17.03.1943
Neðri deild: 77. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 277 í D-deild Alþingistíðinda. (3959)

123. mál, rafvirkjun fyrir Vestur-Skaftafellssýslu

Gísli Sveinsson:

Mér þykir hlýða sem flm. till. að segja örfá orð, áður en hún er afgreidd. Þegar hv. frsm. talar um, „að till. verði vísað frá“, er það miður rétt orðalag eftir þingsköpum og merkingu, því að þetta heitir að afgreiða mál með rökst. dagskrá, og í þeirri dagskrá er að jafnaði nokkur viðurkenning málefnisins fólgin, enda er svo hér.

Þegar till. var borin fram í fyrstu, hafði ég og aðrir ástæðu til að halda, að þessum till. yrði tekið opnum örmum og ekki sízt af mönnum, sem stóðu að rannsókn þessara mála. Þó var mér ljóst, að kominn var nokkur þvergirðingur í sambandi við störf þeirrar milliþn., sem um málin fjallar. Till. var flutt til að tryggja, að í rannsókn þeirrar n. yrði Vestur-Skaftafellssýsla tekin með, en ekki staðnæmzt vestan Jökulsár á Breiðamerkursandi, eins og mig grunaði, að n. og aðstoðarmenn hennar kynnu að gera, og virtist það eiga að vera a.m.k. saklaust að samþ. till., þótt n. hefði ótilkvödd gert ráð fyrir rannsókn austar. Nú er það orðið ljósara, hvað n. ætlast fyrir. Það má segja, að hver maður í fjhn. þessarar d. lofaði því, að till. skyldi fá fylgi n. til afgreiðslu úr þinginu. Þetta loforð, sem flestir í n. gáfu, hefur hún svíkið með því, að leggja til að „vísa till. frá“. Þetta verður ekki skilið né skýrt með öðru en því, að meiri hl. þessarar n. er í milliþn. búinn að hengja sig á þann klafa, sem ég skal ekki dæma um, hve haldgóður verður að hanga á. Nú sé. ég, að sá maður í n., sem helzt leggur þar til sérfræðina og atorkuna að koma þessu áfram, birtir þá vitneskju um rannsóknirnar, að enn hefur ekkert verið hugsað fyrir rannsókn V.-Skaftafellssýslu svo að till. mín hefur ekki verið ástæðulaus. Með afgreiðslunni, sem fjhn. vill hafa á henni, verður hins vegar að ganga út frá því sem sjálfsögðum hlut, að milliþn. láti að því búnu sýsluna ekki verða út undan, hvort sem till. mín hefur rekið þar nokkuð á eftir eða ekki, og með þeim skilningi málavaxta læt ég vera að gera nokkurn uppsteit út af því, hvernig hv. fjhn. hefur snúizt í málinu, og þarf ekki að vera móti hinni rökst. dagskrá. Hins vegar mega nm. vita, að ég mun ekki láta hjá líða að ganga eftir, að milliþn. láti rannsókn fara fram.