29.03.1943
Neðri deild: 85. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 354 í D-deild Alþingistíðinda. (4198)

165. mál, menntaskóli að Laugarvatni

Flm. (Sveinbjörn Högnason):

Ég tel ekki ástæðu vera til þess að lengja meira umr., enda gefst vart orðið tilefni til þess, því að það er auðheyrt af þeim tveimur ræðum, er síðast voru haldnar, að þeir, sem mælt hafa á móti þáltill. á einn eða annan hátt, eru nú algerlega komnir í rökþrot. Þetta kom hvað ljósast fram í ræðu hv. þm. Siglf., sem talaði hér síðast. Hann var að bera mér það á brýn og öðrum þeim, sem þessu máli eru fylgjandi, að okkur væri það sérstakt keppikefli að útskrifa Framsfl. stúdenta og tilgangurinn með þessari þáltill. væri sá að reyna að koma því í kring. Hvar les hv. þm. Siglf. þetta út úr þáltill. eða grg. hennar eða þá út úr þeim umr., sem fram hafa farið um þetta mál? Ég hélt satt að segja, að maður, sem búinn er að ganga í gegnum menntaskóla og háskóla, mundi ekki leyfa sér að láta slík ummæli algerlega röklaus og tilhæfulaus frá sér fara. Ég verð að segja, að það þarf alveg sérstakt hugmyndaflug til þess að láta sér detta þetta í hug. Og að þessi hv. þm. skuli hafa svo takmarkalausa ósvífni til að láta þetta frá sér fara, það er mér með öllu óskiljanlegt. E r maðurinn með höfuðóra, eða er hann með hitasótt? — Þá getur líka verið, það er ekki alveg óhugsandi, að með þessu gálausa tali sínu sé hv. þm. að fletta dulunni af því, sem hann undirniðri viðurkennir með sjálfum sér, að eðlilegast sé, að fólkið í sveitinni fylgi stefnu Framsfl., og því hljóti að því að reka, ef menntaskóla sé komið upp fyrir sveitirnar sérstaklega, að margir stúdentar þar mundu fylgja Framsfl. að málum. Það sé því um að gera að rísa upp á afturfæturna og berjast gegn þessu með öllum ráðum. Hvað á nú að segja um þetta? Ef þetta skyldi nú vera orsökin að þessum dæmalausu ummælum hv. þm. Siglf., skín svo berlega hræsnin og yfirdrepskapur hans og flokksmanna hans þarna í gegn, þegar þeir tala um jafnrétti, að allir eigi að hafa sama rétt til og sömu aðstöðu til að lifa í þjóðfélaginu, að því verður ekki með orðum lýst.

Þá vildi hv. þm. Siglf. vera að neita því, sem ég skrifaði upp eftir honum hér á blað, að Framsfl. hefði beitt sér fyrir því að útiloka alþýðuna frá skólum landsins, og vildi hann heimfæra þetta upp á háskólanám, að Framsfl. hefði viljað stemma stigu fyrir æskuna að ganga þá menntabraut. Ég vil nú bera það undir hv. d., hvort ég fór ekki rétt með orð hv. þm. Siglf., en annað mál er það, að allir eiga leiðréttingu orða sinna, og er ég á engan hátt að meina hv. þm. það að leiðrétta orð sín. En við skulum þá athuga, hvort það fær staðizt, að Framsfl. hafi beitt sér fyrir því að útiloka nemendur frá háskólanámi. Hver var það, sem barðist fyrir því, að Gagnfræðaskólinn á Akureyri yrði gerður að menntaskóla? Var það ekki Framsfl., sem gegn mikilli andstöðu kom því í gegn, að sá skóli var gerður að menntaskóla, sem varð til þess að fjölga stúdentum um helming nú um allmörg ár? Þetta á eftir skoðun hv. þm. Siglf. að vera gert til þess að torvelda sóknina til háskólans! !

Af þessu má ráða, að hv. þm. Siglf. hefur að ófyrirsynju farið út á þá braut að mæla í öðru orðinu gegn þáltill. þessari, sem hann sjálfsagt sjálfur hefur nú tekið eftir, að honum er ekki stætt á. Er því ráðlegast fyrir þann hv. þm. að draga sig inn í sitt híði og verða sér ekki til frekara athlægis í þessu máli.

Þá vil ég með nokkrum orðum snúa mér að hv. 2. þm. Reykv. og því, sem hann mælti hér áðan. Hann var að tala um, að ekki væri nóg að tryggja jafnrétti þegnanna í landinu til þess að sækja skólana, heldur þyrfti einnig að tryggja, að nemendur yrðu ekki burtu reknir úr skóla eða að þeir á annan hátt liðu vegna stjórnmálaskoðana sinna, og hið sama yrði einnig að tryggja hvað kennurum við kæmi. Ég er hv. þm. alveg sammála í þessu, að tryggja þarf slíkt skoðanafrelsi í skólunum, ef það ekki er þegar fyrir hendi. En vitanlega verður í sambandi við þetta að gæta þess að fara ekki út í öfgar með slíkt frelsi. Ef slíkt skoðanafrelsi ætlar að fara að ganga yfir námið að gera það torveldara eða á annan hátt hindra venjulegt og heilbrigt skólahald einhvers skóla, þá verður auðvitað að taka í taumana. Það er nákvæmlega sama eins og gefur að skilja, hvaða skoðun eða stefna meðal nemenda verður þess valdandi að setja skólahald úr réttum skorðum. Það verður þar að ríkja jafnrétti eins og annars staðar. Annars skildist mér á hv. 2. þm. Reykv., að sósíalistar hefðu orðið eitthvað hart úti í þessu efni, en ég held hann sjái, ef hann athugar betur, að svo muni ekki vera, því að ég hygg, að hin sósíalistiska skoðun sé það útbreidd meðal nemenda og menntamanna, að ekki sé ástæða til að halda fram, að þeir hafi þurft í skóla að líða vegna sérskoðana sinna í pólitík. Það sýnir, eins og ég segi, bezt sá fjöldi sósíalista, sem nú nema í skólum landsins.

Það er ekki ákaflega vel þegið, að verið sé að starfa fyrir „erlent auðvald“ í ríkisskólunum rússnesku. Það má vera, að menn hafi sjálfir annarlegar skoðanir með sjálfum sér, en að reka truflandi starfsemi í skólum er ekki leyft í nokkru landi. En að hitt, hverjar skoðanir unglingar kunna að hafa á stjórnmálum í skólum hér á landi, hefur ekki haft nokkur áhrif á það, hvort þeir fá að dveljast í skólanum, enda munu þeir fjölmennir úr öllum flokkum á skólabekkjunum. Og þessi atriði, sem hér komu fram í dag, um þennan pólitíska áróður og tilgang bak við skólahugmyndina álít ég svo fjarri því, sem hér er rætt, að það er eins og það sé fundið upp til þess eins að halda uppi illindum og áróðri gegn því, að rannsókn fari fram um það, hvort hægt sé að auka við skólakostinn, sem alþýðan í sveitum landsins geti notið betur en með þeirri aðstöðu, sem er fyrir hendi. Mér er óskiljanlegt, að það þurfi nokkra nefnd til að athuga þessa möguleika. Ég sé ekki annað en að hver einasti þm., sem hefur þá skoðun, sem hv. 2. þm. Reykv. segist hafa, nefnilega að það eigi að auka menntunarmöguleikana svo sem unnt er, hljóti þá að taka fegins hendi þessu tækifæri. Og hér er um prýðilegan skólastað að ræða. Mér er alveg óskiljanlegt, hvernig menn sjá í sambandi við þessa skólahugmynd einhvern pólitískan draug, eins og hv. þm. Siglf., tóma framsóknarmenn o. þ. h. Og hjal hv. 2. þm. Reykv. um hugsanlegar pólitískar ofsóknir í sambandi við þetta er svo furðulegur hugarburður, að undarlegt er, að nokkur þm. skuli láta sér slíkt um munn fara í sambandi þið þetta mál.