19.02.1943
Sameinað þing: 27. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 304 í D-deild Alþingistíðinda. (4038)

105. mál, virkjun Lagarfoss

Eysteinn Jónsson:

Það eru aðeins örfá orð út af því, sem hv. 6. landsk. sagði.

Skömmu eftir að mþn. í raforkumálum tók til starfa, átti ég tal við form. n. um, að gengið væri eftir því að fá almenna rannsókn framkvæmda í þessu máli. Form. n. skýrði þá frá því, að n. mundi reka eftir því eins og henni væri mögulegt að fá allsherjar rannsókn í málinu. Hann kvað aðallega vera um tvær leiðir í þessu máli að ræða, annaðhvort að virkja stór vatnsföll fyrir heil byggðarlög eða að hafa smærri virkjanir, en fleiri. En úr því væri ekki hægt að skera, hvort heppilegra kynni að reynast, fyrr en einhver rannsókn lægi fyrir, sem hægt væri að fara eftir og byggja á. Form. mþm. sagði, að eftir þessari rannsókn væri beðið og ekki væri hægt að leggja neinar ákveðnar till. fram fyrir hv. Alþ. í málinu fyrr en að fenginni þessari rannsókn.

Undireins og hæstv. atvmrh. tók við starfi sínu, talaði ég við hann um þetta mál, og eftir að hann hafði athugað málið um stund, sagðist hann leggja kapp á, að rannsókn færi fram sem fyrst, og á næsta ári mundi hann láta fara fram rannsókn á virkjun Lagarfoss, sem mér var áhugamál mikið, að færi fram sem fyrst.

Þetta gátum við sagt hv. 6. landsk., ef hann hefði spurt okkur eitthvað um, hvernig mál þessi stæðu nú, en af einhverjum ástæðum hefur það farizt fyrir hjá þeim hv. þm. En venjan hefur verið sú, er um einhver stórmál hefur verið að ræða, að viðkomandi þm. hafa reynt að standa saman um málið og leitað samkomulags um, að svo mætti verða. Vera má, að hv. 6. landsk. vilji láta líta svo út með þessari aðferð sinni, að hann hafi meiri áhuga á þessu máli en aðrir þm., sem um það hafa fjallað. Hann sagði, að jafnvel þó að þáltill. yrði vísað frá, án þess að fást samþ., þá yrði hún þó að öllum líkindum til þess að vekja hv. þm. af svefni í þessu máli.

Till. í sambandi við rafmagnsmál Reyðarfjarðar sýnir bezt fram á, að rétt er að láta hana og aðrar slíkar till. bíða þangað til heildarrannsókn hefur farið fram, en þar með er ekki sagt, að málið eigi að fá að dragast á langinn, heldur ættu þessar till. að stuðla að því, að rannsókn færi fram fyrr en ella og sem allra fyrst.

Þetta er einnig sú skoðun, sem komið hefur fram hér á Alþ. undanfarið, að hraða beri rannsókn þessa máls sem mest. Í samræmi við þetta voru tvær þál. samþykktar, önnur um skipun mþn. til að gangast fyrir málinu og hin um að látin yrði fara fram rannsókn í málinu, og eru þær báðar þýðingarmiklar og þó fyrst og fremst sú fyrri, þar sem mþn. mun mjög fast fylgja því eftir, að rannsóknin fari fram sem fyrst.

Ég álít, að till. af þessu tagi sé rétt að vísa til n., og getur þá n., um leið og hún ræðir þessa þál., kynnt sér, hvað mþn. og hæstv. stj. hefur um málið að segja. Ætti þá n. að fá ákveðið úr því skorið, hvort nokkur þörf er á að samþykkja þessa till., þar sem þegar er ákveðið að láta rannsóknina í sambandi við Lagarfoss fara fram á komanda sumri. En ef svo skyldi reynast, að áætlanir stj. gengju að einhverju leyti í berhögg við það, sem Alþ. hefur ætlað sér að gera, þá mundi n. að sjálfsögðu upplýsa það, og mundi Alþ. þá gera það, sem það telur hagkvæmast og málinu til mests stuðnings.