11.02.1943
Sameinað þing: 24. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 399 í B-deild Alþingistíðinda. (594)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1943

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. — Áður en ég vík að þeim till., sem ég flyt einn eða ásamt öðrum, sé ég mér ekki annað fært en að láta í ljós skoðun mína um afgreiðslu fjárl. á þessu þingi, því að það verður að teljast ófyrirgefanlegt að afgreiða fjárl., þessi þýðingarmestu lög þingsins, á næturfundum. Bæði við 2. og 3. umr. hafa fjárl. verið rædd á næturfundum, þótt allir séu sammála um, að fjárl. séu þýðingarmestu l., sem fyrir þinginu liggja. Hér eru haldnir fundir á daginn til þess að ræða ómerkileg mál, en nú er liðið að óttu, og þykir nauðsynlegt að halda hér áfram, þótt þm. séu flestir gengnir til náða og jafnvel fjvn. sjáist hér ekki. Ég segi þetta ekki til ámælis forseta, því að þetta er ekki á valdi hans, en ég get ekki fallizt á, að þm. séu í sambandi við fjárl. að vinna slík myrkraverk, að ekki sé rétt að hafa þau til umr. að degi til í staðinn fyrir að næturlagi. Mér þykir rétt að láta þetta koma fram, svo að þessu verði kippt í lag og þetta þýðingarmesta mál ekki afgr., þegar mestur hluti þm. er til náða genginn. Ég held, að þetta þing hafi staðið það lengi, og fjallað um það smávægileg mál, að ekki mundi skaða, þótt fjárl. væru rædd í einn eða tvo daga, en ekki flaustrað svo af að næturlagi sem nú er gert. Þetta skal ekki skoðast svo, að ég skorist undan að tala um óttuskeið, og mun ég víkja að þeim till., sem ég hef borið fram, og mun víkja að þeim eftir þeirri röð, sem þær eru í á fjárl.

Það er þá fyrst við 12. gr. 3, um læknisvitjanastyrki. Það hafa komið fram till., að ég ætla, bæði á þskj. 410 III og IV og á þskj. 419 II um að hækka um allt að því kr. 200.00 til læknisvitjana á hverjum stað. Ég hefði haft tilhneigingu til að flytja till. um hækkun á læknisvitjunarstyrkjum fyrir mitt kjördæmi. Svo er háttað, að það eru tveir læknar þar, báðir á norðanverðu nesinu, en sunnan á nesinu eru stór og fjölbyggð héruð, sem verða að sækja yfir fjallgarðinn, og að vetrarlagi er það erfið sókn og kostnaðarsöm. Ég hefði viljað flytja brtt. um að hækka læknisvitjunarstyrki til þessara héraða, en mér fannst sanngjarnara, að hækkunin væri almennt, og hef því á þskj. 419 í flutt till. um, að allir læknisvitjunarstyrkir skuli tvöfaldast. Þetta er ekki stór upphæð, sem um er að r æða, því að heildarupphæðin er 13550 kr., svo að þessi tvöföldun þarf ekki að vaxa í augum. Form. fjvn. sagði, að þessar styrkveitingar væru byggðar á misskilningi, vegna þess að til væru l. um læknisvitjunarsjóði. Í l. um læknisvitjunarsjóði frá 1942 er svo ákveðið, að hægt sé að stofna læknisvitjunarsjóði, þar sem menn vilja, og sé greitt úr þeim. Hér er það að athuga, að l. eru svo ný, að það er undantekning, ef þau eru komin til framkvæmda, svo er annað, sem hv. form. fjvn. hefur sézt yfir, en það er það, að í 3. gr. er gert ráð fyrir, að læknisvitjanastyrkurinn skuli ganga í þessa sjóði sem stofnfé. Ég tel þetta því ekki rök og vil vísa frá mér tilvísun til þessara l., og til þess að ná fullkomnu samræmi um þessa styrki alla hef ég talið rétt að bera hér fram till. um, að þessir styrkir verði allir hækkaðir til helminga.

Þá vil ég snúa mér að till. á þskj. 319 III, 1, sem er um fjárframlag til Hellissandsvegar, 75000 kr. og til vara kr. 50000. Á sumarþinginu flutti ég till. um, að rannsakað skyldi vegarstæðið milli Ólafsvíkur og Hellissands. Þessi rannsókn fór fram s.l. haust. Sú rannsókn leiddi til þess, að vegamálastjóri lagði til, að veitt yrði allrífleg upphæð til þessa vegar í fjárl. þeim, sem nú er verið að afgreiða, en því miður mun fjvn. ekki hafa séð sér fært að taka þetta upp, og hlýt ég því að taka þetta upp á ný. Ólafsvík og Hellissandur eru allstór kauptún og mikil útgerð á báðum stöðum. Milli þeirra er stuttur spölur, eða um 8 km, og er til mikilla erfiðleika fyrir bæði kauptúnin að hafa ekki bílveg á milli. Það eru miklir örðugleikar á að koma á sambandi milli þessara staða, vegna þess að undir Ólafsvíkurenni þarf að fara yfir urð, og er búizt við, að nokkur kafli vegarins þurfi að verða steinsteyptur. Hins vegar hefur rannsókn sú, sem gerð var, leitt í ljós, að það er vel fært að gera veg þarna, þótt hann muni kosta töluvert mikið fé. Á það ber þá að líta, hverja framtíðarþýðingu þetta hefur fyrir Ólafsvík og Sand, þegar svokallaður Útnesvegur, sem fyrir nokkrum árum var tekinn í þjóðvegatölu og nú eru veittar kr. 40000 til, er kominn í samband, en um hann er svo háttað, að hann liggur á láglendi að framanverðu á nesinu, þar sem ekki festir snjó, og verður hann fær allan veturinn í staðinn fyrir það, að íbúar Ólafsvíkur þyrftu annars að sækja yfir Fróðárheiði, sem er ófær vegna snjóa að vetrarlagi, a. m. k. 4 mánuði.

Þá er till. á þskj. 419, III, 2, sem ég flyt um hækkun á tillagi til Ólafsvíkurvegar. Þessi vegur er utan til á Snæfellsnesi, áframhald af veginum frá Borgarnesi. Það hefur verið veitt talsvert fé til þessa vegar á undanförnum árum, en þó er eftir einn kafli, sem er örðugur, en það er torfæran yfir Búðaós, en svo hagar nú, að til þess að komast til Ólafsvíkur og Sands þarf að sæta sjávarföllum við Búðaós, og er ætlunin að leggja veg fyrir ofan ósinn, svo að ekki hljótist meiri erfiðleikar af honum. Hv. fjvn. hefur lagt til, að lagt verði til þessa vegar kr. 50000, en vegamálastjóri lagði til, að það væru kr. 60000, og fer ég í till. minni fram á sama tillag og vegamálastjóri gerði að till. sinni, og er tilgangurinn að koma þessum þýðingarmikla vegi sem fyrst áfram.

Þá er 3. till. mín á þskj. 419, III, um Stykkishólmsveg um Kerlingarskarð. Það hefur verið unnið að þessum vegi á síðustu sumrum, og er hann ekki nærri fullgerður. Hann hefur ekki aðeins þýðingu fyrir Snæfellsnessýsluna, heldur og fyrir Barðaströndina, því að hann heldur uppi sambandinu þangað, þannig að farið er með bátum til Flateyjar og að Brjánslæk og til fleiri staða í Barðastrandarsýslu. Fjvn. lagði til, að veittar væru til þessa vegar kr. 45000, en vegamálastjóri lagði til, að veittar væru 50000 kr., og fer mín till. fram á sömu upphæð.

Þá vil ég víkja nokkrum orðum að till. í sambandi við hafnarmái. Ég flyt þar tvær brtt. Sú fyrri er á þskj. 419, IX, 1, þ.e. hafnargerð í Stykkishólmi. Það, sem hér um ræðir, er það, að gamla bryggjan í Stykkishólmi er orðin úr sér gengin, svo að það yrði talsvert dýr viðgerð á bátahöfn þar. Hafnarnefnd fór fram á að fá 80000 kr. í fjárl. til þessa, þegar verið var að undirbúa fjárl. fyrir 1943, og ég held það sé óhætt að fullyrða, að hafnarnefnd og hreppsnefnd Stykkishólms hafi haft vilyrði eða jafnvel loforð um að fá þessa upphæð veitta, 80 þús. kr., eða a.m.k. 60 þús. kr. Nú hefur fjvn. veitt aðeins helminginn, eða kr. 40 þús., en svo er ástatt, að það er þegar í samráði við sérfræðinga búið að panta mikið af því efni, sem til þessa verks þarf, og er í því efni byggt á því vilyrði, sem hafnarnefnd og hreppsnefnd töldu sig hafa fyrir því að fá þetta fé á þessu ári. Fyrir því hef ég borið fram till. um hækkun upp í kr. 80000, sem aðaltill. eða til vara kr. 60000, en það er sú upphæð, sem hafnarnefnd og hreppsnefnd töldu sig hafa vissa von um og hafa fengið vilyrði fyrir að fá.

Þá á ég hér aðra till., viðvíkjandi lendingarbótum á Hellissandi. Á Hellissandi hefur verið unnið að hafnarbótum og veitt nokkurt fé til þeirra, sem þó er ekki verulegt á þann mælikvarða, sem hafnargerðir eru miðaðar við og fjárveitingar til þeirra. En það er þannig, að það hafa orðið talsverð mistök við þessa hafnargerð, sem sumpart verður að skrifast á reikning þess sérfræðings, sem fjallaði um verkið, og sumpart eru vegna skiptra skoðana héraðsbúa sjálfra.

Á Hellissandi eru einhver hin beztu skilyrði til útgerðar, sem við Breiðafjörð og Faxaflóa verða fundin. En þar geta menn aðeins stundað sjó á smábátum, og tilgangurinn með þessari fjárveitingu er að bæta svo við hafnarmannvirkin með hafnargarði og hærri bryggju, að þar megi hafa 12–15 tonna báta, og skapa með því þorpinu ný lífsskilyrði. Því er ekki að leyna, að þorpið hefur verið mjög afskipt bæði um hafnarbætur og vegabætur. Hellissandur er eitt af þeim örfáu kauptúnum á landinu, sem eru án bílvegarsambands við önnur byggðarlög. Fjvn. leggur til að veita einar 25 þús. kr. til lendingarbóta á staðnum, en hreppsnefnd og sýslunefnd hafa sent Alþ. áskoranir um að veita minnst 100 þús. kr. Þetta mál er það, sem þeir leggja langmesta áherzlu á af öllum sínum málum. Ég flyt brtt. á þskj. 419, IX um að verða við þessum lágmarksáskorunum héraðsmanna, en til vara 75000 kr.

Næsta brtt., sem ég á, er við 16. gr., flutt af mér og hv. þm. Barð., um að hækka styrk til Sambands breiðfirzkra kvenna úr 700 kr. í 1000 kr. Það er eðlilega álitamál, hversu háar upphæðir skuli veita slíkum samtökum, en þetta samband er ekki aðeins nafnið. Það heldur uppi kennslu í 3 sýslum, Snæfellsnes-, Dala- og Barðastrandarsýslum, og hefur fasta kennslukonu, sem ferðast um og hefur haldið mörg námskeið. Auk þess hefur sambandið haldið uppi tilsögn í garðyrkju. Rekstrarkostnaður félagsskaparins er því allmikill og vissulega ekki til of mikils mælzt, að það fái þessar 1000 kr.

Þá er það 22. brtt. á þskj. 419, þar sem ég legg til, að styrkir til nokkurra sjúkra- og styrktarsjóða tvöfaldist. Það eru alls 13 slíkir sjóðir á 17. gr. fjárlagafrv. með 150–300 kr. hver, samtals 3250 kr. Hækkunin, sem ég legg til, nemur því aðeins 3250 kr. alls, og vona ég, að öllum megi vera öfundlaust, þótt þessar þörfu stofnanir verði styrktar svo.

Við 18. gr. hef ég lagt til, að styrkur til Ásdísar Sigurðardóttur verði 300 kr. í stað 200 kr., sem fjvn. leggur til. Hún hefur verið ljósmóðir í 32 ár í Miklaholtshreppi og að nokkru leyti í Eyjahreppi. Hún lét af störfum við árslok 1930, en svo stendur á, að ljósmæður, sem þá létu af störfum, voru ekki komnar í fjárlög og komu ekki heldur undir núverandi eftirlaunaákvæði, en urðu alveg út undan, nema Alþ. bæti úr. Það hefur verið reiknað út af fulltrúa í Tryggingastofnun ríkisins, að henni mundu bera 300 kr. eftirlaun, og þótt fjvn. þyki það ekki fært, ber ég fram till. um, að henni verði greiddar þær.

Við 22. gr. hef ég ásamt 3 hv. þm. borið fram brtt. á sama þskj. um að greiða dr. Guðmundi Finnbogasyni landsbókaverði full laun, er hann lætur af embætti, en hann er 70 ára nú í vor og verður að láta af starfinu. Ég þarf ekki að lýsa því fyrir þm., að þessi þjóðkunni fræðimaður hefur verið allra manna stórvirkastur og margt gert stórvel, og vænti ég, að brtt. fái góðar viðtökur.

Þá hef ég ásamt hv. þm. V.-Ísf., hv. þm. A.-Sk. og hv. 8. þm. Reykv. borið fram brtt. um sérstakar launabætur handa barnakennurum við fasta skóla, 1000 kr. til hvers, og farkennurum, 500 kr. til hvers. Ríkisstj. hefur borið fram till. um 2000 kr. launabætur til embættismanna í 3 stéttum og 1000 kr. launabætur handa lögregluþjónum. Það er kunnugt, að barnakennarar hafa verið mjög illa launaðir. Fyrir tveim árum var þó farkennurum veitt launahækkun, sem nam 400 kr. á ári, en þrátt fyrir það eru þeir allir mjög svo illa launaðir. Barnakennaralaun með 30% uppbót gera aðeins 3600 kr. á ári fyrir utan verðlagsuppbót, og miðað við laun annarra starfsmanna og stétta, eru það vitanlega smánarlaun. Okkur þótti ekki fært að leggja til, að allir kennarar fengju þessa 2000 kr. uppbót, sem embættismönnum er ætluð, enda ekki að öllu leyti réttmætt. En í samráði við hæstv. menntmrh. gerðum við þá till., sem ég lýsti. Áður en till. var flutt, var einnig leitað til fræðslumálastjóra og málið borið undir hann, og þótt ríkisstj. flytji hana ekki, er þetta gert í samráði við hana og með fullu samþykki menntmrh. Ég skal taka fram, að barnakennarar eru að tölu sem hér segir: Í kaupstöðum 181 kennari fastur, við barnaskóla utan kaupstaða 157, samtals 338 kennarar við fasta skóla, en farkennarar 124. Uppbótin er samkv. því 338 þús. kr. til fastra kennara og 62 þús. til farkennara, samtals 400 þús. kr.

Þetta eru þær till., sem ég hef flutt, og þótt ástæða væri til að minnast á ýmsar fleiri brtt., mun ég láta mér nægja þessa grg. fyrir till. mínum og vænti þess, að Alþ. sjái sér fært að samþykkja þær.