08.01.1943
Sameinað þing: 14. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 315 í D-deild Alþingistíðinda. (4078)

53. mál, brúargerð á Hvítá hjá Iðu

Flm. (Eiríkur Einarsson):

Það er engin nýlunda, að fluttar séu á Alþingi till. bæði um, að ný brúarstæði séu tekin upp í brúalög og enn fremur, að framkvæmdir séu hafnar um þegar ákveðnar brúargerðir. En um slíkt finnst mér því aðeins ástæða til að flytja sérstaka till., að sérstök atvik liggi fyrir um, að nauðsyn beri til að flýta þeim aðgerðum, sem um er að ræða.

Ég álít um þessa till. mína, að ráðast svo fljótt sem kostur er á í brúargerð á Hvítá í Árnessýslu hjá Iðu, að þar sé þannig ástatt, að fyllsta ástæða sé til að ýta undir, eflir því sem verða má, að þessi brú verði gerð.

Höfuðástæðan til þess, að réttlátt er að lita þannig á málið, er sú, að eins og kunnugt er, þá klýfur Hvítá meginhérað Árnessýslu, og er þar á löngu svæði ekki um aðrar brýr að ræða á sama fljóti en Ölfusárbrúna hjá Selfossi, og það er öllum kunnugt og vitanlegt, að hún kemur ekki til greina fyrir héraðsbúa í byggðum uppsveitanna. Hins vegar stendur svo á, að héraðslæknirinn þar í ofanverðu héraðinu er búsettur í Laugarási á vestri bakka Hvítár, örskammt frá fyrirhuguðu brúarstæði hjá Iðu. Samgöngur hans til ferðalaga um héraðið eru sæmilega góðar að vestanverðu, þeim megin við Hvítá, sem hann á heima, en um austurhluta héraðsins, Hreppa og Skeið, er öðru máli að gegna. Þessar þrjár sveitir, sem þarna er um að ræða, þar sem eru á annað hundrað heimili, eru þannig hindraðar frá að njóta þeirra hlunninda við sókn héraðslæknis að geta notað bílaakstur um þessar sveitir, þó að bílvegir séu þarna talsvert miklir. Eigi héraðslæknirinn að komast á bíl í þessar sveitir, þegar mikið liggur við, verður hann að fara þvert vestur yfir héraðið, vestur yfir Brúará hjá Spóastöðum, austur yfir Ölfusárbrú, upp allan Flóa og Skeið. Þetta er óraleið og því sjaldan notuð, heldur neyðast menn til þess að flytja lækninn á ferju yfir Hvítá og flytja hann síðan á hestum þangað, sem veikindin hafa borið að höndum, eða þá gangandi, ef ófærð er, eða a.m.k. á einhvern annan hátt en á bílum. Þetta þarf engrar skýringar við, þegar maður tekur með í reikninginn, að þessar sveitir eru viðlendar og fjölmennar og mikið á annað hundrað heimili, sem verða að nota þennan héraðslækni. Sá, sem nú er þarna, sem er ágætlega metinn læknir, býr samt sem áður við mikinn heilsubrest og á ákaflega örðugt um ferðalög nema í bílum, svo að hvaða afleiðingar þetta getur haft, að þessi stöpull sé á leiðinni, vona ég, að óþarft sé fyrir mig að lýsa fyrir hv. þingheimi.

Það hafa verið bornar fram till. um hinar og þessar brúargerðir, sem eiga meiri og minni rétt á sér, en ég er sannfærður um það, að hér stendur svo á, að þessi brúargerð er á alveg sérstakan hátt aðkallandi, bæði að vísu til að tengja þessa stóru landshluta saman á eðlilegan hátt til samgangna með þeim miklu viðskiptum, sem eiga sér þar stað, en það, sem gerir hana á alveg sérstakan hátt aðkallandi, er það, sem ég áðan ræddi um, sem sé þörf læknishéraðsins. Þjóðvegurinn, sem liggur frá Spóastöðum, er í framkvæmd og nærri því kominn að brúarstæðinu, og á síðustu fjárlögum mun nokkurt fé hafa verið veitt til að halda þar áfram með auknum hraða. En menn sjá það skjótlega, að sú samgöngubót, sem þarna er mergurinn málsins, er brúin hjá Iðu, að hún geti komizt í framkvæmd. Ég geri það því vísvitandi að ganga fram hjá, á hvern hátt þetta yrði eða á hvaða tíma það yrði gert nema bara svo fljótt sem nokkur leið er, því að þær hömlur, sem kunna að vera á að fá efnivið til brúargerðar, eru okkur huldar, hvað lengi þær verða fyrir hendi. Maður lifir þar í voninni, að þær verði sem skemmst, og á þeirri von er till. byggð. Og ef þingið fæst til að samþykkja hana, sem ég vona og vænti að verði, þá er hún bending um, að þetta verði gert og þarna verði brugðizt við þeirri nauðsyn, sem ég hef lýst með þessum orðum.

Að svo mæltu sé ég ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þessa till. mína. Frá sjónarmiði allra mælir hún með sér sjálf. Ég tel eðlilegt eða hef ekkert við það að athuga, þar sem um hana eru ákveðnar tvær umr., að henni verði vísað til n., sem ég læt laust og bundið, hvort gert verður nú eða ekki, en ég treysti hins vegar, ef svo verður, þá hraði n. að láta álit sitt í ljós um það, og í trausti þess, að hún verði endanlega samþ. hér á Alþ., læt ég máli mínu lokið.