10.04.1943
Sameinað þing: 40. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 298 í D-deild Alþingistíðinda. (4025)

156. mál, Þormóðsslysið

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. — Ég er sammála hv. 8. þm. Reykv. um, að tilgangslítið sé að raða þetta á Alþ. En sá tónn, sem hann hafði, þegar hann hélt því fram, að fulltrúar sjómanna mættu ekki enn koma nærri rannsókn þessa máls, kom mér til að kveðja mér hljóðs. Hv. þm. Barð. hefur tekið réttilega fram, hve ósæmandi ummælin um sjódóminn voru, þar sem einmitt sitja valdir fulltrúar sjómanna, reyndir og kunnugir öllum hlutum, sem sjómennsku varða. Það er fjarstæða að greiða atkv. með því að taka málið af þeim og fá í hendur annarri sérstakri n. Það er ekki til þess ætlað að greiða fyrir, að sjómenn fjalli um þetta. Ég kann ekki við þær getsakir á Alþingi, að hér séu einhverjir menn, sem vilji ekki, að allt verði gert, sem unnt er, til að komast fyrir rætur málsins. Mér finnst þetta svo lítilmótlegur málflutningur, að mér leiðist að eiga orðastað við slíka menn. Ég tek það alls ekki til mín, er ég greiði atkv. með dagskránni, að ég sé með því að draga úr aðgerðum í öryggismálum.

Ef hv. 8. þm. Reykv. hefði látið svo lítið að lesa alla 206. gr. í einkamálalögunum, þar sem ræðir um sjódóm, hefði hann getað séð, hve hlutverk sjódóms er viðtækt. Þar segir með leyfi hæstv. forseta: „Nú hefur skip farizt, beðið tjón eða lent í háska að öðru leyti, og her þá sjó- og verzlunardómi að rannsaka eftir föngum öll þau atriði, er máli skipta. svo sem um skip og útbúnað þess, farm, framferði skipstjóra og skipshafnar, hafnsögumanns o.s.frv.“ Það er sem sé auðsætt, að þau atriði, sem gripið er á, eru ekki tæmandi upptalning, heldur dæmi. Hver maður sér, að sjódómnum ber að rannsaka öll hugsanleg atriði og tilvik við sjóslysið. Þetta veit sjálfsagt hv. 8. þm. Reykv., en vill ekki skilja það eða vill ekki kannast við það. Í þessu máli ber að framkvæma eins ýtarlega rannsókn og framast er unnt. En sjódómurinn er skipaður hæfustu mönnum úr sjómannastétt og lögfræðingum, sem hafa, sinnt þessum málum um áratugi, og engin ástæða er til annars en þeir muni fá upplýst allt, sem hægt er að upplýsa.