10.02.1943
Efri deild: 53. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 170 í B-deild Alþingistíðinda. (411)

132. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis 1943

Guðmundur Í. Guðmundsson:

Herra forseti. Það hefur tekið nokkru lengri tíma að afgreiða þetta mál en æskilegt hefði verið, og kemur það til af því, að viss atriði í sambandi við frv. töfðu fyrir n.

Samkv. l. er ekki hægt að flytja samkomudag Alþ., en þau mæla svo fyrir, að það komi saman eigi síðar en 15. febrúar. Verður því að ljúka því aukaþ., sem nú situr, fyrir þann tíma. Ef lögin standa óbreytt, verður að slíta því eigi síðar en næst komandi laugardag, til þess að ríkisstj. vinnist tími til þess að leggja mál þau, er þ. hefur afgreitt, fyrir ríkisstjóra til samþykktar.

Ef þ. yrði slitið um helgina, mundu mál þau, sem tekin hafa verið fyrir, falla niður. Í grg. frv. er tekið fram, að það séu óheppileg vinnubrögð að ónýta að nokkru leyti verk Alþ. og jafnframt bent á, að mikil vandhæfni væri fyrir ríkisstj. að leggja fram fjárlagafrv.

Í tilefni af þessu hefur stj. lagt til að fresta setningu reglulegs Alþ. til 1. okt. og þetta sitji áfram.

Mér virðist óviðkunnanlegt, að aukaþ. haldi áfram langt fram á árið 1943 og óheppilegt að dragast með mál frá 1942 langt fram á þetta ár. Frá því sjónarmiði er heppilegast að ljúka aukaþ. sem fyrst. Ég get ekki fallizt á, að mál það, sem Alþ. hefur haft til meðferðar þurfi að falla niður, þótt því verði slitið. Alltaf fellur niður meira og minna af málum eftir ástæðum. Mér finnst ekki standa svo sérstaklega á nú, að brýna nauðsyn beri til þess og ætti að mega ráða bót á því á annan hátt. Ef vilji væri til staðar hjá flokkunum, gætu þeir greitt fyrir í þessu efni og yrði þá um að ræða frjálst samkomulag þeirra. Alþfl. er fyrir sitt leyti fús til slíks samkomulags. Hins vegar er ekki því að neita, að nokkrir erfiðleikar eru á því að tryggja, að það samkomulag yrði haldið til fulls.

Þá er hitt atriðið, sem ríkisstj. setti fram, en það var á þá leið, að ekki væri unnt að leggja fjárl. fyrir reglulegt Alþ., sem kæmi saman 15. febrúar. Því er ekki að neita, að erfiðleikar eru á því að leggja fram frv., sem væri þannig gert, að fullkomlega væri gengið frá öllum atriðum, en það gæti gefið hugmynd um, hvers vænta mætti.

Mér finnst hægt að leggja fram fjárlfrv. í svipaðri mynd og nú. Mundi verða liðið langt fram á árið, þegar hægt væri að ganga frá því til fullnustu. Eðlilegast væri, að um einhverja frestun væri að ræða.

Ríkisstj. hefur lagt til, að Alþ. yrði frestað til 1. okt. Vil ég í því sambandi benda á það, að ríkisstj. er mynduð á óvenjulegan hátt. Þingflokkarnir reyndu að koma sér saman um myndun ríkisstj., en tókst það ekki. Þessi stj. er skipuð af ríkisstjóra, og hafa þingflokkarnir tekið á móti henni þannig, að þeir hafa hvorki sýnt henni vantraust eða traust, heldur bíða þeir til þess að sjá, hvað hún ætlast fyrir í þeim málum, sem fyrir liggja. En ríkisstj. hefur ekki lagt fram till. sínar í þeim málum, sem fyrir liggja. Mér finnst þetta óheppilegt h já hæstv. ríkisstj. Ég tel, að beri að flýta þessu þ. eins og frekast er unnt og slíta því ekki fyrr en búið er að afgreiða þau mál, sem fyrir liggja. Þá væri Alþ. búið að fá nokkra yfirsýn yfir það, hvað hæstv. ríkisstj. hygðist fyrir og þingflokkarnir gætu tekið afstöðu til hennar.

Ég hef því ákveðið að leggja fram skrifl. brtt. við frv., svo hljóðandi:

Reglulegt Alþ. ársins 1943 skal koma saman eigi síðar en 4 dögum eftir að aukaþinginu, er hófst í nóv. 1942, hefur verið slitið.

Vænti ég þess, að hv. þm. og ríkisstj. geti fallizt á þessa till. mína, og vil ég með leyfi hæstv. forseta leggja till. fram.