29.01.1943
Sameinað þing: 17. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 197 í B-deild Alþingistíðinda. (469)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1943

Jónas Jónsson:

Ég vil leiðrétta það, sem síðasti ræðumaður sagði, að ég eða einhver annar maður hefði óskað eftir að hafa þá meðferð á málinu, sem kommúnistar vilja hafa. Það sjá allir, að það er fjarstæða, því að sá maður, sem þm. á við, hefur átt sæti í fjvn. lengri tíma heldur en síðasti ræðumaður hefur yfirleitt kunnað að skilja íslenzkt mál. Sá maður hefur meiri reynslu í vinnubrögðum fjvn. heldur en svo, að þessi hv. þm. hafi getað afvegaleitt hann.

Þá vil ég einnig leiðrétta þau ósannindi kommúnista, að ég hafi stuðlað að því, að fjárl. væru ekki afgr. fyrr en nú. Það er öðrum að kenna heldur en mér, að svo hefur farið. Slík vinnubrögð eru mér mjög á móti skapi. Hitt er annað mál, að ég tók afleiðingunum. Fyrst ekki var hægt að afgreiða fjárl. 1942, þá varð að gera það 1943 og gera það bezta úr þessu, sem hægt var. Hér er eingöngu um það að ræða, hvernig bjargast eigi fram úr þeim erfiðleikum, sem upplausnarástandið á árinu 1942 hefur skapað. Allir í fjvn. nema kommúnistar gengu inn á að hafa um þetta samstarf. Formaður n. tók það fram, að hann væri ekki með þessari aðferð, en hins vegar mundi hann beygja sig fyrir meiri hl. í því efni, og þannig munu allir sómasamlegir menn fara að, þegar til atkvgr. kemur. — [Fundarhlé.]