16.12.1942
Sameinað þing: 9. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 315 í D-deild Alþingistíðinda. (4070)

28. mál, flutningastyrkur til hafnleysishéraða

Flm. (Sveinbjörn Högnason):

Herra forseti. — Ég hef tekið það að mér að flytja till. til þál. á þskj. 39 með hv. 1. þm. Rang.

Við fluttum þessa till. einnig á sumarþinginu, og var henni þá vísað til fjvn., en hún kom ekki þaðan aftur á því þingi, eins og fleiri mál, er n. hafði til meðferðar, og má sjálfsagt þar um kenna að nokkru, hversu það þing stóð stutt.

Ég sé ekki ástæðu til að vera að hafa mörg orð um þáltill. í þetta sinn og get vísað til þess, er ég sagði, þegar þessi till. fyrst var borin fram. En ég vil aðeins taka það fram, að það er sízt minni þörf á, að þetta mál komist í framkvæmd nú en þegar það var flutt á sumarþinginu, heldur má segja, að þörfin sé mun meiri nú en þá og fari vaxandi, eftir því sem á líður og dýrtíðin og erfiðleikarnir við landflutningana fara vaxandi. Ef við aðeins gefum gaum að því, hve mikið ríkið styrkir alla flutninga á sjó með ströndum fram, bæði beint og óbeint, til flestra héraða landsins og athugum hins vegar, hversu það er gífurlegur útgjaldaliður fyrir bændur, er búa í hafnleysishéruðum, að flytja þungavöru sína um langan veg, þá hlýtur hver maður að sjá, að slíkt ástand er gersamlega óviðunandi. Ég skal nefna eitt dæmi, er sýnir, hversu þessi flutningur þungavöru er geysidýr. hað kostar nú 300 kr. að flytja 1 tonn 200 km.

Það er ekki hægt að una við það að vita slíka flutninga óstyrkta af hinu opinbera, er það árlega ver miklu fé til flóabáta, strandferða, hafnarmannvirkja o.fl.

Í till. eru fyrirmæli um, að sett skuli reglugerð um úthlutun þessa flutningastyrks og að kaupfélög og verzlanir á viðkomandi stað hafi það með höndum. Ég hygg, að allir séu sammála um, að þessir aðilar hafi bezta hæfni og aðstöðu til þess að leysa þetta verk af hendi.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum, en vil leggja til, að till. verði vísað til síðari umr. og fjvn.