11.02.1943
Sameinað þing: 24. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 379 í B-deild Alþingistíðinda. (586)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1943

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. — Við þm. Eyf. flytjum nokkrar brtt. á þskj. 410. Ég skal geta þess, að hv. meðþm. minn (GÞ) er sjúkur sem stendur, og hefði hann mælt fyrir sumum þessum brtt., ef hann hefði getað mætt hér í þinginu.

Fyrsta brtt. okkar er við 13. rómv. lið á þskj. 9.10, um að skipta því fé, sem ætlað er til Stíflu- og Ólafsfjarðarvegar, á milli veganna. Ég skal geta þess, að hér er ekki farið fram á nokkra hækkun á fjárveitingu, heldur aðeins það, að upphæðinni verði skipt milli þessara tveggja vera í fjárl. sjálfum. Það má að vísu játa það, að í framtíðinni er ætlazt til þess, að þessir tveir vegir nái saman, og þá verður þetta vitanlega að einum vegi. Og þá má kannske segja, að það sé eðlilegt, að ákveðin sé ein fjárveiting til þess vegar. En því miður býst ég við, að það eigi langt í land, að þessir tveir vegir nái alveg saman. Og við þm. Eyf. teljum það a.m.k. alveg óþarft að hafa tillag til þessara tveggja vega í einni fjárveitingu og viljum því skipta því, m.a. sökum þess, að það getur vitanlega valdið óþægilegum deilum, ef fjárveiting til þessara vega er afgr. eins og lagt er til í fjárlagafrv. og í till, hv. fjvn. að hafa þetta í einum lið; — það getur valdið óþægilegum deilum síðar meir, hvað eigi að veita til hvors vegarins fyrir sig.

Önnur brtt. okkar þm. Eyf. er nr. XXVI á sama þskj., en hún er við brtt. hv. fjvn. um hafnargerðir. Þar leggjum við til, að Ólafsfirði séu veittar 50 þús. kr. Ég býst nú við, að ég þurfi ekki að tala langt mál um Ólafsfjörð. Ég hef hér fyrr á þingi flutt till. um hafnarbætur í Ólafsfirði, sem hafa verið samþ. í hæstv. Alþ., og notið þar fullkomins velvilja. En svo undarlega vill nú samt til, að á fjárlagafrv., eins og það liggur fyrir, og eins í brtt. hv. fjvn., er ekki ætlaður einn eyrir til hafnargerðar í Ólafsfirði. Ég býst við, að öllum hv. þm. sé kunnugt, að í Ólafsfirði er allstórt kauptún og íbúar þess lifa eingöngu á sjávarútvegi. Ég býst einnig við, að af fyrri umr. um svipað mál sé hv. þm. það kunnugt, að í Ólafsfirði er ákaflega vond lending. Ólafsfirðingar hafa nú hugsað sér hafnargerð, eins og menn á svo mörgum stöðum öðrum á þessu landi, enda er líka hafnargerð þar bráðnauðsynleg. En ég verð að játa það, að slíkt mál um fullkomna hafnargerð í Ólafsfirði, er ekki nægilega undirbúið. Það hefur að vísu verið þar nyrðra verkfræðingur frá vitamálaskrifstofunni og gert mælingar og áætlanir um kostnað við þessa fyrirhuguðu hafnargerð. Og álit hans er, að það mundi kosta um 1 millj. kr. að gera trygga og örugga höfn í Ólafsfirði. En ýmis annar undirbúningur er ófullnægjandi enn sem komið er, m.a. hefur enn ekki unnizt tími til þess að leggja rækilegt og rökstutt hafnarlagafrv. fyrir Ólafsfjörð fyrir hæstv. Alþ. En hvað sem þessu líður, þá er eitt víst, að bryggjan í Ólafsfirði, sem allir fiskibátar þaðan verða að lenda við, fyrir utan það, að póstferðabáturinn um Eyjaf jörð verður að lenda þar, — hún er með öllu ófullnægjandi. Þess vegna er það nú, að við þm. Eyf. höfum þrátt fyrir það að ég játa ófullkominn undirbúning þessa máls leyft okkur að bera fram þessa brtt. Og ég vona, að hæstv. Alþ. geti á hana fallizt, þar sem það er sérstaklega tekið fram, að það, sem unnið verði, verði unnið í samráði við vitamálastjóra.

Ég vil fyrir hönd okkar þm. Eyf. þakka hv. fjvn. fyrir það, að hún hefur tekið upp 15 þús. kr. fjárveitingu til bryggjugerðar á Árskógssandi, og ég get fullyrt, að slíks er hin mesta þörf. Eins og e.t.v. sumir hv. þm. vita, er þarna mikil útgerðarstöð, og sú eina bryggja, sem þar hefur verið til, skemmdist mikið í brimi og hafróti nú fyrir stuttu síðan og þarf mikillar endurbótar við. En mjög nærri Árskógssandi, nefnilega á Hauganesi í Árskógshreppi, er engu minni þörf og jafnvel meiri fyrir aðgerðir í þessu efni. Frá Árskógssandi og Hauganesi er útræði og stundaðar fiskveiðar. Og í þessum sama hreppi, Árskógshreppi, er satt að segja þriðji staðurinn, nefnilega Rauðavík, sem er mikill útgerðarstaður. Við flytjum því brtt. nr. XXVIII á sama þskj., um sama fjárframlag til bryggju á Hauganesi eins og á Árskógssandi, 15 þús. kr. Ég veit alveg, hvaða svör munu koma gegn því að taka þessar till. okkar til greina, og það er, að bryggja á Hauganesi er í sama hreppi eins og á Árskógssandi, og þetta er rétt. En þróunin hefur verið slík, þó að þessir staðir séu báðir í einum og sama hreppi, að á þessum tveimur stöðum hefur fólkið safnazt, og það lifir aðallega á því að stunda sjó, en hefur þó jafnframt stuðning af landbúnaðarframleiðslu. Ég held því nú hiklaust fram, að þótt hæstv. Alþ. vildi veita fé til þess að fullkomna höfn, við skulum segja á Árskógssandi, þá mundi ekki verða hægt, eða a.m.k. mjög erfitt að flytja þetta fólk saman, og ég teldi það ekki heldur æskilegt. Frá landnámstíð hefur í þessum hreppi verið stundaður sjór samhliða landbúnaði á ýmsum jörðum og frá ýmsum lendingarstöðum. Og ég verð að halda fram, þó að ég hafi heyrt því fleygt hér á hinu háa Alþ., að það beri að styrkja verulega nokkrar stærri hafnir, en láta hinar eiga sig, að á þessum stað sé þetta ekki hægt öðruvísi en með því að gera stórkostlega röskun á atvinnuvegum og lífsafkomu þess fólks, sem þar býr. Hér er ekki farið fram á mikið af okkur þm. Eyf. Og ég held, að rétta stefnan sé að styrkja slíka smástaði, sem hér er um að ræða, með lítils háttar fjárupphæðum.

Þá flytjum við einnig brtt. við 18. gr., sem er 78. liður á sama þskj., um að hækka eftirlaun sr. Theódórs Jónssonar á Bægisá um 1200 kr. á ári. Ég ætla ekki að fara að ræða um þennan embættismann þjóðarinnar, hvernig hann hefur rækt starf sitt eða halda honum sérstaklega fram. En ég vil aðeins benda á það, að hann er það, sem kallað er „jubil“-prestur. Hann hefur gegnt prestsembætti í 51 ár. Og hann mun vera einn núlifandi presta á landinu, sem hefur gegnt því embætti svo lengi. Hann var vígður til Bægisár 29. júní 1890 og gegndi því embætti þar til í fardögum 1941. Ég vil nú meina það, að þeir embættismenn þjóðarinnar, sem svo óvenjulega lengi hafa gegnt embætti, eigi sérstaka viðurkenningu skilið. Þess vegna vil ég vona það, að hæstv. Alþ. sjái sér fært að samþ. þessa till. okkar.

Þá er 5. till. okkar á sama þskj. undir LXXXVII. lið, við 22. gr., það er um heimild til ríkisstj. til að ábyrgjast lán fyrir Ólafsfjarðarhrepp allt að 100 þús. kr. til rafveitu gagn gagnábyrgð Eyjafjarðarsýslu. Ég skal taka fram, að þessi gagnábyrgð Eyjafjarðarsýslu er þegar fengin. Það er þegar búið að samþykkja það í sýslunefnd Eyjafjarðarsýslu að veita þessa gagnábyrgð. Hæstv. Alþ. hefur áður samþ. ábyrgð vegna þessarar rafveitu í Ólafsfirði. Og ástæðan til þess, að nú er farið fram á viðbótarábyrgðarheimild, er sú, að vegna þess að framkvæmdir rafveitunnar lentu í þeirri dýrtíð, sem stafar af stríðinu, þá verður hún dýrari heldur en upprunalega var áætlað. En að þessi ábyrgðarheimild fáist, er alveg bráðnauðsynlegt, til þess að hægt sé að ljúka þessu verki, sem þegar er hafið og komið langt á leið. Ég vona því, að hæstv. Alþ. neiti ekki um þessa viðbót við þá ábyrgð, sem það hefur þegar gengið í vegna rafveitu Ólafsfjarðar.

Þá eigum við þm. Eyf. aðra brtt. við sömu gr., 22. gr., heimildargreinina, undir rómverskum lið 95 á sama þskj., 410, um heimild til þess að verja úr ríkissjóði 100 þús. kr. til heitvatnsborana við Kristneshælið, að fengnum till. vegamálastjóra. Við vildum nú setja það skilyrði fyrir því, að þetta yrði veitt, að verkfræðingur, sem ríkið réði yfir, réði til þeirra framkvæmda, sem gerðar yrðu. Og þess vegna settum við rétta í brtt. „að fengnum tillögum vegamálastjóra“. Við gátum ekki séð, að annar verkfræðingur í þjónustu ríkisins væri líklegri til að gera skynsamlegar till. um málið en einmitt vegamálastjóri. Eins og líklega flestum hv. þm. er kunnugt, þá er Kristneshæli nú hitað upp með laugarvatni, og svo hefur verið, frá því hælið var byggt. En þess er að geta, að laugin, sem heita vatnið er tekið úr, liggur neðar heldur en hælið, og þess vegna verður að dæla vatninu með rafmagnskrafti upp í miðstöð hælisins.

Hér eru svo fáir þm. við, að líklega er þýðingarlitið að vera að rökstyðja þetta frekar, en ég vil þó geta þess, að það að dæla vatni með rafmagni úr lauginni kostar um 8000 kr. á ári. Það sýnast vera laglegir vextir af 100 þús. kr., en þetta árlega gjald mundi sparast, ef borunin bæri árangur. Ætlunin er að leita eftir vatni á hærri stað en hælið stendur á, og af sérfræðingum um þessi mál er talið mjög líklegt, að þetta muni takast, þar sem vitað er, að þarna er jarðhitasvæði, og eftir þeim árangri að dæma, sem slíkar boranir hafa sýnt á öðrum stöðum, er mjög líklegt, að borun mundi leiða í ljós, að hægt væri að fá heitt vatn ofar.

Við þm. Eyf. höfum skilað brtt. ásamt hv. 4. landsk. þm. við 16. gr. fjári., um 20 þús. kr. framlag til Vatnsveitufél. Glerárþorps. Ég hef ekki orðið var við, að þessari till. hafi verið útbýtt, en vildi tilkynna, að hennar væri von. Ég skal geta þess, að fjvn. hafði ýmis skjöl viðvíkjandi þessu máli, sem ég hef hér hjá mér, og gat hún kynnt sér þau, ef hún hefur hirt um það. Skal ég ekki fullyrða, nema hún hafi gert það. Ég þykist vita, að það þyki mæla á móti þessari till., að ekki sé fordæmi fyrir því að veita fé til að styðja slíkar vatnsveitur. Ég viðurkenni það rétt að vera, en ég held því hiklaust fram, að þarna séu alveg sérstakar ástæður fyrir hendi, sem mér er ekki kunnugt um, að séu til annars staðar á landinu.

Glerárþorp er, eins og allir alþm. vita, rétt við Akureyri. Ég skal upplýsa það, sem ég er ekki viss um að allir viti, að Akureyrarbær á allt landið, sem þorpið stendur á, en bærinn hefur ekki sótt eftir því að leggja þetta landsvæði undir lögsagnarumdæmi Akureyrar, eins og Rvíkurbær hefur gert undir svipuðum kringumstæðum, og gerir ekkert fyrir þorpsbúa né telur sig hafa neinar skyldur gagnvart þeim. Glerárþorp hefur mjög svipaða afstöðu til Akureyrar eins og Skerjafjörður og Grímsstaðaholt til Rvíkur, áður en þau svæði voru lögð undir lögsagnarumdæmi Rvíkur. Þetta þorp, Glerárþorp, er í nágrannahreppi Akureyrar, Glæsibæjarhreppi. Þorpið er ekki kauptún og ekki sveit, og enginn telur sin hafa verulegar skyldur gagnvart því. T.d. um hina einkennilegu sérstöðu íbúa þessa þorps skal ég geta þess, að fyrir nokkrum árum reyndi ég að útvega manni í þorpinu, sem átti þar álitlega fasteign, fasteignalán. Eignin var metin á 20 þús. kr., lágu mati. Mér tókst ekki að útvega honum 2 þús. kr. lán, því að býlið var hvorki jörð né kaupstaðarhús.

Þorpsbúar eru á, fimmta hundrað manns, og þarna hefur það verið svo hingað til, að íbúarnir hafa ekki haft nokkurt neyzluvatn nema úr brunnum, sem flestir eru grafnir í ræktunarlandi, og býlin hafa ekkert frárennsli. Allir sjá, þvílík óþægindi íbúunum eru bökuð við þessa staðhætti, en annað er alvarlegra, og það er sýkingarhættan. Má fullyrða, að það er guðs mildi, að ekki hefur hlotizt alvarlegt tjón af. Í skjölunum, sem ég hef hér, er m.a. vottorð héraðslæknisins, en ég skal ekki tefja umr. með því að lesa það upp. Ég vona, að þm. taki mig trúanlegan um það, að læknirinn telur þetta óhæfilegt frá heilbrigðislegu sjónarmiði.

Ég skal geta þess, að samingar hafa tekizt við Akureyrarbæ um, að kaupstaðurinn lætur vatn úr vatnsleiðslu sinni til íbúðarhúsanna í Glerárþorpi, og verkið er hafið. Það er búið að grafa flesta skurðina, en tafizt hefur að ljúka verkinu, að mestu af því að firmað, sem ætlaði að leggja til pípur og annað efni, hefur enn ekki getað staðið við skuldbindingar sínar.

Það var ekki ætlunin í fyrstu að leita á náðir Alþ. Það var stofnað félag í þorpinu um þetta mannvirki. Það ætlaði að koma verkinu í framkvæmd og tókst að fá 50 þús. kr. lán, en vegna dráttar, sem var Glerárþorpsbúum alveg ósjálfráður og sennilega þeim aðila, sem við þá samdi, líka, er verkið orðið miklu dýrara en ráð var fyrir gert, og því er það, að þessi framkvæmd er í nokkru fári, nema Alþ. hlaupi undir bagga, og ég er víss um, að þessar 20 þús. kr. yrðu ómetanleg hjálp fyrir hin fátæku smábýli í Glerárþorpi. Ég veit ekki til, að þessir 400–500 menn hafi nokkru sinni fengið stuðning ríkisins til neins annars en til skóla, lögum samkvæmt.

Ég skal ekki orðlengja frekar og ekki ræða um till. annarra þm. Aðeins vil ég geta þess, að ég er meðflm. að XIV. brtt. á þskj. 410 um að hækka till. fjvn. um Öxnadalsheiði úr 120 þús. kr. í 170 þús. kr. Ég veit ekki, hvort búið er að gera grein fyrir henni, en ég vil benda á, að Öxnadalsheiði hefur langtímum saman verið eini farartálminn á leiðinni frá Rvík til Akureyrar. Vetur eftir vetur hefur undan farið verið svo góður, sem betur fer, að bílferðir hafa verið svo að kalla óhindraðar frá Borgarnesi til Skagafjarðar. En lengra nær það ekki. Öxnadalsheiði er ófær. Nú er það álit vegamálastjóra, að með þeirri upphæð, sem hér er farið fram á, ásamt þeirri upphæð, sem lagt er til á annarri gr. fjárl., yrði hægt að gera veginn svo bærilegan, að hann verði fær, þegar sæmilegt er, og ef nú hefði verið búið að gera þær framkvæmdir, hefði vegurinn verið fær þessi síðustu ár. Við lítum ekki á þetta sem kjördæmismál, því að það eru fleiri en Akureyringar og Eyfirðingar, sem þurfa að komast yfir Öxnadalsheiði, og ég vona, að svo margir þm. séu víðsýnir í vegamálum, að þessi till. verði samþ.