15.01.1943
Efri deild: 32. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 361 í D-deild Alþingistíðinda. (4208)

92. mál, framlög úr ríkissjóði í nokkrum löndum til skálda og listamanna

Flm. (Jónas Jónsson):

Ég er nokkuð hissa á því, að síðasti ræðumaður skuli ekki vera ánægður með að fá þessa till., því að hún gengur í þá átt að rannsaka það mál, sem hann hefur vakið máls á með samanburði við önnur lönd. Hann bjóst við, að upp úr því mundi koma, að við gerðum óvanalega mikið til að styðja slíka menn eftir fjárhagsgetu okkar. Hjá okkur hefur það verið þannig, að fyrr á árum hefur ekki verið mikið um slík framlög, og mörg af okkar helztu skáldum hafa verið frístundakákarar, ef svo mætti að orði kveða, eftir því sem nú er talað um. Eitt okkar höfuðskáld, Matthías Jochumsson, var orðinn sextugur að aldri, þegar hann fékk skáldastyrk, Einar Benediktsson á sjötugsaldri, Stephan G. Stephansson fékk aldrei neitt. Ég veit ekki heldur, hvort skáldin hefðu orðið nokkuð betri, þó að þau hefðu fengið háa styrki. Mörg okkar dýrmætustu listaverk í bókmenntum hafa verið samin af mönnum, sem aldrei fengu skáldastyrk. Hallgrímur Pétursson orti Passíusálmana sér til hugarhægðar, en fékk ekki eyri fyrir.

Það, sem hér er um að ræða, er að fá upplýsingar um, hvað önnur lönd styrkja listamenn sína, og sést þá, hvernig við stöndum í þeim samanburði. Það er því eðlilegt, að upp hafi verið teknar slíkar umr., sem hann minntist á, og ég er því samþykkur að fá sem mestar upplýsingar af þessu tagi.