10.02.1943
Efri deild: 52. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 166 í B-deild Alþingistíðinda. (397)

119. mál, verðlag

Gísli Jónsson:

í tilefni af fyrirspurn hv. 5. þm. Reykv. vil ég svara hreint, að ég álít slíkt fjarstæðu, en vil láta fylgja því svari þá ábendingu, að það er einmitt flokkur þess þm., sem árum saman hefur gert kröfur um það, að ríkissjóður styrkti svona störf, til þess að menn ynnu grjótvinnu, sem ekki gefur neinn arð, og styrkti menn til að gera ekki neitt. Að því er stefnt að vega aftan að atvinnufyrirtækjunum, svo að mikill hópur verkfærra manna verði sendur upp á heiðar til þess að mylja grjót eða til þess að gera ekki neitt. Er það ekki þessi stefna, sem hér er út af frystihúsunum? Hver á að greiða mismuninn af þessum kauphækkunum, sem nú hafa orðið, og því, sem þau geta greitt? Er það ekki ríkissjóður? Er það ekki krafa flokks þessa þm., að ríkissjóður taki að sér að greiða það, sem frystihúsin ekki geta greitt, og það eftir að þessir menn hafa fengið miklu meiri bætur en sveitamennirnir? Það er reiknað út. Uppbæturnar á kjötið eru eðlilega háar, en það kemur af því, að árið 1941 er kjötverðið til bænda bundið. Þeir fá ekki að selja með frjálsu verði, því að þá hefði hækkun vísitölunnar kostað ríkissjóðinn og verkamennina svo mikið. Er það nokkur leið að binda verðlagið fyrst og neita svo að bæta það úr ríkissjóði, þegar landið er búið að græða á bindingu verðlagsins? Getur ríkissjóður fyrst látið þessa stétt liða við það að geta ekki selt á frjálsum markaði og neitað svo að bæta henni upp? Ég held, að það væri ákaflega hyggilegt fyrir þá menn, sem gaspra mest um þessi mál, að reyna að setja sig inn í þau og reyna að skoða þau frá ýmsum hliðum, og þá munu þeir komast að raun um, að þeir hafa rangt fyrir sér.