09.02.1943
Sameinað þing: 23. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 274 í D-deild Alþingistíðinda. (3938)

20. mál, kjarnafóður og síldarmjöl

Frsm. (Gísli Sveinsson):

Ég vil aðeins gefa stutta skýringu út af ummælum hv. þm. V.-Húnv. Það var mikið rætt í n. að fá rannsókn um það atriði, sem hann talaði um, hvort menn hefðu birgt sig upp svo og svo mikið af mjöli. En það var upplýst, að til væru önnur l., sem heimiluðu að taka slíkan fóðurbæti eins og að taka hey, ef það upplýsist, að svo og svo miklar birgðir eru til.

Um brtt. á þskj. 227 þá held ég, að það eitt hafi staðið á, að menn voru ekki sammála um hana, að meiri hl. n. vildi ekki viðurkenna, að misrétti hefði verið beitt í úthlutuninni. Það hafa orðið mistök, en enginn hefur verið beittur órétti, og það var þess vegna, að ekki varð fullt samkomulag um till. Minni hl. vildi, að farið væri fram á, að bætt væri úr misrétti, sem meiri hl. vildi ekki viðurkenna, að hefði átt sér stað.