03.12.1942
Sameinað þing: 5. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 309 í D-deild Alþingistíðinda. (4053)

10. mál, vatnsveita Víkurkaupatúns

Flm. (Gísli Sveinsson):

Þessi till., sem hér er flutt á þskj. 10, var og flutt á sumarþinginu. Hv. Alþ. vísaði þá málinu til fjvn., en sökum þess hversu þingið var stutt, var eigi hægt að afgreiða það þá, en n. lét það hins vegar í ljós, að hún mundi verða þessu máli hlynnt. Ég vil því leyfa mér að leggja til, að málinu verði enn á ný vísað til fjvn. og hún fái aftur tjáð sig þessu máli fylgjandi.

Hef ég átt tal við hæstv. ríkisstj. út af þessari þáltill. um þá undanþágu af aðflutningstollunum, sem þar um ræðir, og tjáði hún sig þessu máli hlynnta, en áleit þó réttara, að fjvn. fjallaði um þetta mál sem önnur slík mál, er hún hefur til meðferðar.

Ég þykist svo ekki þurfa fleiri orðum um þetta að fara enn á ný. Mér skilst, að hv. þm. séu þessu máli hlynntir, en þó er auðvitað ekki hægt að segja neitt um það með vissu fyrr en á reynir.

Legg ég að lokum til, að máli þessu verði vísað til fjvn. að þessari umr. lokinni.