29.03.1943
Neðri deild: 85. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 359 í D-deild Alþingistíðinda. (4201)

165. mál, menntaskóli að Laugarvatni

Þóroddur Guðmundsson:

Það gleður mig, að hv. þm. V.-Sk. virðist hafa séð að sér og treystir sér nú ekki til að svara neinu þeim þungu ásökunum á Framsfl., sem ég bar fram, um aðfarir hans í skólamálum og sérstaklega framsóknarforingjanna, sem mestu ráða við ýmsa skóla. Hann má bezt vita, hvað þetta er satt og að öllum mönnum hlýtur að blöskra, hvernig farið hefur verið að við þessa skóla. Og þegar á það er minnzt, finnst manni það beinlínis smánarblettur á þjóðinni, að slíkt hafi liðizt, Það gleður mig, að hann viðurkennir, hversu þetta er skammarlegt athæfi. Ég er viss um, að hann hefði mótmælt, ef hann hefði á nokkurn hátt treyst sér til þess. Hann tók skynsamlegasta kostinn, en það var þögnin.

Hv. þm. taldi það mína skoðun, að leyfilegt væri að svipta menn öllu frelsi og mannréttindum í Rússlandi, þó að menn gerðu miklar kröfur til slíkra hluta hér á landi. Ég vil benda á það strax, að það er skylt, að menn hafi leyfi til að hafa stjórnmálaflokka, prentfrelsi og ritfrelsi í hinum kapítalistisku löndum, þar sem barátta er háð og ein stétt kúgar aðra, — fjölmennar vinnandi stéttir eru kúgaðar af þeim, sem framleiðslutækin og peningastofnanirnar hafa. Því er ómögulegt að hugsa sér mannréttindi og frelsi á Íslandi, kapítalistisku landi, nema hafa leyfi til að hafa sín stéttarbaráttutæki til þess að herjast fyrir hagsmunum stéttanna, sem er svo mikið bil á milli, að óbrúandi er. Þegar þetta misrétti og óréttlæti er afnumið, þá hverfur nauðsynin fyrir þessi stéttarbaráttutæki hinna pólitísku flokka. Og þess vegna er hægt að tryggja mönnum skoðanafrelsi og full mannréttindi án þess, að þeir hafi leyfi til að hafa stjórnmálaáróður. Hér er svo ólíku til að dreifa, að alls ekki er hægt leggja að jöfnu. Þó að ég hafi ekki vænt mér mikils af þessum fyrrv. kommúnista, sem þóttist vera svo róttækur, þá hélt ég, að hann vissi svo lítið, að það er ofurlítið öðruvísi grundvöllur undir sósíalistisku þjóðfélagi en kapítalistísku. Annars sé ég ekki ástæðu til að láta hann hafa hér meiri lexíu að sinni, en er fús til þess síðar við tækifæri.