02.02.1943
Sameinað þing: 19. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 260 í B-deild Alþingistíðinda. (511)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1943

Sigfús Sigurhjartarson: Herra forseti. — Það hefur verið mikið um það rætt af þm. undanfarið, að allhart og óþyrmilega hafi verið ráðizt að virðingu þingsins nú upp á síðkastið. Það hefur jafnvel verið rætt um það, þótt ekki væri í fullri alvöru, hvort þm. ættu ekki að mynda með sér stéttarfélag og ganga inn í Alþýðusamband Íslands eða eitthvað þess háttar. Hv. 1. þm. Rang. sagði hér í gær, að framkoma okkar sósíalista hér væri aðeins til þess að vekja sundrung og eyðileggja virðingu Alþ. Í því sambandi minntist hann á afgreiðslu þál. um verðuppbætur á landbúnaðarafurðir á síðasta þingi og sagði, að framkoma okkar í því máli væri nokkuð, sem væri geymt, en ekki gleymt. Ég vil því rifja ofurlítið upp afstöðu okkar til þess máls. Þegar þessi þáltill. kom fram, lá engin grg. fyrir um það, hve mikil útgjöld það mundi baka ríkinu, ef hún yrði samþ. Þegar hún var svo tekin fyrir, var rætt um að vísa henni til fjvn., en þá reis hv. þm. Borgf. upp, — en hann á sæti í fjvn., — og taldi þess enga þörf að láta þáltill. ganga til n. Það varð svo endirinn á, að það var samþ. að vísa þessari þáltill. ekki til neinnar n., og það leit jafnvel út fyrir, að hún gengi í gegn án umr. En þá kvaddi sér hljóðs hv. 5. þm. Reykv. (BrB) og lagði til að verðbæta heldur vörur, sem seldar væru á innlendum markaði, og munu margir viðurkenna, að hér hafi verið farið inn á rétta braut. En þó að ýmsir hafi viðurkennt þetta, var þó þessi till. felld með 24:6 atkv. Við atkvgr. um þáltill. greiddum við sósíalistar svo ýmist atkv. gegn málinu eða sátum hjá.

Ég hygg, að nú muni engum blandast hugur um, að betra hefði verið að athuga þessa þáltill. nánar í stað þess að hrapa þannig að afgreiðslu hennar við eina umr. og án þess að athuga hana nokkuð í n., en hún mun nú hafa bakað ríkissjóði um 20-30 millj. kr. útgjöld. Þjóðin mun nú sjálf geta lagt dóm sinn á það, hvort hún telji, að virðing Alþ. hafi aukizt við það að afgreiða þessa þál. við eina umr. og án athugunar í nefnd.

Það mál, sem nú liggur fyrir, er saga, sem endurtekur sig. Það er nú helzt að sjá, að afgreiðsla þessarar þál. eigi að endurtaka sig í afgreiðslu fjárl. Það eru sömu mennirnir, sem afgreiddu þessa þál. svo flausturslega, sem nú standa að því að láta ráðstöfun á 20–30 millj. kr. aðeins ganga í gegnum eina umr.

Hv. 1. þm. Rang. getur haldið því fram, að við þm. sósíalista séum að stofna hér til aukins glundroða og rýra virðingu þingsins með því að mótmæla þessum vinnubrögðum, en það mætti vera öllum ljóst, að einmitt þessi aðferð, sem hann og fylgismenn hans vilja hafa við afgreiðslu fjárl., mun verða til þess að rýra mjög virðingu þ. og valda þar auknum glundroða.

Ég sé ekki ástæðu til að ræða þetta mál mikið. Það er svo skýrt, að þess gerist ekki þörf. En væntanlega hverfur Alþ. frá þessari óverjandi afgreiðslu fjárlagafrv., því að hún mundi verða Alþ. til skammar.

Á þskj. 312 er brtt. XXIX, um að fella niður XIX. lið fjárlagafrv., en hann er um heimild handa ríkisstj. til að lækka útgjöld ríkisins, sem ekki eru bundin í öðrum l. en fjárlögum, um allt að 35%, ef hún telur sýnilegt, að tekjur ríkissjóðs lækki verulega vegna styrjaldarástandsins. Hér er um það að ræða, hvort þingið eigi að halda virðingu sinni og heiðri. Hér er Alþ. að afhenda ríkisstj. vald, sem því ber með réttu. Nú er eftir að vita, hvort Alþ. vill standa við þessi 65%. Það má vera, að margur segi, að þeir atburðir geti gerzt, sem geri óumflýjanlegar þær breytingar á fjárl., sem hér er farið fram á, og ef þær breytingar eru gerðar, ber Alþ. að samþykkja þær. Því að ef slíkir átburðir gerast, mun Alþ. verða kvatt saman til skrafs og ráðagerða, og ætti það að taka ákvörðun um, hvort víkja ætti frá fjárl. að verulegu leyti.

Það virðist vera ætlun Alþ. að hespa af þær fjárveitingatill., sem fram hafa verið bornar af okkur sósíalistum. Hv. forseti var þegar með hamarinn á lofti og byrjaður að hafa yfir: „Þar sem enginn,“ o.s.frv., þegar við sósíalistar kvöddum okkur hljóðs. Við komum fram með margar brtt. í þeim tilgangi að fá 2. umræðu haldið áfram, til þess að hægt væri að ræða þetta mál nánar. Við höfum náð tilgangi okkar, því að umræðu var frestað.

Enn á ný vil ég leggja til, að hv. forseti leyfi, að umr. verði frestað, svo að n. geti athugað brtt. og komið fram með nál., áður en atkvgr. fer fram.