10.04.1943
Sameinað þing: 40. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 297 í D-deild Alþingistíðinda. (4023)

156. mál, Þormóðsslysið

Frsm. meiri hl. (Gísli Sveinsson):

Herra forseti. — Ég get að vísu ekki sagt, að mér hafi komið alveg á óvart, hvernig þessir hv. þm., sem síðast töluðu, hafa hagað orðum sínum, því að það var alveg ljóst, þegar þessi till. kom fram, því miður, hver tilgangurinn var.

Nú hafði ég ekki gert annað í ræðu minni en að færa rök fyrir þeirri niðurstöðu, sem meiri hl. allshn. komst að í málinu. Nú býst ég við, að allir séu sammála um, að þetta slys sé þannig vaxið, að ekki sé neitt teljandi eftir til þess, að það sé rannsakað sem ýtarlegast, en hitt er hart, að menn skuli nota sér þetta slys og atburði sem þessa til þess að slá sér upp á því. Það er alveg bersýnilegt, að þessir aðilar, sem hér hafa talað eins og það sé nauðsynlegt að nota þetta hryggilega slys til þess að berast sem mest á, vilja láta líta svo út, að þeir séu einu mennirnir, sem standa með þessu fólki, sem allir aðrir hafi yfirgefið. sbr. þau hótunaryrði, sem hv. frsm. minni hl. viðhafði síðast í ræðu sinni. En annars vegar hafa þessir þm. látið í ljós, órökstutt með öllu, að Sjódómur Rvíkur og yfirleitt sjódómar landsins væru þannig, að eiginlega séu þeir einskis trausts verðir. Hv. 8. þm. Reykv. komst þannig að orði, að bæði farmanna og fiskimannasambandið og ríkisstj. hefðu ætlazt til ýtarlegri rannsóknar en hinnar venjulegu, af því að sá rökstuddur grunur lægi á sjódóminum, að hann hefði rækt starf sitt slælega að undanförnu. Menn geta skrifað slíkar dylgjur, ef þeim þóknast, en þeir ættu ekki að koma með þær hingað. inn. (SigfS: Velkomið að endurtaka þetta utan þings). Í þeirri dagskrá, sem meiri hl. n. ber fram, er talið ástæðulaust að stofna til nýrrar rannsóknar samhliða þeirri, sem nú er að unnið. Ég er hér um bil viss um, að hv. 8. þm. Reykv. hefði fallizt á það, hefði hann verið viðstaddur, þegar n. fékk upplýsingar sínar og heyrt þær skýringar, sem meiri hl. byggði nál. sitt á. Það er misskilningur, þegar hann telur, að sjómönnum sé meinað að koma fram með till. um endurbætur á skipaskoðun. Allir, sem þekking hafa, geta látið álit sitt óhindrað í ljós, og styðjist hann við merkilega sérfræðinga í þessum efnum, ættu þeir að geta látið ljós sitt skína. Hann getur komið með tillögur. Ég fyrir mitt leyti skyldi taka þeim mjög liðlega og bera þær undir mér færari menn. Og veit þm. nokkuð um, nema sjódómurinn, sem nú starfar, hafi í samráði við sig svo og svo marga af þeim mönnum, sem þm. ber svo mjög fyrir brjósti? Í nál. er í bréfi farmannasambandsins talað um, að fengnir verði siglingafróðir menn og sérfræðingar um skipabyggingar til rannsóknarinnar. Flm. till. hafa einhvern veginn fengið það sérstaklega í höfuðið, að hugsanlegt sé að kenna byggingu skipsins eða einhverju slíku athugaverðu um hið hræðilega slys. Ég skal ekkert segja með því eða móti, en það verður athugað í hinni fyrirskipuðu rannsókn. Það getur vel hugsazt, að við hv. 8. þm. Reykv. verðum að þeim rannsóknarárangri fengnum sammála um að láta víðtækari rannsókn fara fram. Rannsóknin er nú væntanlega langt komin, og yrði þess ekki mjög langt að bíða, að hægt yrði að hefjast handa frekar, ef þörf þætti. N. hafði það einmitt í huga. En ég hef þá trú á þeim, sem sitja sjódóminn, að þeir láti ekki sitt eftir liggja.