11.02.1943
Sameinað þing: 24. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 356 í B-deild Alþingistíðinda. (575)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1943

Fjmrh. (Björn Ólafsson):

Ég ætla að byrja mál mitt með því að ræða brtt. við 19. gr. 2, það er nýr liður: „Sérstakar launabætur, án uppbóta“:

a. Til sýslumanna, bæjarfógeta, lögmanns og sakadómara í Reykjavík, presta, héraðslækna, háskólakennara, landsbókavarðar, þjóðskjalavarðar og þjóðminjavarðar, 2000 kr. til hvers, alls 384 þús. kr.

b. Til lögreglustjóranna í Keflavík, Bolungavík og Ólafsfirði, 1000 kr. til hvers, alls 3 þús. kr., en samtals 387 þús. kr.

Uppbætur til þessara embættismanna hafa undanfarið verið greiddar án heimildar í fjárl. og greiddar með sérstökum hætti, einkum til presta og héraðslækna. Þeim embættismönnum hafa verið áætlaðar 7800 kr. árstekjur, þótt það sé mun hærra en þeir hafa yfirleitt, og verðlagsuppbætur greiddar, sem svarar þeirri launahæð. Nú má telja frágangssök að hafa þetta þannig. Til þess að svipta þessa embættismenn ekki meti öllu þeim styrk, sem þeir hafa, leggur ríkisstj. til að veita þeim þessa 2 þús. kr. uppbætur án verðlagsuppbóta. Þetta er þrautalending, sem taka verður, unz launin fást ákveðin með launalögum. Stjórnin mun hins vegar láta undirbúa launalög með það fyrir augum, að þau geti fengið afgreiðslu á næsta haustþingi, og mun hún, ef hún situr áfram, láta leggja frv. fyrir það þing, svo að losna megi úr því öngþveiti, sem þessi mál eru í.

Dýralæknar eru taldir til héraðslækna í þessari till., þótt það sé ekki beint tekið fram.

Þá ætla ég að víkja að fjárl. í heild, eins og fjvn. gengur frá þeim. Hún hefur hækkað ýmsa tekjuliði. Tekjuskattur og stríðsgróðaskattur eru hækkaðir um 8 millj. úr 15 millj. í 23 millj. kr. Árið 1942 munu þessir skattar hafa farið 7,7 millj. fram úr áætlun og numið 21,3 millj. kr., og þannig áætlar fjvn., að þeir verði 1,7 millj. hærri en það á þessu ári. Það er vitaskuld alltaf álitamál. En mér vitanlega liggja ekki nein rök fyrir, um að þetta geti staðizt, þótt segja megi, að tekjur manna almennt séu nokkru hærri, en í fyrra. Ég get ekkert fullyrt um, að n. hafi þarna rangt fyrir sér, og orð mín og hennar verða aðeins staðhæfing móti staðhæfingu. Ég er hræddur um, að lítið sé komið enn af framtölum þeirra skattgreiðenda, sem mestar hafa tekjur, og útlit er fyrir, að stríðsgróðaskattur verði ekki sá, sem hann var s.l. ár, enda viðurkenndi n. það. Þá er vörumagnstollur og verðtollur. Þeir voru áætlaðir 20 millj. kr., en n. hefur hækkað það í 27,5 millj. eða um 7,5 millj. kr. S.l. ár urðu tekjur af þeim 24,4 millj. kr. En það er ekki hægt að loka augum fyrir því, að ástandið í þessum efnum er gerbreytt. Hv. frsm. sagði, að upplýst hefði verið, að skipakostur væri mjög hinn sami og verið hefði s.l. ár. Því miður verð ég að halda hinu gagnstæða fram, og hafi n. fengið slíkar upplýsingar, eru þær ekki réttar. Að vísu hefur verið gefið vilyrði um nokkurn innflutning umfram það, sem haldið var fram í umr. á Alþ. fyrir nokkru, en þótt það vilyrði væri uppfyllt fyllilega, vantaði 20 þús. smál. skipakost móti því, sem var í fyrra, frá Ameríku. Auk þess er það ekki aðalatriði, heldur að þær vörur, sem mestar tolltekjur gefa ríkissjóði, verða annaðhvort stórum rýrðar eða alls ekki fluttar inn. Pelsar eru t.d. í hæsta tollaflokki, en það er vara, sem ólíklegt er, að flutt verði inn. Ýmisleg vefnaðarvara, sem gefur mikinn toll, mun raunar verða flutt inn, en með hverjum deginum verður erfiðara að fá að kaupa þær vörur (auk flutningatregðunnar) í þeim löndum, sem við eigum aðgang að. Ég hef þess vegna haldið því fram, að óvarlegt væri að áætla tolla af þessari vöru hærri en þeir voru 1941. Þó að enn séu ekki orðnar skýrar línur um það, hvernig um innflutning muni haga á árinu, er ég sannfærður um, að sú áætlun fari einna næst lagi.

Tekjur af áfengi eru hækkaðar úr 2 millj. í 3,5 millj. kr. S.l. ár urðu þær tekjur nokkru hærri, og getur þetta þá staðizt að því tilskildu; að áfengi fáist til landsins og verði selt með svipuðu móti og s.l. ár. En erfiðleikar geta orðið 5. að ná þessari vöru, hversu æskilegt sem mönnum kann að þykja að láta hana hafa mikið skiprúm. En hjá því verður ekki komizt, ef hún á að veita þessar tekjur.

Tekjur af tóbaki hefur n. hækkað um milljón upp í 2,5 millj. Hagnaður síðasta árs var um 3 millj., svo að ætla mætti, að þetta stæðist. Þó vil ég benda á, að vafasamt er, að hægt sé að ná hingað nokkrum tegundum, sem beztan hagnað hafa gefið og fást hvorki frá Englandi né Ameríku. Má því lítið út af bera til þess að áætlanir n. um þessa liði bregðist stórkostlega.

Aðrar hækkanir á tekjuliðum skipta ekki stórmiklu máli, og mun ég ekki fara út í þær sérstaklega. Hins vegar verð ég að minna á, að samkv. frv. um Fiskveiðasjóð, sem búizt er við, að verði að l., á ríkið að greiða þeim sjóði 2 millj. kr. auk útflutningsgjaldsins. Samkv. því verður að draga 2 millj. kr. frá þeirri upphæð, sem til ráðstöfunar er á fjárl. Þó að einhver kalli það ótímabært að reikna með útgjöldum þessum fyrr en frv. er samþ., má ekki gleyma þessu.

Enn er að geta þess, að fjárlagafrv. er byggt á vísitölunni 250, en væru útgjöld þess reiknuð með núv. vísitölu, 263, ættu þau að hækka um tvær millj. kr.

Að öllu athuguðu verð ég að álíta, að hér sé ekki aðeins farið á tæpasta vaði, heldur séu fjárl. frá hendi fjvn. með gífurlegum greiðsluhalla, svo að nema muni 5–6 millj. kr.

Framkvæmdir, sem fyrirhugaðar eru samkv. till. n., telst mér nema heildarfjárhæðum, sem hér segir:

Vegagerðir

2232

þús.

kr.

Brúargerðir

996

Ýmsar byggingar

1219

Hafnargerðir

235

"

Bryggjugerðir og lendingar-

bætur

1147

"

Samtals eru það 6 millj. kr. Við meginið af þessum framkvæmdum þarf vitanlega erlent byggingarefni í stórum stíl, og allt þarf þetta mikinn vinnukraft. Eins og ég gat um í útvarpi fyrir skömmu, er nú ferfaldur kostnaður við t.d. vegagerðir á við það, sem var fyrir stríð. Á þessum tímamótum, þegar við vitum ekki, hvort kostnaður fer upp á við eða niður á við, ætti mönnum að vera ljóst, að allar stórframkvæmdir eru hæpnar, sérstaklega ef þær geta ekki talizt nauðsynlegar til að halda uppi atvinnu í landinu. Þær eru ekki hagkvæmar, ef hægt er að komast hjá þeim. Þá kemur það m.a. til greina, að þær skapa kapphlaup um vinnuaflið. Ég er því ekki í vafa um, að það er heppilegra að fresta þeim framkvæmdum, sem hægt er að fresta, en ég tel það sjálfsagt og fullkomlega sanngjarnt, að það fé, ef handbært verður, verði lagt til hliðar til þessara sérstöku framkvæmda, þegar tímarnir breytast til batnaðar. Það kynni þá að fara svo, að þær framkvæmdir gætu bætt úr vinnuþörf, sem vonandi verður ekki fyrir hendi á þessu ári.

Einstakar útgjaldatill. ætla ég ekki að fara nánar út í. En ég vil segja, að ég tel að það skipti ekki mestu máli, hvort þessi eða hinn liðurinn er samþ., heldur, hvernig niðurstaðan verður.

Heimildin í 22. gr. fjárl. um að lækka útgjöld ríkissjóðs um 35%, ef svo færi af völdum þess ástands, sem ríkir, að ríkissjóður geti ekki staðið undir gjöldunum, hefur verið felld niður með einkennilegum hætti. Ég á bágt með að skilja, hvað vakir fyrir n. í þessu efni. Þessi heimild hefur verið talin sjálfsögð handa fyrrv. ríkisstjórnum, allt frá því er ófriðurinn hófst. Hvaða munur er á þeim og núv. ríkisstj.? Eða á þetta að vera vottur um vantraust á stj., að henni sé ekki trúandi til að lækka gjöldin, ef ríkissjóður kæmist í greiðsluþrot? Það mætti kannske líka snúa því upp í traust, þannig að hún geti séð um greiðslu á þessum liðum, jafnvel þótt ríkissjóður kæmist í greiðsluþrot. En hvernig sem það er, vænti ég, að hv. Alþ. sjái nauðsynina á, að þessi heimild megi standa áfram í fjárl.

Hv. þm. bera fram ýmsar till. að upphæð samtals rúmlega 9 millj. kr. Ég vil taka undir niðurlagsorð hv. frsm. um þá sérstöku aðstöðu, sem hér er um afgreiðslu fjárl., að sú skylda hvílir á hverjum þm., að Alþ. skili fjárl. í því formi, að enginn geti með rökum borið fram þá þungu ásökun, að með ábyrgðarleysi hafi verið um þau fjallað.