03.12.1942
Sameinað þing: 5. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 310 í D-deild Alþingistíðinda. (4057)

14. mál, Laxárvirkjun og rafveita Akureyrar

Flm. (Sigurður E. Hlíðar):

Herra forseti. — Eins og sjá má á þskj. 18, er ég annar af tveim flm. þeirrar þáltill., sem er þess efnis, að farið er fram á heimild fyrir ríkisstj. til þess að ábyrgjast fyrir Akureyrarbæ lán til aukningar Laxárvirkjuninni og raforkuveitu Akureyrar.

Ábyrgðarheimild sú, sem hér er farið fram á, að veitt verði Akureyrarbæ, hefur tvisvar áður verið flutt á Alþ., á vetrarþ. og sumarþ. þessa árs. Aðeins hefur verið gerð sú breyt., að ábyrgðarupphæðin hefur verið hækkuð úr 2 millj. kr. í allt að 21/2 millj. kr.

Í bæði þessi skipti hefur málið dagað uppi, þrátt fyrir það, að þm. hafi sýnt því velvild og skilið nauðsyn þess, en mikið ofurkapp hefur verið í framgangi sumra mála, og hefur þetta mál á þskj. 18 orðið að líða nokkuð við það. En við svo búið má ekki lengur standa, þar sem nú er svo komið, að mál þetta þolir enga bið, þar sem svo er ástatt, að bjóða þarf út lán fyrir áramótin, og óska ég því eindregið eftir því, að hv. Alþ. vildi hraða málinu eins og því er frekast unnt.

Mér þykir rétt að fara nokkrum orðum um þáltill., eins og hún liggur hér fyrir, þar sem nokkrir þm. eru hér nýir, er ekki munu kunnugir þessu máli. En að öðru leyti vil ég vísa til fyrri grg. um fjárreiður rafveitunnar og virkjunarinnar.

Á árunum 1938 og '39 var Laxá virkjuð þannig, að hún gat framleitt 2400 hestöfl. En auk þess var séð fyrir því, að húsakostur og annar útbúnaður væri á þann veg, að hægt væri að bæta við annarri vélasamstæðu, ef á þyrfti að halda, sem gæti gefið allt að 400 hestöfl.

Þó að í upphafi hafi verið gert ráð fyrir því, að þessi eina vélasamstæða mundi nægja, þá hefur það þó komið á daginn, að hún er alls ekki nægileg, og að fyrirsjáanlegur skortur verður á rafmagni, ef ekkert verður aðhafzt í þessu máli.

Eins og nú hagar til, ganga vélarnar allan sólarhringinn fyrir fullu álagi, og þegar svo er komið, getur hver maður, sem eitthvað þekkir til þeirra hluta, séð, að það er ekki mikið öryggi í því að hafa aðeins eina vélasamstæðu, þar sem mjög er hætt við vélabilun, er svo mikið er lagt á þessa einu vélasamstæðu. Svo ber og að líta á það, að mjög erfitt er að fá varahluti til vélanna, en af stöðvun rafstöðvarinnar gæti leitt stórtjón og því meira sem stöðvunin yrði lengri.

Síðar hefur það komið í ljós, að byggðarlög hafa óskað eftir því að fá rafmagn úr þessari rafveitu, svo sem Húsavík, Svalbarðseyri, Grenjaðarstaðartorfan, og fleiri smærri byggðarlög óska eftir að komast í þetta rafmagnssamband.

Af þessum ástæðum hefur svo bæjarstjórn Akureyrar leitað tilboða um nýja vélasamstæðu í Ameríku með aðstoð ríkisstj.. og rafmagnseftirlits ríkisins, og rafmagnsstjóri ríkisins gekk að einu tilboði, sem kom, fyrir hönd bæjarstjórnar Akureyrar, er hann var á ferð í Ameríku á síðastl. vetri. Þá kostaði sú vélasamstæða hátt á aðra millj. kr., en sökum þess, að verðlag hefur hækkað nokkuð frá þeim tíma, þótti rétt að hækka ábyrgðarheimildina upp í 21/2 millj. kr., sem mun samsvara þeirri verðhækkun, er átt hefur sér stað.

Í grg. í vetur og sumar fylgdi reikningur um rekstrarafkomu rafveitunnar, er sýndi, að stöðin er svo vel rekin, að engin hætta fylgir því að veita þessa ábyrgðarheimild. Auk þess hækka rafmagnsgjöldin á Akureyri sem þessari umgetnu hækkun á ábyrgðarheimildinni nemur.

Allir hv. þm. hafa sjálfsagt heyrt um það útflutningsbann á rafmagnsvörum frá U.S.A., sem sett hefur verið á, og mætti því í fljótu bragði ætla, að það bann næði til þessarar vélasamstæðu, sem ég var að tala um. En svo er ekki, og í því sambandi hef ég átt til við rafmagnsstjóra ríkisins, og hefur hann tjáð mér, að engin hætta væri á ferðum með það, að þessi vélasamstæða fengist ekki innflutt, þegar þar að kæmi.

Ég vildi geta um þetta, svo að það þyrfti ekki að tefja málið, sem ég vona, að hv. þm. séu sannfærðir um, að þolir enga bið. Óska ég því eftir, að málinu verði hraðað sem mest vegna lánsútboðsins.

Legg ég svo til, að málinu verði vísað til fjvn. að lokinni umr.