10.02.1943
Efri deild: 53. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 173 í B-deild Alþingistíðinda. (418)

132. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis 1943

Gísli Jónsson:

Ég hef lýst afstöðu minni til þessa máls við 1. umr. þess, en tel ástæðu til að taka fram ýmis atriði, sem siðar hafa fram komið. Hæstv. fjmrh. Sagði í dag, að hin stóru mál, sem ríkisstj. ætli að flytja, hafi enn ekki verið lögð fram, vegna þess að eigi sé útséð um, hvort Alþ. verði frestað. En þó sagði hæstv. rh., að þessi mál væru um það bil tilbúin. — Mér kemur þetta kynlega fyrir sjónir, því af orðum hæstv. rh. mætti álykta, að þessi mál breyttust eitthvað eftir því, hvort Alþ. verði frestað eða ekki.

Hér hefur komið fram brtt. frá hv. 5. þm. Reykv. um að fresta Alþ. til 15. marz. Mér virtist það ekki nóg frestun til þess að ræða þessi stóru mál frá ríkisstj. — Mér finnst eðlilegast, að Alþ. verði slitið 14. marz og reglulegt Alþ. komi saman þann 15. Á því þingi skuli síðan upptekin þessi mjög mikilsverðu má l. því að ég hygg, að það sé ósk bæði þ. og þjóðar, og ekki sízt hæstv. ríkisstj., að þessum málum sé komið í rétt horf hið fyrsta. Það er mjög mikilvægt atriði að taka föstum tökum á þessum málum, og því tel ég ekki nógan tíma að ljúka þeim af fyrir 15. marz, eða til þess tíma, sem farið er fram á í brtt. hv. 5. þm. Reykv.

Mér skildist á orðum hv. þm. Str., að hann mundi samþ. brtt. hv. 9. landsk., ef þetta frv. yrði samþ., eða, ef útlit yrði til þess, enda þótt hann vildi, að reglulegt Alþ. kæmi saman 15. febrúar. Ég vil aðeins benda þeim hv. þm. sem vilja, að Alþ. komi saman 15. febrúar, á það, ef þessi brtt. verður borin upp fyrst, og hún samþ., þá er girt fyrir það, að Alþ. komi saman á venjulegum tíma.

Hins vegar finnst mér eitt athugavert við þessa brtt., sem sé það, að eigi skuli ákveðinn viss dagur, heldur að Alþ. skuli frestað, þar til fjórum dögum eftir að þessu þ. er slitið. — Ég vil beina því til hv. flm. brtt., hvort eigi muni heppilegra að ákveða vissan dag í þessu sambandi. Ég tel ekki einskisvert að halda við formið, og af rökum, sem ég hef greint bæði nú og við 1. umr., þá mun ég enn greiða atkv. gegn þessu frv.