03.12.1942
Sameinað þing: 5. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 311 í D-deild Alþingistíðinda. (4058)

14. mál, Laxárvirkjun og rafveita Akureyrar

Jörundur Brynjólfsson:

Það er ekki á neinn hátt til þess að tefja þetta nauðsynjamál rafveitu Akureyrar eða til þess að draga það á langinn, sem ég tek hér til máls, heldur geri ég það af því, að mér þykir rétt að koma með nokkrar aths. í sambandi við þáltill. þá, er hér liggur fyrir til umr.

Eins og hv. þm. muna, voru þessi mál, rafmagnsmálin, mikið rædd á sumarþ., og kom þá fram allmikill áhugi meðal þm. á því að koma rafmagninu út til sveitanna í landinu á sem hagkvæmastan og beztan hátt. Í þessu skyni var svo kosin n. til þess að rannsaka málin. N. hefur nú hafið starf sitt, en er að vísu skammt komin í því að rannsal:a þetta mál til fulls. Það er býsna þýðingarmikið, að ekki séu stigin nein víxlspor í þessum málum, er kynnu að torvelda þær leiðir, sem n. kynni að verða sammála um, að bæri að fara við framkvæmd þessara mála.

Komið hafa til greina tvær leiðir, er fara bæri í því að veita sveitunum rafmagn, sem í aðalatriðum eru þær að virkja stór en fá vatnsföll, er fær væru um að framleiða rafmagn til heilla sveita eða landshluta, með því að leggja rafleiðslur um svæðin og tengja aflstöðvarnar saman, eða þá að virkja minni en fleiri vatnsföll fyrir hin einstöku byggðarlög. Margt bendir til þess, að hin fyrri leið verði fyrir valinu, og er þá óhjákvæmilegt, að ríkið verði höfuðaðili að þeim framkvæmdum, er gerðar verða. Engum efa er það undirorpið, að Laxá norðan lands en Sogið sunnan lands yrðu heppilegustu stórfljótin til slíkrar virkjunar, en slíkt yrði ekki gert, nema ríkið yrði höfuðaðili í þeirri starfsemi. Austfirðir og Vestfirðir yrðu þá að vera sér um virkjun þeirra fljóta, er hagkvæmust eru á hvorum staðnum fyrir sig.

Nú er svo ástatt, eins og menn vita, að Akureyrarbær óskar eftir viðbót við það rafmagn, sem þar er nú hægt að fá, og hv. 1. flm. þáltill. upplýsti það, að fleiri byggðarlög hefðu óskað eftir rafmagni úr þessari sömu rafveitu Akureyrarkaupstaðar, og finnst mér það eigi vera nema eðlilegt. En ég veit ekki til. að ríkið hafi neinn íhlutunarrétt um framkvæmd eða rekstur Laxárvirkjunarinnar, og gegnir að því leyti nokkru öðru máli um Sogið, því að ríkið getur gerzt þar aðili hvenær sem er.

En ég vek máls á þessu fyrir þá sök, að ég tel rétt, að þingið geri sér grein fyrir, hvað er að gerast í þessum málum, og rasi ekki um ráð fram í framkvæmd málanna, því að eins og líklegt er, að stefnan verði í rafmagnsmálinu, þá verður að athuga. það. hvort ekki sé rétt, áður en lengra er haldið, að ríkið geti á sínum tíma gerzt aðili að þessari virkjun Laxár, þar sem líkindi mæla með því, að hún eigi eftir að verða til þess að framleiða rafmagn fyrir margar sveitir norðan lands.

Ég varpa þessu svona fram, þó að rannsókn sé enn skammt á veg komin. En þrátt fyrir það, að þessi varnagli verði sleginn, er ekkert á móti því að auka nú virkjunina eins og ætlazt er til með þáltill., og vænti ég því þess, að flm. taki þessari aths. vel. Ég vil og mega vænta þess, að hv. Alþ. sjái nauðsyn þessa máls, sem ég hef nú drepið á, og framkvæmdir í þessu efni verði þannig, að landið allt megi hafa sem mesta ánægju og hagnað af þeim, en ekki aðeins einstakt hérað. Framkvæmdir um raforkuaukningu eru bráðnauðsynlegar og það aðkallandi, að það getur ráðið miklu um það, hvort byggð helzt við viða úti um sveitir landsins, hvað mikið verður aðhafzt í þessu efni. Ég skal svo ekki fjölyrða frekar um þetta mál, en aðeins mælast til þess, að hv. Alþ. taki það til alvarlegrar athugunar.