29.01.1943
Sameinað þing: 17. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 200 í B-deild Alþingistíðinda. (486)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1943

Einar Olgeirsson:

Ég vil skjóta því inn í viðvíkjandi því, sem síðasti ræðumaður sagði, að ég heyrði ekki betur en nokkrir þm. færu óbeint fram á að fá frestað umr., og þess vegna bar ég fram þessa till. um frestun.

Ég held, að það hafi verið tilætlunin, að þessi fjárlög ættu að afgreiðast hér á þessari mínútu, því að eins og þm. heyrðu, var það enginn, sem kvaddi sér hljóðs. Ég vil vita, hver er meiningin. Ég vil vekja athygli á því, að meiri hl. fjvn. var á móti því að leggja frv. svona fyrir, og síðan, eftir að meiri hl. hafði lýst því yfir, að hann væri á móti því að leggja frv. svona fram ein, og það nú er og til skammar fyrir þingið, er af hv. þm. S.-Þ. unnið að því að snúa einum nm. til þess að skapa meiri hl. í n. Hvað er það, sem er að fara fram í sambandi við þetta mál? Hvað er það, sem liggur á bak við? Við þekkjum, hvað er að gerast, þegar þm. S.-Þ. er með makk að tjaldabaki. Við vitum, að þá er eitthvað að gerast, sem er þinginu til skammar og þjóðinni til skaða. Við vitum, að það er eins og þegar verið var að ná út af 18. gr. listamönnum og menntamönnum og koma því í gegn að tjaldabaki og gegnum þingið með eins atkv. meiri hl., bara til þess að þingið yrði sér til skammar með framkomu sinni í málinu og til þess að skapa einstökum mönnum tækifæri til þess að afgreiða þessi mál þannig, að það setti smánarblett á íslenzku þjóðina. Við höfum reynsluna af því, hvað er að gerast, og mér finnst nauðsynlegt að vekja eftirtekt á því, hvað er að fara fram. Ég get ekki betur séð en verið sé að setja samsæri í gang. Ég veit, hvað er að gerast. Það átti að afgreiða l. í dag án frekari umr. Ég vil lýsa eftir því, hvaða þm. eru sammála um að afgreiða l. með þessum hætti. Ég veit af því, sem þm. hafa sagt einslega, að þeir eru á móti því, en þegar kemur til atkvæða og á einhvern hátt á að afstýra þessu hneyksli, þá gugna þeir. Ég veit, að sumir treysta því, að hægt sé að afstýra þessu í fjvn., en ég vil benda á, hvaða afstöðu meiri hl. fjvn. nú hefur tekið, og ég geri mér ekki sérstakar vonir um þá afstöðu, sem hún kann að taka til málanna. Ég sé ekki betur en það hafi verið tilætlun meiri hl. n. að gera hér eins konar kaup viðvíkjandi afgreiðslu fjárlaganna og veit, að það var algerlega andstætt vilja meiri hl. þm. Að vísu kikna þm., þegar á hólminn er komið, ýmist af því, að þeirra eigin flokksmenn eru búnir að beygja sig í n. og þeir kunna ekki við að rísa á móti þeim, eða vegna þessarar tillátssemi, sem við þekkjum, við mann eins og þm. S.-Þ., af hvaða hvötum, sem hún kann að vera sprottin. Við þekkjum þetta, en kærum okkur ekki um að láta afleiðingarnar af því bitna á þjóðinni.

Ég mun þess vegna ræða fjárl. hér frá mínu sjónarmiði og vil þó a.m.k. vonast til þess, að það sé mögulegt fyrir þm. að fá frá fjvn. upplýsingar um, hvernig hitt og þetta sé tilkomið. Ég ætla að taka dæmi: Ríkisstj., sem sat að völdum, hefur tekið það upp hjá sér að greiða laun og láta veita uppbætur á laun algerlega utan við launal. og dýrtíðaruppbætur. Hún ákvað að greiða laun, sem stj. hafði ekki nokkra heimild til að greiða. Það var talað um, að læknum væri greitt þetta til þess að halda niðri taxta þeirra vegna dýrtíðarinnar, en síðan var sýslumönnum greitt þetta, hvort sem það átti að sporna við því, að þeir hækkuðu taxta sína, — ekki er mér kunnugt um það, — og þegar búið var að greiða sýslumönnum, mátti ekki gleyma prestunum, svo að þeim var líka greidd þessi uppbót utan við öll launalög og dýrtíðaruppbót. Það væri æskilegt að fá upplýsingar frá fjvn. eða ráðh., sem tóku þessa ákvörðun, um það, hvernig stóð á, að einmitt þessar 3 stéttir fengu þetta greitt, og hvernig stendur á því, sem hvað eftir annað hefur verið minnzt á hér, að kennararnir — barnakennararnir sérstaklega — og þeir, sem verst eru launaðir af öllum starfsmönnum ríkisins, hafa aldrei fengið neinar uppbætur aðrar en þessa litlu dýrtíðaruppbót. Hvernig stóð á því, þegar þessi ákvörðun var tekin af fyrrverandi stj. að greiða læknum, sýslumönnum og prestum (ÓTh: Það var þjóðstjórnin gamla.) — því betra — Hvernig stóð á því, að þessi stj., sem sat að völdum næst á undan síðustu stj. og ætlaði að bæta hag þeirra, sem þurftu þess með, og hækka laun lækna, sýslumanna og presta, að hún skildi kennarana út undan, lægst launuðu stéttina, sem er á launum hjá ríkinu? Hver er ástæðan? Vildi gamla þjóðstj. sýna með þessu fjandskap sinn til þessarar stéttar og lítilsvirðingu sína fyrir því starfi, sem hún vinnur? Eða var réttlætistilfinning hennar svona einkennileg, að henni fannst sjálfsagt að hækka við þá, sem voru bezt launaðir, en neita hinum? Mér finnst þetta einkennilegt. Nú finnst mér á till. fjvn., að hún taki enga afstöðu í þessu máli, og nú langar mig til að fá að vita hjá henni, hvað hún leggur til. Leggur hún til, að þessar upphæðir verði greiddar til baka, eða leggur hún til, að haldið verði áfram að greiða þær, og vill hún bæta úr því misrétti, sem hefur orðið, og ætla barnakennurum álíka uppbætur? Það væri æskilegt að heyra frá fjvn. í sambandi við þetta. Það mun vera nokkuð sjaldgæft, að ákvarðanir eins og þessi séu teknar af ríkisstj., og býst ég við, að sjaldgæft sé, að ekki sé komið fram ábyrgð á hendur stj. fyrir það. Vill fjvn. skoða þetta sem fordæmi fyrir því, hvað stj. geti leyft sér, þannig að stj. geti, ef einhver stétt er í sérstakri þörf fyrir peninga, veitt úr ríkissjóði fé handa henni? Fjvn. mun ætlast til, að þetta standi á fjárl., eins og verið hefur. En á að skilja þetta svo, að ríkisstj. skuli heimilt að greiða þessi laun eins og hún hefur gert? Er nú ekki viðkunnanlegra að fjvn. taki afstöðu í svona máli? Það er ekki á valdi okkar, sem erum utan fjvn., að hnýsast inn í svona mál. Það er þessi n., sem hefur það allt, og við verðum að leita til hennar til þess að fá þær upplýsingar, sem við þurfum, og það er ekki nema eðlilegt, að hún láti okkur vita skoðun sína í sambandi við afgreiðslu svona mála. Ég fyrir mitt leyti mundi hafa tilhneigingu til þess, ef þingið ætlar að staðfesta, að svo búið skuli standa um greiðslu á þessari aukauppbót til þessara þriggja starfsflokka ríkisins, mundi ég álíta, að þingið ætti mjög alvarlega að skoða huga sinn um það, hvort það vilji ekki gefa sams konar gjafir til kennarastéttarinnar. Hvaða ástæða er til að skilja hana eftir? Ég þykist vita, að í þessu sambandi komi fram, að það eigi að endurskoða launal. Kennararnir, sem hafa þetta 1000 kr. laun á ári, fá þá kannske einhverjar bætur. Nú, það hefur á mörgum undanförnum árum verið talað um að endurskoða launal., en það er bara aldrei gert. En stj. gerir þessa endurskoðun á sinn einkennilega hátt og veitir uppbætur utan við lög og rétt og gleymir þeim fátækustu. Hvers konar aðferðir eru þetta? Er ekki ástæða til, að þingið, ef það ætlar að sleppa fjárveitingavaldi sínu, athugi gang sinn og taki ákvörðunarvaldið í sínum hendur.

Þá langaði mig til að ráða ofurlítið um frv. til fjárl. fyrir árið 1943, sem liggur hér fyrir og mundi ég álíta það heppilegra, að fjmrh. væri við, þegar fjárl. eru rædd. (Forsrh: Hann er sjúkur.) Já, ég veit það, og finnst mér það vera fullkomin ástæða til þess, að þessari 2. umr. málsins væri frestað. Mér finnst ástæða til þess, að við 2. umræðu sé þm. gefið tækifæri til þess að spyrja fjmrh. um sitthvað viðvíkjandi fjárl. Það mun hafa verið svo, að árangurinn af samtali hinna 9 fjvnm. við hann varð sá, að 5 af þeim voru á móti því að leggja frv. svona fyrir, en 4 voru með því. Svo að það virðist vanta á, að fjvn. a.m.k. hafi fengið þær upplýsingar frá ráðh., sem hún áliti nauðsynlegar til þess, að fjárl. gætu komið til 2. umr. Ég veit ekki, hv ort þær upplýsingar, sem þeir hafa fengið, eru annars eðlis en þær almennu upplýsingar, sem hér liggja fyrir, en mér finnst, að við ættum að hafa rétt til að fá þessar upplýsingar. Mér finnst, að þeir 43 menn utan fjvn. — og ég vil segja 47 með þeim, sem voru á móti því að leggja fjárlfrv. fyrir — mér finnst, að við eigum rétt á því að fá hér við 2. umr. einhverjar upplýsingar frá ráðh. eða ríkisstj. viðvíkjandi fjárl.

Hér er gert ráð fyrir 48 millj. kr. tekjum. Ég hef ekki getað fundið brtt. fjvn. við niðurstöður teknanna og man ekki eftir, að formaður fjvn. í hinni ýtarlegu framsöguræðu sinni gæfi okkur þm. neinar sérstakar upplýsingar um, hvað fjvn. álíti, að tekjurnar muni vera. Hins vegar hafa verið gefnar þær upplýsingar, að tekjur síðasta árs hafa varið 80 millj. kr. Nú vil ég spyrja í sambandi við afgreiðslu á þessum l.: Hvað á að áætla þessar tekjur og hvaða upplýsingar getum við fengið frá fjmrh. og stj. um það, hvert álit er á hinum einstöku liðum teknanna? Ég hef heyrt það utan af mér hér í þingsölunum, án þess að ég geti nokkuð fullyrt um það, að fjmrh. hafi álitið, að það ætti að áætla tekjurnar hærri en þær eru í þessu frv. Ef þetta er rétt, býst ég við, að mjög mikill ágreiningur verði um tekjurnar, og ef þm. ætla að skapa sér nokkra skoðun um það, hverjar tekjurnar verði yfirleitt, þurfa þeir að hlýða á ræðu fjmrh. og kynnast því, af hverju tekjurnar minnki svona mikið. Við getum ímyndað okkur, að innflutningurinn minnki og tekjurnar þar af leiðandi, en það er ekkert nema getgátur, sem við getum komið fram með, á meðan við heyrum ekkert um það frá fjmrh. eða stj., hvað hann hugsar sér í þessu sambandi, og ég álít, að það þurfi að koma fram nú. Það er í fyrsta lagi það, að menn reyni að koma með sem mest af brtt. sínum við fjárl. við 3. umr., þannig að ef upplýsingar fjmrh. í þessu máli koma ekki fram fyrr en í byrjun 3. umr., verða menn búnir að gera sínar till. og flokkarnir búnir að ákveða, hvaða afstöðu þeir ætla að taka, svo að þegar fjmrh. kæmi með sínar upplýsingar, kæmu þær allt of seint. Þessi vinnubrögð eru ófær. Ef samband og samvinna á að vera milli þings og stj. um fjárl., — og það er það, sem ríður á, að samvinna sé um þau, er nauðsynlegt, að þessar upplýsingar liggi fyrir, því að án þeirra hefur þingið ekkert að byggja á, og ég vil segja, að erfitt sé að koma fram með nokkrar till., meðan svo standa sakir. Það er þess vegna viðbúið, að það, sem rætt verður viðvíkjandi fjárl. og till. í sambandi við þau, verði að gerast mjög mikið, án þess að menn hafi komið sér niður á fasta skoðun um, hvað óhætt megi teljast.

Þá vil ég drepa á nokkra gjaldaliði. Á 8. gr. er kostnaður við æðstu stjórn landsins. Sökum þess hve seint landsreikningur ársins 1910 kemur fram, eins og vant er, að þeir eru orðnir forngripir þegar þeir koma, vildi ég spyrja fjvn., sem hlýtur nú að hafa aðgang að öllum gögnum, hvort við eigum ekki óeydda konungsmötu frá þeim tíma, er Alþ. ályktar, að sá maður, er farið hafði með konungsvald, væri þess ekki umkominn lengur, og flutti konungsvaldið inn í landið. Eða hefur honum verið greidd konungsmata, eftir að Alþ. hafði svipt hann störfum með ályktuninni frá 10. apríl 1940? Eða voru einhverjum íslenzkum mönnum greiddar þær fjárhæðir, sem til æðstu stjórnar, konungsvaldsins, voru ætlaðar? Það má spyrja að þessu til fróðleiks og gamans, úr því að altalað var, að hér hefðu setzt 5 konungar að völdum 1940. Fengu þeir konungsmötu? Ég vildi einnig spyrja n., hvort áætlað hefði verið að greiða til konungs svo og svo mikið fé fyrir þann tíma, sem hann hefur ekki verið konungur okkar, eða hvort lagt væri fyrir fé, sem ríkisstjórn væri í sjálfsvald sett að greiða honum síðar án þess að spyrja Alþ. að. Ef farið er á bak við þingið með slíkt, er það ekki neitt smámál. Það hefur verið ein fyrsta þingræðiskrafan í öllum löndum, að þingið ræddi og réði sjálft öllu um þess konar greiðslur, og það er hið freklegasta þingræðisbrot, ef hér á að fara á bak við Alþ., og hróplegt, ef Alþ. sættir sig við það. Vilja þm. afhenda réttinn? Eða vilja þeir fá að vita um þetta?

Á 10. Gr. eru greiðslur vegna utanríkismála.

Ég vildi spyrja fjvn., hvort þar mætti vænta einhverra brtt. frá henni. Þar eru ætlaðar 150 þús. kr. til sendiherraskrifstofu í Washington og rúmlega 100 þús. kr. til skrifstofunnar í New York. Ég vildi spyrja n., hverjar upplýsingar hún hefði fengið um þessa liði, hvort þeir mundu ekki hafa farið langt fram úr áætlun og hvort ekki mætti nú gera ráð fyrir, að kostnaðurinn gæti jafnvel orðið enn meiri.

Í sambandi við 5. liðinn vildi ég spyrja, hvort viðskiptanefnd skyldi kostuð af því fé eða sérstök gjöld yrðu ætluð til þess að standa straum af henni líkt og verið hefur um margs konar nefndir og m.a. gjaldeyrisnefnd. Ég álit, að rekstrarkostnað þessara n. eigi að taka á fjárl. Hin leiðin sýnist vera farin til þess, að hægt sé að leggja stór gjöld á þjóðina, án þess að Alþ. ákveði fjárhæðina eða fylgist með notkun hennar. Verði afgangur af slíkum sértekjum nefndar, á hann vitanlega að renna í ríkissjóð, en verði þær n. ónógar, hlýtur ríkissjóður að verða að hlaupa undir bagga. Eftir öllum heilbrigðum skattamálareglum eiga slíkar n., sem þjóðin launar, að vera launaðar af ríkissjóði og ríkissjóður að fá tekjurnar. Ef haldið er áfram á hinni röngu braut, er hægt að velta þannig milljónagjöldum á þjóðina, án þess, að það hafi verið tilætlun Alþ.

Þá kem ég að 13. gr., sem venjulega hefur staðið einna mestur styr um. Þar liggja fyrir 3 brtt. frá fjvn. Ég álít, að í vegamálunum þurfi að gera mjög miklar breytingar á fjárframlögum. Allir þm. viðurkenna, að undanfarið hefur ekki verið hægt að sýna vegum okkar þann sóma, sem æskilegt hefði verið, en nú ættu að vera til peningar til að bæta nokkuð úr því. Fjvn. hefur ákveðið að fresta til 3. umr. öllum brtt. sínum um þau mál. Hún hefur ekki fært fram nægar ástæður fyrir þeirri ráðabreytni. Þess vegna vil ég spyrja n. eða þann litla meiri hluta hennar, sem þessu ræður: Er þessi meiri hl. fjvn. að hugsa um að skila inn í þingið tillögum um lækkun launa í opinberri vinnu? Eiga að koma hér samtímis við 3. umr. till. um að lækka laun þeirra verkamanna yfirleitt, sem starfa hjá ríkissjóði? Kröfur um það hafa komið fram í aðalblaði þess flokks, sem heill stendur að þessari ákvörðun meiri hl. fjvn., — Morgunblaðinu —, að það ætti að knýja fram, að dýrtíðaruppbót á laun skuli verða 80% en ekki 100%. Hafa sömu kröfur komið fram í fjvn. eða raddir um, að n. ætti að beita sér í þá átt? Mátti ekki gera tillögur um framlög til vega, vegna þess, að meiningin væri að knýja fram lækkanir vegavinnukaups ? Eðlilegt væri, að þeim þm., sem mundu eflaust ekki þora að bera fram frv., sem miðaði að launalækkun, þar sem þeir kæmu því með engu móti gegnum 6 umr. í deildum, þyki líka of áhættusamt að hreyfa slíku máli við 2. umr . fjárl. En tækist þeim að handjárna nógu marga þm. til að koma ákvæði í þá átt gegnum síðustu umr. fjárl., sem sennilega verður dregin þangað til komið er í eindaga, rétt fyrir 15. febr., ætla þeir sér sigurinn. Nauðsynlegt spor í áttina er að fresta til 3. umr. öllum þýðingarmestu brtt. við fjár l. Ef ætlunin er að lækka kaupið, yrðu öll framlög til vega höfð þeim mun lægri. Enginn fær séð, hvað býr undir þessari afgreiðslu fjárlfrv., sem meiri hl. fjvn. og þá fyrst og fremst hv. þm. S.-Þ. (JJ) ræður. Þess vegna spyr ég: Hvaða uppástungur hafa komið fram í fjvn. í þessu efni? Ég sæi ekki eftir þeim að svara, sem voru á móti því að skila fjárlfrv. til 2. umr. í þessu ástandi. Það mundi e.t.v. skapa möguleika til sæmilegrar samvinnu við afgreiðslu þessara mála.

Þá langar mig til að minnast á atriði við 15. gr. Þar sé ég ofurlitla brtt. frá fjvn. um Landsbókasafnið. En ég sé ekki, að n. hafi tekið þar fyrir mál, sem mikið ríður á. Ætlaðar eru 50 þús. kr. til að kaupa bækur og handrit. Hróður okkar um heiminn byggist á engu meir en því, að við séum miklir fræðimenn og bókamenn. Við höfum sérstaka möguleika til þess nú að bæta það upp, sem okkur er mest áfátt um í þeim efnum. Sá bókakostur, sem Landsbókasafnið á í ýmsum fræðum, er svo ófullkominn, að þeir menn, sem ætla sér að „stúdera“ þær fræðigreinar, geta ekki fengið þar höfuðrit í þeim greinum, hvað þá meira. Ég skal minnast á félagsfræðina, sem ég hef haft mest kynni af. Þar er safnið svo hörmulega fátækt, að varla er frá því segjandi. En það eru þó þau mál, sem að mörgu leyti varða menn allra mest viðvíkjandi því, að vil megi nú fara um þjóðfélagið og þess afkomu. Og ég efast ekki um, að svo áhugasamir menn eins og hv. þm. eru um þjóðfélagsleg mál, ef þeir hafa athugað að kynna sér þetta ástand hjá Landsbókasafninu, þá muni þeir finna, að það er óviðunandi, að ýmsir menn, sem hafa leitað til Landsbókasafnsins til þess að fá þekkingu í þeim málum á einhverjum atriðum eða höfundum, þá komast þeir að raun um, að þær bækur vantar. En það er hægt fyrir okkur að bæta verulega úr þessu með því að veita nú í eitt skipti fyrir öll allmikla fjárfúlgu til þess að kaupa bækur í þessari fræðigrein. Og t.d. í Englandi væri hægt að fá þessar bækur keyptar með sérstaklega góðum kjörum og flytja bingað. Við eigum nú svo mikla peninga í Englandi, að við erum í vandræðum með, hvað við eigum að gera við þá. Ég álit því, að eitt af því, sem eigi að koma hér fram. — og ég hef mikinn hug á að flytja brtt. um það, — sé að koma upp nokkru bókasafni um félagsmál. Með því að kaupa slíkar bækur fyrir svo sem 250 þús. kr. væri hægt að bæta verulega úr þessum skorti.

Mig langar til viðvíkjandi 59. brtt. fjvn., þar sem lagt er til, að til viðhalds og verndunar fornra bæjarhúsa á Keldum, Grenjaðarstað og Glaumbæ verði varið 30000 kr., 10000 kr. til hvers þessa staðar, — mig langar til í sambandi við Keldur að spyrja, hvort ekki sé búið að verja nógu miklu fé í búið á Keldum. (Rödd af þingbekkjum: Þetta eru Keldur á Rangárvöllum). Nú, það eru allt aðrar Keldur. Það er gott, því að ég held, að hin „keldan“ sé þannig, að það sé búið að kasta svo miklu fé í hana, að það hefði litið illa út, ef við hefðum ekki getað komið þessum 10 þús. kr. fyrir þar. En hve mikið fé hefur verið veitt á fjárl. og varið til bygginga og starfsemi á þeim Keldum, þar sem rannsóknarbú hefur verið byggt í Mosfellssveit? Mig langar til að vita, hvort það skiptir tugum þús. eða jafnvel hundruðum þúsunda. Ég ætla þó ekki, að það skipti milljónum? Ég álít það ekki fjarri lagi hér við 2. umr. fjárl., að við fengjum ofurlitla hugmynd um, hve miklir peningar fari í hinar og þessar „keldur“ hér á landi. Það þykir kannske einhver ósvinna, ef þm. vilja fá upplýsingar um slíkt. Ég veit ekki, hvert ég á að snúa mér með að fá slíkar upplýsingar, hæstv. fjmrh. er hér ekki. Og ekki fæst að fresta umr. til þess að fá upplýsingar hæstv. fjmrh. um þetta. Vil ég því spyrja hv. fjvn., hvort hún geti gefið einhverjar upplýsingar í þessu sambandi.

Þessir hv. þm. ættu að athuga sinn gang. Þeir hafa sjálfir flaustrað hér af þáltill. viðvíkjandi fjármálum, sem fól í sér milljónaútgjöld, og ættu því sízt að þurfa að ýfast við því, þó að hér fari fram svo sem tíu mínútna ræðuhöld við 2. umr. fjárlaganna. (EystJ: 2. þm. Reykv. greiddi sjálfur atkv. með þeirri till.). Það er rangminni hjá hv. 2. þm. S.-M. Ég greiddi atkv. Með brtt. okkar, sem hefði afstýrt verstu göllunum á þáltill. En eftir að sú brtt. hafði verið felld, greiddi ég atkv. á móti þáltill.

En af því að hv. 1. Þm Rang. var að kalla hér fram í, vil ég beina til hans þeirri fyrirspurn, hvers vegna þessi fítonsandi hljóp í hann, þegar ég nefndi Keldur. Ég vissi ekki, hve mikið fé hefur farið í þessar Keldur. Er það eitthvað viðkvæmt mál? Ég hef heyrt, að þeim stjórni þrjú, fjögur eða fimm ráð, og má segja, að þar sé hver silkihúfan upp af annarri. En það væri annars gott að fá það upplýst, hvernig þessum málum er varið.

Þá sé ég, að ekki liggur fyrir nein brtt. frá hv. fjvn. viðvíkjandi 50. lið 15. gr., þar sem um ræðir styrk til skálda, listamanna og vísindamanna. Að vísu eru þar tilteknar ákveðnar upphæðir, sem ætlaðar eru þeim Árna Pálssyni og Guðmundi Finnbogasyni, en annars er hér um ósundurliðaða heildarupphæð að ræða. Ég vil nú spyrja hv. fjvn., þar sem hér er að ræða um viðkvæmt deilumál, hvort vænta megi brtt. viðvíkjandi þessu atriði. Þá sé ég, að lagt er til að hækka styrkinn til þjóðvinafélagsins og menntamálaráðs til útgáfu 1. bindis Íslendingasögu úr 6000 kr. í 10000 kr., sbr. 30. lið 15. gr. En finnst hv. n. ekki þörf að gera fleiri ráðstafanir viðvíkjandi þessum lið? Ég hef heyrt, að þegar sé farið að skrifa fleiri bindi en þetta fyrsta og borga út fé fyrir þau. Finnst hv. n. ekki ástæða til að veita nú þegar styrk til þess bindisins, sem Jónas Jónsson ætlar sér sérstaklega? Það er ekki seinna vænna fyrir þennan mann, sem mestu hefur ráðið í fjvn. um þessi mál, að tryggja sér nú þegar styrk til verksins.

Þá er 16. gr., en við hana hefur hv. fjvn. gert nokkrar brtt. En gott væri að fá frá henni vitneskju um það, hvað hún hyggst fyrir um frekari brtt., sérstaklega að því er snertir framleiðslubætur og atvinnuaukningu. Það er kunnugt, að á þessum lið var gerð mikil breyting árið 1939. Það var eitt af því fáa, sem hlykkjaðist gegnum þingið af gamla höggorminum, að þessu fé skyldi ráðstafað af sérstakri n., og voru henni veittar mjög víðtækar heimildir. Ég hef nú ekki getað komizt eftir því, hvernig hún hefur ráðstafað því, og væri fróðlegt að fá vitneskju um störf þessarar n. frá hæstv. ríkisstj., ef hún kynni einhvern tíma að sjást hér á fundum. Ég man t.d. ekki til þess, að þessari n. væru sett nokkur tímatakmörk. Eða er ætlazt til, að hún sitji til eilífðar? Og hefur hv. fjvn. hugsað sér að gera einhverjar brtt. í þessu sambandi?

Þá hef ég ekki séð neinar till. frá hv. n. um það, hvað áætla skuli til greiðslu á uppbótum þeim, sem ákveðnar hafa verið með þáltill., eða hvort hún ætlast til, að þetta sé tekið inn í fjárl., að því er snertir þær uppbætur, sem greiddar eru á þessu ári. Ég tel nauðsynlegt, að sem mest af þeim útgjöldum, sem ríkið á að annast, sé á fjárlögunum, svo að þm. geti gert sér sem bezta grein fyrir þeim. Mér er ekki annað ljóst en útkoman af síðasta ári hljóti að breytast mikið, ef allar þær uppbætur eiga að fara fram á þessu ári. Ég vona, að hv. fjvn. vilji veita mér vitneskju um þetta atriði eftir beztu getu, og eftir þeim mun ég haga mér að nokkru.