26.03.1943
Neðri deild: 84. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 333 í D-deild Alþingistíðinda. (4189)

165. mál, menntaskóli að Laugarvatni

Áki Jakobsson:

Herra forseti. — Út af fyrir sig get ég verið því samþykkur, að það séu athugaðir þeir hlutir, sem í þessari þáltill. er farið fram á athugun á, að koma upp menntaskóla á Laugarvatni. En ég get samt ekki látið hjá tíða út af því, sem komið hefur fram í grg. og í ræðu flm., að segja nokkur orð. Ég er á þeirri skoðun, að öll rök, sem flm. telur fyrir þessu máli, séu að því leyti í lausu lofti, að það muni alls ekki vinnast svo mikið við að koma upp skóla þarna sem flm. telur. Hann taldi, að erfitt væri að fá embættismenn til að gegna embættum uppi um sveitir, lækna og aðra embættismenn. Ég er sannfærður um, að þó að þessi skóli sé stofnaður, verða þeir örðugleikar fyrir hendi engu að síður. Þegar menn eru búnir að kosta upp á 12 ára nám og svo kannske 3–5 ára nám í sérgreinum erlendis, þá er eðlilegt, að þeim þyki hart að taka embætti í sveitahéruðum, kannske upp á lífstíð, þar sem þeir hafa hvorki spítala né möguleika til að nota sérþekkingu sína og vegna þessarar aðstöðu ekki möguleika til þess að komast að því marki, sem þeir telja sig geta komizt að. Og það er sama, hvort þessir menn eru ætlaðir úr sveitum eða kaupstöðum, þeim þykir í báðum tilfellum jafnhart að gengið, með þessu móti. Og þetta verður ekki bætt, nema með því að leita samkomulags um það, að þessir menn taki að sér þessi störf um nokkurn tíma, hver fyrir sig, á þeim stöðum, sem minnst eru eftirsóttir eða verst gengur að fá menn til. Þó að slíkir embættismenn hafi stundað menntaskólanám sitt í sveit en ekki kaupstað, verður viðhorf þeirra að þessu leyti hið sama. Þetta er eitt af vandamálum dreifbýlisins, sem verður ekki leyst til hlítar, meðan það er með sama móti og nú. Það verður ekki leyst til fulls, fyrr en hægt verður að færa byggðina saman í hverfi eða þorp, — þá fyrst verður stigið skrefið til fulls til lausnar á þessu.

Annars benti hv. flm. á, að kaupstaðabúar hefðu sína menntaskóla og þess vegna væri sanngjarnt, að sveitirnar hefðu sína menntaskóla líka. Ég er á sama máli að því leyti, að það ætti ekki að gera sveitamönnum erfitt fyrir um að sækja menntaskóla. Mér er ekki kunnugt um, hvort færri stunda nám í menntaskólum þessa lands hlutfallslega úr sveitum heldur en kaupstöðum. En ef það er svo, þá er það óeðlilegt. En ég held, að ekki fáist bætt úr því heldur með því að koma upp menntaskóla á Laugarvatni. Dreifbýlið er teygt um allt landið. Ef heimavistarskóli er í sveit, sem menn sækja hvaðanæva af landinu, þá er spursmál, hvort heimavistin verður ódýrari á Laugarvatni heldur en í Rvík og á Akureyri fyrir menn utan af landi. Þetta er náttúrlega reikningsdæmi, sem vert er að athuga. Ef heimavistin reynist ódýrari fyrir þá á Laugarvatni, þá er hægt að leysa þetta mál á þann hátt, að ríkið leggi fram ákveðinn styrk til þess, að heimavist hér í Rvík þurfi ekki að vera dýrari fyrir menntaskólanemendur utan af landi heldur en heimavist á Laugarvatni. Ég held, að það hafi áreiðanlega verið veittir styrkir til hluta, sem vafasamara gagn hafi verið að fyrir þjóðina heldur en mundi verða af styrkjum til manna utan af landi til þess að sækja nám í menntaskóla á Akureyri og í Rvík. Það yrði ekki stór upphæð, sem í þessa styrki færi.

Nú vil ég ekki segja, að það sé algerlega rangt að hafa menntaskóla í sveit. Það getur verið að mörgu leyti hollt og það jafnvel, að unglingar úr kaupstöðum væru þar í heimavistarskólum, en það væri óeðlilegt að skipta þannig og segja: Þessi skóli er fyrir bændabörn og hinn fyrir kaupstaðabörn. Það væri vitanlega alveg skakkt. En það gæti vel komið til mála, að rétt væri að koma upp menntaskóla utan við þessa tvo kaupstaði, þar sem þeir eru nú, sem allir hefðu aðgang að.

Frá háttv. flm. þessarar þáltill. kom fram till. á fyrsta þinginu á árinu 1942 um það að flytja Menntaskólann í Reykjavík í Skálholt. Þessi tillaga um að flytja menntaskólann í Skálholt mætti mjög mikilli andspyrnu og það af mjög eðlilegum ástæðum. Það er mjög óeðlilegt að flyt ja slíkan skóla úr borg, þar sem búa 40 þúsund manns, sem sagt rúmlega 1/3 af þjóðinni, upp í sveit og gera þar með þessum 1/3 hluta þjóðarinnar ókleift að stunda þann skóla á þann hátt, að nemendur sæki skólann heiman að frá sér. Það er reynsla fyrir því, að það er ódýrara að láta börn ganga í skóla heiman að frá sér heldur en öðru vísi. Þess vegna eigum við að hafa skólana þar, sem mestur fjöldi manna er saman kominn í einum hnapp.

Ég er ekki að mæla með því, að sveitabörn séu sett skör lægra en kaupstaðabörn um aðstöðu til þess að geta stundað nám, heldur á að styrkja þau fjárhagslega til þess að þau geti fengið sömu aðstöðu. En það er ekkert unnið við það fyrir sveitafólkið að flytja skóla burt úr kaupstöðum, vegna þess að sveitafólkið græðir ekkert á því. Því að það eru ekki nema örfáir, sem með því móti gætu látið börnin sækja skólana heiman að frá sér.

Ég álít annað mál, sem flm. kom ekki inn á, eitthvert stærsta vandamálið í sambandi við þessa skóla, sem ekki eigi að ganga fram hjá, þegar ákveðið er, hve margir menntaskólarnir skuli vera og hvar. Og það er, hvort við höfum nóg af nægilega vel menntuðum mönnum til þess að taka að sér störf við þessa skóla. Ef t.d. væri um lítinn menntaskóla að ræða, þá væri hægt hér í Rvík að nota við hann góða kennslukrafta, sem jöfnum höndum væru starfandi við aðra skóla. En ef slíkur skóli væri í sveit, þarf kannske að binda kennara þar fyrir eina einustu námsgrein, og getur hann ekki unnið þar önnur störf. Þetta er sérstakur erfiðleiki við það að koma upp slíkum skóla í sveit. Það þarf ákveðinn nemendafjölda til þess að það nái nokkurri átt að binda stóran hóp af vel menntuðum kennurum yfir slíku skólahaldi. Þetta er miklu þýðingarmeira heldur en spursmálið um húsakynni, sem flm. var var að tala um. Á síðari árum hefur það gerzt, að við tvo menntaskóla hefur bætzt sá þriðji, þar sem Verzlunarskólinn hefur fengið réttindi til þess að útskrifa stúdenta. Hann hefur þá góðu aðstöðu að vera í Rvík og getur því notað ýmsa sérfræðilega kennslukrafta, sem eru ekki eingöngu uppteknir við þann skóla, heldur aðrar menntastofnanir og önnur störf. Það er enginn ávinningur að hrófla upp mörgum lélegum skólum. Við þurfum að hafa frekar fáa skóla. Þau fjárhagslegu vandkvæði, sem eru á því fyrir sveitafólk að sækja slíka skóla, þarf að athuga gaumgæfilega og hvort þau yrðu ekki miklu betur leyst með því að veita styrki úr ríkissjóði til þess að jafna aðstöðu fólks utan af landi til að stunda hér nám. Slíkt er ákaflega erfitt nú, heimavistin er lítil og mötuneyti ekki til, að ég held. Nemendur þurfa að borga gífurlegan fæðiskostnað, og raunverulega getur enginn utan af landi staðið undir því nema efnað fólk. Að því leyti er þetta mál mjög aðkallandi og nauðsynlegt að rannsaka það og gera ráðstafanir til þess að bæta úr erfiðleikum fólks utan af landi við að senda börn sín í skóla.

Að lokum vil ég benda á nokkur atriði, sem eru nefnd sem rök fyrir þessari till., t.d. að Menntaskólinn í Rvík taki ekki inn nema 25 nemendur á ári. Þetta álít ég mjög varhugavert ákvæði. Það var sett í l. í stjórnartíð Jónasar Jónssonar. Ég var þá í menntaskólanum, og nemendur voru þessari ráðstöfun mjög andvígir ásamt almenningi í bænum. Og útkoman varð sú, að verkafólk í bænum hefur síðan ekki getað sent börn sín í skólann eins og annars. 25 efstu börnin eru örugg með skólasetu, og það verður þannig, að þau börn, sem bezta aðstöðu hafa til að fá undirbúningsmenntun, hafa beztu möguleikana til að komast inn, hin hafa minni möguleika. Ég áleit strax, þegar reglugerðin var sett af þáv. kennslumálaráðh., Jónasi Jónssyni, að þarna væri stigið skref í afturhaldsátt, þar sem fátækara fólki í bæjum væri torveldað að senda börn í menntaskóla. Og ég veit, að strax fyrstu árin eftir að ákvæði þetta gekk í gildi, kom greinlega í ljós, að börn frá verkamannaheimilum voru hlutfallslega færri en áður. Bæjarstjórn Rvíkur og ýmsir Reykvíkingar gengu strax í það að bæta nokkuð úr því misrétti, sem skapazt hafði með þessari rangsleitni þáv. dómsmrh., og stofnuðu þeir Gagnfræðaskóla Reykvíkinga. Og þau börn, sem voru fyrir neðan 25. barnið, höfðu aðstöðu til þess að fara þangað. Þannig hefur sá skóli gert mörgum börnum kleift að ganga menntabrautina, eins og þau óskuðu, enda þótt þau bæru ekki gæfu til að ná upp í menntaskólann. Ég vildi aðeins minna á þetta, að það var flokkur þessa hv. þm., sem kom þessu ákvæði inn.

Ég er þeirrar skoðunar, að það eigi að fella niður þetta ákvæði, að það eigi að sameina Gagnfræðaskóla Reykvíkinga og Menntaskólann í Reykjavík í einn skóla. Ég tel, að því stærri sem skólinn er, því meiri möguleikar séu með sömu fjárútlátum að afla nemendum sem beztra skilyrða til þess að hafa sem mest gagn af skólagöngu sinni.

Það hefur verið sagt, að heimavistin við Menntaskólann á Akureyri sé svo lítil, að hún takmarki aðgang að skólanum. Ég tel rétt, að ríkisstj. fái tilefni til þess frá Alþ. að athuga líka það mál í sambandi við þessa till. Ég tel rétt, að henni sé vísað til menntmn. og beini ég sérstaklega til hennar að athuga jafnframt þau atriði, sem ég drap á, það eru svo margir hlutir, sem snerta þetta mál, og margt, sem ber að athuga, að það er alls ekki eins einfalt og kemur fram í þáltill. Ég viðurkenni að sjálfsögðu fullkomlega, að réttmætt er að taka tillit til þeirra erfiðleika, sem eru á því fyrir fólkið í landinu að geta kostað börn sín til menntaskólanáms, og þjóðinni beri að bæta aðstöðu þessa fólks að þessu leyti.