10.02.1943
Efri deild: 52. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 164 í B-deild Alþingistíðinda. (394)

119. mál, verðlag

Gísli Jónsson:

Út af yfirlýsingu hæstv. fjmrh. viðvíkjandi brtt. á þskj. 378 vil ég taka það fram, að ég er ekki alveg sammála hæstv. ráðh. um það atriði, að það sé ekki meiri trygging að hafa þetta í l., og ég held, að það sé ekki algerlega rétt skilið. Ég held, að það sé ekki alveg víst, að aðilar, sem yrðu að hlíta þessu, mundu skilja það þannig, að lagaheimild væri fyrir því að láta þá selja vörurnar, eins og gert er ráð fyrir í brtt., en ég mun ekki gera þetta að kappsmáli gegn því, að hæstv. ráðherra vilji endurtaka yfirlýsingu sína, þá sem hann gaf áðan hér í d. Mundi ég láta það nægja og treysta því, að viðskiptaráð hafi þetta í hendi sér og gæti þess, að það verði ekki misnotað.

Í tilefni af þeim ræðum, sem hafa farið hér fram um annað atriði og út af fyrirspurn hv. 3. landsk., vildi ég mega segja nokkur orð. Það hefur komið fram hér í blöðum, í þingræðum og í Sþ. undir umr. um fjárl. sífellt nagg og stapp um þær 20 millj. kr., sem bændur hafi fengið í verðuppbætur af vörum sínum. Ég tók það fram þar, án þess að það væri hrakið eða gerð tilraun til þess að hrekja það, að allt þetta byggðist á hreinum misskilningi frá þeim mönnum, sem öllu vilja fórna fyrir hagsmuni stéttar sinnar og sjá ofsjónum yfir því, að þeir, sem verst eru settir, fáu nokkrar kjarabætur. Að hugsa sér það, að það ætti að taka tillit til þess í kjötverðinu í haust, er leið, að bændur fengu ódýrt síldarmjöl, er svo mikil fjarstæða, að því er ekki svarandi. Það er vitað, að Bústofn, sem fóðraður er á þessu síldarmjöli, kemur ekki til frálags fyrr en haustið 1943. Þess vegna getur ekki komið til mála, að kostnaðurinn 1942 verði metinn eftir því, hve fóðrið er dýrt fyrir kindurnar 1943.

Ég vildi í sambandi við þetta spyrja stj., hvenær hún hafi hugsað sér að taka upp til athugunar samtímis launakerfið og landbúnaðarmálin í landinu. Ég hef bent á það áður, að það er ekki hægt að leysa þessi mál nema taka þau alveg fyrir samtímis. Ég vildi, að ríkisstj. og þeir þm.; sem eru óánægðir með þá styrki, sem veittir hafa verið, vildu reikna út, hvað það kostaði ríkissjóðinn mikið og hvað vísitalan hækkaði mikið við það, að öll vinnulaun hækkuðu frá 25 upp í 60%, og ef þeir komast að þeirri niðurstöðu, að ekkert hafi hækkað annað en landbúnaðarafurðir, þá er sjálfsagt að ræða þetta, en meðan þeir geta ekki fært sönnur á það gagnstæða, er ekki ástæða til að hreyfa þessu meira. Nú vil ég benda á það, að máske hafa aldrei verið eins lítil átök um hækkun vinnulauna í landinu eins og 1. júlí. Þá fengu verkamenn og allar launastéttir í landinu alveg mótþróalaust hækkun sína, en árangurinn er sá, að úti um allt land hafa menn haft lægri tekjur en áður, vegna þess að það hefur eingöngu verið hugsað um að setja kröfurnar hátt, svo að menn yrðu að hætta að framleiða. Ég skil ekki, hvernig stj. getur lokað augunum fyrir því og tekið þá stéttina, sem hefur barizt við erfiðust kjör, — tekið hana út úr og „spekúlerað“ í því, hvernig hægt sé að lækka vísitöluna í landinu eingöngu á hennar kostnað, án þess að það komi nokkuð fram á öðrum stéttum. Það er víst, að þetta mál verður aldrei leyst, nema jafnt sé látið ganga yfir allar stéttir þjóðfélagsins, þannig að þeir, sem meira hafa borið úr býtum, láti meira af mörkum, og það sé ekki eingöngu látið mæða á þeim, sem hafa erfiðust launakjör allra landsmanna. Stj. getur aldrei leyst þessi mál, fyrr en viðurkennt er, að allir verði að bera byrðarnar jafnt.