01.02.1943
Sameinað þing: 18. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 255 í B-deild Alþingistíðinda. (506)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1943

Sigurður Guðnason:

Herra forseti. — Ég ætla að fara nokkrum orðum um brtt., sem ég á hér á 312. þskj. Fyrst er XVIII. brtt, á þessu þskj., um styrk til Leikfélags Reykjavíkur. Við flm. þessarar till. leggjum til, að styrkurinn sé hækkaður úr 12000 kr. í 20000 kr. Í sambandi við þessa brtt. er það að segja, að allir eru sammála um það, að leikstarfsemi er hið mesta menningarmál. Leikfélag Rvíkur hefur nú að vísu fengið nokkurn ríkisstyrk undanfarin ar, en svo undarlega bregður við, að félagið er venjulega í skuld við ríkissjóð í hvert sinn, er það fær styrkinn. Skemmtanaskattur sá, sem lagður er á félagið, er venjulega hærri en styrkurinn, sem það fær, og hefur styrkurinn þess vegna alltaf verið hækkaður til að mæta því. Mér þykir undarlegt, ef menn eru sammála um, að þetta sé að styrkja þá menningarstarfsemi, sem leikfélagið hefur rekið af þrautseigju og dugnaði.

Þá er önnur smátill., sem ég á, XXV. brtt. á sama þskj., um nokkra hækkun á framlagi til styrktarsjóðs verkamanna- og sjómannafélaganna í Rvík. Til þessa er í frv. gert ráð fyrir 4000 kr., eins og mun hafa verið að undanförnu, og mun sú upphæð hafa verið miðuð við það, að í þessum félögum væru um 4000 menn. En nú eru þeir líklega orðnir 8000 eða 9000. S.l. ár munu hafa verið veittar úr sjóðnum 6000 kr. til 60 eða 70 manna, og mun flestum þykja það lítið nú á tímum, sem fellur í hlut hvers eins, þegar ekki stærri upphæð er skipt milli svo margra. Ég fer fram á, að upphæðin sé hækkuð í 8000 kr.

Þá á ég ásamt tveim öðrum hv. þm. XXIII. brtt. á sama þskj. Hún er um það, að liðurinn „Til framleiðslubóta og atvinnuaukningar, 200 þús. kr.“ “ orðist svo: „Til verklegra framkvæmda í atvinnuaukningarskyni, í samráði við bæjar- og sveitarstjórnir, 1500000 kr.“` Um þetta er það að segja, að síðustu árin hefur að vísu ekki verið þörf á atvinnubótastyrk, og er öllum kunnugt um orsökina til þess. Hún er ekki sú, að atvinnuvegir þjóðarinnar hafi fært mönnum vinnu, heldur hin, að útlendur her hefur setzt hér að og nytjað það vinnuafl, sem svikizt hafði verið um að nytja þangað til. Og nú, þegar setuliðið er farið að fækka mjög íslenzkum mönnum í þjónustu sinni, hafa atvinnuvegir þjóðarinnar ekkert verkefni handa þeim, sem þaðan losna. Fyrrverandi ríkisstj. gekkst beinlínis fyrir því, að setuliðið fækkaði verkamönnum í þjónustu sinni, og bar því við, að þjóðarbúið þyrfti á auknu vinnuafli að halda. En þegar herliðið tekur þetta til greina, kemur í ljós, að þjóðarbúið hefur alls ekkert að gera við þann vinnukraft, sem þannig losnar. Síðan í haust hefur dæmum þess farið fjölgandi, að menn færu niður að höfn að morgni dags og heim aftur án þess að hafa fengið nokkuð að gera. Með þeirri dýrtíð, sem nú er, getur enginn verkamaður staðizt það til lengdar að ganga atvinnulaus marga daga í viku. Við erum sannfærðir um, að hér tekur við sama ástand og áður var, ef ekki verður við því gert í tíma. Undirstaða að öllum styrkjum og framkvæmdum, sem hér er verið að ákveða, er sú, að vinnuorka þjóðarinnar sé nytjuð, en atvinnurekendur landsins hafa ekki reynzt færir um það, eins og í ljós kom árin fyrir stríðið. Þessi till. okkar um hálfrar annarrar millj. framlag er borin fram vegna þess, að vel getur komið fyrir, að atvinnuleysi verði tilfinnanlegt þegar á næsta ári, nema eitthvað sé gert til atvinnuaukningar. Ef efni vantar t.d. í vegi, brýr og slíkt, þá verður ekki hægt að nytja þann vinnukraft, sem fyrir hendi er, og lendir það þá á bæjar- og sveitarfélögunum að sjá þeim mönnum, sem atvinnulausir verða, fyrir einhverjum störfum. Þess vegna þarf að gera ráðstafanir til tryggingar því, að það komi ekki fyrir aftur, að menn eigi við skort að búa hér á landi, þó að eitthvað harðni í ári. Þegar setuliðsvinnan leggst niður, verður allt að vera undir það búið, að hægt sé að skipuleggja þjóðarbúið að nýju. Til okkar koma daglega menn, sem segja, að þeim hafi verið sagt upp vinnu hjá setuliðinu vegna samninga við stjórnarvöldin, enda þótt setuliðið hafi oft þurft á vinnukrafti þeirra að halda. Ég tel það ekki viturlegan búskap að vinna að því að setuliðið hætti framkvæmdum þeim, sem það hefur hér á hendi, þegar sýnt er, að þjóðarbúið hefur ekkert að gera með þann vinnukraft, sem við þær framkvæmdir var bundinn.

Að öllu þessu athuguðu verður ekki deilt um nauðsyn þessarar till. okkar. Hins vegar dylst mér ekki, að þessi upphæð mundi hrökkva skammt til að vega upp á móti því, ef setuliðsvinnan hyrfi alveg. En það verður fróðlegt að sjá, hvort á hv. Alþ. er skilningur ríkjandi á nauðsyn þess að skipuleggja þjóðarbúskapinn þannig, að við getum verið við því búnir, að svo fari á næstunni.

Ég er hræddur um, að langan tíma þurfi til að koma þessu í rétt horf. Skipulag atvinnuveganna þarf að vera fyrir hendi, og til þess þarf nokkurt fé. En ef ekkert er aðhafzt, er atvinnuleysi og fjárkreppa í vændum, sem fyrst kemur niður á bæjunum, en síðan á ríkinu.