03.02.1943
Sameinað þing: 21. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 300 í B-deild Alþingistíðinda. (563)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1943

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. — Áður en ég kem að meginmáli mínu, vil ég svara tveimur atriðum úr ræðu hv. 6. landsk. (LJós). Það var þá fyrst um vörubirgðir í stríðsbyrjun. Hann hafði þessa vanalegu tuggu yfir um það mál, og því er óþarfi að eyða um það mörgum orðum. Vil ég þó enn einu sinni taka það fram, að í stríðsbyrjun var það meira vandamál, hvernig skyldi greiða vörur, sem til landsins voru fluttar, heldur en hvernig átti að fá skiprúm fyrir þær. Af þessu geta menn séð, hvaða ástæður voru til að liggja hér með margar vörur. Verzlunin var gefin frjáls í stríðsbyrjun. Ríkisstj. keypti sjálf inn vörur og styrkti aðra til þess.

Um landbúnaðarmálin vil ég segja við þennan hv. þm., að það er ótrúlegt, eftir ræðu hans að dæma, að hann hafi alizt upp á Íslandi. Öllum nema kannske honum er ljóst, að hér hefur farið fram bylting í landinu á síðustu áratugum á sviði landbúnaðarins. Undrast hann kannske yfir því, að ekki hafi átt sér stað stórkostleg breyting í þessum efnum á stríðsárunum, þegar ekki einu sinni hefur verið hægt að fá menn til að mjólka kýr og gegna öðrum störfum í sveitinni? Svo gersamlega virðist þessi hv. þm. vera vankunnandi um þessi mál, að ég held, að hann ætti ekki að setja hér á ræðu um þau á Alþ., og sízt við slíkar umr. eins og þessar.

Á öndverðu s.l. ári urðu þau tíðindi, að mikill meiri hluti alþingismanna ákvað að taka upp baráttu fyrir breytingu á kjördæmaskipun landsins, halda tvennar alþingiskosningar á sama ári, — magna með því stjórnmálaófrið í landinu og slá á frest úrlausn annarra verkefna, enda þótt brýn nauðsyn væri á, að Alþ. notaði tíma sinn og aðstöðu til þess að leysa aðkallandi vandamál.

Sjálfstfl. kastaði teningunum, þegar hann snérist með kjördæmamálinu og hafnaði þá samstarfi um fjárhags- og atvinnumál þjóðarinnar. Forustumenn Sjálfstfl. lýstu yfir því um leið og þetta skeði, að engin hætta stafaði að þessu tiltæki, þar sem ríkisstj. flokksins mundi sjá um, að dýrtíðarmálunum yrði eins vel borgið og áður. Í málflutningnum var það talin höfuðnauðsyn að hnekkja valdi Framsfl., og var honum í því sambandi gefinn ófagur vitnisburður.

Mönnum hefði átt að vera það ljóst þegar í öndverðu, að yfirlýsingar fyrrverandi ríkisstj. um, að hún mundi gæta dýrtíðarmálanna þrátt fyrir það stjórnmálaástand, sem tvennar alþingiskosningar sköpuðu í landinu, voru markleysa. Nú er konlið í ljós, að ráðherrum þeim, er gáfu þessar yfirlýsingar, hefur sjálfum hlotið að vera þetta ljóst þegar á þeim tíma, sem þær voru gefnar. Dreg ég þetta m.a. af því, að þegar nú er rætt um, hversu farið hafi, benda blöð sjálfstæðismanna eindregið á það, að eigi hafi verið hægt að sjá dýrtíðaráætlunum borgið, þar sem það skilyrði hafi verið sett fyrir hlutleysi við ríkisstj. Sjálfstfl., að hún gerði ekkert til að framkvæma löggjöfina, er sett hafði verið til þess að vinna gegn dýrtíðinni.

Á aukaþinginu í sumar, sem leið, eftir alþingiskosningarnar, hlaut að liggja í augum uppi, jafnvel þeim, sem áður vildu ekkert sjá, hvert stefndi í dýrtíðarmálunum. Það var augljóst, að fyrrverandi ríkisstj. sýndi ekki hina minnstu viðleitni til þess að halda í horfinu, hvað þá meira.

Þá, í ágústmánuði, fóru fram útvarpsumræður frá Alþ. Ég benti þá á, fyrir hönd Framsfl., hversu komið væri og hvað framundan hlyti að vera, ef ekki væri þá þegar hafizt handa um að gera ráðstafanir til viðnáms og viðreisnar. Ég benti á, að ef þetta væri ekki gert þá, heldur dregið fram á vetur, fram yfir síðari kosningar, þá mundi hljótast að því tjón, sem aldrei yrði að fullu bætt, og að þegar þar væri komið sögu, mundi verða orðið þannig ástatt í fjárhags- og atvinnumálum landsmanna, að erfitt yrði úr að bæta:

Ég vissi þá, að mögnuð óánægja var almennt í landinu út af því, að upp hafði verið tekið það ráð að fást við kjördæmaskipun landsins í stað þess að snúa sér að lausn aðkallandi vandamála.

Ég benti jafnframt á, að ef aðvaranir væru enn að engu hafðar, heldur lagt út í kosningar í annað sinn, og forustumenn flokka þeirra, sem stæðu að slíkum vinnubrögðum, yrðu þess ekkert varir, að óánægjan kæmi fram í minnkuðu fylgi flokkanna við kosningarnar, þá mundi það síður en svo hafa bætandi áhrif á vinnubrögð þeirra í næstu framtíð og sízt vera til þess fallið að veita stjórnmálaflokkunum á Alþ. það aðhald, sem nauðsyn ber til.

Í þessu sambandi og ekki síður út af því, sem síðar hefur gerzt, og því, sem nú er svo mjög rætt manna á milli um störf Alþ. og viðhorf þjóðarinnar til þess, er ekki aðeins réttmætt, heldur skylt að benda á, að 3/4 hlutar þjóðarinnar töldu þau vinnubrögð, sem viðhöfð voru á s.l. ári, eigi svo athugaverð, að þeir létu það hafa áhrif á atkvæði sitt. Sérstaklega er einnig rétt að benda á það, að enn veittu 21 þús. kjósendur í landinu Sjálfstfl. brautargengi í haustkosningunum þrátt fyrir allt, sem á undan var gengið og upplýst var um afskipti þess stjórnmálaflokks af dýrtíðarmálunum, sem menn töldu sér þó hugleikin, og þrátt fyrir það að hann tók með stjórnarmyndun sinni höfuðábyrgð á því, sem aðhafzt var á s.l. ári, — og með þeim afleiðingum, sem hverjum sæmilega glöggum manni var vorkunnarlaust að sjá fyrir í megindráttum, áður en gengið var að kjörborðinu í síðara sinn.

Enn fremur er nauðsynlegt að vekja í þessu sambandi athygli á því einkennilega fyrirbrigði, að fjöldi þessara sömu kjósenda virðist, að loknum þessum leik, sem þeir .ekki voru áhorfendur að, heldur þátttakendur í, verða undrandi yfir því, að stjórnmálaflokkarnir á Alþ. skuli ekki þegar í stað geta orðið sammála um allt, sem þarf til þess að byggja það upp, sem rifið hefur verið niður. Er ekki eitthvað undarlegt ósamræmi í undirtektum manna og þátttöku annars vegar í þeim atburðum, sem hér skeðu á s.l. ári, og hins vegar öllum þeim sleggjudómum, sem menn fella nú um Alþ.? Skyldi ekki vera hér til að dreifa fremur takmörkuðum skilningi margra á skyldum þeirra sem kjósenda í landinu og of lítilli yfirsýn um þau viðfangsefni, sem við blasa nú og eiga rætur sínar einmitt í því, hvernig á málum hefur verið haldið, — ekki aðeins af stjórnmálaforkólfum, heldur einnig, af þeim, sem við tvennar kosningar á sjö mánuðum hafa verið kvaddir til dóms um málin?

Til þess að gera gleggra, hvað við er átt, vil ég með örfáum orðum bregða upp mynd af því, hversu nú er ástatt um nokkur málefni landsmanna.

Þegar Alþ. kom saman eftir kosningarnar, lá það fyrir, að dýrtíðin hafði á þeim sjö mánuðum, sem fyrrverandi ríkisstj. fór með völd, hækkað um 89 stig. Til samanburðar má geta þess, að á 32 (friðarmánuðum áður hafði hún hækkað um 83 stig, og þótti þó flestum nóg um. Verðhækkunin hafði því meira en tvöfaldazt í landinu á 7 mánuðum. Fyrir nokkrum mánuðum voru afkomuhorfur atvinnuveganna mjög góðar. En þegar Alþ. kom saman nú í vetur, þá voru þær orðnar afar ískyggilegar, að ekki sé meira sagt, og þó hafði fiskverðið verið hækkað með samningum. Frystihúsin voru yfirleitt stöðvuð, og fjöldi þeirra er ekki rekinn enn. Bændur horfðu og horfa enn fram á. að verðlagsþarfir landbúnaðarins eru nú vegna dýrtíðarinnar orðnar margfaldar á við það, sem útflutningsverð landbúnaðarafurða gefur í aðra hönd, og nú verður ljósara með degi hverjum sem líður, að eigi verður til lengdar sótt fé í ríkissjóð til þess að bægja frá framleiðslunni afleiðingum verðbólgustefnunnar. Fiskimenn á smærri skipum horfa fram á það hlutskipti að verða hálfdrættingar á við þá, sem í landi sitja, þrátt fyrir hækkun fiskverðsins.

Þessi nýja útsýn blasti við sjónum manna, þegar Alþ. kom saman. En það var fleira, sem skipti máli fyrir Alþ. og ekki lá jafnljóst fyrir hvers manns augum. Hverjar voru horfurnar um afkomu ríkisins? Í byrjun Alþ. lagði fyrrverandi fjmrh. fram fjárlagafrumvarp. Þetta frv. hafði verið, eftir því sem sagt var, endursamið og fært til samræmis við það ástand, sem orðið var. Þegar frv. þetta var lagt fyrir Alþ., gerði fyrrv. fjmrh. grein fyrir tekjum og gjöldum ríkissjóðs, og var ekki annað að heyra á ráðherranum en allvænlega hofði. Ýmsir munu þó hafa gert sér grein fyrir, að því fór fjarri, að öll kurl kæmu til grafar í þessari skýrslu ráðherrans, enda þótt kyrrt væri látið liggja, meðan unnið var að því að fá upplýst, hversu komið var. — Fjárlagafrv. var vísað til n. að venju. Upplýsingar þær, sem fylgdu frv., voru svo ófullkomnar og frágangur þess að öllu leyti svo fyrir neðan allar hellur, að það tók fjvn. þingsins margar vikur að safna gögnum þeim, sem þurfti til þess að fá hugmynd um, hvort fjárlagafrv. væri í nokkru samræmi við það ástand, sem orðið var. Það er skemmst af að segja, að þessar rannsóknir fjvn. Alþ. leiddu það í ljós, að þetta fjárlagafrv. ríkisstj. var svo fjarri öllu lagi, að láta mun nærri, að hækka þurfi útgjaldahlið þess um 10–11 millj. kr. í því skyni einu að leiðrétta bersýnilega ranglega áætlaða útgjaldaliði. Mætti nefna mörg dæmi til þess að sýna, hvernig að frv. hefur verið unnið og hversu auðvelt það hefur verið fyrir Alþ., eða hitt þó heldur að fá upplýsingar um horfur í þessum efnum eftir þeim gögnum, sem fyrir voru lögð.

Jafnframt var unnið að athugun á því, hvernig fjárhagur ríkisins raunverulega væri. Sú athugun leiddi í ljós eftirfarandi staðreyndir, sem raunar hlutu að verða afleiðing þeirrar fjármálastefnu, sem fylgt hefur verið.

Tekjur ríkissjóðs munu hafa orðið allt að 90 millj. kr. á s.l. ári, og er það meira en fjórfalt hærra en tekjurnar voru fyrir stríðið. Útgjöldin munu hafa numið 50–60 millj. kr. fyrir utan uppbætur þær á afurðum landsmanna og ýmsar aðrar greiðslur vegna dýrtíðarinnar, sem Alþ. og ríkisstj. hafa ákveðið.

Fjármagn það, sem ríkissjóður hefur yfir að ráða, mun ekki hrökkva til þess að inna af höndum þær skuldbindingar, sem á ríkissjóði hvíla nú þegar. En þar eru fyrirferðarmestar uppbætur á útfluttar afurðir og tillag til raforkusjóðs. Nema þessar greiðslur samtals, eftir því sem áætlað er, um 30 millj. kr. Í framkvæmdasjóðinn er ekkert til nema á pappírnum sá hluti af tekjuafgangi ársins 1941, sem þangað skyldi renna. Hér við bætist svo, að skuldir ríkisins hafa sára lítið lækkað og eru um 55 millj. kr. enn, án þess að taldar séu skuldir við raforkusjóð og framkvæmdasjóð.

Dýrtíðin hefur margfaldað útgjöld ríkissjóðs, en ekki aukið tekjurnar að sama skapi, og situr ríkissjóður hér við sama brunn og framleiðslan í landinu. Til dæmis um þetta má nefna það, að launagreiðslur ríkissjóðs og ríkisstofnana voru fyrir stríð um 7.5 millj. kr., en nú munu þær vera orðnar um 25 millj. kr. árlega. Til þess að sýna, hver áhrif verðbólgustefnan hefur haft á þennan útgjaldalið einan, nægir að geta þess, að hefði dýrtíðin verið stöðvuð, þegar vísitalan var 172, og um það voru lagðar fram tillögur af Framsfl. hér á Alþ., mundu þessar greiðslur nú nema helmingi lægri fjárhæð, og þó enn lægri, ef vísitalan hefði verið stöðvuð, þegar hún var 155 stig, en þannig stóð, þegar ég flutti fyrsta frv. mitt til laga um dýrtíðarráðstafanirnar vorið 1941. Það frv. var að vísu samþykkt, en aldrei framkvæmt, vegna þess að sjálfstæðismenn í ríkisstjórninni höfðu í sínum höndum vald til þess að koma í veg fyrir það, þar sem þeim hafði verið trúað fyrir stjórn fjármálanna. Þá er og rétt að geta þess, að hefði dýrtíðin verið stöðvuð, mundu greiðslur vegna útfluttra landbúnaðarvara aðeins nema litlum hluta þeirrar fjárhæðar, sem nú er ætlað að greiða í þessu skyni, og þó verið ólíkt bjartara framundan um afkomu bændastéttarinnar en nú er.

Til marks um það, sem skeði á síðustu 7 mánuðum ársins 1942 í málum þessum, er rétt að geta þess, að kostnaður við verklegar framkvæmdir ríkisins hefur tvöfaldazt til þrefaldazt á þeim tíma, og eigi mun fjarri að áætla, að vegagerð, sem kostaði 100000 kr. 1941, kosti nú 250000 a.m.k. Geta menn svo af þessu ímyndað sér, hvernig horfir um verklegar framkvæmdir í landinu, þegar fram líða stundir.

Ef sæmilega hefði verið á haldið, gætum við nú búið við hið mesta góðæri. Að baki eru tvö mestu gróðaár í sögu landsins. En þrátt fyrir þetta er ástandið nú þannig, að atvinnuvegir landsmanna horfa fram á taprekstur — ýmist nú þegar, ef nokkuð ber út af, eða í nánustu framtíð. Og mjög veigamikill þáttur í sjávarútveginum, hraðfrystihúsin, eru stöðvuð að meira eða minna leyti.

Ríkissjóður er raunverulega þrotinn að reiðu fé. Hins vegar er fyrirsjáanlegt, að framundan bíða óleyst verkefni, sem ríkissjóður verður að gangast fyrir og leysa, þótt þau kosti stórfé, og þjóðin sættir sig ekki við annað en þessi verkefni verði leyst jafnskjótt og vinnuafl er fáanlegt til þess að sinna þeim og efnivörur verða fyrir hendi að því leyti, sem þeirra er þörf.

Þjóðin hefur fram á þennan dag staðið í þeirri trú, að verið væri að safna fjármunum til þess að vinna að þessum framkvæmdum. Allar vonir um, að ríkissjóður ætti milljónatugi í sjóðum að loknu gróðatímabilinu, sem gætu orðið til þessara framkvæmda og til þess að hindra atvinnuleysi að stríðslokum, bregðast ger samlega, nema nú verði gripið til alveg óvenjulegra úrræða til þess að draga saman fé til framfaramálanna.

Hefði sú stefna verið upp tekin að snúast gegn dýrtíðinni, þá hefði fjárhagur ríkissjóðs verið glæsilegur, stórkostlegur tekjuafgangur orðið og milljónatugir verið í sjóðum til þess að standa undir framförum.

Það er eðlilegt, að menn varpi fram þeirri spurningu, hvernig unnt hafi verið að skapa annað eins ástand við þau skilyrði til góðrar afkomu, sem fyrir hendi voru. Til þess liggja að vísu fleiri ástæður en ein, en þó er að mínum dómi ein meginástæða til þess að hinir sjö síðustu mánuðir ársins 1942 hafa reynzt svo örlagaríkir í þessum efnum, — og hún er sú, að landsmenn skyldu láta bjóða sér það að halda orustu um málefni, sem enga nauðsyn bar til að leysa, og að þeir skyldu gerast þátttakendur í því að halda uppi pólitískum höfuðorustum í nær heilt ár í landinu stjórnlausu, í stað þess að halda einar almennar alþingiskosningar, er skorið gætu fljótt og afgerandi úr málefnaágreiningi um lausn aðkallandi vandamála innan lands, ágreiningi, sem út af fyrir sig var óhjákvæmilegt að skera úr.

Það dregur sig enginn nú undan ábyrgð með því að minna á, að hann hafi verið óánægður eða jafnvel mótfallinn þessum starfsháttum, ef hann getur ekki sagt um leið, að hann hafi gert sitt til þess að stöðva þennan leik. Reynslan mun nú sýna mönnum það, að litlu verður áorkað með því því að nöldra í barm sinn og láta þar við sitja.

Þegar menn ræða um stjórnmálaástandið og aðstöðu Alþ., þá mega menn þess vegna ekki gleyma því, að yfirgnæfandi meiri hluti landsmanna lagði lið sitt þeim vinnubrögðum, sem við voru höfð á s.l. ári, og menn mega ekki vera undrandi yfir því, þótt það taki tíma og kosti fyrirhöfn að leysa þau verkefni, sem lágu fyrir hinu nýkosna Alþ., þegar það hóf störf sín. Hvað hefur þá gerzt á Alþ. nú í vetur?

Sjálfstfl. hafði skorað á landsmenn að efla sig til forustu, og hann hafði heitið slíkri forustu eftir kosningarnar. Þegar á Alþ. kom, virtist flokkurinn hins vegar ekki líta svo á, að hann væri líklegur til þess að takast slíka forustu á hendur, heldur óskaði hann eftir því, að sett væri á stofn 8 manna nefnd frá öllum þingflokkum til þess að ræða stjórnarmyndun allra flokka, — líka þess flokksins auðvitað, sem þjóðinni var sagt fyrir kosningar, að væri svo hættulegur landsmönnum, að þess vegna gætu réttlætzt jafnvel þrennar kosningar á sama ári, hvað þá tvennar, sem annars voru óréttlætanlegar með öllu.

Það kom fljótt fram við störf þessarar n., að ekki var auðvelt að byggja það, sem hrunið hafði. Framsóknarmönnum var það snemma ljóst, að stjórnarmyndun, sem byggjast ætti á því, að meiri hlutinn, sem að henni stæði, hefði gert sér grein fyrir til fulls og gengið frá úrræðum í þeim margháttuðu viðfangsefnum, sem hlutu að verða þættir í viðreisn þeirri, sem gera þurfti, hlaut að taka langan tíma. Þá var um tvær leiðir að velja: Að mynda pólitískt ráðuneyti, sem væri eins konar bráðabirgðastjórn að því leyti, að ekki gæti verið fullgengið frá, hvernig leysa skyldi öll þau stórmál, sem leysa þyrfti, eða þá, að ríkisstjóri skipaði til bráðabirgða ráðuneyti af sinni hálfu, sem færi með framkvæmdastjórnina, unz Alþ. hefði leyst stjórnarmyndunarmálið.

Framsfl. áleit fyrri kostinn heppilegri, eins og á stóð, enda þótt á þeirri leið væru gallar. Þess vegna svaraði Framsfl. því játandi að taka þátt í ráðuneyti allra flokka, sem byggt væri á þessum grundvelli. En sú ráðuneytismyndun strandaði á öðrum. — Af sömu ástæðum spurðist flokkurinn sérstaklega fyrir um það hjá báðum verkamannaflokkunum á Alþ., hvort þeir vildu eiga þátt í myndun stjórnar ásamt Framsfl., sem tæki við þá þegar, ynni að þeim málum á þessu Alþ., er samkomulag næðist um, og leitaðist við að ná samkomulagi um málefnagrundvöll fyrir áframhaldi samstarfsins. Þessi tilraun bar ekki árangur, vegna þess að hinir flokkarnir töldu, að ýtarlegur málefnasamningur yrði að liggja fyrir, áður en stjórnarmyndun ætti sér stað.

Niðurstaðan var sú, að þingræðisstjórn varð eigi mynduð og ríkisstjóri skipaði af sinni hálfu þá stjórn, er nú situr. Enn sem komið er hefur myndun pólitískrar ríkisstj. á Alþ. strandað af þeirri ástæðu, að sumir stjórnmálaflokkarnir hafa ekki viljað ganga í ríkisstj., nema áður væri búið að semja um úrlausnir í flestum vandamálum. En slíkir samningar eru þeim örðugleikum bundnir, eins og ástandið er nú orðið, að það eitt út af fyrir sig hefur valdið því, að stjórnarmyndun hefur ekki farið fram á Alþ. Fram að þessu hefur því stjórnarmyndun á Alþ. strandað þegar af þessari ástæðu. Hins vegar liggur ekki enn þá fyrir, hvort aðrar ástæður verða þess valdandi, að á Alþ. eigi sér ekki stað stjórnarmyndanir með venjulegum hætti fyrst um sinn. Það leiðir reynslan í ljós, og er of snemmt að ræða það mál til nokkurrar hlítar á þessu stigi.

Núverandi hæstv. ríkisstj. hefur með nokkrum bráðabirgðaráðstöfunum í dýrtíðarmálunum, sem gerðar hafa verði í samvinnu við Alþ., gefið Alþ. og þjóðinni tóm til þess að átta sig á þeim stóru viðfangsefnum, sem framundan liggja. Ráðstafanir ríkisstj. hafa fram að þessu miðað að því, að ekki þyrfti að verða áframhaldandi tjón að þeim drætti, sem óhjákvæmilega hlaut að verða á því, að meiri háttar framkvæmdir væru gerðar vegna þess undirbúnings, sem slíkar ráðstafanir hljóta að krefjast. Slíkt hlé varð ekki skapað, meðan fyrrv. ríkisstj. sat að völdum, þar sem hún sýndi enga viðleitni til nokkurs viðnáms og skuggatilvera hennar lá eins og martröð á þingi og þjóð.

Ráðstafanir núverandi ríkisstj. hafa fram að þessu yfirleitt byggzt á því, sem samkomulag var orðið um milli flokkanna í þeim stefnuyfirlýsingum, sem frá þeim höfðu komið. Þessum bráðabirgðaráðstöfunum hefur verið vel tekið, nl. a. fyrir það, að þær stinga í stúf við algert afskiptaleysi fyrrv. ríkisstj.

Um tillögur og úrræði núverandi hæstv. ríkisstj. að öðru leyti er eigi unnt að ræða á þessu stigi málanna, þar sem ókunnugt er, hverjar leiðir hún vill fara í úrlausn þeirra vandamála, sem framundan eru. Eigi er enn vitað, eftir hvaða leiðum hæstv. ríkisstj. hyggst að vinna að lækkun dýrtíðarinnar og eigi er enn fram komið, hvaða stefnu ríkisstj. telur heppilega um afgreiðslu fjármála og skattamála. Verður því eigi af minni hálfu rætt öllu frekar um hæstv. núverandi ríkisstj. við þessar umræður.

Framundan bíður það verkefni að endurskipuleggja hagkerfi landsins, ef svo má að orði kveða, og leysa þau stórkostlegu vandamál í atvinnumálum þjóðarinnar, sem við munu bætast að lokum yfirstandandi styrjaldar. Þessar ráðstafanir eru svo stórar og mikilvægar, að þær veita ekki af öðrum gerðar en Alþ., og Alþ. hlýtur að verða að taka á þeim fulla ábyrgð. Þegar kemur að því að taka stór skref í þessum málum, verður að vera fyrir hendi á Alþ. þingfylgi til þess að samþykkja nauðsynlega löggjöf og framkvæma hana. Það væri auðvitað æskilegt, að flestir, já allir, gætu staðið saman, og það er auðvitað áríðandi, að sem mest og bezt samtök geti myndazt um þessi verkefni og sem almennastur skilningur ríki um það, sem gera þarf. En það er rétt að gera sér ljóst nú þegar, að meðal þess, sem gera þarf, hljóta að verða vissar ráðstafanir, sem skoðanir verða skiptar um, en fram úr þeim málum verður samt að ráða, og fram úr þeim málum verður ekki annars staðar ráðið en á Alþ.

Það er mikið talað nú um samstarf og nauðsyn á því. Samstarf er vitanlega nauðsynlegt, og margir ræða um það efni af fullri hreinskilni og einlægni. En þjóðin verður að gera sér grein fyrir því, að á bak við sumt af þessu tali getur staðið, — og stendur áreiðanlega því miður, annað og meira en viljinn einn til þess að leysa stórmálin. Við höfum séð, hvernig samstarfsþörfin á tímum þjóðstjórnarinnar var notuð til þess að standa gegn því að stríðsgróðinn væri notaður til þess að halda niðri dýrtíðinni. Það var gert, hvernig sem reynt er að vefja það fyrir mönnum nú. Við höfum séð, hvernig allt í einu hefur verið snúið við blaðinu og talið um sam::tarf snúizt upp í lögeggjanir til pólitísks ófriðar, þegar allra verst stóð á. Við höfum séð, hvernig þetta tal hefur svo aftur á svipstundu snúizt upp í umræður um nauðsyn friðar og samstarfs.

Við erum vottar að því, hvernig nú, eftir þessar deilur, er reynt að snúa eðlilegri gagnrýni manna á þeim vinnubrögðum, sem viðhöfð hafa verið, upp í móðursýkiskenndan ótta við eðlilega málefnagagnrýni, sem auðvitað er alveg heilbrigð og ómissandi. Við erum vottar að því, hvernig heilbrigðri gagnrýni á stör fum Alþingis og stjórnmálamanna er nú snúið upp í almennt „taugastríð“ gegn þingræði og lýðræði með því að telja mönnum trú um, að allar umræður um þjóðmál sé auvirðilegt rifrildi auvirðilegra manna. Undir þenna söng taka margir þeirra, sem ekki telja sig metna að verðleikum, og sumir þeirra, sem hæst hrópa ámælisorðin til Alþ. og þingmanna, eru úr hópi þeirra, sem fastast eggjuðu til þeirra sviptinga á s.l. ári, sem mestum ófarnaði hafa valdið, og því úr hópi þeirra, sem mestu valda um ástand það, sem nú hefur verið Alþ. fjötur um fót í störfum þess. Við er um vottar að því, hvernig reynt er að nota ofureðlilega þreytu þjóðarinnar á háværum deilum til þess að bæla niður gagnrýni á stórfelldum stjórnmálahneykslum, sem átt hafa sér stað. Þannig er t.d. reynt að telja til óþarfa rifrildis og ófriðar gagnrýni á því, að á s.l. hausti var þannig haldið á fóðurbætismálum landsmanna, að allt að helmingi meira var úthlutað af fóðurbæti en venjulega, en þrátt fyrir það er fjöldi bænda í landinu í stórkostlegum vandræðum með fóðrun búpenings vegna skorts á þessari vöru, og hér við bætist, að menn voru leyndir því, hvernig komið var, þangað til eftir kosningar.

Þannig er einnig reynt að telja það óþarfa rifrildismál, að gagnrýnt sé opinberlega annað eins hneyksli og bifreiðaúthlutun fyrrv. ríkisstj.

Við erum vottar að því, hvernig reynt er að fá almenning í landinu til þess að gefast upp við meðferð þjóðmálanna með því að prédika þá um, að þjóðmálastarfið sé — þýðingarlaust, allir stjórnmálaflokkar séu eins og allir stjórnmálaleiðtogar eins. Það sé vonlaust að reyna að greina á milli þess, sem satt er eða logið, og þekkja rétt frá röngu. Í hvaða skyni er þetta gert? Hvar endar þetta? Ef þjóðin verður fórnarlamb þessa áróðurs, þá er lýðræðið á Íslandi úr sögunni. Þjóðin má ekki láta leggja á sig þann herfjötur, sem leiðir til falls lýðræðisins.

Þingræðið og lýðræðið er byggt á málamiðlun að vissu marki, en ekki stöðvunarvaldi kyrrstöðunnar í skjóli þess, að enginn skoðanamunur eigi rétt á sér. Þjóðin verður að leggja það á sig að þekkja mismun á réttu og röngu, þekkja gagnrýni frá rógi og rök frá lýðskrumi. Þjóðin þarfnast ekki uppgjafar í almennum málum, heldur aukinnar árvekni og samvizkusemi.

Við þörfnumst heldur ekki þess, að á Alþ. standi allir saman um að gera ekki neitt. Ekki heldur að allir séu ósammála um allt. Hvort tveggja þetta hefur verið reynt. Það, sem við þurfum, er, að sem flestir eða a.m.k. nógu margir standi saman um að gera það, sem þeim finnst rétt, taldi hæfilegt tillit til hinna, en fyrst og fremst fulla ábyrgð á því, sem þeir gera, og standi eða falli síðan með þeim dómi, sem þjóðin kveður upp.

Við þörfnumst rólegrar yfirvegunar. manna, sem meta rök meira en upphrópanir og gefast ekki upp við að finna kjarna málanna, þótt tilraunir séu gerðar til þess að leyna honum.

Það er ekki fyrirhafnarlaust eða vandalítið að vera kjósandi í lýðræðislandi, þótt það sé fámennt land, jafn flókin og mönnum finnst stundum viðfangsefnin vera. En menn verða að skilja, að ekkert mikilvægt vinnst eða helzt án fyrirhafnar. Ef kjósendur reynast vandanum vaxnir, þá verður öllu borgið. Ef þeir gefast upp, leggja árar í bát, þá er leikurinn tapaður og lýðræðið hefur beðið ósigur.

Ég benti áðan á, hvernig ástatt er nú um fjárhasafkomu ríkissjóðs og atvinnuveganna. Mun ég fara nokkrum orðum um það, sem næst virðist framundan liggja.

Tekjur ríkisins hafa árið 1942 náð hámarki sínu, þó að allt sé það fé svo gott sem horfið vegna ráðleysis. Rekstrarútgjöld ríkisins verða hins vegar hærri á þessu ári en nokkurn tíma fyrr, nema stórfelldari ráðstafanir verði gerðar í dýrtíðarmálunum. Það er útlit fyrir lækkandi tekjur með óbreyttum sköttum og tollum, en vaxandi rekstrargjöld. Það er því ekki hægt að vonast eftir stórfelldum tekjuafgangi á þessu ári, er gert er ráð fyrir eðlilegum verklegum framkvæmdum og það, þótt ekki sé ráðizt í að leysa neitt af hinum allra stærstu framfaramálum, sem nú eru á döfinni.

Hér þykir mér rétt að geta þess, að þingmenn Sósfl. hafa nú, síðan nál. fjvn. við aðra umr. fjárlaga kom fram, gert úlfaþyt nokkurn á Alþ. og haldið því fram, að samsæri mikið mundi vera í undirbúningi til þess að skera niður framlög til verklegra framkvæmda. Hafa þeir notað sem átyllu fyrir skrafi sínu, að meiri hluti fjvn. taldi sig ekki tilbúinn að skila till. nefndarinnar um verklegar framkvæmdir fyrr en við 3. umræðu. Þessi vindmylluviðureign háttv. þm. er að vísu brosleg, en hún er einnig fyllilega óviðurkvæmileg, þegar það er athugað, að fjvn. hefur sem heild lýst því yfir, að í n. hafi verið undirbúnar ágreiningslaust till. um verklegar framkvæmdir, sem lagðar verði fram við 3. umr.

Þessir háttv. þm. vita það vel, að hvorki í fjvn. né á Alþ. sjálfu er nokkur meiri hluti fyrir niðurskurði verklegra framkvæmda, enda engin frambærileg ástæða til þess að viðhafa þau vinnubrögð. All þetta tal háttv. þm. er því ekkert annað en misheppnaðar tilraunir til þess að láta líta svo út að þeir séu þeir einu á Alþ., sem hafa áhuga fyrir verklegum framkvæmdum. Af sama toga er spunninn tillöguflutningur hv. þm. við þessa 2. umr., og tekur út yfir að nokkur þingfulltrúi úr fjvn. skuli hafa sig til þess að viðhafa þau vinnubrögð, t.d. að hnupla tillögum meðnefndarmanna sinna og samstarfsmanna úr fjvn. og auglýsa sig með þeim í skjóli þess, að aðrir þm. sýna fjvn. þá sjálfsögðu kurteisi í samræmi við margra ára þingvenju að bíða eftir till. hennar um áhugamál, sem þeir hafa til n. konlið.

Ég gat um útlitið á þessu ári. Stórum alvarlegra er þó útlitið, ef lengra er horft fram. Má vera ráð fyrir enn lækkandi tekjum einstaklinga og fyrirtækja og lækkandi skatttekjum. Það er fyrirsjáanlegt, að eigi verður komizt hjá hruni í fjárhagsmálum ríkisins á næstu árum, nema gerðar verði stórfelldar ráðstafanir í dýrtíðarmálunum.

Nú mundi margur segja, að gripa þyrfti til sparnaðar, og er það rétt, ef það orð er notað í réttri merkingu. Það þarf að sýna fyllstu ráðdeild í öllum rekstri ríkisins, alveg gagnstætt því, sem gert hefur verið síðan Sjálfstfl. tók við fjármálastjórn, og það þarf að vinna að því að lækka gjöld ríkisins og opinberra sjóða með skynsamlegum dýrtíðarráðstöfunum.

Aftur á móti tel ég það illa farið, ef þær ályktanir væru dregnar af því, sem upplýst er um afkomu og afkomuhorfur ríkissjóðs, að senn yrði að verða kyrrstaða í verklegum framkvæmdum og framförum í landinu og Alþ. yrði að gefast upp við að framkvæma áform þjóðarinnar í þeim málum.

Ef við lítum á afkomu þjóðarinnar undanfarið, þá sjáum við, að hún hefur eignazt erlendis í innieignum hátt á þriðja hundrað millj. kr. og drjúgum lækkað skuldir. Það liggur ekki ljóst fyrir á þessu stigi málsins, hverjir þetta fé eiga, en augljóst er af þessu, að mikill fjöldi landsmanna hefur hagnazt stórkostlega undanfarið og sumir beinlínis á þeirri ringulreið, sem ríkt hefur í landinu.

Á málunum hefur hins vegar verið haldið á svo dæmalausan hátt, að ríkið sjálft, ríkissjóðurinn, á ekkert af þessu fé, svo sem gerð hefur verið grein fyrir, og er það þó ekki fyrir það, að ríkið hafi varið stórfé þessi árin til framfaramála. Verklegar framkvæmdir hafa verið fremur litlar, og er það alveg eðlilegt, eins og á hefur staðið. En þeim mun geigvænlegri er niðurstaðan.

Þessi óstjórn má þó ekki valda því, að hér verði kyrrstaða í framkvæmdum í stað þess framfaratímabils, sem menn hafa ætlað sér að hefja jafnskjótt og vinnuafl og efnivörur er fyrir hendi.

Það verður með engu móti þolað, að raforkumálin, endurbygging skipastólsins, samgöngubætur, ræktun og bygging nýbýla, — svo aðeins fá dæmi séu nefnd, — verði stöðvuð fyrir þá handvömm sem orðin er, þar sem fjármagnið er til í eigu landsmanna. Það verður heldur eigi við það unað, að hér hefjist tímabil atvinnuleysis með þeim afleiðingum, sem það hefur fyrir afkomu verkamanna og framleiðslustéttanna í landinu, en aðaláhugamál manna bíði óleyst, þótt fjármagnið sé til.

Með því að fylgja verðbólgustefnunni hefur því fé, sem ríkissjóður að réttu átti að eignast til þess að standa undir framförum, verið ausið út jafnhraðan. Úr þessu verður að bæta, og úr þessu verður ekki bætt til hlítar með öðru móti en því að gera landsmönnum skylt að greiða til ríkisins ákveðinn hluta af því, sem þeir hafa aukið eignir sínar á stríðsárunum, en af sjálfsögðu yrði að undanskilja tiltekna lágmarkseignaaukningu. Til þess að koma þessu í framkvæmd yrði að fara fram hreint allsherjaruppgjör á eignabreytingum í landinu frá stríðsbyrjun. Þessar ráðstafanir verða að fylgja því, sem gert yrði til lækkunar dýrtíðinni.

Jafnframt er af sjálfsögðu nauðsynlegt að endurskoða skatta á tekjur, en slíkar ráðstafanir munu ekki reynast eins og nú er komið einhlítar til þess að bæta úr því öngþveiti, sem — þessi mál eru komin í.

Eigi verður til frambúðar komizt hjá gengishruni, nema sérstakar öflugar ráðstafanir verði framkvæmdar gegn dýrtíðinni. Afleiðingar þess ástands sem nú ríkir, ef ekkert væri að gert, hljóta að verða samdráttur framkvæmda og framleiðslu, atvinnuleysi og alveg sérlega geigvænleg landbúnaðarkreppa, þar sem verðfall á innlendum markaði bættist ofan á þá gífurlegu örðugleika, sem þegar eru fyrir hendi vegna verðlags landbúnaðarafurða erlendis. Þegar þetta ástand hefði staðið um hríð og landsmenn etið til eignir sínar, kæmi svo gengishrunið, sem hefði í för með sér raunverulega lækkun launa og lækkun afurðaverðs á innlendum markaði.

Þessi þróun væri stórskaðleg allri þjóðinni, en afleiðing hennar mundi þó ekki sízt bitna á verkamönnum og launamönnum annars vegar og bændum hins vegar. Ég hef svo þráfaldlega sýnt fram á, í hverju það liggur, að ég geri það eigi minar hér.

Ég held því hiklaust fram, að engir eigi meira undir því en bændur og launamenn, hversu til tekst um þessi mál, enda munu þær ráðstafanir, sem óhjákvæmilegt yrði að gera í málum þessum, snerta þá beinna en flesta aðra landsmenn.

Ég tel það alveg undirstöðuatriði, að þessar stéttir eigi sem mestan beinan þátt í því, sem gert verður í dýrtíðarmálunum og standi saman um úrræði, jafni með sér þann ágreining, sem koma kann upp þeirra á milli, með það fyrir augum, að framtíð hvorra tveggja er að verulegu leyti komin undir því, hvernig til tekst.

Hér er vandasamt verkefni, og rétt er að minna á, að eins og nú er komið, munu ýmsar ráðstafanir, sem allvel hefðu reynzt til þess að stöðva verðbólgu, reynast áhrifalitlar, eins og nú er komið, til þess að lækka. T.d. má nefna, að 1 krónu lækkun á kjötkílói, sem nú hefur verið framkvæmd af hæstv. ríkisstj., kostar ríkissjóð 4–41/2 millj. kr. á ári, en lækkar dýrtíðarvísitöluna sára litið, þótt öll áhrif, bein og óbein, séu meðreiknuð.

Undanfarin ár hefur leið samtakanna í dýrtíðarmálum ekki verið fær. Hún hefur verið gerð ófær. Vegna innbyrðis óeiningar, klofnings og pólitískra fangbragða forustumannanna, hefur verkalýðurinn haldizt utan við framkvæmdir í dýrtíðarmálum, fjárhagsmálum þjóðarinnar. Þetta hefur reynzt hið ver sta böl.

Nú ætlast alþýða manna áreiðanlega til þess, og launamenn, að eigi fari á sömu leið. Verkamenn og launamenn á landinu finna nú áreiðanlega, hvert stefnir um þeirra hag í náinni framtíð, ef þeirri stefnu væri fram haldið að auka upplausnina og stefnt markvisst — fyrst að atvinnuleysi og síðar gengishruni. Þeir vilja ekki niðurrif, heldur umbætur.

Nú veltur hins vegar mjög á því, að þeir, sem falin hefur verið forusta í málum verkamanna, hafi þetta sjónarmið og vinni í samræmi við það. Hitt væri illa farið og mundi vekja gífurlega athygli og andúð, ef nú yrði skotið fram fyrir umbótamálin og haldið fast við sérkreddum og pólitískum trúaratriðum, sem síður en svo hefðu nokkra jákvæða þýðingu fyrir almenning á Íslandi eða íslenzku þjóðina og þessi og önnur slík atriði notuð sem átylla fyrir neikvæðu starfi. Er því Sósfl. gott að taka eftir þessu, og segi ég það að gefnu tilefni frá hv. 8. þm. Rvíkur, sem verk hér áðan að innanflokksmálum Framsfl. og Alþfl.

Bændur og aðrir smáframleiðendur í landinu vaða heldur ekki í neinni villu um það, hvað framundan er í málum þeirra, ef ekkert er aðhafzt. Veltur þá einnig mikið á því, að af þeirra hálfu sé á málunum haldið af víðsýni og framsýni.

Mér er nær að halda, þótt ég hafi hér sérstaklega nefnt bændur og verkamenn, að þjóðin öll lafi sjaldan átt meira undir því, hvernig úr málum ræðst, en einmitt nú.