11.02.1943
Sameinað þing: 24. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 390 í B-deild Alþingistíðinda. (591)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1943

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Við 2. umr. þessa máls vöktum við þm. Sósfl. máls á því, hversu óheppilegt væri að geyma allar brtt. til 3. umr. Ég vildi sýna fram á, að það væri ómögulegt að vita, hvernig fjárlagaafgreiðslunni reiddi af, ef megnið af till. fjvn. og einstakra þm. væri geymt til 3. umr. Ég benti á, að svo gæti farið, að við stæðum frammi fyrir því að afgreiða fjárl. með tekjuhalla og það væri ekki hægt að leiðrétta, þar sem geyma ætti allar brtt. til 3. umr.

Allir þingfl. voru á móti þeirri afgreiðslu, sem við þm. Sósfl. vildum hafa á fjárl. Hæstv. fjmrh. var áðan að halda föðurlega áminningarræðu og talaði um ábyrgðartilfinningu þm. í sambandi við afgreiðslu fjárl. Hins vegar hefur minna heyrzt um það talað, að allir þingflokkar nema Sósfl. voru með því að hafa þessa aðferð. Nú hefur það komið í ljós, að hækkunartill. þm. við þessa 3. umr. eru um það bil 10 millj. kr., en við því er ekkert hægt að segja, eins og nú er komið. Ég held þess vegna, að það hefði verið miklu betri aðferð að taka upp þá till., sem við þm. Sósfl. bárum fram, og gera 2. umr. að aðalumr. fjárl. og koma þá með allar brtt. og sjá svo til, hvernig fjárl. yrðu. Þetta vildi ég aðeins segja út af því, sem hæstv. fjmrh. var að segja við okkur hér áðan.

Í sambandi við það, sem hæstv. fjmrh. sagði um verklegar framkvæmdir, vildi ég segja, að ég er ekki á sama máli og hann. Ég álít, að yfirleitt sé tekjuáætlunin varleg, og ég tel, að það megi ganga út frá því, að tekjurnar verði meiri en þær eru áætlaðar, og þess vegna held ég, að með tilvísun til þess sé ekki réttlætanlegt að ætla að skera niður framlög til verklegra framkvæmda. Hæstv. fjmrh. talaði um, að það væri allt of mikið fé ætlað til verklegra framkvæmda og væri ástæðulaust að stofna til samkeppni um vinnuaflið í landinu. Ég get ekki betur séð en að mikil óvissa ríki nú um alla atvinnu í landinu, og nú þegar er farið að bera á nokkru atvinnuleysi í Rvík. Ég get ekki betur séð en að svo kunni að fara, að ýmis atvinnufyrirtæki kunni að stöðvast, og ef svo færi, þá væri alveg nauðsynlegt að koma af stað verklegum framkvæmdum til þess að hindra, að nokkurt atvinnuleysi skapist í landinu. Við vitum, að það er einvörðungu hernaðarvinnan, sem hefur afnumið atvinnuleysið, en það liggur ekkert fyrir um það, hvernig hún verður á næstunni. Hvað viðvíkur því, að skortur kunni að verða á vinnuafli við landbúnaðinn, þá má geta þess, að það má1 hefur verið notað hér í þinginu til þess að reyna að draga úr vinnu og verklegum framkvæmdum. Frá hálfu verkalýðsfélaganna lá fyrir tilboð til þeirrar stj., sem áður sat að völdum, um það að hafa samvinnu við hana um að tryggja nægilegt vinnuafl til landbúnaðarins, og það hafa alltaf verið fyrir hendi þeir möguleikar til samvinnu við verkalýðsfélögin, en þessir möguleikar hafa ekki verið notaðir. Hins vegar virðist eiga að nota þetta tal um hugsanlegan skort á vinnuafli sem átyllu til þess að reyna að fá það fram, að frestað verði verklegum framkvæmdum. Nú liggur einmitt fyrir, í sambandi við 22. gr. fjárl., till. frá meiri hl. fjvn., þar sem stj. er heimilað að leggja til hliðar og geyma það fé á sérstökum reikningi, sem ættað er til verklegra framkvæmda, ef skortur á efnivörum eða vinnuafli geri ókleift að vinna þær. Baráttan er því um það, hvort það eigi að nota þetta fé til nytsamra framkvæmda. Það hafa nú komið þrjú tiltölulega góð ár fyrir ríkissjóð, en tekjuafgangi þessara ára hefur verið varið þannig, að félagslegar umbætur í landinu hafa orðið að sitja á hakanum. Á sama tíma hafa einstaklingar í Rvík álítið sig þess umkomna að byggja skrauthýsi, sem kosta 400 þús. kr. Baráttan er nú um það, hvort veita eigi fé á fjári. til þess að koma upp ýmsum nauðsynlegum stofnunum, svo sem fæðingarstofnun í Rvík og barnaskólum til sveita, sem er auðvitað alveg nauðsynlegt, ef einhver mynd á að vera á okkar félagslegu framkvæmdum. Baráttan er þess vegna um það, hvort veita eigi þeim, sem eru sérsaklega illa settir í okkar þjóðfélagi, meiri rétt heldur en verið hefur. Það er vitað, að skortur er á hvers konar sjúkrahúsum í landinu, og hið sama má segja um barnaskólana, alls staðar skortir nýjar byggingar og nýjar framkvæmdir. Það er nóg fé til í landinu, og það ber að gera ráðstafanir til þess, að þetta fé verði notað til hagsbóta fyrir heimilin í landinu og þjóðfélagið í heild. Þegar haft er á móti þessum verklegu framkvæmdum, er því verið að berjast á móti því, að þjóðarheildin og alþýða manna fái að njóta þess góðæris, sem verið hefur hjá ríkissjóði undanfarið.

Hæstv. fjmrh. talaði alveg sérstaklega um eina till., þ.e. heimildina til þess að skera niður 35% af öllum fjárlagaútgjöldum. Þessi heimildartill. var sett inn í tíð þjóðstj., og þessi heimaildartill. mætti alltaf harðri mótspyrnu okkar þm. Sósfl., og það var vegna þess, að með þessu var í rauninni verið að gera fjárl. að engu. Er fjárhagsástand ríkisins hefði breytzt svo, að til slíks hefði orðið að grípa, þá var rétt að kalla saman þing. Nú situr þing aftur á móti svo mikinn hluta af árinu, að næg tækifæri eru fyrir hverja stj. að hafa samráð við þingið um þess háttar breyt., ef til þess ástands kæmi, að skera yrði niður verulegan hluta af því, sem áætlað er á fjárl., í þessu tilfelli 35%. En ég álít, að slíkt eigi ekki að eiga sér sað. Hins vegar get ég vel skilið, að hæstv. fjmrh. sé hugsandi út af afgreiðslu fjárl., en það er nokkuð seint að fara að taka upp aths. við fjárl. við 3. umr. þeirra. Fyrir hverja stj., sem situr að völdum, er það hvað nauðsynlegast að hafa sem bezt samstarf við þingflokkana um afgreiðslu mála. Það hefur hins vegar farið lítið fyrir þessu samstarfi í sambandi við fjárl., eins og einnig í sambandi við önnur mál hér í þinginu, og þess vegna er eðlilegt, að hver fari sína götu í sambandi við afgreiðslu fjárl.

Viðvíkjandi því, sem hæstv. fjmrh. talaði um, að verið væri að efna til kapphlaups um vinnuaflið í landinu, þá vil ég segja það, að það er fyrsta og sjálfsagðasta skylda hvers þjóðfélags, sem hefur nægileg peningaráð, eins og er hjá okkur nú, að sjá til þess, að enginn maður gangi atvinnulaus. Við vitum hins vegar, að atvinnuleysi er nú tilfinnanlegt sums staðar úti um landið. Það mun því ekki þurfa að bera áhyggjur út af því, að kapphlaup verði um vinnuaflið. Hitt er aftur á móti hugsanlegt, að niðurskurður á verklegum framkvæmdum eða frestun á þeim kynni að vera undanfari þess að skapa atvinnuleysi og síðar yrði reynt að nota slíkt atvinnuleysi til þess að lækka kjör verkamannanna. Þegar gerðardómsl. var haldið fram, þá þurfti að skapa nokkurt atvinnuleysi, til þess að hægt væri að halda uppi þeim l. Þegar það því kemur fram samtímis þessum hugleiðingum, að þau blöð, sem telja sig bera hag stj. fyrir brjósti, telja grunnkaupslækkun nauðsynlega, þá er ekkert undarlegt þó að maður setji slíkt í samband hvað við annað. Það er þess vegna bæði vegna umhyggju fyrir því, að þjóðin hafi nóg að starfa í ár, og eins með tilliti til hinna bættu kjara, sem ætti að vera hægt að skapa, að ég álít nauðsynlegt, að þingið haldi fast við till. um auknar verklegar framkvæmdir, og þá alveg sérstaklega byggingar og þjóðfélagslegar endurbætur.

Þá ætla ég aðeins að segja nokkur orð út af þeim till., sem ég ásamt öðrum hv. þm. flyt. Þá er fyrst að nefna till. um framlag til fæðingardeildar í sambandi við Landsspítalann. Það þarf ekki að taka það fram, að ég álít þetta eitt af þeim málum, sem sjálfsagt sé að samþykkja, og bæjarstj. hefur nú þegar að sínu leyti mælt með þessu máli, og er það von mín, að þingið láti ekki sitt eftir liggja.

Þá er ég ásamt hv. þm. A.-Sk. flm.till. um styrk til ferjuhalds og gistingar ferðamönnum, og er það í sambandi við frv., sem flutt er í hv. Nd., þar sem farið er fram á af þeim hv. þm., að dýrtíðaruppbót sé veitt á þessa styrki. Ég álít, að þetta sé eðlileg aðferð til þess að koma á réttlæti í þessum málum, að breyta þessu í fjárl. og láta þannig þessa menn verða aðnjótandi nokkurrar hækkunar, svo að það sé ekki beinlínis verið að lækka laun þeirra, eins og gert er, ef styrkirnir eru ekki hækkaðir. Þetta eru litlar fjárupphæðir, svo að ég býst við, að þm. ógni þær nú ekki.

Þá er ég meðflm. að stórri upphæð á 16. gr. við lið, sem áður var veittur til atvinnubóta, þ.e. að breyta orðalaginu. Meining okkar er sú, að í stað þess, að yfirframfærslunefnd ríkisins ráðstafi 1/2 millj. kr., verði þessu fé ráðstafað af stj. í samráði við bæjar- og sveitarfélög, eins og gert var áður. Við leggjum til, að liðurinn hækki upp í 11/2 millj. kr. Þetta er trygging gegn atvinnuleysi, en svo framarlega sem ekki kæmi til þess á árinu, er ætlunin, að þetta fé verði lagt til hliðar og geymt til næsta árs. Þá flyt ég ásamt hv. 5. landsk. litla till. við 16. gr., til Kvenréttindafélags Íslands, enda býst é„ við, að þm. muni vera sammála um það, að það sé nokkuð lítið hægt að gera við 400 kr. styrk nú á tímum. Ef menn eru á annað borð að veita styrk til félagslegra samtaka, sem berjast fyrir góðu málefni, þá munu menn sammála um að gera það svo, að eitthvað ofurlítið muni um það. Ég álít því, að við ættum að geta orðið við því að veita þennan 2 þús. kr. styrk, sem hér er farið fram á. Við ættum ekki að láta kvenfólkið gjalda þess, að það á engan fulltrúa á þinginu til þess að tala máli sínu, og ættum því að samþ. þessa till.

Þá vildi ég fara nokkrum orðum um till. stj. þar sem hún leggur til, að veitt verði sérstök launauppbót á laun sýslumanna og bæjarfógeta, án þess að dýrtíðaruppbót sé reiknuð með, þús. kr. Mér finnst þessi till. stj. mjög einkennileg. Það er þarna lagt til að veita sérstaka launauppbót til þeirra embættismanna ríkisins, sem fá þó heldur meiri laun, en þeir embættismenn, sem hafa lélegri laun, eru þar með látnir sitja hjá. Er það vegna þess, að hæstv. ríkisstj. finnist rétt að halda þessari reglu áfram að greiða þessum mönnum svona heimildarlausl uppbætur á laun sín, læknum, prestum og sýslumönnum? Eða hugsar hún þannig, að þeir, sem hafa þó svona skikkanleg laun, þurfi endilega að fá uppbætur, en aðrir, sem verst eru settir, hvað launin snertir, skuli sitja að því áfram, það sé fullgott fyrir þá? Ég lít svo á, að ef á að samþykkja þetta, þá verði að veita barnakennurum samsvarandi uppbætur líka. Og ég hef ásamt nokkrum öðrum hv. þm. flutt um það till. Ég vil engan veginn neita því, að launin, sem háskólakennarar og ýmsir af þessum embættismönnum fá, eru of lág. En launin, sem barnakennarar fá, eru allt of lág. Og það mundi ekki bæta úr misréttinu, heldur auka það, að taka þá hæst launuðu kennara út úr og veita þeim uppbætur, en skilja svo þá lægst launuðu eftir. Ég álít þess vegna, að þær megi fylgast að, brtt., sem ríkisstj. gerir þarna, og brtt. þær, sem eru á þskj. 419, um sérstakar launabætur til barnakennara, hvort sem þær eru allar samþ. eða ekki.

Þá vildi ég aðeins minnast á eina brtt. til viðbótar, sem ég flyt á þskj. nr. 410, XXI, ásamt fleiri hv. þm., viðvíkjandi slysavörnum, um að liðurinn hækki úr 35 þús. kr. í 100 þús. kr. Ég hef oft áður á þingum flutt brtt. um hækkun á fé til þessa, sem aldrei hafa náð fram að ganga. Ég á bágt með að skilja hvernig á því stendur, að ekki skuli meiru vera varið til slysavarna heldur en gert hefur verið hér á landi. Eftir því sem ég bezt veit, er Slysavarnafélag Íslands alltaf í fjárþröng. Samt held ég, að fá félög séu í landinu, sem njóta eins almennra vinsælda eins og það félag, og ég held, að allir viðurkenni, að fá félög hafi eins gott verk að vinna eins og það félag hefur. Þess vegna hef ég ásamt tveim öðrum hv. þm. lagt til, að þessi liður verði hækkaður eins og ég gat um. Og ég vildi mega vænta þess, að hv. þm. samþykki þessa brtt. Við erum vanir því, að talað sé mjög hjartnæmlega um allt, sem gera þurfi til þess að afstýra slysum á sjó, og ekki sízt þegar stórslys verða hér við land. En samt vitum við, að hvað eftir annað verða þessi slys ægilegri heldur en þau þyrftu að verða, vegna þess að nægilegan slysavarnaútbúnað vantar. Það hefur verið þó nokkuð drjúgt, sem almenningur hefur lagt fram í sambandi við safnanir til Slysavarnafélagsins, og það munu vera orðin mjög útbreidd samtök, sem þar eiga hlut að máli. Mér virðist því það minnsta, sem ríkið geti gert, að leggja þar verulega fram á móti. Við vitum, hverjum það er að þakka fyrst og fremst, hve mikið fé það er, sem ríkissjóður hefur úr að spila á þessum tímum, og við vitum, hverjum það hefur komið harðast niður á, hvað það hefur kostað að afla þessa fjár. Og mér virðist ekki mega vera minni viðleitni, sem sýnd er til þess að draga úr slysahættunni, heldur en að a.m.k. vilji sé sýndur á því að efla starfsemi Slysavarnafélagsins.

Ég er því miður hræddur um, eins og ég hélt við 2. umr., að 3. umr. fjárl. mundi aldrei verða neitt annað en nokkurs konar málþóf. Það mundi verða eins og oft áður á þinginu talað fyrir hinum og þessum brtt. og að enn þá meira yrði talað annars staðar en í ræðustólum, og svo greidd atkv. um brtt. Og með því skipulagi, sem á þessu öllu er, er ómögulegt að sjá fyrir, hvernig fjárl. verða. Þessu væri hægt að afstýra með því að afgreiða við 2. umr. í raun og veru það, sem nú verður gert. En við 2. umr. var bara tími og tækifæri til að laga það, sem aflaga fór. En ef ætti að gera þetta héðan af, að laga frv., gæti ég bezt trúað því, að það kostaði frestun jafnvel í nokkra daga á þessari umr. og nákvæma rannsókn á því, hver vilji einstakra hv. þm. og þingflokka væri, og alls konar samninga til þess að reyna að hafa sómasamlega afgreiðslu á fjárl. Við sósíalistar þykjumst hafa gert okkar í sambandi við 2. umr. til þess að reyna að koma þessu á réttan kjöl. Það mistókst að vísu að verulegu leyti. En það hefur líka tekizt að nokkru leyti að fá hv. fjvn. til að ganga inn á nokkuð af þeim till., sem brýn þörf var á að kæmust inn í fjárl. Og þess vegna er nú ekki um annað að gera, eins og málefnum er komið, en að reyna að skírskota til hv. þm. um ábyrgðartilfinningu þeirra um að gæta hagsmuna fólksins í landinu og að taka til greina þær kröfur, sem það á rétt til að fá fram á þessum styrjaldarárum um einhverjar verulegar umbætur á þess hag. Það er ábyrgðartilfinningin, sem ég vona, að sé rík hjá hv. þm. Og mér sýnist það líka af því, sem fram hefur komið hjá fjvn., að ýmislegt beri vott um það. Má ekki gleymast sú ábyrgðartilfinning sem komið hefur fram um reikningslega góða afkomu fjárl. En ég held, að sú ábyrgðartilfinning hefði átt að koma frekar fram við 2. umr. heldur en raun varð á.