19.02.1943
Sameinað þing: 27. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 301 í D-deild Alþingistíðinda. (4033)

105. mál, virkjun Lagarfoss

Sigurður Thoroddsen:

Herra forseti. — Á þskj. 175 flytjum við hv. 6. landsk. þm. till. til þál. um rannsókn á virkjun Lagarfoss. Mér nægir í þessu máli að mestu að vísa til þess, sem sagt er í grg. Það er ekki ofmælt þar, að á Austurlandi er raforkumálum illa komið. Mér er kunnugt um það vegna atvinnu minnar og kunnugleika þar eystra.

Ég skal þó geta þess, að síðastliðið sumar var skipuð mþn. í raforkumálum með þál. og henni falið að útvega fé til að koma upp rafveitum, en jafnframt var ríkisstj. falið að láta rannsaka skilyrði til vatnsaflsvirkjana í fallvötnum landsins. Till. sú, er hér liggur fyrir, fellur inn í till. frá í sumar, og flytjum við hana þrátt fyrir það, þar sem það er aðkallandi að fá þessa rannsókn framkvæmda. Ég átti tal um málið við forstjóra Rafmagnseftirlits ríkisins, og okkur kom saman um, að rétt væri að flytja þáltill. þá, sem nú er til umr. Hann taldi, að það mundi flýta málinu, og þegar hv. 6. landsk. þm. fór þess á leit, að ég flytti þessa þáltill. með honum, tók ég því fegins hendi, því að ég trúi á það, að virkjun Lagarfoss geti orðið til mikillar blessunar fyrir Austurland.

Ég vænti, að till. þurfi ekki að fara til n:, þar sem um svo sjálfsagt mál er að ræða.