02.02.1943
Sameinað þing: 19. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 283 í B-deild Alþingistíðinda. (522)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1943

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. — Ég skal vera fáorður. Þó vil ég geta þess að gefnu tilefni, að mér virðist form. fjvn. hafa sýnt staka lipurð í starfi sínu.

En ástæðan til þess, að ég stóð upp, var sú, að n. hefur enn ekki getað haft fund um fram komnar brtt., en sumar þeirra eru þannig, að ég mundi óska eftir að geta athugað þær betur, áður en gengið væri til atkvgr. Ég mæli hér aðeins fyrir mig, en ekki fyrir hönd n., en þó munu ýmsir hugsa líkt og ég um þetta.

Það er t.d. brtt. við læknisvitjanastyrkinn. Ég vildi taka það mál upp á öðrum grundvelli og vildi óska, að þetta kæmi ekki til atkvgr. strax.

Þá er brtt. um, að tillag til náttúrufræðifélagsins sé hækkað. Ég er heldur ekki búinn að athuga þá brtt., og er sama um hana að segja, að ég vildi geta athugað hana nánar. Hinu sama gegnir um 21. lið á sama þskj. (þskj. 312), um framlag til Bandalags íslenzkra listamanna. Eins er um skólasjóð og 26. lið á þessu sama þskj. Ég óska eftir, að þessar brtt. séu teknar aftur til 3. umr., og hinu sama gegnir með suma liðina á þskj. 303.

Í fáum orðum sagt stóð ég aðeins upp til þess að fá þessar brtt. teknar aftur til 3. umr. Ég blanda ekki öðru inn í þetta mál mitt, en ég undrast aðeins þær umræður, sem hér hafa farið fram, sem ekkert tilefni virðist hafa gefizt til í n. Þetta er eitthvert móðursýkiskast út af hræðslu við niðurskurð.