29.01.1943
Sameinað þing: 17. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 194 í B-deild Alþingistíðinda. (464)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1943

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. — Við erum nú komnir að þeim l. hér, sem eru veigamest og þýðingarmest efni Alþ. að vinna að, en það eru fjárl. Og við höfum nú yfir meiru fé að ráða en Alþ. Íslendinga nokkurn tíma hefur haft. Það mætti búast við, að við mundum vanda okkur eins og frekast er hægt við það að taka ákvarðanir um, hvernig þessum fjármunum er varið. Ár eftir ár hefur fólkið beðið um að fá hin og þessi framlög til ýmissa nauðsynlegra framkvæmda. Ár eftir ár hefur því verið svarað, að þetta væri ekki hægt, vegna þess að ekki væru peningar til. Nú höfum við í fyrsta skipti um fjárl. að fjalla, sem veita Alþ. umráð yfir miklu meira fé til hagsbóta fyrir fólkið í landinu heldur en nokkurn óraði fyrir áður. Og það er því alveg tvímælalaust einhver helzti prófsteinn á Alþ., hvernig því tekst að afgreiða þessi fjárl., hvernig því tekst að fullnægja þeim kröfum, sem til þess eru gerðar af þjóðinni, og hve vel það vandar til þess að vera sem réttlátast og vitrast í úthlutun þessa fjár. Ég býst þess vegna við, að allir þeir alþm., sem virkilega vilja leggja sig fram til að vinna þetta verk sem allra bezt, muni sammála um, að það þurfi vel að vanda til ákvarðana og gagnhugsa þær og hafa tækifæri til að íhuga þær oftar en einu sinni. Ég get ekki trúað öðru en hver einasti alþm. vilji vera viss um það, þegar hann ákveður eitthvað í fjárl., að til þess sé vandað eins og frekast er unnt. Í þingsköpum okkar er gert ráð fyrir því, að alveg sérstaklega sé vandað til fjárl. Fjölmennasta n. þingsins starfar að þeim og skal skila áliti við 2. umr. Þá á að fara fram umr. og atkvgr. um öll fjárl. og allar brtt. Ég býst við, að þeir menn, sem settu þessi ákvæði í þingsköp í upphafi, hafi gert ráð fyrir, að mönnum skeiki og alþm. séu ekki óskeikulir, svo að ekki væri nema rétt að gefa þeim tækifæri til að athuga gang sinn og leiðrétta það við 3. umr., sem þeir kunna o ð hafa gert skakkt. Þess vegna var gengið út frá, að 2. umr. fjárl. tæki til allra brtt. um allar greiðslur fjárl. Og það hefur almennt verið gengið út frá, að fjvn. skili þannig till., að hægt sé að greiða atkv. um hverja einustu gr. fjárl. Alveg sérstaklega er þetta nauðsynlegt, þegar um annað eins fjármagn er að ræða og nú. Þegar tekjur síðasta árs hafa farið upp í 86 millj. kr., þá er eðlilegt, að fram komi kröfur um að bæta úr áralöngum skorti á hinum og þessum sviðum, bæði atvinnumálum og öðrum. Ég álít þess vegna, að til afgreiðslu fjárl. þurfi að vanda og hún sé prófsteinn á þingið.

Ég vil vekja eftirtekt þm. á því, hvernig gengið er frá tekjuhlið fjárl. við þessa 2. umr. Á fjárlagafrv. eru tekjur ríkissjóðs áætlaðar 48 millj. kr. Hins vegar er það staðreynd um tekjur síðasta árs, að þær voru 86 millj. kr. Það er þarna um 40 millj. kr. munur á því, sem nú er áætlað, og því, sem tekjur síðasta árs voru. Nú vil ég spyrja: Hvar á milli ætti áætlunin að liggja í þeim fjárl., sem við nú ætlum að fara að ganga frí? Í framsöguræðu formanns fjvn. heyrði ég ekki minnzt á, að fjvn. eða meiri hl. hennar væri búinn að koma sér niður á, hvað hún ætlaði að leggja til, að tekjur þessa árs verði áætlaðar, hvort það væru 48, 58, 68, 78, 88 millj. kr. eða kannske eitthvað meira. En mér finnst hins vegar, að þegar ákveða á útgjöldin, þurfi að hafa ofurlitla hugmynd um, út frá hvaða tekjum á að ganga. Þarna virðist ekki út frá neinu að ganga enn þá. Það liggja alls ekki upplýsingar fyrir okkur þm. utan n., á hvað við eigum að stíla í brtt., sem við berum fram. Ef við göngum út frá 86 millj. kr. tekjum á þessu fjárlagaári, mun kannske sumum finnast kröfur okkar til útgjalda ekki svo gífurlegar. En ég býst nú við, að raddir kæmu um, að ekki dugði að áætla tekjur svona hátt. En hvað um það, það er ókleift að taka ákvarðanir viðkomandi útgjöldum í stórum stíl, meðan enginn hefur hugmynd um tekjurnar.

Ég álít þess vegna, frá hvaða sjónarmiði sem þetta er skoðað, að það sé algerlega ófært að afgreiða fjárl. án þess að greiða atkv. við 2. umr. um hverja einustu brtt. fjvn. Fjórir fjvnm. hafa verið á þessari skoðun, og ég trúi ekki öðru en það sé skoðun meiri hl. þm. Ég vil þess vegna, eins og nú standa sakir, gera það að till. minni, að fjárlagafrv. verði aftur vísað til hv. fjvn. nú þegar og 2. umr. málsins frestað. Ég vil mælast til þess við hæstv. forseta, að hann beri þessa till. upp nú þegar, a.m.k. strax og umr. um hana sérstaklega sem þingsköp væri lokið. Ég mundi fyrir mitt leyti ásamt flokki mínum álíta það skyldu mína, ef það væri fellt að vísa fjárlagafrv. aftur til fjvn., að bera fram eins mikið af brtt. við fjárlagafrv. eins og við frekast gætum. Það yrði kannske til þess að firra þingið þeim vansa, að 3. umr. yrði eina umr. um fjárl. Ég álít, að það væri þá skylda þm. að bera fram eins mikið af brtt. og frekast væri unnt við þessa umr., til þess að það kæmi í ljós, hver þingviljinn er og hvernig vænta mætti, að afgreiðslan yrði. Ég get ekki skilið annað en stj. vilji frekar, að þingið skili fjárl. í hennar hendur þannig, að það hafi fulla stjórn á því, hvernig þau verða samþ., heldur en að það verði komið undir hendingu, hvernig afgreiðslan verður við 3. umr.

Ég ætla ekki að svo komnu að ræða málið sjálft eða brtt. þær, sem við sósíalistar ætlum að bera fram, en vil mælast til þess við hæstv. forseta, að hann beri upp munnlega till. um það, að málinu verði aftur vísað til fjvn. og 2. umr. frestað.