núverandi ríkisstj. rannsaki þetta og athugi, hvort hún geti ekki bætt úr þessu misrétti. Ég legg því til, að rökst. dagskráin verði samþ. með þeirri breyt., sem er á þskj. 227, í því trausti, að hæstv. núv. ríkisstj. standi betur í ístaðinu heldur en fyrrv. ríkisstj., sem vanrækti með öllu að sjá um innflutning fóðurbætisins í sumar, þótt henni væri falið það á sumarþinginu, og athugi þá líka, hvort ekki er hægt að bæta úr því misrétti, sem menn hafa orðið fyrir við úthlutun síldarmjöls á síðasta hausti, sem allir viðurkenna — allir viðurkenna.