02.02.1943
Sameinað þing: 19. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 271 í B-deild Alþingistíðinda. (518)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1943

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. — Mér datt í hug út af ræðu hv. þm. S.-Þ., að það mundi ekki vera nema réttmætt, að Sþ. og þar með við, sem eigum sæti í Nd., fengjum að njóta þeirrar skemmtunar, sem Ed. er aðnjótandi á degi hverjum, og er því ekki nema eðlilegt, að hann léti nú fyrir okkur þennan grínleik eins og Ed. En það er svo, að öllu gamni fylgir nokkur alvara, og það, sem var alvara í sambandi við þennan grínleik, var vitleysan, heimskan og afturhaldið, sem óð uppi í ræðunni, sem hefur á ákveðnu tímabili megnað að setja sitt mark á Alþ. Það er það hörmulega, sem hefur gerzt, og það, sem nú liggur fyrir, er, hvort takast megi að þurrka þennan blett, sem settur hefur verið á þ. Það er það, sem barizt er hér um.

Hv. þm. lýsti því í ræðu sinni, að utangarðsstefnan ætti að vera í fullu gildi. Það tókst fyrir haktjaldamakk að skapa meiri hl. á Alþ. fyrir þessa utangarðsmenn. Nú liggur fyrir að taka upp aftur nokkur af fremstu skáldum og listamönnum, sem hv. þm. S.-Þ. tókst að koma út af 18. gr. með baktjaldamakki, hótunum og hrossakaupum á bak við tjöldin. Þessi barátta hér á þ. var svo hörð, að frægt er orðið. Hún varð til þess, að hv. þm. S.-Þ. tókst að sölsa undir sig það vald, sem hann hefur síðan beitt þannig, að með endemum er og til smánar fyrir alla þjóðina, því að eitt af því allra helzta, sem hefur orðið til að rífa niður virðinguna fyrir Alþ., er það, hvernig farið hefur verið með menningarmál okkar.

Þessi hv. þm. lýsti því mjög skarplega með öllu því ofstæki, sem honum er lagið, að gera eigi menn eins og Halldór Kiljan Laxness svo að segja útlæga, það eigi að gera ráðstafanir af hálfu ríkisins til að binda enda á starfsemi slíkra manna og a.m.k. ná sér niðri á þeim eins og hægt er. Hann minntist um leið á tvö af helztu skáldum okkar, sem nú eru látin, eins og hann væri að reyna að nudda sér utan í þessi skáld til þess að dylja fjandskap sinn gegn menningarmálum okkar. Hann tilnefndi þá Stephan G. Stephansson og Þorstein Erlingsson. En á sínum tíma var alveg sams konar barátta um þessi skáld, þó ekki eins hörð og verið hefur um Halldór Kiljan Laxness. Það var ráðizt á Þorstein Erlingsson fyrir það, að hann var sósíalisti, vegna þess að hann var bolsévíki, eins og nú mundi vera sagt. Það var ráðizt á hann fyrir að hafa gert árásir á einstakar stéttir þjóðfélagsins, fyrir að hæða guðstrúna o.þ.h. Síðan minntist hann á Stephan G. Stephansson. Hann hefði átt að sleppa því. Þessi maður var að tala um, að það væru erindrekar Rússa, sem helzt þyrfti að gera útlæga úr þjóðfélaginu. Stephan G. var ofsóttur þannig fyrir baráttu sína í síðustu styrjöld, að ýmsir þokkapiltar, útbelgdir af föðurlandsást, ætluðu að fá Stephan G. settan í tugthús í Kanada fyrir að halda fram sósíalistískum skoðunum. Það voru menn af sama tagi og þessi hv. þm., sem hélt hér áðan eina af sínum endemisræðum á móti Halldóri Laxness. Af hverju fara þessir þokkapiltar svona að? Það er af því, að þeir vilja gera óvirka menn, sem hafa þjóðmálaskoðanir eins og Stephan G. og Halldór Laxness, menn, sem hafa sósíalistiskar skoðanir. En þegar Stephan G. er dáinn, kveður við annan tón. Þá er ekki aðeins svo, að hann sé kannske mestur maður af okkar skáldum. Sjálfur segir hv. þm. S.-Þ., að hann sé mesta skáld Kanada, og sumir hafa sagt, að hann væri mesta skáld brezka heimsveldisins. Nú er reynt að nudda sér utan í þessa menn, en meðan þeir lifa, vil ja piltar eins og hv. þm. S.-Þ. fá þá setta í tugthús, vilja e.t.v. fara að eins og sá maður, sem hv. þm. S.-Þ. fyrir þrem árum vitnaði til og vildi taka sér til fyrirmyndar, sem sé Hitler, vilja gera þá útlæga úr landinu, brenna bækur þeirra o.þ.h. Það er ekki liðið mönnum úr minni, að á vetrarþinginu 1939, á sama tíma og hv. þm. S.-Þ. hóf árás sína á skáld og listamenn og byrjaði baráttu sína fyrir að ná þeim út af 18. gr., á sama þinginu og hann flutti hið fræga höggormsfrv., hið mesta svívirðingarmál, sem hér hefur sézt, þá sagði hann, að gera þyrfti í litlum stíl á Íslandi, það sem Hitler gerði í stórum stíl í Þýzkalandi. Þá var ekki verið að leyna því, hver fyrirmyndin væri, það er frekar verið að draga fjöður yfir það nú, en það er hins vegar jafngott, að allur þingheimur átti sig á því, um hvað er verið að berjast í sambandi við 18. gr. Það fer ekki nema vel á .því, að þessi hv. þm. S: Þ. fari stundum að vitna til þessara dánu ágætu skálda, reyni að flíka þeirra nöfnum og reyni að dylja menn því afturnaldi, sem hann er að boða. Það er ekki nema eðlilegt, að reynt sé að dylja svo slæma skoðun og ljóta hugsun með slíku. En út af tali hans um, hvernig sum skáld lýsi þjóð okkar, datt mér í hug, hvort við mundum hafa reynt að svelta Bólu-Hjálmar vegna lýsingar hans á Akrahreppi eða lýsingar hans á íslenzku þjóðinni í þjóðhátíðarkvæði hans. Ég get vel trúað þessum hv. þm. til þess, en ég trúi ekki meiri hl. Alþ. til þess. Hann talaði um, við hvaða fátækt Stephan G. hefði átt að búa. Já, hann bjó ekki í 9 herbergja villu né lét afturhaldið í landinu halda sér uppi. En hann var ávallt reiðubúinn að berjast fyrir sósíalismanum. Hann barðist ávallt eins og hver annar fátækur maður fyrir hugsjónum sínum og hagsmunum annarra. En eftir að hann er dáinn, metur íslenzka þjóðin hann meira en nokkurn annan af skáldum sínum. Það mega vera blindir menn, sem á sinni eigin ævi hafa upplifað aðrar eins byltingar á áliti þeirra manna, sem héðan eru gengnir og eru samt eins starblindir og fullir af hatri og heift eins og hv. þm. S.-Þ. er út í þá, sem enn lifa og halda áfram því verki, sem Þorsteinn Erlingsson og Stephan G. Stephansson hafa unnið.

Hitt finnst mér ekki nema eðlilegt, að þeir menn, sem trúa því, að hægt sé að kaupa sannfæringu manna og beygja menn til þess að láta af sannfæringu sinni með því að kúga menn, haldi fast við þá stefnu, sem tekin var upp, þegar 18. gr. var tekin af fjárl. Þessi stefna var flutt fram á þingi í trausti þess, að hægt væri að brjóta niður framfarir í vissum efnum hjá þjóðinni. En reynslan hefur orðið þveröfug. Hv. þm. S.-Þ. var að státa sig af því, að hann hefði barizt á móti sósíalismanum á Íslandi með gáfum sínum og slíku, hann væri maður, sem væri að gera sósíalismanum ókleift að vera til hér á landi. Hver er svo árangurinn af starfi þessa manns'? Sósíalisminn hefur aldrei verið eins sterkur hér á landi eins og einmitt nú. Þjóðin hefur aldrei aðhyllzt hann í eins ríkum mæli, aldrei gerzt fylgjandi honum eins ört eins og nú. Það mega vera meira en blindir menn, sem sjá ekki sjálfir, hvernig allt skraf og öll barátta gegn sósíaIismanum hefur haft neikvæðar afleiðingar við það, sem ætlað var og þeir sömu menn hugsuðu, að mundi verða, sem mest hafa barizt á móti honum. Og ég held, að, það sé rétt að segja það, að það hefur fátt orðið til þess að vekja aðra eins samúð með sósíalismanum hér á landi eins og það, að sá maður, sem hatramast hefur barizt á móti honum, hefur beitt sér svo mikið á móti menningarfrömuðum þjóðar okkar, sem haldið hafa uppi hróðri okkar inn á við og út á við í listum og bókmenntum. Atkvgr., sem fer fram nú um 18. gr., verður prófsteinn á þingið um þessa stefnu. Það er áreiðanlega tími til kominn að þvo af Alþ. Íslendinga þann blett, sem hv. þm. S.-Þ. tókst að setja á það með því að fá skáld og listamenn tekna af 18. gr. fjárl. Atkvgr., sem fer fram um þá gr., kemur til með að vissu leyti að sýna, hvaða stefna sé nú uppi um þetta hér í þinginu. Og ég fyrir mitt leyti er svo bjartsýnn, að ég trúi því, að þau öfl, sem vilja styðja að menningu og frelsi Íslendinga í þessu efni, verði yfirsterkari, en öflin, sem vilja framkvæma það í smáum stíl, sem Jónas Hallgrímsson og aðrir slíkir hafa gert í stórum stíl, verði í minni hluta.