02.02.1943
Sameinað þing: 19. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 267 í B-deild Alþingistíðinda. (514)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1943

Gísli Jónsson:

Herra forseti. — Á þskj. 320 ber ég fram brtt., þar sem ég fer fram á að 50000 kr. verði lagðar til þess að byggja nýja símalínu um Suðurfirði og aðrar 50000 kr. til þess að leggja aðra linu frá Vattarnesi um Múlahrepp. Ég vil leyfa mér að benda á, að árið 1935 voru báðar þessar línur teknar upp á símalög ásamt öðrum 5 línum, sem þá voru teknar upp, og þetta eru svo að segja einu línurnar, sem þá voru samþykktar og eftir er að framkvæma, og enn þá er ekki hafizt handa um framkvæmdir á í landinu. Ég vil mælast til þess, að hv. þm. unni þessu kjördæmi þess sjálfsagða réttar að fá framkvæmd þau verk, sem voru lögboðin 1935, eins og öðrum héruðum. Á þessu sama þskj. er einnig brtt. frá mér um að hækka læknisvitjanastyrk í Reykhólahéraði, Gufudalssveit og Flatey, og kemur þetta af því, að Reykhólasveit er læknislaus síðan á nýári og íbúarnir, sem áttu að sækja lækni þangað, verða nú að sækja lækni annaðhvort í Stykkishólm eða í Dalasýslu, og gerir það kostnaðinn miklu meiri. Flatey er læknislaus frá 1. janúar, og verður að sækja lækni í Stykkishólm, og Múlahreppur, sem er læknislaus, verður að sækja lækni í Stykkishólm. Ég vænti þess, að þm. líti með velvilja á þessar sanngjörnu kröfur.

Ég vil þá minnast ofurlítið á það mál, sem hér er á ferðinni, sem er 18. gr. fjárl., — um að setja skáld og listamenn inn á 18. gr. Ég lít svo á, að þegar íslenzka ríkið er að greiða alveg sérstaklega fyrir skáld- og listaverk, sé þar verið að greiða fyrir verk, sem hafi verið gerð, það sé verið að veita verðlaun, nokkurs konar bókmennta- eða skáldalaun, líkt eins og Nobelsverðlaun, og mér finnst, að þessi stefna að fara með þessa menn inn á 18. gr. fjárl. fari í bága við þá stefnu, sem liggur á bak við. Mér finnst langtum eðlilegri sú skoðun, sem réði því, að Menntamálaráð var stofnað, að til sé stofnun í landinu, sem meti það, sem gert er, og veitti þessa styrki sem laun fyrir afköstin. Þegar búið er að setja stóran hóp manna inn í fjárl., er búið að tryggja þeim lífstíðarviðurværi, og eftir það telja þeir sig engar skyldur hafa gagnvart þjóðinni, nema eftir því sem þeim lízt sjálfum. Hins vegar er sú hætt;a, alveg eins og með Halldór Kiljan Laxness, að verða ekki jafnvel metnir fyrir léleg verk eins o; góð verk, og það er ekki nema skynsamlegt. Hitt má deila um, hvort menntamálaráð er rétt valið. Úr því á þá að bæta. Ég mundi ekki geta fallizt á, að þessir styrkir yrðu veittir í 18. gr. Hv. 7. landsk. minntist á það í ræðu sinni, að þegar þessir menn, listamennirnir, væru komnir inn í þessa gr., ættu þeir að vera þar framvegis. Ég get ekki fallizt á það. Hann lét og falla orð um það, sem er athyglisvert, að það yrði engin3.i friður um þessi mál, fyrr en uppfyllt væru loforðin við listamennina. Leyfist mér að spyrja: Er hér um hótun að ræða frá þeim mönnum, sem standa á bak við? Á að skilja það svo, að ef ekki verði uppfylltar þessar kröfur, verði verkfall í þessari grein. Ég skal a.m.k. ekki verða með í að uppfylla þær verkfallskröfur.

Í sambandi við Halldór Kiljan Laxness vildi ég upplýsa það, að ég hef um undanfarin ár ferðast víða um heim og mér til skapraunar hitt menn, sem hafa lesið verk Kiljans, og þeir menn, sem ekki hafa þekkt neitt annað af Íslandi heldur en það, sem þeir hafa kynnzt í gegnum þau verk, hafa ekki haft mikið álit á þjóðinni. Þeir hafa aldrei trúað því, að hér byggi annað en skrælingjar, og ekki skilið í því, þegar þeir hafa mætt mönnum, sem ekki voru skrælingjar, að þeir væru aldir upp í landinu. Ég vil benda á það, að fyrir stríð var ég staddur í Amsterdam. Þar var verið að halda sýningu, sem átti að vera frá Íslandi, og það gekk svo langt, að við urðum í gegnum konsúlatið að stöðva þessa sýningu. Við fengum enga skýringu á þessu aðra en þá, að þessi „sena“ væri búin til eftir bókum Halldórs Kiljans Laxness. Það getur vel verið, að þm. vilji launa slíkt, en einkennilegt finnst mér það. Hvað snertir ritgerðir hans um landbúnaðarmál og sveitalíf, vil ég ekki halda fram, að þær séu brunahæfar, en mér finnst, að bændur landsins ættu að svara þeim, eins og þegar þeir neyðast til að svara Þórarni, ritstjóra Tímans, og stinga upp í hann í sambandi við greinar hans um pólitíska andstæðinga. Það er eins svarið, sem Alþ. og þjóðin ætti að gefa slíkum greinum.

Þá ætla ég að minnast á till. sósíalista á þskj. 312. Ef farið er í gegnum þessa liði, eru þeir margar milljónir, 5 millj. kr. liður við 20. gr., svo er 250000 kr. liður við 13. gr. og 500000 kr. liður við 13. gr., um Krýsuvíkurveg, og síðan við 16. gr. 11/2 milljón. Og að bera þetta svo saman við þær ræður, sem hver þm. sósíalista af öðrum heldur. Það er ekki hægt að fá nema eitt út úr þessu, og það er, að stefna þessara manna er að knýja það fram, að ríkissjóður láti framkvæma svo mikið á þessu yfirstandandi ári, að þeim sé alveg óhætt andmælalaust að halda uppi áróðri og kröfum á útgerðarmenn og atvinnurekendur á Suðurnesjum. Þetta er ekki gert til annars en hægt sé að segja við verkamenn og sjómenn í Keflavík og Sandgerði: „Við knýjum stj. til þess að láta ykkur hafa vinnu í Krýsuvíkurveginum.“ Hann var aldrei lagður til annars en halda uppi vinnu, — það var undir stj. Jónasar —, og það hefur aldrei verið nein ástæða önnur fyrir því að halda honum áfram en að verðlauna með því menn, sem ekki vilja vinna. Þeir gleyma því bara þessir menn, að þegar búið er að leggja atvinnuvegina í rúst og frystihúsin eru stöðvuð og búið að stöðva allan útflutning landsmanna, að þá er ekkert eftir til að standa undir þeim gjöldum, sem þarf til þess að halda uppi vinnu hjá því opinbera í landinu. Þetta kom skýrt fram hjá hv. 2. þm. Reykv., því að hann gerði fyrirspurn til stj. um, hvort tilætlunin væri að lækka laun verkamanna. Hann vildi fá tryggingu fyrir því fyrst og fremst, að launin frá því opnbera væru ekki lækkuð, er í að ef það vær í ekki tryggt, væri ekki hægt að leika þennan leik. Ég held, að þm. ættu að gera sér það ljóst, þegar þeir greiða atkv. um þennan lið, hver er tilgangurinn með till., og það er þess vegna, sem ég vildi minnast á þetta mál hér.

Þá vil ég ekki láta hjá líða að minnast hér á eitt mál, sem mér finnst hafa verið of lítið rætt, en það er um 25 millj. kr. uppbótina frá síðastliðnu sumri, sem hver eftir annan hefur verið að taka upp. Því er núið okkur um nasir, að við skömmumst okkar fyrir að hafa fylgt því. Mér finnst skylt að mótmæla þessari ásökun. Ég mæli þetta ekki frekar vegna þess, að ég sé þm. sveitamanna en verkamanna, því að það eru fleiri verkamenn en bændur í Barðastrandarsýslu. Ég mæli út frá þeim rökum, sem ég hef kynnt mér í málinu, og vil benda hv. þm. á að líta meira en til annarrar hliðarinnar. Ef við lítum á það, að uppbætur á landbúnaðarafurðir eru fyrst og fremst fram komnar af því, að þær kringumstæður hafa skapazt í landinu, sem gera það ókleift að selja vörur á frjálsum markaði, er þá nokkurt vit í því að láta það ganga yfir fátækustu mennina, að óviðráðanleg öfl hafa skapað það öngþveiti, að þeir geta ekki komið vörum sínum á markað? Þetta er viðurkennt af brezku stj. Hún sá réttlætið í þessu, en Bretar hættu að verðbæta þessar vörur vegna þess að Íslendingar græddu svo stórkostlega. Þess vegna var sjálfsagt að taka þennan gróða og bæta hinum, sem töpuðu.

Viðvíkjandi kjötinu vil ég benda á, að árit) 1940 er kjötverðið ekki frjálst, heldur bundið, þannig að bændur fá ekki nema kr. 1.80 upp í kr. 2.00 fyrir kg, en allt árið hefði verið hægt að selja það dýrara, ef salan hefði verið frjáls. 1941 fá þeir kr. 2.80 til kr. 3.00, en allt árið hefði verið hægt að selja það fyrir kr. 5.00. Hvernig getur þing og stj. neytt bændur til þess að selja fyrir svona lágt verð án þess að bæta þeim það upp, og hvað hefur ríkissjóður grætt á því margar milljónir að halda dýrtíðinni niðri? Vilja ekki þeir, sem eru dag og nótt að níða þessa stétt, — vilja þeir ekki reikna þetta út? Eini liðurinn, sem ég mundi breyta til um, ef ég ætti að greiða atkv. aftur, er síldarmjölið. Ég viðurkenni, að það var röng stefna, en því er þá til að svara, að þetta er fordæmi, sem búið er að gera hér í þinginu á undanförnum árum, svo að það er ekkert nýtt, sem hér er verið að framkvæma. Ég vil bara leyfa mér að spyrja, hvað það kostaði margar milljónir, þegar sósíalistar og Alþfl. knúðu fram afnám gerðardómsl. og þær launahækkanir, sem þá urðu. Ég gæti lagt fram sannanir fyrir því, að verkamaður hafi haft kr. 250.00 á dag, en það samsvarar 75000 kr. tekjum hjá bónda, sem vinnur 300 daga á árinu. Ég skil ekki í því, að nokkur maður, sem athugar þetta mál með sanngirni, geti fengið sig til að greiða atkv. gegn því, að þessi eina stétt geti fengið kjarabætur og fremja með því hina mestu rangsleitni gegn henni. Og ég held, að það sé ekki til gagns, hvorki fyrir þingið né þjóðina, að halda uppi ófriði milli verkamanna og bænda, sem vilja vinna saman og þurfa að vinna saman, ef vel á að vera. Það er ekki heldur verið að bæta bændum upp smjörið núna, þótt verið sé að greiða mismuninn milli þess, sem er útsöluverð, og þess, sem þeir fá. Þetta er dýrtíðarráðstöfun, sem ekki er hægt að skrifa á þeirra reikning. Ég vænti þess því, að þm. láti alveg niður falla að gera þessar ómaklegu árásir á bændastéttina hér á þingi. Þessir menn tala líka öðruvísi til hennar, þegar þeir eru að fala hjá henni atkvæðin, a.m.k. talaði hann öðruvísi, kommúnistinn, sem var á 13 fundum í Barðastrandarsýslu. Þá var ekki verið að svívirða bændur fyrir uppbætur eða annað í sambandi við það mál.