02.02.1943
Sameinað þing: 19. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 281 í B-deild Alþingistíðinda. (520)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1943

Sigurður Bjarnason:

Ég get að mestu leitt hjá mér það, sem hv. þm. S.-Þ. sagði í sambandi við XXVII. brtt. á þskj. 312 og þátt minn og hv. þm. Snæf. í henni, sérstaklega þar sem það snertir lítt kjarna málsins. Þó verð ég að benda á þá kaldhæðni örlaganna, sem kemur fram í því, er hv. þm. S.-Þ. stendur hér upp og eys auri yfir kommúnista, um leið og lýst er yfir því í blaði hans, að haldið sé áfram samningum við þessa landráðamenn, sem hann líkir við þjófa og morðingja. Það situr þess vegna illa á honum að saka okkur hv. þm. Snæf. um að hlúa að kommúnismanum. Að öðru leyti get ég leitt hjá mér þessa ræðu, sem var lítið annað en uppsuða úr gömlum Tímadálkum. Annars er það furðulegt, þegar verið er að reyna að læða því inn hjá þjóðinni, að verið sé að hlynna að kommúnismanum með því að taka upp þá stefnu, sem listamenn hafa sjálfir óskað eftir. Má benda á það, að meðal þeirra manna, sem óskað er eftir, að veittur verði styrkur í 18. gr., eru mjög fáir, sem verið lafa í tengslum við ákveðna stjórnmálaflokka.

Ég er á sama máli og margir aðrir um það, að óheppilegt sé, að áróðri sé blandað saman við listastarfsemi. Mun það og fremur fátítt hér á landi.

Ég ætla svo að víkja að aðalefni till. okkar, að horfið verði að sama ráði og áður var með því að taka viðurkennda listamenn inn á 18. gr. Það er algerlega óviðunandi, að á þeim fari fram árlegt mat og þeir séu vegnir á vog hálfsefsjúkra gamalmenna eins og hv. þm. S.-Þ., sem hefur haft forustu þeirrar stofnunar, sem úthlutað hefur listamannastyrkjum. Enda hefur þetta fyrirkomulag reynzt hörmulega, svo að skapazt hefur fjandskapur og óvild milli listamanna og þeirra, er úthlutað hafa listamannastyrkjunum. Þetta er því alveg fordæmt skipulag á þessum málum. Þegar formaður menntamálaráðs stendur árum saman í svæsnum og rætnum svívirðingum við þá, sem hann á að styrkja og styðja, þá er auðsætt, að það hlýtur að leiða út í hreina vitleysu. En svona hefur þetta verið.

Af þessum ástæðum flytjum við till. okkar á þskj. 312, en ekki til þess að hlúa að kommúnistum. En það er eitt af herbrögðum hv. þm. S.-Þ. að reyna að kenna alla listamenn við kommúnisma, og ég er viss um, að það herbragð hans hefur aukið fylgi kommúnista meira en flest annað. En ég er mest hissa á því, að flokkur þessa hv. þm. skuli geta staðið í samningum um stjórnarmyndun við þessa menn, sem hann hefur nefnt bæði þjófa og morðingja.

Ég vil í sambandi við þá stefnubreytingu, sem felst í þessari till., minna á, að listamannaþingið í haust samþ. einróma að taka upp þá stefnu, sem í till. felst, og hygg ég, að hv. þm. geti hlustað á rödd þeirra manna án þess að skemma álit þingsins.

Ég þarf svo ekki að fjölyrða miklu meira um þetta. Ég vil aðeins benda á það, að þótt ég standi að þessari brtt., þá er mér ljóst, að ýmsir gallar geta verið og eru á úthlutuninni samkv. henni. En það raskar ekki þeirri staðreynd, að hver breyt. í þessum málum hlýtur að verða til batnaðar frá því, sem nú er.

Ég þarf ekki að hafa mörg orð um nöfn þeirra listamanna, sem við höfum tekið upp í till. okkar. Til samanburðar höfðum við síðustu úthlutun Alþ. á 18. gr. Um það má vitanlega ýmislegt segja, það má vel vera, að því þingi hafi yfirsézt um eitt eða annað, en við álitum ekki rétt að byrja með því að taka neinn út af þeim mönnum, heldur höfum við bætt ýmsum nýjum við.

Alþ. þarf að átta sig á því, hvernig ástandið raunverulega er orðið í þessum málum; það er alveg óþolandi. Takist aftur á móti samvinna með listamönnum og þeim, sem að þeim eiga að hlynna, og verði þessi till. samþ. og stefnubreyt. mörkuð, þá mætti nokkuð betur una við en áður.

Ég lýk máli mínu með því að óska þess, að Alþ. beri gæfu til að ráða vel og viturlega fram úr þessum málum, svo að ekki endurtakist hinn ljóti leikur undanfarinna ára.