29.01.1943
Sameinað þing: 17. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 184 í B-deild Alþingistíðinda. (463)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1943

Frsm. (Finnur Jónsson):

Um afgreiðslu fjvn. á fjárlagafrv. get ég að mestu leyti vísað til nál. Þó verður ekki komizt hjá að minnast nokkru nánar á, hvernig fjárlagafrv. var búið í hendur n. af hálfu ríkisstj.

Svo sem segir í nál., lágu engir launalistar fyrir frá ríkisstofnunum og skrifstofum, og gekk mjög erfiðlega að fá þá. Síðustu launalistarnir voru ekki komnir í hendur n., þegar hún kom saman 4. jan. að loknu jólafríinu. Ríkisreikningurinn fyrir árið 1941 var eigi tilbúinn, og fékk n. hann í pörtum í handriti eftir talsverða eftirgangsmuni. Einnig tók langan tíma að fá ýmsar aðrar upplýsingar, sem n. óskaði eftir og þurfti nauðsynlega að fá, og tafði þetta mjög fyrir starfi hennar.

Í fjárlfrv. eru verðlagsuppbót og aukauppætur færðar til útgjalda hjá ríkisstofnunum á 3. gr. og hjá Skipaútgerð ríkisins, en á flestum öðrum liðum frv. er hvorki verðlagsuppbót né aukauppbætur taldar með, heldur áætlaðar í tveim liðum á 19. gr., og er því eigi unnt af frv. sjálfu að sjá, hver sá raunverulegi kostnaður er við hverja skrifstofu eða embætti. Fjvn. telur rétt, að þetta verði lagfært framvegis og hefur óskað eftir því við ríkisstj., að í fjárlagafrv. fyrir 1944 verði verðlagsuppbótin færð á hvern lið fyrir sig, svo að unnt verði að sjá, hver sá raunverulegi kostnaður er við hverja stofnun. Er þess að vænta, að úr þessu veri bætt framvegis.

Að sjálfsögðu er erfitt að gera áætlanir á þessum tímum vegna hinna öru breyt., sem eru á öllu verðlagi. N. hefur athugað rekstraráætlanir hjá stofnunum og skrifstofum ríkisins og Ieiðrétt þær eftir föngum. Svo sem segir í nál., hefur n. gert athuganir um fjárframlög til verklegra framkvæmda, svo sem hafnargerða, brúargerða, vegagerða, opinberra bygginga o.fl. og gert drög að till. þar að lútandi, en leggur þær till. eigi fyrir Alþ. við þessa umr., vegna þess að eigi var að fullu lokið athugun á tekjuhlið frv. Varð um þetta nokkur ágreiningur í n. Vildu fjórir nm. (FJ, PZ, LJ, ÞG) gera fullnaðartillögur bæði um tekjuáætlunina og framlög til verklegra framkvæmda og því um líkt, en aðrir nm. voru því andvígir, og voru fyrir því færð fram þau rök, að ríkisstj. hefði enn eigi gert Alþ. grein fyrir, hverjar ráðstafanir hún hygðist að gera í dýrtíðarmálunum eða hver áhrif þær væntanlegu ráðstafanir kynnu að hafa á fjáröflun og fjárframlög, en hvort tveggja þetta gæti haft veruleg áhrif á afgreiðslu fjárlaganna. Aðeins tveir nm. skrifuðu undir nál. með fyrirvara út af þessum ágreiningi, þó að vitað væri, að tveir aðrir nm. væru því eigi heldur samþykkir.

Þó að þessi ágreiningur hafði orðið um aðferðina við afgreiðslu fjárlfrv. við þessa umr., skilar n. sameiginlegu áliti, og ég vil að gefnu tilefni taka það fram, að í n. hefur verið gott samstarf og að sá mismunur á skoðunum, sem þar hefur komið í ljós, hefur eingöngu verið um það. hvernig afgreiðslu skyldi hagað, en ekki um einstakar fjárveitingar til verlægra framkvæmda.

Tekjur ríkissjóðs af tollum og sköttum og stofnunum ríkisins eru í frv. áætlaðar samtals 47882000 kr., en urðu á árinu sem leið 80–85 millj. kr. Tollheimtumenn ríkisins hafa verið beðnir að gefa skýrslur um tekjur ársins, sem leið, og munu væntanlega liggja fyrir nánari upplýsingar um þær nú um næstu helgi, og er þá, að fengnum þeim upplýsingum auðveldara en nú að gera fullnaðaráætlun um tekjurnar.

Það kann að valda nokkrum ágreiningi, hvort rétt hafi verið að fresta því að gera tillögur um það, sem hér hefur verið drepið á, en ég hef ekki talið það neitt aðalatriði, hvort ákvarðanir yrðu teknar um það við þessa umr. eða ekki fyrr en við 3. umr., heldur tel ég hitt meira um vert að freista þess við síðari umr. að fá samkomulag um afgreiðslu fjárl., þannig að lagt yrði fé fram til verklegra framkvæmda og reynt að taka tillit til óska landsmanna í því efni, eftir því sem fært þætti.

Kem ég þá að einstökum brtt. nefndarinnar. Ríkisstj. hafði gert ráð fyrir því í fjárlfrv., að afnotagjald útvarpsins hækkaði um helming, eða upp í 60 kr., en nefndin taldi fyrir sitt leyti eigi ástæðu til að hækka afnotagjaldið svo mikið, og hefur því í brtt. sinni gert ráð fyrir, að afnotagjaldið verði miðað við 50 kr. fyrir hvern notanda, eða samtals 1050000 kr. Aðrar tekjur útvarpsins eru áætlaðar með hliðsjón af tekjum ársins 1942 og þó nokkru lægri, en útgjaldaáætluninni er breytt í samráði við útvarpsstjóra.

N. leggur til, að launum í stjórnarráðinu sé breytt í samræmi við launalista, sem lágu fyrir henni.

Í áætlun hagstofunnar var verðlagsuppbót og aukauppbót á laun innifalin í gjöldum stofnunarinnar, og leggur n. til, að þetta verði leiðrétt og fært til samræmis við aðra liði fjárl.

Sýslumönnum hefur verið greitt aukreitis 2 þús. kr. hverjum utan við launal. auk grunnlaunauppbótar. Sams konar aukalaun munu hafa verið greidd skrifstofustjórum stjórnarráðsins, lögmanni, prófessorum við háskólann o.fl., en þessar aukagreiðslur eru almennt ekki áætlaðar í frumvarpinu nema á Iaun sýslumanna. Leggur n. til, að þessu sé breytt þannig, að hin föstu laun sýslumanna séu áætluð samkv. launalögum, en uppbótin sérstaklega, ef Alþ. tekur þá ákvörðun að greiða hana.

Um 5.–9. brtt. má segja, að þær eru gerðar með hliðsjón af kostnaðinum eins og hann reyndist árin 1941 og 1942.

Kostnaður við landhelgisgæzlu reyndist á árinu 1941 813 þús. kr., en hefur á árinu 1942 orðið yfir eina millj. kr., og er það sízt of lágt áætlaður samkv. brtt. n. Talsverð brögð munu vera að því, að strandgæzluskipin séu notuð bæði til fólks- og vöruflutninga vegna hins óvenjulega ástands, og mætti því ef til vill nokkur hluti af þessum kostnaði eins teljast til strandferða eins og til landhelgisgæzlu.

Kostnaður við sjódóm, setu- og varadómara og sáttatilraunir í vinnudeilum er hækkaður meiri hliðsjón af útgjöldum ársins 1941.

N. leggur til, að kostnaður við fasteignamat verði hækkaður úr 20 þús. í 100 þús. samkv. till. formanns yfirfasteignamats ríkisins. Hefur hann upplýst n. um, að enn sé óprentað nokkuð mikið af fasteignamatinu og þau útgjöld komi á árið 1943, en prentunarkostnaður hefur hækkað mjög, svo sem kunnugt er.

Liðurinn „Eyðublöð, bókband og auglýsingar“ er hækkaður með hliðsjón af því, hve kostnaður við þetta hefur aukizt.

Lagt er til, að teknir séu upp í 12. gr. tveir nýir liðir: „Til vinnuskólans á Kleppjárnsreykjum og til athugunarstöðvar barnaverndarnefndar, samtals 104 þús. kr.“ Er þetta rekstrarkostnaður við þessar tvær stofnanir, sem teljast óhjákvæmilegar vegna núverandi ástands.

Þá hefur n. lagt til, að styrkir til læknisbústaða og sjúkraskýla verði hækkaðir úr 80 þús. kr. upp í 160 þús. kr. með tilliti til, að honum verði skipt þannig:

Til

Akraness

kr.

50000.00

Keflavíkur

50000.00

Rangárhéraðs

16040.00

Breiðumýrar

17000.00

Þórshafnar

5000.00

Egilsstaða

17000.00

Hornafjarðar

5000.00

Kr.

160000.00

Er þó gert ráð fyrir, að þeirri venju verði haldið, að ríkissjóður greiði 1/3 kostnaðar, og skiptist greiðslan á 3 ár.

N. hefur lagt til, að tekinn verði upp nýr liður, rekstrarstyrkur til sjúkrahúsa, samtals 42900 kr. Hefur n. gert þessar till. í samráði við landlækni með tilliti til þess, að ýmis sveitarfélög verða fyrir halla vegna rekstrar sjúkrahúsa, sem sótt eru að meiri hluta af utanhéraðssjúklingum, —en eigi telst réttmætt, að þau héruð, sem ráðizt hafa í sjúkrahúsbyggingar með ærnum kostnaði, þurfi auk þess að taka á sig árlegan halla vegna utanhéraðssjúklinga —, og enn fremur í því skyni að hlynna sérstaklega að einum spítala í hverjum landsfjórðungi, sem þá verði útbúnir með það fyrir augum að verða reknir sem fjórðungsspítalar. Um Seyðisfjarðarspítalann skal það sérstaklega tekið fram, að lagt er til, að hann verði styrktur sem fjórðungsspítali, meðan eigi er reist annað vandaðra sjúkrahús á Austfjörðum.

Þá koma nokkrir liðir, sem eru aðeins lagfæringar og leiðréttingar vegna dýrtíðarinnar.

N. Leggur til, að styrkur til heilsuverndarstöðva í kaupstöðum sé hækkaður úr 50 þús. í 80 þús. kr. Landlæknir og aðrir, sem til þekkja, telja þessa starfsemi mjög nauðsynlega til þess að fyrirbyggja sjúkdóma og að hún muni spara landsmönnum og hinu opinbera stór fé. Því meiri og fullkomnari sem hún verður, því meiri líkur séu til að hún varni sjúkdómum og vandræðum og kostnaði vegna þeirra.

Flateyingar eiga mjög erfiða aðstöðu um læknisvitjanir, og leggur n. til, að tekinn verði upp nýr liður, 1000 kr., til að hafa lærða hjúkrunarkonu í Flatey á Skjálfanda.

Hluti ríkissjóðs af launum ljósmæðra er í frv. of hátt reiknaður um 50 þús. kr., og er lagt til, að það verði leiðrétt.

Vegna siglingaörðugleika og tafa þeirra, sem milliferðaskipin verða fyrir, hefur kostnaður vegna strandferða farið ört vaxandi. Telur n., að framlag til þeirra sé of lágt áætlað, og leggur til, að það verði hækkað um 600 þús. kr. Er sú hækkun gerð með hliðsjón af kostnaðinum síðasta ár, og mun þó varla vera hægt að gera ráð fyrir, að strandferðir geti orðið fullnægjandi, eins og skipakosti okkar er nú varið.

Till. frá samvn. samgöngumála um flóabátastyrk eru enn eigi komnar, en liggja væntanlega fyrir við 3. umr.

Byggingarstyrkur til Djúpbátsins mun hafa verið greiddur af tekjum ársins 1942, og leggur n. því til að hann verði felldur niður.

N. leggur til, að fjárveitingin til áhaldakaupa verði hækkuð um 100 þús. kr. eftir till. vitamálastjóra, er telur þessa hækkun nauðsynlega til þess að geta séð vitunum fyrir ýmsum nýtízku áhöldum til verkaflýtis og vinnuparnaðar.

Við 14. gr. hefur n. borið fram margar brtt. Hefur hún fengið launalista frá ríkisféhirði og borið hann saman við frv. Komu þá í ljós skekkjur á ýmsum launaliðum, sem n. leggur til, að séu lagfærðar. Þá hefur n. talið nauðsynlegt að hækka ýmsa útgjaldaliði á áætlunum skólanna, ljós, hita o.fl., sem augljóslega voru of lágt áætlaðir í frv. Dæmi voru þess, að útgjaldaliðir voru áætlaðir hinir sömu og í fjárl. fyrir árið 1941, og mun það m.a. stafa af því, að for stöðumenn ýmissa stofnana höfðu gefizt upp við að gera áætlanir um útgjöld fyrir þetta ár. T.d. hafði einn embættismaður úti á landi svarað beiðni stjórnarráðsins um áætlun með símskeyti, sem hljóðaði svo: „Kann eigi semja fjárveitingatillögur á þessari brjáluðu tíð. Legg til fjárveitingar séu óbreyttar.“ Hafði stjórnarráðið tekið þessa ráðleggingu bókstaflega og látið áætlunina standa óbreytta eins og hún var í fjárl. 1941, en við þetta taldi n. ekki unandi og hefur gert á þessu leiðréttingar.

Ýmsar umsóknir höfðu borizt frá fólki, sem ætlar að stunda nám erlendis, sem heyrir ekki undir það venjulega háskólanám, svo sem framhaldsnám í búfjárrækt, nám í verksmiðjufræði, flugnám, nám í hljómfræði, málaralist o.s.frv. Taldi n. eigi æskilegt að taka styrki þessa upp á fjárl. á nöfn, en vildi hins vegar veita umsækjendum nokkra úrlausn og leggur því til, að námsstyrkur samkv. ákvörðun menntamálaráðs verði hækkaður úr 12500 í kr. 100000 kr. í þessu skyni. Hér er eingöngu um að ræða námsstyrki í Bretlandi og Ameríku, og er námskostnaður þar meiri en á Norðurlöndum, og mun því sízt veita af þeirri upphæð, sem n. leggur til.

Þá leggur n. til, að veittar séu á þessu ári 20 þús. kr. til gróðurhússbygginga við garðyrkjuskólann á Reykjum, en efni til þeirra bygginga var keypt á síðasta ári. Telur skólastjórinn, að tekjur skólans muni aukast að mun, ef þessari byggingu verður komið upp, og er óhagsýni að geyma byggingarefnið ónotað, því að nógur markaður er fyrir þær afurðir, sem skólinn hefur til að selja.

N. leggur til, að tekinn sé upp styrkur til iðnðarmannafélaganna í Neskaupstað og á Patreksfirði til iðnkennslu, en um iðnfræðsluna er það að segja, að hún mun vera allfjarri því að uppfylla þær kröfur, sem nauðsynlegt er og lög gera ráð fyrir. Telur n. rétt, að iðnfræðslan verði framvegis látin heyra undir fræðslumálastjóra. til þess að unnt sé að koma henni í það horf, sem æskilegt er.

Um nauðsyn sundkennslu tel ég eigi þörf að fjölyrða, en sundkennslan, sem lögleidd hefur verið í barnaskólum, hefur óhjákvæmilega nokkur útgjöld í för með sér, og leggur n. til, að tekin sé upp 25 þús. kr. fjárveiting í þessu skyni eftir till. íþróttafulltrúa og enn fremur 6 þús. kr. til ferðakennslu í íþróttum.

Till. n. um að hækka styrk til byggingar barnaskóla utan kaupstaða úr 100 þús. í 190 þús. miðar að því að bæta úr þeirri bráðu þörf, sem er á því að lagfæra húsnæði barnaskólanna. Mörg sveitarfélög, sem búa við algerlega óviðunandi húsnæði fyrir skóla sína, hafa nú meira fé til umráða en áður, og þó að till. n. verði samþ., verður hvorki hægt að umbæta húsnæði skólanna svo sem vera þyrfti né heldur að verða við öllum þeim beiðnum um fjárframlög, sem fram hafa komið til þessara hluta. Fræðslumálastjórnin gerir tillögur um, að fé þessu verði varið til þeirra, sem verst eru settir.

Nokkrir barnakennarar, sem stundað hafa kennslu, sumir svo að áratugum skiptir, hafa undanfarið fengið lítils háttar styrk úr ríkissjóði eftir till. fræðslumálastjóra. Kennarar þessir njóta einskis úr lífeyrissjóði barnakennara, og leggur n. til, að sú upphæð, sem er ætluð í þessu skyni, verði hækkuð úr 4600 kr. upp í 10 þús. kr. Á síðasta ári var tekið lán út á væntanlegan ríkisstyrk til að fullgera leikfimihús og sundlaug við alþýðuskólann á Eiðum, og telur n. óhjákvæmilegt að endurgreiða það á þessu ári og leggur til, að tekin verði upp 50 þús. kr. fjárveiting í þessu skyni.

Skagfirðingar eru nú búnir að byggja sundlaug við væntanlegan héraðsskála sinn í Varmahlíð og hafa reist þar hús, sem ætlazt er til, að nægi til þess, að skólinn geti byrjað að starfa þar að einhverju leyti. Talsverðar umbætur eru fyrirhugaðar á hinu merka skólasetri að Núpi í Dýrafirði, og enn fremur er verið að reisa fimleikahús og nauðsynlega búningsklefa við héraðsskólann á Reykjanesi, og leggur n. því til, að styrkur til byggingar héraðsskóla verði hækkaður úr 20 þús. í 140 þús. kr. Er þessi fjárveiting að vísu eigi nægileg, en ætlazt er til, að kostnaðinum megi skipta á tvö ár að einhverju leyti.

Byrjað er að byggja gagnfræðaskóla á Akureyri. Undanfarið ár hefur verið mjög mikil aðsókn að skólanum, en hann hefur átt við þröngan húsakost að búa, og leggur n. til, að tekin verði upp nýr liður til byggingar gagnfræðaskóla samkv. 1. kr. 70 þús.

N. hefur lagt til, að fjárveiting til íþróttasjóðs hækki úr 125 þús. kr. í 300 þús. kr. Er þessi hækkun miðuð við, að greitt verði framlag til byggingar sundlauga á Akureyri, Hafnarfirði, Ísafirði; Neskaupstað og víðar úti um landið eftir till. íþróttafulltrúa og íþróttanefndar ríkisins. Er mjög mikill áhugi fyrir því að efla sundíþróttina, og telur n. rétt að verða við óskum manna í þessu efni, einkum þar sem hér er bæði um að ræða almenna heilsuvernd og varnir gegn slysum.

N. leggur til eftir till. íþróttafulltrúa, að laun Ólafs Pálssonar verði ákveðin 2250 kr. vegna eftirlits með sundkennslu og prófdómarastarfa, en Jón Pálsson er nú á launum hjá Reykjavíkurbæ, og leggur n. því til, að breytingar séu gerðar samkv. því.

Mikill áhugi er fyrir því að varðveita forn bæjarhús, sem enn eru uppistandandi á nokkrum stöðum á landinu. Leggur n. til, að tekin verði upp á fjárl. fjárveiting til verndunar slíkra húsa á Keldum, Glaumbæ og Grenjaðarstað, þar sem álit manna er, að þar sé um merkilegar sögulegar fornminjar að ræða, sem þurfi að varðveita frá að fúna niður. N. leggur til, að styrkur til nokkra bókasafna sé hækkaður til samræmis við aðra styrki, en hins vegar telur n. á skorta, að skýrslur liggi fyrir um starf bókasafnanna, og réttara væri, að einhver sérstök stofnun hefði eftirlit með starfsemi þeirra, t.d. fræðslumálaskrifstofan, og skýrslur um þau væru sendar til hennar.

Um styrk til skálda, rithöfunda, vísindamanna og listamanna hefur n. ekki tekið afstöðu.

Till. n. um hækkun á styrk til Bókmenntafélagsins, Sögufélagsins, Þjóðvinafélagsins og félags íslenzkra stúdenta í Kaupmannahöfn til útgáfu tímarits eru fram komnar vegna aukins útgáfukostnaðar, en hins vegar var sameiginlegt álit n., að nauðsyn bæri til að halda þessum bókaútgáfum í sama horfi og verið hefur.

Jón Norðfjörð á Akureyri hefur um nokkur ár stundað kennslu í leiklist, og telur n. rétt, að hann fái sams konar styrk og þau Lárus Pálsson og Soffía Guðlaugsdóttir hafa undanfarin ár fengið í fjárl.

Leikfélag Sauðárkróks hefur nú starfað nærri því 60 ár, og leggur n. því til, að upp verði tekinn nokkur styrkur til þess svo sem til annarra leikfélaga.

Mikill áhugi er nú á því víða um land að gefa út héraðssagnarit. N. vill sýna þessari viðleitni til þess að bjarga ýmsum þjóðlegum fróðleik frá glötun nokkra viðurkenningu og leggur til, að tekin verði upp 5 þús. kr. fjárveiting í þessu skyni.

Alþýðusamband Íslands, sem er einhver fjölmennasti félagsskapur landsins, hefur í hyggju að koma upp alþýðufræðslu um ýmis mál, sem almenning varðar, og leggur n. til, að tekið verði upp nokkurt fjárframlag í þessu skyni.

Listasafn Einars Jónssonar er eitt af því fáa, sem setur svip sinn á bæinn, þegar erlenda eða innlenda gesti ber hér að garði. N, telur eigi vansalaust, að þetta safn, sein er eign ríkisins, fari í vanhirðu sökum skorts á fjárframlagi frá ríkinu, og leggur til, að tekin verði upp fjárveiting til nauðsynlegra aðgerða á húsinu og til upphitunar á því.

Prófessorarnir, Stefán Einarsson og Richard Beck, eru að semja íslenzka bókmenntasögu á ensku, og leggur n. til, að veittar verði 5 þús. kr. til hvors þeirra til útgáfunnar.

Fjárframlag til nýbýla og samvinnubyggða hefur til þessa nær eingöngu gengið til stofnunar nýbýla. Nú hafa verið samin sérstök lög um landnám ríkisins, og er tilætlunin, að samvinnubyggðir rísi upp í sambandi við þá löggjöf. Leggur n. því til, að 4. liður 16. gr. verði orðaður eins og segir í brtt.

Búnaðarmálastjóri hefur tjáð n., að hann teldi, að jarðabótastyrkurinn sé of lágt áætlaður eftir þeim upplýsingum, Sem hann hafði um framkvæmdir á árinu 1942, og leggur n. til, að hann verði hækkaður um kr. 200 þús. Er hér um að ræða áætlunarupphæð á lögbundnu framlagi. Sama máli gegnir um búfjárræktina.

Tilraunastarfsemi í þágu landbúnaðarins er að vísu á byrjunarstigi, en þó mun hafa verið greitt til hennar á síðasta ári 40 þús. kr., og leggur n. til, að nýr liður verði tekinn upp í fjárl., kr. 60 þús., til þessara framkvæmda.

Brtt. n. um hækkun á framlagi til byggingarsjóðs kaupstaða og kauptúna er miðuð við lögboðið framlag samkv. breyt. á l. um byggingarsjóði frá 1941.

Brtt. um laun til skógræktarinnar er gerð samkv. launalista.

Skógræktinni hefur miðað mjög hægt áfram, vegna þess hve litið fé hefur verið veitt til þeirra framkvæmda undanfarin ár. Miklar skógarleifar eru enn ógirtar og í eigu einstakra manna og liggja undir skemmdum, og telur n. eigi fært að áætla framlag til skógræktarinnar minna en gert er með brtt. hennar. Skógræktarfélögin hafa viða unnið að verndun skógarleifa og vakið lofsverðan áhuga hjá meðlimum sínum fyrir því að rækta tré bæði í sérstökum reitum og við heimahús, og vill n., að starf þeirra fái nokkra viðurkenningu, og leggur því til að hækka framlagið til þeirra úr 15 þús. kr. í 34 þús. kr.

Mikill áhugi er fyrir að vinna að áveitum og landþurrkun með hinum nýju skurðgröfum, sem farið er að flytja til landsins, og leggur n. til, að tekin sé upp fjárveiting í þessu skyni eftir till. búnaðarmálastjóra, samtals 122800 kr., allt að 1/3 kostnaðar. Er það álit manna, að starf þetta muni mjög flýta fyrir ræktun landsins á þeim stöðum, þar sem möguleikar eru fyrir hendi til þess að vinna að henni í stærri stíl en áður.

Í till. um fyrirhleðslu á vatnasvæði Þverár og Markarfljóts er farið eftir till. vegamálastjóra. Nokkrar smærri fjárveitingar eru teknar upp til annarra fyrirhleðslna gegn á kostnaðar annars staðar frá. Er það gert eftir upplýsingum og athugunum frá Búnaðarfélagi Íslands.

Ætlazt er til, að keyptar verði þrjár skurðgröfur og dráttarvél í sambandi við þær. Mun vera búið að panta þessar vélar, en fjárveitingu vantar til þeirra, og þar sem hér er um mikilsvert nauðsynjamál að ræða vegna jarðræktarinnar, og þá einkum með það fyrir augum, að ræktunin verði framkvæmd á stórum samfelldum svæðum, vill n. mjög eindregið mæla með þessari fjárveitingu.

Brtt. við tekjur og gjöld Rafmagnseftirlits ríkisins eru leiðréttingar samkv. síðustu upplýsingum, en hafa eigi áhrif á heildarútkomuna.

N. hefur lagt til, að framlag vegna laga um lax- og silungsveiði og til klaksjóðs sé hækkað nokkuð, en jafnframt falli niður sérstök fjárveiting til fiskiræktar (sjá 68. lið í 16. gr.). Styrkur til Landssambands iðnaðarmanna er að mestu leyti launagreiðslur, og telur n. því ekki ósanngjarnt að hækka hann svo sem hún leggur til.

Um áætlunarliði frumvarpsins um kostnað við dómnefnd í verðlagsmálum og skömmtunarskrifstofu ríkisins hefur n. þótt rétt að fresta að gera till., þar til fyrir lægi áættun um kostnað við viðskiptaráð, sem á að taka við störfum beggja þessara nefnda.

Styrkur til berklasjúklinga reyndist á árinu 1941 nærri ein millj. kr., en vegna þeirrar hækkunar, sem orðið hefur á dýrtíðinni, hefur n. talið rétt að taka upp áætlun þess ráðuneytis, sem sér um þessi mál, og hækka liðinn úr 1300 þús. í 1750 þús. kr. Sama máli er að gegna um styrk til sjúklinga samkv. lögum nr. 78 frá 1936. Hann virðist eftir áætlun sama ráðuneytis of lágt áætlaður í fjárlagafrumvarpinu um 450 þús. kr., og leggur n. til, að þessu sé breytt. Annar kostnaður (17. gr. 1. c) leggur n. til, að hækki úr 15 þús. kr. í 30 þús. með hliðsjón af reynslu ársins 1941.

Gjöld samkv. lögum um afstöðu foreldra til óskilgetinna barna og gjöld samkv. 19. og 21. gr. framfærslulaga telur n. óhjákvæmilegt að hækka af sömu ástæðum.

Kostnaður vegna slysavarna hefur óhjákvæmilega hækkað vegna dýrtíðarinnar. N. telur, að á engan hátt megi draga úr starfsemi Slysavarnarfélagsins, og leggur því til þá hækkun, sem farið er fram á í till.

Þá leggur n. til, að framlag til Stórstúkunnar verði hækkað úr 30 þús. kr. í 40 þús. og af þeirri upphæð renni 5 þús. kr. til bindindisfélaga í skólum landsins.

Felldir eru niður tveir liðir, til sjúkrasamlaga á Sauðárkróki og Stokkseyri, því að nú eru þar sjúkrasamlög, sem koma undir hin almennu lög um sjúkrasamlög.

Hælið á Sólheimum hefur við mikla örðugleika að stríða sökum dýrtíðar og vandræða með fólkshald, og leggur nefndin til, að styrkur til hælisins sé hækkaður nokkuð.

Þá vill n. sýna starfsemi gamalmennahæla nokkra viðurkenningu og leggur til, að styrkir til þeirra séu hækkaðir í 2 þús. kr. til hvers hælis og tekin upp fjárveiting til gamalmennahælis í Neskaupstað og Skjaldarvík við Eyjafjörð.

Um tillögur n. viðvíkjandi 18. gr. er eigi ástæða til að fjölyrða. Þær eru um að færa ýmislegt til samræmis og lagfæringar og eru yfirleitt ekki frábrugðnar að neinu leyti þeim reglum, sem áður hafa gilt um þá, er á þessari gr. hafa staðið. Ég tel þó ástæðu til að gefa skýringar um stærstu upphæðirnar.

Guðrún Jónsdóttir, ekkja séra Sigurðar G. Gíslasonar, er fórst með voveiflegum hætti á nýársdag s.l. við embættisverk, á mörg börn í ómegð, og hefur n. fylgt þeirri reglu, er áður hefur verið upp tekin, þegar svipað hefur staðið á.

Björn Einarsson var óvenjulega hraustur maður á bezta aldri, en varð fyrir slysi, er hann var að vinna við skurðgröfu í Ölfusi, og má síðan heita örkumla maður. Bætur hefur hann þó eigi fengið, svo að neinu nemi. Var hann í þjónustu ríkisins, er slysið vildi til, og útbúnaður á vélinni eigi talinn hafa verið svo sem skyldi. Leggur n. því til, að hann fái lífeyri, svo sem segir í tillögunni.

Björn Eymundsson er rúmlega sjötugur að aldri og hefur stundað hafnsögumannsstarf um 40 ára skeið í Hornafirði við hin erfiðustu skilyrði og oft lent í hrakningum, sem í minnum hafa verið hafðir. Einar Straumfjörð hefur verið í fjölda mörg ár í þjónustu vitanna. Báðir þessir menn hafa sýnt einstakan dugnað í hinu langa starfi sínu, og leggur n. því til, að þeir fái þá viðurkenningu í vertíðarlokin, sem í till. segir.

Jón Sverrisson, yfirfiskimatsmaður, hefur verið yfirfiskimatsmaður í Vestmannaeyjum, og leggur n. til, að hann fái eftirlaun til samræmis við aðra yfirfiskimatsmenn.

Þegar fjvn. loks barst sundurliðuð áætlun frá ríkisstj. um verðlagsuppbótina, — en það var ekki fyrr en 5. jan., — kom í ljós, að verðlagsuppbótin hafði verið í frumvarpi ríkisstj. vanreiknuð um 1294421 kr., og leggur n. til, að þetta verði leiðrétt. Þá kom einnig í ljós, að aukauppbótin, jafnvel þó að hún væri eigi áætluð lengur en til 1. júlí, var sömuleiðis vanreiknuð um 550 þús. kr., og telur n. óhjákvæmilegt að leiðrétta það. Samtals verða þá leiðréttingar á 19. gr., á lögboðnu framlagi 1844421 kr., og er þá eigi áætluð aukauppbót og verðlagsuppbót á hana nema til 1. júlí. Verður þessi áætlun enn að hækka um 1750 þús. kr., miðað við vísitölu 250, ef Alþ. samþykkir framlengingu heimildarinnar þar til í árslok, eins og ríkisstj. hefur lýst yfir við fjvn., að hún óskaði eftir.

Um brtt. þær, sem n. leggur til við 22. gr., get ég vísað til nál.

Ég tel, að eigi geti verið ágreiningur um að láta Íþróttasambandi Íslands í té lóð undir íþróttaheimili í Rvík til leigulausra afnota. Í.S.Í. ætlar að reisa þetta heimili og væntanlega að hefjast handa nú strax í vor, og er sannarlega ánægjulegt til þess að vita, ef þetta kemst í framkvæmd og Alþ. getur látið sinn skerf til þess á þann hátt, sem stungið er upp á í till. nefndarinnar.

Um heimildina til að kaupa refabúið á Hvanneyri voru nm. eigi á eitt sáttir, en þó varð úr, að meiri hluti n. mælti með þessum kaupum fyrir mjög eindregin tilmæli loðdýraræktarráðunautar. Mun þegar búið að ganga frá kaupum á búi þessu og því eigi aftur snúið með það, enda er hér eigi um stórt fjárhagsatriði að ræða, en loðdýraræktarráðunautur taldi, að þetta væri til öryggis þess að varðveita merkilegan kynbótastofn. Á það skilyrði, að seljendurnir gætu fengið að kaupa jafnmarga refi fyrir sama verð og þeir nú selja þá, vildi n. eigi fallast, og hefur væntanlega í samningum um kaupin eigi verið gengið að því.

Í sambandi við afgreiðslu fjárl. telur n. að lokum ástæðu til að vekja athygli á því, að greidd hefur verið uppbót á laun embættismanna úr ríkissjóði án heimildar frá Alþ., svo sem sýslumönnum, bæjarfógetum, prófessorum, læknum og prestum. Stærsta upphæðin, sem greidd hefur verið á þennan hátt, til lækna og presta, er áætluð af fjmrn., miðað við vísitöluna 250, að muni nema á þessu ári 738 þús. kr. upphæð þessi mun hafa verið greidd með tilliti til þess, að taxtar fyrir aukaverk yrðu eigi hækkaðir. N. hefur eigi talið ástæðu til að taka þessa upphæð með í fjárlfrv., þar sem ríkisstj. hefur eigi heldur gert það og engin heimild er til þessarar greiðslu frá Alþ., en hin nýja ríkisstj. hefur eigi heldur ákveðið, hvort hún ætlar að leita hennar eða ekki. Margir nm. munu vera þeirrar skoðunar, að slíkar greiðslur án allra heimilda séu vægast sagt mjög óviðkunnanlegar og eigi tvímælalaust að falla niður. Hins vegar mundi þá í staðinn koma heimild handa læknum og prestum til að hækka taxta fyrir aukaverk sín, enda virðist eigi ástæða til að láta ríkissjóð greiða dýrtíðaruppbót á þessi verk, eins og nú er háttað. En í sambandi við þessar greiðslur er full ástæða til að benda á hina knýjandi nauðsyn, sem er á því, að launal. verði sem fyrst endurskoðuð.

Tillögur þær, er n. leggur fyrir, hafa þau áhrif á niðurstöðutölur fjárl. með tilvísun til grg., að hækkanir umfram lækkanir nema 6714325,19 kr. Lækkun á tekjum útvarpsins er 120 þús. kr. og eignabreytingar í 20. gr. 50 þús. kr. Útgjöld ríkisins samkv. till. n., sem fyrir liggja, verða þá, talin í heilum þúsundum, kr. 48126 þús. kr., en tekjur 48138 þús. kr. að óbreyttri tekjuáætluninni að útvarpinu undanteknu. Verður þá halli á rekstraryfirliti 588000 kr., en greiðsluhalli á sjóðsyfirliti 4016000 kr., en á þessu hvoru tveggja hljóta að verða miklar breytingar við 3. umr., þar sem, eins og öllum er kunnugt, enn er eftir að athuga til fullnustu um tekjuhlið fjárl. og enn fremur eftir að áætla ýmis útgjöld, sem ríkissjóður eigi mun komast hjá að greiða og enn fremur eftir að áætla hækkun á framlagi til verklegra framkvæmda, en eigi afgreiðsla fjárl. að fara þannig, að tekið sé tillit til þeirra óska, er fram hafa komið um verklegar framkvæmdir, bæði frá hv. þm. og ýmsum opinberum stofnunum, sveitar- og bæjarfélögum, hljóta útgjöldin að hækka verulega við 3. umr., jafnvel þótt eigi sé gert ráð fyrir neinum sérstökum útgjöldum vegna dýrtíðarinnar. Kemur þá til álita, hverja endurskoðun sé unnt að framkvæma á tekjuáætlun fjárl., eða hverja nýja tekjustofna sé unnt að finna, því að ég geri ekki ráð fyrir, að nokkur maður óski eftir því að afgreiða fjárlög með tekjuhalla á þessum tímum. Ég geng út frá því alveg sem vísu, úr því að þessi háttur var hafður á um afgreiðslu fjárlfrv. frá fjvn., þá verði við 3. umr. gefið út framhaldsnál. og þm. gefinn nægur tími til athugunar viðvíkjandi brtt.

Ég læt svo lokið máli mínu, en mun að sjálfsögðu gefa frekari skýringar á einstökum atriðum, ef óskað er.