07.12.1942
Neðri deild: 10. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 330 í D-deild Alþingistíðinda. (4184)

24. mál, dýpkunarskip ríkisins

Flm. (Gísli Guðmundsson):

Ég vil þakka hv. þm. Hafnf. fyrir góðar undirtektir undir þetta mál, og þeirra vænti ég reyndar af honum. Ég hygg, að sú ræða, sem hann flutti hér áðan, bregði ljósi yfir það, hvernig ástatt er hjá okkur Íslendingum, að því er við kemur möguleikum til að framkvæma hafnarmannvirki. Hann sagði eitthvað á þá leið,. að hafnargerðirnar yrði nú að framkvæma svo að segja með berum höndunum, áhaldalítið eða með áhöldum, sem tíðkazt höfðu til þeirra hluta á öldinni, sem leið, og það væri átakanlegt að sjá, þegar annarra þjóða menn væru að vinna sams konar verk og hefðu allt önnur og stórvirkari tæki. Þetta er áreiðanlega mál, sem full þörf er á fyrir okkur Íslendinga að athuga. Mun það tæplega geta gengið lengur, að hafnarframkvæmdir hér á landi séu unnar með svo úreltum tækjum. Og ég hygg, að það séu ekki aðeins hafnargerðirnar, sem unnar eru hér á landi á þennan hátt; ég hygg, að svipað megi segja um vegagerðina og e.t.v. fleira, að vinnuaðferðir séu nokkuð á eftir tímanum. Á næstu árum þarf að stefna að því að fá fullkomnari áhöld til þessara verklegu framkvæmda, svo að vinnubrögð við þær geti orðið meira við nútímahæfi en nú er.

Hv. þm. Hafnf. upplýsti, að nokkur rannsókn hefði farið fram fyrir 12 árum á því, hvers konar dýpkunarskip mundi bezt henta hér og hvað slíkt skip mundi kosta. Mér var ekki kunnugt um, að slík athugun hefði farið fram, en það er gott, að hún liggur fyrir. Hins vegar þykir mér ekki ólíklegt, að eitthvað hafi síðan gerzt til breytinga á þessum áhöldum, þannig að ekki sé að öllu leyti eins ástatt í þessum efnum eins og þá var. En till. okkar hv. þm. V.-Húnv. fjallar um að athuga, hvers konar tæki séu hentugust í þessum efnum nú og þá hvað þau kosta, og um leið, hvernig ríkið skuli eignast þessi áhöld, hvort fé til þess yrði lagt fram á skömmum tíma eða löngum; það er mál, sem þarf að athuga, og þá fyrst og fremst, hvort ætla skuli eitthvert fé í þessu skyni í næstu fjárl., eins og hv. þm. Hafnf. drap á.