01.02.1943
Sameinað þing: 18. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 227 í B-deild Alþingistíðinda. (496)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1943

Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti. — Það hefur nú allmikið verið rætt um vinnubrögðin við afgreiðslu fjárl. og allhart um þau deilt. Það er nú í sjálfu sér ekki nein ástæða til þess að tala meira um það efni á þessu stigi málsins, þó að ég verði hér raunar að segja um það aðeins nokkur orð, að gefnu tilefni.

Hv. formaður fjvn. (FJ) kvartaði yfir því, að það væru vinnubrögð, sem hann kynni ekki við, að samnm. hans í Sósfl. hefðu hér ásamt öðrum þm. borið fram brtt. við 2. umr. fjárl., áður en fjvn. væri búin að ljúka störfum og áður en fullreynt væri, hvort samkomulag gæti orðið um till. í fjvn. Hann spurði, hvers vegna væri verið að ræða afstöðu fjvn. til mála, sem hún hefði ekki tekið afstöðu til. Þessu er auðvelt að svara. Ef þetta er að einhverju leyti óvenjulegt, þá stafar það eingöngu af því, að hv. fjvn., þ.e.a.s. meiri hluti hennar, hafði óvenjuleg vinnubrögð, að því leyti, að n. skilar ekki sem slík við 2. umr. neinu áliti um þau atriði fjárl., sem mestu máli skipta, bæði um tekjuliði og gjaldaliði, þannig að 2. umr. fellur að þessu leyti niður í því formi, sem hún venjulega er í, að við 2. umr. sé rætt um till. fjvn. og tekin afstaða til þeirra. Og í þeim brtt. felast auðvitað höfuðatriði varðandi afgreiðslu fjárlagafrv. Þar sem nú hv. fjvn. brást þeirri skyldu að bera fram brtt. sínar um aðalatriði fjárl. við 2. umr., leiðir það af sjálfu sér, að minni hl. fjvn., sem andvígur er þessari afgreiðslu, hlýtur að leggja fram sínar till. Það eðlilega og venjulega er, að fjvn. kynni sér vilja þm. við 2. umr. fjárl. um brtt. við fjárl. og afstöðu þeirra til þeirra niðurstaðna, sem n. hefur komizt að. Og verkefni fjvn. milli 2. og 3. umr. er svo að endurskoða afstöðu sína í sambandi við það, sem fram hefur komið við 2. umr. Nú hefur n. brugðizt þeirri skyldu, og því hefði verið eðlilegt, að minni hl. n. hefði borið fram allar sínar brtt. nú, a.m.k. í öllum höfuðatriðum. En það gerði minni hl. h. ekki, og er það til samkomulags við meiri hl. n. Minni hl. n. vill nú freista þess, hvort ekki sé unnt að ná samkomulagi við meiri hl. n. um ýmislegt, sem rætt hefur verið um í fjvn., en ekki befur verið tekin nein fullnaðar afstaða til. Og úr því að n. er ekki sammála, leiðir það af sjálfu sér, að ágreiningsefnin eru dregin fram við 2. umr. Hv. form. fjvn. þarf ekki að undra það, því það er alveg eðlilegt. En hitt er ákaflega einkennileg hugmynd, sem meiri hl. n. er haldinn af, að það eigi að vera leyndarmál, sem fram fer í fjvn., og að það, sem fram hefur komið í fjvn., eigi að vera mál, sem ekki megi ræða um frammi fyrir þingheimi, sem er þó einmitt höfuðtilgangurinn, að gert sé við 2. umr.

Og þegar hv. formaður fjvn. var að óska eftir því, að þetta mundi lagast, þegar fjvnm. Sósfl. væru orðnir vanari því að starfa í n., þá vil ég segja honum það, að sú von hans mun algerlega bregðast. Þm. Sósfl. verða aldrei svo hagvanir hér, að þeir taki upp slíka afstöðu til nefndastarfa, að þeir fari að halda ágreiningsmálum leyndum frammi fyrir þingheimi, þegar einmitt er höfð umr., sem hefur þann tilgang samkv. þingræðinu að draga ágreiningsmálin fram og ræða þau. En því miður hefur hv. formanni fjvn. ekki tekizt að losa sig úr fjötrum hv. þm. S.-Þ. og hv. þm. Borgf. í fjvn., því að hann fylgir þeim enn í því nál., sem fyrir liggur. En hins vegar vil ég vonast eftir og treysta því, að honum muni takast það, áður en lýkur.

Það hafa nú ýmsir hv. þm. verið ekki lítið undrandi yfir þessum óvenjulegu vinnubrögðum og ekki getað skilið, hvers vegna þau hafa verið höfð. Og ég hef ver ið að hlusta eftir þeim ræðum, sem hér hafa verið haldnar af hv. meiri hl. fjvn., hlusta eftir þeim rökum, sem þeir bæru fram fyrir þessum óvenjulegu vinnuaðferðum. Og ég hef alls ekki fundið þar nein rök — alls ekki. Það eru vitaskuld engin rök, að þeir hafi ekki verið búnir að átta sig á, hvernig n. ætti að áætla tekjurnar í ár, því að það þýðir ekki annað en það, að henni hafi ekki unnizt tími til þess að ljúka störfum þrátt fyrir þann langa tíma, sem hún er búin að starfa. Og það flýtir ekkert fyrir afgreiðslu fjárl. að setja fjárlagafrv. þannig til 2. umr., að ekki liggi fyrir till. nema um smærri atriðin. Það er því mesti misskilningur, að það geti orðið til þess að flýta störfum, heldur þvert á móti.

En hvað er það þá, sem í raun og veru er orsök þessara vinnuaðferða? Í sambandi við það langaði mig til að bera fram fyrirspurn til hæstv. ríkisstj., þ.e.a.s., til hæstv. fjmrh. Það er nefnilega komið nokkuð fram í einu dagblaði bæjarins, Morgunblaðinu, sem er nú eitt af þeim blöðum, sem upp á síðkastið virðist ásamt dagblaðinu Vísi vera eins konar málgagn hæstv. fjmrh. — og er Vísir það náttúrlega í enn ríkari mæli —. Þetta blað, Morgunblaðið, skýrði frá því í gær, að hæstv. fjmrh. hafi látið þau orð falla og á einhverjum vettvangi borið fram þá tilkynningu frá sér, að ríkisstj. mundi beiðast lausnar, ef ekki yrðu afgr. hallalaus fjárl. Og einmitt þessi óvenjulegu vinnubrögð fjvn. eru sett í samband við þessi ummæli ráðherrans.

Nú hefur það verið upplýst hér í umr., að hæstv. ráðh. hafi í fjvn. lýst yfir því, að hann teldi ófært að hækka tekjuhlið fjárl. um meira en aðeins fáar millj. kr., t.d. eins og 3 millj. En hins vegar er ekki minnsti vafi á því, — og ég geri ráð fyrir því, að meiri hl. fjvn. sé líka á þeirri skoðun, — að eðlilegt sé að hækka tekjuáætlun fjárl. um ekki minna en 20 millj. kr. M.ö.o., það lítur helzt út fyrir, að hæstv. ráðh. liti svo á, að ef tekjuhlið fjárl. er hækkuð um meir en svo sem 3–4 eða 5 millj. kr. og tekjur og gjöld samkv. þeirri áætlun látin standast á, þá séu fjárl. afgr. með tekjuhalla, og samkv. þessum upplýsingum, sem komið hafa fram í þessu blaði, þá hóti hæstv. ráðh. því fyrir ríkisstj. hönd, að hún muni beiðast lausnar, ef fjárl. verði afgreidd á þann hátt.

Hvað þýðir þetta? Það þýðir í raun og veru það, að hæstv. ráðh. er að hóta því, að ríkisstj. segi af sér, nema því aðeins, að fjárl. verði afgreidd þannig, að það verði milli 10 og 20 millj. kr. tekjuafgangur, þ.e.a.s. milli 10 og 20 millj. kr., sem stjórnin gæti ráðstafað utan við fjárl., sem mundi þýða það, að það þyrfti að skera allar stærri atvinnuframkvæmdir niður.

Nú vildi ég spyrja hæstv. ríkisstjórn, — mér þykir leitt, að hæstv. fjmrh. er hér ekki viðstaddur, en ég vonast eftir, að þessi spurning geti komizt til hans —, hvað sé hæft í þessum ummælum Morgunblaðsins, sem ég tilfærði, og í hvaða sambandi þessi ummæli standi við þessa afgreiðslu hv. fjvn. á fjárlagafrv. nú við þessa umr. og viðskipti hans við fjvn. Það er ýmislegt, sem manni kemur í hug í sambandi við þetta. T.d., er það tilviljun, að Morgunblaðið heimtar á sama tíma 20% lækkun á dýrtíðaruppbót á kaupi verkamanna, þetta blað, sem virðist vera málgagn hæstv. fjmrh? Og manni dettur í hug: Þarf hæstv. ráðh. og stuðningsmenn hans kannske á því að halda, að verklegar framkvæmdir verði skornar niður í stórum stíl frá því, sem mundi vera, ef fjárl. yrðu afgreidd eðlilega að þessu leyti? Þarf hæstv. fjmrh. kannske á því að halda, að það verði atvinnuleysi, sem áreiðanlega mun verða fyrr en varir, svo framarlega sem framlög til verklegra framkvæmda verða ekki stórkostlega aukin til þess að koma einhverjum fyrirtækjum á fót til þess að auka atvinnuna í landinu? Þetta eru spurningar, sem manni hljóta að detta í hug við það, þegar slík málfærsla er höfð og þegar þessir tveir hlutir eru þannig hvor öðrum tengdir í þeim áróðri, sem hafður er í frammi í sambandi við þessi mál af hálfu stuðningsmanna hæstv. fjmrh. og enn verandi meiri hl. fjvn. Voru það einhver slík sjónarmið, sem réðu því, að hv. þm. S.-Þ. og hv. þm. Borgf. sóttu það með slíku ofurkappi, að einmitt þessi vinnubrögð væru höfð ? Var það til þess að fá tíma til þess að undirbúa einhverja slíka pólitíska áætlun og þá jafnframt torvelda, að frjálslyndari menn gætu komið sér saman um þá afgreiðslu fjárl., sem þeir teldu æskilega?

Hv. 3. þm. Reykv. (JakM) sagði, að það væri þarflaust og þýðingarlaust að vera að ausa fé í verklegar framkvæmdir, þegar vitað væri, að það þyrfti að hafa mikið af handbæru fé til þess að vinna gegn verðbólgunni. Þetta eru eftirtektarverð orð. Handbært fé til þess að vinna með gegn verðbólgunni er fé, sem ætlazt væri til, að ríkisstj. hefði til sinna umráða utan fjárl. Nú, til þess að vinna móti verðbólgunni, —hvernig á að vinna á móti verðbólgunni? Ég geri ráð fyrir, að það hafi ekki komið fram neinar till. frá ríkisstj. um það fram fyrir þingið, og geri þá ráð fyrir, að meiningin með því væri að hafa handbært fé, sem ríkisstj. gæti varið eins og henni sýndist, eins og gert var á síðasta ári, er varið var milli 20 og 30 millj. kr. til slíkra hluta. Og það gæti kannske verið, að meiri hl. Alþ. þætti þörf á að binda hendur ríkisstj., og það ekki sízt, þegar fengin er reynsla undanfarins árs, um notkun fjár í verðuppbætur í því skyni að telja fólki trú um, að það sé verið „að vinna með því á móti dýrtíðinni“, því að þannig er það orðað. En með verðuppbótum fæst engin varanleg lausn til þess að vinna gegn dýrtíðinni, svo mikið er alveg víst. Þó að verðuppbætur geti verið réttlætanlegar og afsakanlegar í einstöku tilfellum, þá er það algerður misskilningur, að það fáist nein varanleg lausn á dýrtíðarmálunum með þeirri ráðstöfun. Þegar það fé er þrotið, sem handbært er, til verðuppbótar, byrjar skrúfan upp á við aftur, svo framarlega sem þau öfl halda áfram að verka, sem eru valdandi að dýrtíð og eru orsök þeirrar dýrtíðar, sem við eigum nú við að búa.

Það var víst einn af hv. fjvnm., sem hér talaði, hv. 1. þm. Rang. (HelgJ), sem sagði það um þær brtt., sem eru hér á þskj. 312, frá þm. Sósfl., að þær till. væru nú í sjálfu sér ekkert stórkostlegar og væru ósköp hóflegar og hann hefði haldið, að það yrðu miklu stærri og voldugri till., sem fram mundu koma. Ég er feginn að heyra þetta. Ég vonast til þess, að þessar brtt. eigi þá stuðning þessa hv. þm. En hins vegar var hann að undra sig á því, að ekki hefði verið tekið með það í þessar till., sem n. hefði verið búin að koma sér saman um, þ.e. að ekki hefði verið tekið fleira með í þessar brtt. heldur en hefði verið gert. Í hinu orðinu taldi þessi hv. þm. það alls ekki viðeigandi, að minni hl. fjvn. hefði farið þessa leið að taka með í till. sínar þá hluti, sem fjvn. væri búin að koma sér saman um, — og það hefur heldur ekki verið gert. Yfirleitt hefur þeirri reglu verið fylgt við að bera fram þessar brtt. á þskj. 312 að bera ekki fram till. um atriði, sem fjvn. hefur verið búin að koma sér saman um eða svo að segja búin að koma sér saman um. Heldur ekki hafa verið bornar fram till. um framkvæmdir í einstökum kjördæmum. Og það, sem væri nú þess vegna langsamlega eðlilegast, það væri, að þessum brtt. yrði vísað til fjvn. aftur og að n. gæfi sér þá tíma til þess að afgreiða þær ásamt öðrum brtt., sem seinna munu koma fram frá fjvn. og viðeigandi er, að komi fram við 2. umr. Ég sé ekki annað en þm. hljóti að sjá, að þetta eru þau venjulegu, eðlilegu og sjálfsögðu vinnubrögð. Ef aftur á móti ekki getur orðið samkomulag um till. í n., bæði þær, sem hér liggja fyrir, og aðrar, sem ekki er fyllilega búið að ganga frá, en rætt hefur verið um í n., þá kemur til kasta hv. þm. að koma með brtt. sínar við 3. umr., þ.e.a.s., þegar búið er að sannprófa það, hvað getur orðið samkomulag um í n. og hvað af þeim till. nær fram að ganga við 2. umr. málsins. Hvað er því til fyrirstöðu, að þessi vinnubrögð verði höfð? Það væri gaman að fá að heyra það. Ég er viss um, að hv. þm. mundu fallast á það, — þeir, sem þá ekki hafa eitthvað annað óskiljanlegt í huga, sem ég hef ekki fengið upplýsingar um enn, — að þessi háttur verði á hafður, svo framarlega sem þeir gætu brotið odd af oflæti sínu.

Það eru þá hér nokkrar brtt. á þskj. 312, sem ég er flm. að ásamt öðrum hv. þm. Þá er fyrst brtt. nr. V á því þskj., um Suðurlandsbraut. Þar er lagt til, að til hennar verði veittar 500000 kr. En það er ekkert veitt til hennar á fjárlagafrv., og heldur ekki í þeim till., sem enn eru komnar frá hv. fjvn. Og mér er sagt, að það muni vera eitthvað eftir af fé, sem veitt var til hennar, frá fyrra ári, sem ekki hafi verið notað, vegna þess að ekki hafði þótt vera hægt að ná í nægilegt vinnuafl til þess að framkvæma það verk við hana, sem til var ætlazt. Þetta kemur til af því, að ekki hefur verið nóg vinnuafl þá til að framkvæma verkið.

Það hefur dálítið verið rætt um þýðingu þessa vegar og um hann deilt. Sumir hafa haldið því fram, að það hefði aldrei átt að leggja hann, og sumir jafnvel, að það eigi að hætta við hann. Um þetta má e.t.v. deila. Hins vegar skil ég ekki, að hægt sé að deila um það, að þessi vegur kemur til með að hafa þýðingu fyrir atvinnulif okkar. Hann liggur um Krísuvík, um Selvog og tengir Reykjavík ekki aðeins við Suðurlandsundirlendið, heldur líka Þorlákshöfn. Það er búið að leggja í hann mikið fé, en enn er hann að engum notum, og allt það fé, sem lagt hefur verið í hann, liggur þarna rentulaust. Slík vinnubrögð eiga ekki að vera til. Þegar um svona mikið fjármagn er að ræða, er ekkert smámál, hvort það rentar sig eða ekki. Þarna er um að ræða atvinnu í nánd við Rvík og gæti haft mikla þýðingu, sem atvinnubætur. Er ekki annars að vænta en þess verði mikil þörf á næsta ári. Það er þegar allmikið atvinnuleysi í Rvík, og má búast við, að það verði meira, margfalt meira.

Ég vil bæta því við, úr því að ég er að tala um atvinnuleysi, að ég er meðflm. fleiri till. á sama þskj. um fjárveitingar til að mæta kon1andi atvinnuleysi. Býst ég við, að hv. 1. landsk. þm. geri grein fyrir þeim.

Þá er ein stór till., sem ég er flm. að ásamt fleiri þm., á þskj. 312 XXIV, um hækkun á framlagi til alþýðutrygginga úr 2 millj. í 6 millj. kr. Það kann að vera, að einhverjum hv. þm. lítist ekki á að bera það fram. Ég ætla að skýra þessa till. að nokkru. Í fyrsta lagi hygg ég, að 2 millj. sé of lág upphæð til þess að standast þær skuldbindingar, sem ríkissjóði ber að inna af hendi l. samkv. Í öðru lagi liggja fyrir þ. frv.. sem má búast við, að verði samþ. og hafa í för með sér aukin útgjöld, og þar að auki hafa verið gerðar ályktanir um endurbætur á alþýðutryggingunum. Loks hefur ríkisstj. lýst yfir því, að hún muni láta fram fara allsherjarendurskoðun á alþýðutryggingunum nú á þessu ári, og enginn vafi er á, að sú endurskoðun mun hafa í för með sér mikið aukin framlög. Að vísu er ekki að vita, hve mikið það verður á þessu ári, en hins vegar tel ég, að þegar svo vel árar sem nú, eigum við ekki að láta tækifærið fara fram hjá okkur til þess að leggja mikið fé til tryggingarmálanna, og verði afgangur á þessu ári frá lögbundnum greiðslum, verði það fé lagt í sjóð, sem eingöngu verði varið til trygginga síðar.

Þetta voru stærstu till. Þá eru aðrar smærri till., t.d. númer XVI, um hækkun á till. til náttúrufræðifélagsins úr 6 þús. í 15 þús. kr. Hér er um smáupphæð að ræða. Það væri ástæða til að veita náttúrufræðifélaginu stærri upphæð, styrkja það til að byggja yfir safnið. Þó er ekki fært að gera slíka till. að þessu sinni, en hér er um að ræða, að það geti haft starfsmann og launað bann sæmilega.

Þá er till. undir lið XXVI, um hækkun úr 2 þús. í 5 þús. kr. til mæðrastyrksnefndar. Hér er um þarft mál að ræða, og e.t.v. gæti fjvn. séð sér fært að hafa þetta nokkru hærra.

Ég er meðflm. að ýmsum öðrum till., sem aðrir munu mæla með, en réttustu meðferðina teldi ég að vísa nú till. til n. og fresta umr., þar til n. hefur fjallað um þær.