13.04.1943
Efri deild: 99. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 365 í D-deild Alþingistíðinda. (4233)

130. mál, eignarnámsheimild á jarðhitasvæði Hveragerðis í Ölfusi

Fyrirspyrjandi (Eiríkur Einarsson):

Herra forseti. — Ég get verið stuttorður, en vil þó, áður en ég bið hæstv. atvmrh. að svara fyrirspurn minni, gera nokkra grein fyrir, vegna hvers ég flyt þessa fyrirspurn.

Hveragerði er nú í miklum vexti, og fólkinu fjölgar þar jafnt og þétt. Ástæðan fyrir þessari fjölgun mun öllum kunn, en hún er af völdum hins mikla jarðhita, sem þar er, og þar eð allir þekkja kosti hans, mun óþarft að fjölyrða frekar um það atriði.

Íbúum Hveragerðis er mikið áhugamál að koma byggðinni þarna sem fastast horf, svo að framtíð þeirra verði tryggð sem bezt. En það er eitt, sem hamlar því, að slíkt geti orðið, og það er, að landið er í ýmissa manna eignarhaldi, og þegar við marga er að semja, þá er erfitt að koma þessu í það horf, sem íbúunum þykir æskilegast.

Þetta gildir ekki aðeins um lóðir, heldur einnig um fráræslu, hitaleiðslur og skipulag fastra bústaða og sumarbústaða.

Af þessum ástæðum flutti einn hv. þm. á síðasta vorþingi frv. til l. um eignarnámsheimild á nokkrum jörðum þarna á jarðhitasvæðinu. Frv. þetta varð að l. frá Alþ., og kom brátt í ljós, að land það, sem um ræðir, er að mestu í eign Kaupfélags Árnesinga, sem keypti það á uppboði, þegar Mjólkurbú Ölfusinga gafst upp. Þegar við umr. málsins á vorþinginu var því lýst yfir af flm. frv., að þessi eigandi væri fús til að semja um þetta. Einnig er um að ræða aðrar spildur, t.d. Vorsabæjarland o. fl.

Ég hef orðið þess var, síðan þessi lög voru staðfest, að íbúa Hveragerðis er farið. að lengja eftir, að l. verði framkvæmd. Ég skal geta þess, að á stjórnartíma fyrrv. ríkisstj. gerði þáv. atvmrh. byrjunarathuganir í þessa átt og sendi menn austur til þess að undirbúa framkvæmd laganna. Ekkert hefur verið birt opinberlega um árangur af þeim ráðstöfunum.

Ég tel ekkert því til fyrirstöðu, að nú verði reynt fyrir sér hjá hlutaðeigandi jarðeigendum um, hvort þeir vilja selja þessi lönd, svo að allir megi við una. Að vísu má gera ráð fyrir, að landeigendurnir fari fram á geipiverð, — en því ekki að reyna að komast að samkomulagi?

Árið 1936 var í fjárlögum veitt heimild til handa ríkisstj. til að kaupa Vorsabæ í Ölfusi. Þessi heimild var ekki notuð nema að nokkru leyti, því að aðeins mýrarengjar voru keyptar, svo að sú hagnýting náði skammt. Ég tel ekki ástæður fyrir ríkisstj. að bíða nú, heldur hefjast handa nú þegar.

Ég vil svo að lokum spyrja hæstv. atvmrh., hvað hann hyggist fyrir um framkvæmd l. þessara frá í fyrra, og vil mælast til, að hún verði ekki dregin á langinn.