02.02.1943
Sameinað þing: 19. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 274 í B-deild Alþingistíðinda. (519)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1943

Þóroddur Guðmundsson:

Herra forseti. —Þessar umr., sem hér hafa farið fram, sýna glögglega, að það var ekki ástæðulaus ótti, sem við bárum í brjósti, sósíalistar, fyrir því, að fjárlagafrv. yrði afgr. með þeirri óvenjulegu aðferð, sem hér hefur með offorsi verið barið í gegn, að höfð yrði. Það hefur greinilega sýnt sig, að þótt að sjálfsögðu margir hv. þm. séu á móti því að viðhafa þessa aðferð og vildu gjarnan, að fjárlagafrv. hefði verið afgreitt á venjulegan hátt, þá eru nokkrir hv. þm., hreinræktaðir fulltrúar afturhaldsins og atvinnurekendavaldsins, sem hafa unnið að því. Þeir skilja, að atvinnuleysi er vatn á millu atvinnurekendastéttarinnar í landinu, og leggja þess vegna lið sitt til þess að vera á móti verklegum framkvæmdum í landinu. Í ræðu hv. þm. Barð, kom fram sjónarmið atvinnurekandans og peningamannsins. Það hefur komið fram í blöðum hér á landi, að það æskilegasta ástand, sem gæti skapazt, væri það, að framboð vinnuafls yrði meira en eftirspurnin, en að það hefði verið vöntun á vinnuaflinu, sem hefði skapað ósvífnar kröfur af launþeganna hálfu. Og það er greinilegt, að það mundi verða til hagsbóta atvinnurekendastéttinni, ef skapazt gæti atvinnuleysi. Þá yrði betra að beygja verkamenn og kúga til þess að láta af kröfum sínum og fá þá, sem ósjálfstæðir og litilsigldir eru, til þess að vinna fyrir minna en taxtakaup, eins og atvinnurekendur hafa svo oft leikið sér að. Þann tíma þrá atvinnurekendur, og það kom greinilega fram í ræðu hv. þm. Barð. þetta hreinræktaða sjónarmið afturhaldsins og hins freka atvinnurekanda, sem fyrst og fremst blínir á sína hagsmuni, en vill ekkert tillit taka til hagsmuna launþeganna, sem litur á launþegana eins og hráefni, vélar og verkfæri og annað það, sem hann þarf til þess að reka atvinnurekstur sinn. Hann, atvinnurekandinn, setur þá á sama borð eins og hluti, sem hann þarf til atvinnurekstrar sins. Og það er ekki efi á því, að Alþ. getur mikið hjálpað atvinnurekendum til þess að skapa atvinnuleysistíma, og að því vilja þeir harðsvíruðustu fulltrúar afturhaldsins vinna. Það er þeirra hagur, að slíkir tímar skapist. En það er líka skylda fulltrúa launþega og frjálslyndra manna að fallast ekki á þetta þrönga sjónarmið afturhaldsins og atvinnurekendavaldsins. Ég ætla ekki að eyða löngum tíma í að ræða þetta. Það er þegar búið að útskýra það hér á hæstv. Alþ., hvort æskilegt sé að kasta höndum að því að afgreiða fjárl. og hvað hætt er við, að fulltrúum afturhaldsins og atvinnurekendavaldsins takist að koma ár sinni svo fyrir borð, að mjög litlu verði varið til verklegra framkvæmda og það geti þannig komið það ástand, sem þeir óska eftir.

Það hefur verið bent á það hér, hvað Alþ. gerði mikla skissu, þegar þáltill. frá sumarþ. fór í gegn, án þess að hv. þm. gæfist kostur á að athuga hana til hlítar, og margir þm. greiddu henni atkv. án þess að gera sér grein fyrir, hvað hún þýddi. Aftur á móti eru ýmsir menn, sem ekki verða sakaðir um allt of mikla ábyrgðartilfinningu, sem hafa sjálfsagt vitað, hvað þeir voru þá að gera. Og þeir voru áhugasamir um það, að sem minnstar umr. yrðu um þáltill., en að hún yrði knúin í gegn með offorsi og frekju. Þeir treystu því, að hægara væri að koma áformum sínum þannig fram, og það hefur verið rétt hjá þeim, En þeir hv. þm., sem eftir á hafa séð, að þeir gerðu þarna skissu, hefðu átt að læra af þessu og ekki brenna sig aftur á sama soðinu. Og margir hv. þm. vildu afgreiða fjárlagafrv. nú á venjulegan hátt, en þeir voru hlunnfærðir og þessi afgreiðsla barin fram a,f gæðingum Sjálfstfl. og Framsfl.

Hv. þm. Ísaf. (FJ) sagði í ræðu sinni: Hvaðan kemur honum (þ.e. mér) réttur til að saka menn um það, að menn hafi greitt atkv. gegn betri vitund? Ég veit vel um þetta, því að ýmsir hv. þm. hafa játað það við mig, að það væri þeirra skoðun, að eðlilegt væri og sjálfsagt og réttlátt að afgreiða fjárl. á venjulegan hátt, en sagt, að þeir hafi verið bundnir í flokkunum. Sumir hv. þm. viðurkenna þetta þannig sjálfir. Svo það er óþarft fyrir hv. þm. Ísaf. að spyrja svona.

Þá var hv. þm. ergilegur yfir því, að sósíalistar væru að draga sig í dilk með Jónasi Jónssyni, hv. þm. S.-Þ., og reyndi hv. þm. Ísaf. að sverja sig úr skyldleika við hv. þm. S.-Þ. og verk hans. En hv. þm. Ísaf. hefur hjálpað hv. þm. S.-Þ. og öðrum afturhaldsseggjum með atkv. sínu um, að fjárl. skuli verða afgr. á þennan óvenjulega hátt, að þeim yrði ekki vísað til n., svo að n. gæti lokið starfi og frv. komið á venjulegan hátt fyrir þingið. Hann hefur greitt atkv. um þetta. Og þó að hann afneiti hv. þm. S.-Þ., hefur hann leikið þetta þjónshlutverk við hv. þm. S.-Þ. eins vel og hann gat.

Þessi sami hv. þm. var að tala um, að það væri vafasamt, að hægt væri að tala um nokkurn minni hl. í fjvn. Hann er nú að staglast á þessu sama, að í raun og veru hafi enginn skoðanamunur verið í n., þar hafi allir verið á einu máli, og þeir hafi sameinazt um eitt nál. Ég hef útskýrt það áður, og beinlínis lesið upp ágreining okkar hv. 6. landsk. þm. (LJós), þar sem við lýsum okkar afstöðu. Og eins og við gerðum grein fyrst fyrir þessu, var þetta betur orðað, en hv. þm. Ísaf. bað okkur að breyta orðalaginu og hafa það eins og gert var. Og við gerðum það eftir beiðni hans að hafa það orðalag á þessu, sem fram er komið. En það er hægara að snúa út úr yfirlýsingunni um ágreining okkar, þegar hann er með því orðalagi, sem hann er heldur en ef það orðalag hefði verið látið standa, sem við hv. 6. landsk. þm. höfðum á þessu fyrst. Mér datt ekki í hug, að þessi hv. þm. Ísaf. hefði komið fram af undirhyggju eða fláttskap. En þegar hv. þm. Ísaf. segir hér í ræðu eftir ræðu, að bezta samkomulag hafi verið í n., fer mig að ;runa, að svo hafi verið, því miður. Ég tók upp nokkrar brtt., sem ég mundi eftir, að ágreiningur hafði verið um í fjvn. Svo koma hv. 1. þm. Rang. (HelgJ) og hv. þm. Ísaf. og segja, að ég hafi ekki farið rétt með, og röksemdin um það var hjá hv. þm. Ísaf. sú, að það væri alls ekki búið að taka afstöðu til þess, hvort fjvn. vildi næla með nokkrum tugum þús. kr. til þess að gera við Menntaskólann á Akureyri. Ég veit, að ég sagði aldrei, að það væli búið að afgreiða þetta mál í n. En við hv. 6. landsk. þm. vildum fá þetta inn í nál., en fundum það svo ekki í nál. Við vildum láta standa þar till. um 50 þús. kr. fjárveitingu til aðgerða á leikfimihúsi þessa skóla, en við fengum því ekki ráðið. Ég get ekki um það fullyrt, að n. muni ekki samþ. þetta. En um það verður ekki deilt, að fjvn. í heild vildi ekki hafa þetta í nál. strax, en við hv. 6. landsk. þm. vildum hafa þetta þar með, og um þetta var ágreiningur.

Hv. þm. Ísaf. sagði, að það hefði verið skylda okkar í þessum svo kallaða minni hl. í n., að ef við hefðum ætlað að gera þetta uppsteyt, þá hefðum við átt að skila sérstöku nál. Þá brosti margur, þegar hann sagði þetta. Slíkur leikaraskapur getur kannske blekkt einhver n, en margir munu hlægja að þessu og öðru í starfi hans í n. Það var gott samstarf, meðan verið var að kjósa hann fyrir formann fjvn. Hann vildi ekki vera „illoyal“ við okkur á meðan, sem studdum hann til formanns í n., en síðan hafa sem mest san1starf við hv. þn1. Borgf. og hv. þm. S.-Þ. Og viðleitni hv. formanns fjvn. hefur verið að hafa sem mest samstarf við þessa menn. En það er nú svo, að það getur gengið tíma og tíma fyrir ýmsa menn að leika sér að því við kosningar og sýna, að þeir hafi gott samstarf við vissa menn, meðan verið er að kjósa þá, en hlaupa svo frá öllu saman eftir kosninguna, eins og þessi hv. þm. (FJ) er vanur að gera. Hann gekk til kosninga sem fulltrúi verkalýðsins, en gekk svo til samstarfs og stuðnings við ríkisstjórnina til þess að framkvæma gengislækkunina 1939. En það er ekki hægt að leika það við alla kjósendur að fara slíku fram og þykjast svo hafa verið að gera sitt bezta.

Þá var það enn eitt, sem þessi hv. þm. var að minnast á. Hann sagði, að það hefði gætt dálítillar ónákvæmni hjá mér, og brosti háðskur yfir því, þegar ég hefði sagt, að til þess að ljúka Öxnadalsheiðarveginum þyrfti ekki nema 360 þús. kr. Og hann tók réttilega fram, hvað vegamálastjóri hefði látið í ljós, að þyrfti til ýmissa vega. Mér var þetta vel kunnugt, og datt mér ekki í hug að segja, að ekki þyrfti nema 360 þús. kr. til þess að ljúka þessum vegi. Þar gætir dálítillar ónákvæmni hjá hv. þm. Ísaf., svo að ég noti hans orðalag, þar sem hann segir, að ég hafi sagt þetta. En ég talaði um, að 360 þús. kr. þyrfti til þess að gera veginn sæmilegan, og það er annað en að byggja hann fullkomlega á þann hátt, sem ráðgert er, sem kostar milljónir. Þessi hv. þm. ætti að gæta dálitið meiri nákvæmni í sínum ræðum, Þá ráðlagði þessi sami hv. þm. mönnum að vera ekki að gera grín að útliti manna. Hann sagði, að ef menn kæmu t.d. órakaðir á fund, þá væri óviðeigandi að geta um slíkt. Það er rétt, og mér mundi heldur ekki koma til hugar annað eins alvöruleysi eins og það að fara að tala t.d. um það, hvað hv. þm. gerir sig stundum teprulegan í málrómnum. Og ég hef heldur alls ekki gert grín að því, að hv. 1. þm. Rang. hefði verið órakaður né að útliti hans á neinn hátt. Ég talaði um, að hann hefði verið á fundi, þegar greidd voru atkv. um mjög alvarlegt mál. Hann sat hjá, þegar greidd voru atkv. um það, hvort ætti að kasta fjárl. hálfköruðum inn í þingið. Svo stendur hann hér upp blóðrauður út að eyrum og stamandi og reynir að bera fram afsakanir fyrir því að hafa orðið að beygja sig á því augnabliki við atkvgr. í n. Þetta er pólitísla mál. Annars hefði ég ekki gert það að umtalsefni. Það er meira en lítið alvörumál, að það skuli geta komið fyrir, að þm., sem eru á réttri skoðun um eitthvert mál, skuli láta kúga sig til þess að breyta á móti sannfæringu sinni. Það er ekkert grínmál. Þetta vil ég leyfa mér að útskýra fyrir hv. þm. Ísaf., sem stundum blandar mjög saman gríni og alvöru.

En ummælum hv. 1. þm. Rang. um mig ætla ég ekki að svara orði til orðs. Honum þóknaðist að lýsa yfir, að það væri vanvirða fyrir Alþ., að slíkur maður eins og ég skyldi hafa komizt hér inn. Ég veit ekki, hvort þessi hv. þm. hefur haft í huga eitthvert stórkostlegt afrek eða stórvirki, sem eftir hann liggi í hans þingsögu, og það hafi komið honum til að tala svo digurbarkalega sem hann gerði. Hann vorkenndi fl. mínum, að ég skyldi sitja hér fyrir hann á Alþ. En það er ekki langt síðan, að margir hv. þm. samþ. það hér á Alþ., að það væri vanvirða fyrir Alþ., að sósíalistar sætu á þingi. Og mínir flokksmenn, sem sátu þá á Alþ., tóku því þá eins og vera bar, eins og þeim ágætu mönnum var líkt, eins og smá skítkasti, sem ýmsum hávaðamönnum og pólitískum misindismönnum tókst að koma fram. Mínir flokksmenn tóku þessu með stillingu og gætni og vorkenndu mönnum, sem gerðu sig seka í því að láta móðursýkistilfinningar ná slíkum tökum á sér. Ég ætla að taka þessum persónulegu árásum með sama jafnaðar geði. Ég tek þetta svo sem hv. 1. þm. Rang. hafi fengið svolítið móðursýkiskast, og þegar það rennur af honum aftur, þá muni hann sjá, að hann hafi ekki orðið neitt meiri maður af þessum ummælum, sem hann hefur haft hér og ég gat um. Og það sýndi bezt, hvað hann átti bágt með að athaga, hvað hann sagði, að hann sagði, að þau mál, sem í nál. eru tekin, hefðu ekki verið rædd eða samþ. í nefndinni. Þetta sýnir, að maðurinn hefur alls ekki haft vald á því, hvað hann var að segja, því að hann var í svo æstu skapi.

Þá var annað mál, sem hann minntist á, hvort ætti að veita 15 þús. kr. þ.e. kirkjubyggingar á stað, sem er svo stutt frá næsta kirkjustað, þar sem er reisuleg kirkja, að ekki er nema örskot á milli. Um þetta var ekki greitt atkv. í n., segir þessi hv. þm. Það voru samt greidd atkv. um þetta í n.; að vísu er ekki búið að afgreiða þetta sem endanlega till. fjvn. En það fór fram atkvgr. um það í n., hverjir væru með því að taka þetta á lista til athugunar. Ég og fleiri í n. vildum fella þetta niður að byggja kirkju þar, sem hagar svo til, að kirkja er á næsta bæ svo sem örskot í burtu. En sumum fjvnm. fannst sjálfsagt mál að samþ. þessa fjárveitingu, og hygg ég, að þeir muni greiða atkv. með því, þó að mér virðist það fullkomlega ábyrgðarlaust að gera slíkt.

Ég vil taka fram, að ég þykktist ekki vitund af þessum orðum hv. 1. þm. Rang. Og ég vil í fullu bróðerni óska honum þess, að hann verði svo sjálfstæður maður í öllum sínum sökum, að hann falli aldrei frá skoðunum sínum og sannfæringu og enginn yrði megnugur að kúga hann, og sérstaklega, að það komi aldrei fyrir, að honum verri menn geti beygt hann eða teygt frá málstað sínum. Þess óska ég honum af heilum hug.

Hv. þm. S.Þ. (JJ) hélt hér langa grínræðu í dag. Menn flykktust þá hér saman og hlógu, og fáir hafa líklega tekið þessa ræðu hans alvarlega. Var þá um margt talað utan við dagskrármálið. Og meiri hluti manna, hygg ég, að hafi tekið í gríni meiri hluta ræðu hans þá. Samt sem áður fólst í þeirri grínræðu djúp alvara að ýmsu leyti, og nokkur atriði í ræðu hans er ekki hægt annað en að minnast nokkuð á. Það er ekki hægt fyrir okkur sósíalista annað en að bera fram eina alvarlega spurningu: Hvert er Framsfl. að fara? Formaður þess fl. stendur hér upp og heldur því fram, að enginn heiðarlegur þm. ætti að leggja sig í það að vinna með kommúnistum, eins og hann kallaði það. Á sama tíma, sem hv. þm. S.-Þ. lýsir sósíalistum sem pólitískum bandittum og þjófum og með alla vega sterkum orðum, þá hefur fl. hans starfandi samninganefnd, sem læzt vera að vinna að því, að milli Sósfl., Framsfl. og Alþfl. takist samningar um vinstri stjórn. Það hlítur að koma fram sú spurning hjá okkur sósíalistum. Hvort er það nefndin, sem kemur fram í nafni Framsfl., eða formaður Framsfl., sem stendur hér upp og lýsti stefnu Framsfl. hér í dag? Við viljum fá skýr svör. hékk hv. þm. S.-Þ. móðursýkiskast, og fyrirlítur flokkur hans þessa ræðu hans, eða er þessi n., sem læzt vera að ræða við sósíalista um myndun ríkisstj., aðeins að falsa og blekkja? Það er eðlilegt, að þessu sé svarað hér á hæstv. Alþ., en verði það ekki gert, hljótum við sósíalistar að heimta skýr svör af fulltrúum Framsfl. í samninganefndinni.

Hv. þm. sagði, að örlög kommúnista hér á þingi mundu verða þau, sem þeir ættu skilið; allir mundu snúa við þeim baki; enginn heiðarlegur þm. gæti haft við þá samstarf, því að þeir hlíttu ekki settum leikreglum, en stefndu að því að brjóta niður þingræðið og lýðræðið í landinu. Ef þetta væri rétt um fimmta hluta þm., ætti að vera sjálfsagt, að hv. þm. og flokksmenn hans hættu þegar í stað öllum viðræðum við okkur um sumeiginlega ríkisstj. Enn fremur lét hv. þm. sér sæma að líkja flokki okkar við flokk nazista í Þýzkalandi, sagði, að kommúnistafl. og nazistafl. væru sams konar ofbeldisflokkar. Það er furðulegt, að nokkur maður, sem þykist vera andstæður nazismanum, skuli geta látið sér slík orð um munn fara á þessum tímum og ímyndað sér, að hann geti barizt á móti nazismanum jafnframt því að fjandskapast við kommúnismann. Hverjir eru það, sem jafnan hafa verið á oddinum í baráttunni við nazismann? Hverjir aðrir en kommúnistar? Hvernig er um eina ríkið í veröldinni, þar sem stefna kommúnista er ráðandi, Rússland? Berst það ekki hetjulegri baráttu gegn nazismanum? Og hvernig mundi hafa farið fyrir okkur á Íslandi, ef sú barátta hefði ekki verið háð? Mundi ekki vera hér ríkjandi rammasta afturhald? Á meðan nazisminn er eins sterkur og verið hefur nú um tíma, virðist alveg augljóst mál, að nauðsyn sé á því að sameina öll andstöðuöfl nazismans og þar megi enginn skoðanamunur um önnur málefni koma til greina. Þeir menn, sem vinna að því að kljúfa andstæðinga nazismans í fjandsamlegar fylkingar með því að vekja tortryggni gagnvart þeim flokki, er hetjulegast hefur barizt móti nazismanum, þeir eru vitandi eða óvitandi í þjónustu nazismans. Nú á tímum er beinlínis hægt að þekkja heiðarlega lýðræðissinna og andfasista á því, hvort þeir eru með þessari sameiningu allra afla, sem nazismanum eru andstæð, eða ekki.

Í raun og veru var þessi hjákátlega ræða hv. þm. S.-Þ. að miklu leyti í nazistaanda, svo sem þær kenningar hans, að ofsækja bæri og straffa skáld og listamenn, sem væru kommúnistar, neita þeim um styrki og forðast að lesa bækur þeirra. Sama máli gegnir um þá kenningu hans, að sá geti ekki verið skáld, sem gerist áróðursmaður fyrir sérstakan stjórnmálaflokk. Það er óþarfi að sýna fram á, hvílík vitleysa þetta er. Mörg af mestu skáldum heims hafa haft ákveðnar stjórnmálaskoðanir og barizt fyrir þeim. Skáldið Halldór Kiljan Laxness vill hann láta ofsækja og gleðst yfir því, að til eru sveitir á Íslandi, þar sem tekizt hefur að skapa þvílíkt ofstæki manna á meðal, að bækur hans eru ekki lesnar. Þetta minnir óneitanlega á það, er uppæstar nazistastelpur í Danmörku safna saman bókum skáldsins Andersens Nexös og brenna þær á báli. En allir vita, að Halldór Kiljan er jafnframt því að vera ákveðinn sósíalisti eitthvert mesta skáld Íslands. Og ég veit, að mikill fjöldi Íslendinga metur hann að verðleikum og skammast sín fyrir þau orð, sem hv. þm. S.-Þ. hefur um hann haft.

En svo er skoplega hliðin á þessu öllu. Hefur hv. þm. sjálfur lifað eftir kenningum sínum? Hann vill ofsækja skáld, sem vitað er um, að eru Sósíalistar eða kommúnistar. Nú vill svo til um þennan hv. þm., að hann ræður að mestu yfir geysimiklu útgáfufyrirtæki, sem ríkið kostar til að vísu. Og hann finnur af hyggjuviti sínu, að vel muni við eiga að gefa út rit skáldsins Stephans G. Stephanssonar, og sjálfur hefur hann farið virðingarorðum um þetta skáld. Nú er það vitað, að St. G. St. hefur ekki aðeins talið sig sósíalista, heldur beinlínis bolsévíka, eins og glögglega kemur fram í bréfum hans. Ég veit, að hæstv. forseti, sem ég hef ekki reynt að hlutdrægni, leyfir mér að lesa hér upp nokkrar línur úr bréfum St. G. St. Hann segir meðal annars:

„Og nú eru þau (flokksblöðin) að byrja að ljúga sig með lagi út úr sinni eigin lygi um ,,bolsévismann“ á Rússlandi þegar engin brögð ætla að duga lengur til að skera hann niður, því hann sigrar heim allan á endanum, af því að hann er sanngjarnastur og eina hjálpin út úr þeim hreinsunareldi, sem mannheimur er staddur í, hann — eða mennirnir í dýpra víti að eilífu, það er ég viss um.“

Ég geri ráð fyrir því, ef Halldór Kiljan Laxness hefði skrifað þetta, að komið hefði löng grein í Tímanum um þennan landráðamann, sem allir góðir Íslendingar ættu að snúa baki við. En Jónas Jónsson hefur þó beitt sér fyrir því, að gefin væru út rit þess manns, sem skrifaði fyrrnefnd orð. St. G. St. segir enn fremur:

„Taflið er aðeins um — fast þetta með lögum eða aðeins með bardaga? Rússastjórn æskir einskis nema friðar til að fullkomna hjá sér þetta fyrirkomulag, sem hún trúir á, en fær ekki frið. Öll „hervöld helvítanna“, auður og stjórnarvöld allra ríkja, sem nú eru uppi, siga á hana öllum hennar nágrönnum með mútum, undirróðri, liðstyrk, herbúnaði og hótunum. Þetta síðasta veit ég, því að það gerist nú samtíða mér. Hvernig nýja fyrirkomulagið reynist, er ímyndun mín enn, því það er ekki svo þrautreynt enn, né verður í minni tíð, en eftir bezta viti sé ég ekki annað úrræði almenningi lífvænlegt.“

Ég held, að þessar línur sanni, að St. G. St. skoðaði sig kommúnista, enda kallaði hann sig beinlinis bolsévíka. Ef hv. þm. S.-þ. væri sjálfum sér samkvæmur, hefði hann sízt átt að beita sér fyrir því, að rit þessa manns væru gefin út í geysimikæu upplagi. Í sveitum þeim, þar sem menn vilja ekki líta við ritum H.K.L., að því er hann segir, ætti hann, finnst mér, að benda sínum andlegu sonum og dætrum á það, að háskalegt geti verið að lesa rit St. G. St.

Hv. þm. S.-Þ. deildi á sjálfstæðismenn á þingi fyrir að hafa gerzt aðstoðarmenn kommúnistans Kristins Andréssonar. Hann sagði, að þeir skildu ekki einu sinni, hverjar væru lágmarkskröfur um flokkssiðgæði. Flokkssiðgæði er þá að hans dómi fólgið í því að geta ekki fallizt á að styrkja skáld, ef þau eru pólitískir andstæðingar. Ég veit, að fjöldi hv. þm. hefur hlustað á þetta með viðbjóði. Ég er viss um, að þeir vilja yfirleitt ekki viðurkenna slíkt flokkssiðgæði. Þó að menn séu hér bundnir flokksböndum, treysti ég því, að þetta flokkssiðgæði verði ekki ofan á, heldur reyni hv. þm. að lagfæra þau axarsköft, sem gerð voru með því að taka styrkveitingar til skálda og listamanna úr höndum Alþ.

Hér hefur komið fram brtt. á 324. þskj. við brtt. þá, sem áður var fram komin um það að taka styrki til skálda og listamanna aftur upp í 18. gr. Ég skal ekki ræða þessa till. ýtarlega, en aðeins minna á það, að þeir Davíð Stefánsson, Guðm. G. Hagalín og Magnús Ásgeirsson hafa hér nokkra sérstöðu að því leyti, að þeim voru veittar stöður við bókasöfn úti á landi í viðurkenningarskyni og sem nokkurs konar skáldastyrkur. Það má raunar segja, að það sé ekki styrkur að leyfa þeim að vinna fyrir sér á þennan hátt. En samt var þetta hugsað þannig, og þess ber að gæta, að þessar stöður eru hagstæðar og hafa orðið þeim til mikillar hjálpar. Ég minnist aðeins á þetta, en mun ekki gera það að neinu kappsmáli, hvorki til eða frá. Annars býst ég við, að orðið geti nokkrar deilur, þegar á að fara að vega og meta það, hverjir eigi að fá 5000 kr., hverjir 4000 kr. o.s.frv., en augljóst virðist þó, að minni hætta er á mistökum, ef þinginu er fengið þetta í hendur en menntmn. Ég mæli því eindregið með því, að frá þessu verði gengið hér í þinginu.