19.02.1943
Sameinað þing: 27. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 302 í D-deild Alþingistíðinda. (4035)

105. mál, virkjun Lagarfoss

Flm. (Lúðvík Jósefsson). Herra forseti. — Ég vil segja örfá orð út af ummælum hv. 2. þm. S.-M. Hv. þm. varpaði því fram, að þessi till. væri í raun og veru ekki mjög nauðsynleg, því að á síðasta þingi hefði verið samþ. þál., sem gæti náð yfir þá rannsókn, sem hér er um að ræða, eins og aðrar. Það er að vísu rétt, að það var samþ. að fela mþn. í raforkumálum og einkum rafmagnseftirliti ríkisins að láta rannsaka virkjunarmöguleika í öllum fallvötnum landsins, og það tökum við fram í grg., en slík samþ. nær ekki nema að takmörkuðu leyti yfir það, sem hér liggur fyrir. Við snerum okkur til mþn. og rafmagnseftirlitsins, en þar var enga vissu að fá fyrir því, að þetta yrði framkvæmt næsta sumar, heldur kom það fram hjá rafmagnseftirlitinu, að sjálfsagt væri að flytja þáltill., ef við vildum leggja kapp á, að rannsókn færi fram á næsta sumri. Allgott dæmi um nauðsyn þessa máls er, að frá einum stað eystra var þegar komin fram í þinginu þáltill. í þá átt að stækka allmjög rafveitur þar, en slíkar aðgerðir einstakra staða mundu draga allmikið úr því, að í heildarframkvæmdir yrði ráðizt. Aðrir staðir eystra eru farnir að tala um, að þeir verði að leysa raforkumál sín. Það var því full ástæða til að flytja till. Ég verð að segja, að þega r hugsað er til þess, að Austurland er eini landsfjórðungurinn, sem hefur ekki nema smávirkjanir, úr sér gengnar, en að þar hafa að engu leyti verið rannsakaðir möguleikar til stórvirkjunar, og að nú er í ráði að stækka mjög virkjanir á Norðvestur- og Suðvesturlandi, þá er ástæða til að reka á eftir rannsóknum um virkjunarskilyrði eystra.

Af því að málið er ekki margbrotið, sé ég ekki ástæðu til að tefja afgreiðslu þess með því að setja það í n.