15.01.1943
Efri deild: 32. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 360 í D-deild Alþingistíðinda. (4207)

92. mál, framlög úr ríkissjóði í nokkrum löndum til skálda og listamanna

Kristinn Andrésson:

Herra forseti. — Mér líkar vel, að þessi till. til þál. skuli vera fram komin, því að það er gott að fá rannsókn á því, hve mikinn styrk aðrar þjóðir veita skáldum og listamönnum. Það, sem ég hef að athuga við till., er aðallega það, að mér virðist hún ekki ganga nógu langt, því að þótt safnað sé skýrslum um þetta atriði, þá er það aðeins brot af þeim upplýsingum, sem þarf að fá, til þess að hægt sé að bera saman ríkisstyrk erlendis og styrki þá, sem hér í okkar fámenna þjóðfélagi eru veittir skáldum og listamönnum. T.d. hafa rithöfundar hér á landi fámennan lesendahóp og fá minna fyrir bækur sínar en rithöfundar annarra og fjölmennari þjóða. Ég get nefnt dæmi. John Steinbeck, hinn frægi ameríski rithöfundur, fékk fyrir bók sína, „The Moon is down“, 1 millj. dollara, eða sem svarar 6 millj. og 500 þús. íslenzkra króna. Hemingway mun ekki hafa fengið minna fyrir seinustu bók sína „For whom the Bell tolls“. Á þessu sést, að hér er um ólíkan samanburð að ræða, og þyrfti að taka það til greina í þessari till. til þál. Enn fremur eru farnar aðrar leiðir erlendis, t.d. árið 1936. Þá setti Bandaríkjastjórn 5200 myndlistamenn á föst laun hjá ríkinu, en jafnframt voru þeim falin ýmis verkefni, svo sem að skreyta opinberar byggingar. Þar að auki hafa ýmis bæjarfélög erlendis lagt fram til lista, t.d. á eitt bæjarfélag í Danmörku, miklu fámennara en Rvík, listaverkasafn. Enn má nefna eitt, og það eru hinar ýmsu sjóðstofnanir erlendis, sem styrkja skáld og listamenn, og get ég í því sambandi nefnt Carlsbergsjóðinn í Danmörku. — Af öllu þessu, sem ég hef hér talið upp, og ýmsu ótöldu, þá finnst mér till. ekki ganga nógu langt og mun þess vegna bera fram skriflega brtt. við hana.

2. og 3. liður þessarar till. finnst mér óviðkunnanlegir, því að í þeim felst skætingur til skálda og listamanna, og sýnist mér það alveg óþarfi. Ég legg því til, að liðir þessir falli burtu og í stað þeirra komi 3 nýir liðir, svohljóðandi:

2. Hver eru framlög ríkisins og einstakra bæjarfélaga til ýmissa listgreina, svo sem hljómlistar og leiklistar, og liststofnana (listasafna, listaskóla, listaháskóla) ?

3. Hve miklar tekjur hafa rithöfundar og aðrir listamenn af verkum sínum (verð á listaverkum, ritlaun fyrir bækur o.s.frv.)?

4. Jafnframt séu fengnar upplýsingar um sjóðstofnanir, er veita fé til listamanna og listastarfsemi þessara ríkja.

Ef till. verður samþ. með þessum breyt., þá mun hún njóta stuðnings míns.

Ritlaun skálda fyrir stærri verk munu nú ekki fara fram úr 4 þús. kr., og er þetta samanburður, sem kemur sér ekki vel fyrir okkur, og er ekki óeðlilegt, að tekið sé tillit til þess, þegar úthlutað er styrkjum til rithöfunda hér. Ég vil líka benda á í þessu sambandi, að það er ekki ákaflega mikil fjárhæð, sem ríkið leggur til lista og bókmennta. Í fjárlfrv. er það ekki nema 150 þús. kr. Það er minna en lagt er t.d. til Skömmtunarskrifstofu ríkisins. Það er ekki nema 3 af þúsundi miðað við tekjuáætlun ríkisins.