12.02.1943
Sameinað þing: 25. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 423 í B-deild Alþingistíðinda. (603)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1943

Stefán Jóh. Stefánsson:

Það hefði í rauninni verið ástæða til þess að ræða nokkuð almennt um þau fjárl., sem nú liggja fyrir til endanlegrar samþykktar, ekki sízt af því, að þau eru sett á vafalitið einstökum tímum og við nokkuð sérstök viðhorf í íslenzkum stjórnmálum og ef til vill á nokkrum tímamótum, en þessar umr. eru orðnar nokkuð langar, og auk þess eru margir á mælendaskrá, sem þurfa að mæla fyrir till, sínum. Ég mun því að mestu leyti sleppa að minnast almennt á fjárl., en læt mér nægja að fara nokkrum orðum um örfáar brtt., sem er 1. flm. að. Þó get ég ekki gengið alveg fram hjá einu stóru atriði, sem nokkuð er deilt um og deilt hefur verið um fyrr, en það er, hvort veita skuli ríkisstj. heimild til að skera niður ólögboðnar greiðslur fjárl. um allt að 35%. Alþfl. hefur, frá því að þetta komst fyrst í fjárl., verið því andvígur og að því skapi meir sem hann var óvissari um, hvernig ríkisstj., sem að völdum sat, mundi nota sér þetta. Ég held, að nú sé meir en tími til kominn að nema þetta úr fjárl., því að með þessu hefur verið sniðgengið það skipulag, sem lögvarið er í stjskr. Samkv. henni er þinginu einu ætlað að ráða öllu um viss mál og þá sérstaklega um fjárl., og má benda á 4 talsvert merkileg ákvæði hennar í þá átt. Í fyrsta lagi er það, að fjárlagafrv. skal vera fyrsta mál hvers reglulegs Alþ. og lagt fyrir svo snemma, að Alþ. hafi sem lengstan tíma til að athuga það. Það er m.a. til þess, að hver stjórn sýni þinginu nógu snemma vilja sinn í þeim efnum. Annað er það, að þingi má ekki slíta fyrr en fjárl. hafa verið samþ., og er það eitt, sem tryggir, að völdin í fjármálum séu hjá Alþ., en ekki ríkisstj. Bein afleiðing þess er 3. ákvæðið, að ríkisstj. má aldrei gefa út bráðabirgðafjárlög. Það eru einu l., sem hún má aldrei gefa út. Loks er í 4. lagi tekið fram, að ekkert gjald megi greiða úr ríkissjóði án samþykktar þingsins. Það þýðir, að ríkisstj. megi ekki gera sér nein fjárl. sjálf í meira né minna trássi við þingvilja. Þannig er ljóst, að þetta ákvæði að leyfa ríkisstj. niðurskurð fjárl. er í alla staði óeðlilegt og dálítið hættulegt, þótt það hafi e.t.v. ekki komið að sök. Raunverulega ætti engri stjórn að vera akkur í ákvæðinu. Alþ. má kalla saman fyrirvaralítið, ef þörf gerist að víkja frá fjárl. Stjórnin væri engu sterkari með því að hafa ákvæðið, miklu fremur veikari vegna freistingarinnar, sem er fyrir hana að nota sér það, og vegna tortryggni annarra um, að hún kunni að misnota það. Ég hef sýnt, að engin stjórn getur komizt í vandræði fyrir vöntun þessa ákvæðis, en mjög óþægilegt fyrir stjórn að taka á sig þá ábyrgð, sem Alþ. á eitt að hafa í þessum málum sérstaklega. Hvernig sem á málið er litið, ber að dæma hart þessa tilraun til að opna dyr til að sniðganga þannig stjórnskipulagsákvæði þingræðis vors.

Þá vil ég víkja að 4 brtt., sem ég er 1. flm. að. Tvær hinar fyrstu, brtt. 48–49 á þskj. 410, snerta meðferð fjvn. á fjárveitingum til skálda og listamanna. Fyrri till., sem ég flyt ásamt hv. þm. N.-Þ. (GG), hv. 7. landsk. (KA) og hv. þm. N.-Ísf. (SB), er um hækkun á fjárveitingu til skálda og listamanna úr 100 þús. í 150 þús. kr. Okkur virðist, að þegar fjárráð eru meiri en oft endranær, væri ástæða til, að þetta framlag yrði verulega hækkað. Raunverulega er þessi hækkun ákaflega hóglát og sanngjörn. Fjárl. ársins 1939 voru samin áður eða um það bil sem heimsstyrjöldin skall á og áður en nokkur tekjuhækkun varð af hennar völdum, en þá voru skáldum og listamönnum ætlaðar 80 þús. kr., úthlutaðar af menntamálaráði. Heildarupphæð fjárl. var 181/2 millj. kr. Nú er útlit fyrir, að sú heildarupphæð verði 66–67 millj. eða 3–4 sinnum hærri en 1939. Þá teljum við mjög varlega til mælzt, að framlag til skálda og listamanna tæplega tvöfaldist. Þessir menn hafa oft lifað við örðug kjör, og íslenzka þjóðfélagið hefur goldið þess, en ekki notið, hvað kjörin hafa verið bágborin. Ég hika ekki við að segja, að við höfum efni á þessari hækkun og að þeir eigi þetta og meira inni hjá þjóðarheildinni. Ég vildi, að þessi sanngjarna till. fyndi náð fyrir augum hv. þm.

Hin brtt., flutt af mér, hv. þm. N.-Þ., hv. 11. landsk. og hv. þm. Ísaf., en örlítil orðabreyting við till. fjvn. um þetta efni, að þar falli burt orðin „úr hópi sinna félagsmanna.“ Rökstuðningur okkar er sá, að ef bandalagsdeildirnar eiga að úthluta, er óheppilegt, að þær séu alveg bundnar við það að velja til þess menn úr sínum hópi. Á það hljóta menn að fallast, og get ég látið útrætt um þessar brtt.

Þá er 53. brtt. á sama þskj., flutt af mér, hv. þm. G.–K. og hv. þm. Str. 350 þúsund krónur til Noregssöfnunarinilar. Fyrir tæpu ári eða snemma vors 1942 gekkst Norræna félagið fyrir því, að kallaðir voru saman fulltrúar nokkurra félaga og blaða í því skyni að hrinda fram nokkurri fjársöfnun til handa Norðmönnum til þess að sýna þeim hug íslenzku þjóðarinnar á þessum hörmulegu tímum, og yrði það fé afhent þeim til viðreisnarstarfsins, er þeir hafa endurheimt land sitt að stríðslokum. Sakir fámennis okkar, sem erum ekki fleiri en íbúar næststærsta bæjarins í Noregi, er þess ekki að vænta, að mikið muni um fjárhæðina frá okkur, en Norðmenn kunna meir að meta, hver hugur þeim er sendur í þessu máli. Ég átti tal við norska sendiherrann um málið, og varð um það gott samkomulag. Síðan var dagurinn 17. maí helgaður þessari sjóðstofnun. Þá varð það ljóst, hve mikil ítök málið átti í almenningi, því að ekki sást hér í bæ sá maður, að hann bæri þá ekki merki Noregssöfnunarinnar, eitt eða fleiri. Í flestum sveitarfélögum kringum land fór fram söfnun, og fjölmörg fyrirtæki gáfu álitlegan skerf. Eigi færri en hálft fjórða þúsund einstaklinga hafa gefið. Einn af minnstu og fátækustu hreppunum í nánd við Rvík ákvað að láta fúlgu, sem á hans mælikvarða var stór. Söfnunin er nú orðin 330–350 þúsund krónur og enn bætist við. Okkur fannst ástæða til að ætla, að íslenzka ríkið mundi ekki verða eftirbátur Þingvallahrepps og allra þeirra efnalitlu aðila, sem lagt hafa fé af mörkum, og höfum lagt til, að veittar yrðu 350 þús. kr., eða svipað og búið er að safna. Þm. er jafnkunnugt og mér um hörmungar norsku þjóðarinnar og gera sér í hugarlund, hvernig aðkoman verður, þegar flóttamennirnir koma loks heim og hefja það stríð, sem á eftir styrjöldinni kemur, að reisa við landið. — Ég vildi mega vænta þess, að þessi brtt. yrði samþ. einróma. Annað álít ég í raun og veru ekki sæmandi.

Nokkrir þm. hafa flutt brtt. um að afhenda upphæðina strax til norsku stjórnarinnar í London. Við flm. getum ekki fallizt á þessa brtt., því að Noregssöfnunin var í öndverðu á annan veg hugsuð og hlaut hið almenna fylgi sitt þannig hugsuð. Okkur þykir því einsætt. að þessari fjárveitingu verði varið á sama veg, — ekki eðlilegt að skilja á milli framlags almennings og þessa framlags heildarinnar. Hitt yrði sérstök fjárveiting til norsku stjórnarinnar í London, og þótt hún gæti verið réttmæt, vil ég eindregið ráða gegn því, að rofin séu í tvennt þau framlög, sem við leggjum af mörkum. Um þetta fjölyrði ég ekki frekar nú.

Loks er 76. brtt. á sama þskj. frá okkur hv. þm. Seyðf. (LJóh) um styrk á 18. gr., 1200 kr., handa Eggert Brandssyni sjómanni. Slíkur styrkur er á fjárl. veittur fjölmörgum mönnum, sem öryrkjar eru vegna slysa eða hafa á sérstakan hátt orðið fyrir barðinu á örlögunum. Eggert er 66 ára gamall sjómaður. Fyrir 44 árum braut hann handlegginn og gréri þannig, að aukaliður myndaðist. Þá var erfitt fyrir alþýðufólk að leita sér fullkominnar læknishjálpar. Rúmlega tvítugur varð hann að horfast í augu við örlögin handarvana. En hann hefur samt gengið að allri vinnu hlífðarlaust, stundað fiskidrátt á skútum eins og aðrir, — staðið frívagtir —, fór síðar á togara, en gerðist að lokum fisksali hér í bænum. Hann reynir enn að standa við starf sitt í hvaða veðri sem er og vega fiskinn með handleggnum, sem hann getur sveiflað hringinn eins og hann hangi laus við. Í hina höndina fékk hann blóðeitrun fyrir nokkrum árum, og hún varð honum ónothæf til átaka. En Eggert stóð við fisksöluna frá morgni til kvölds meir af vilja en mætti. Þessi gamli, þrautreyndi sjómaður hefur eytt beztu árum sínum í baráttu, ekki aðeins fyrir lífsbjörg sín og sinna, heldur í þágu þjóðfélagsins, seinast allt að því handalaus. Hann hefur í rauninni unnið miklu lengur en mannlegir kraftar geta enzt. Skammt er til þess, að hann hlýtur að bresta og falla, ef hann hlífir sér ekki. En hann hefur ekki safnað í kornhlöður. Hans bíða engir varasjóðir, ekki heldur eftir stríðsgróðatímann. Hann hefur unnið jafnt og þétt að fisksölu sinni með líkum ágóða og áður. Hann hefur aðeins getað aurað saman til þess að sjá fyrir sér og heimili sínu. Hvað tekur svo við, þegar kraftana að lokum þrýtur ? Smáellistyrkur í einhverju formi, e.t.v. framfærslustyrkur. Hann verður að leita á náðir annarra, og það verður metið, hvað hann geti minnst komizt af með eftir 40 ára erfiðisvinnu í þágu þjóðar sinnar, með brotinn handlegg.

Þó að örlög margra íslenzkra alþýðumanna séu erfið, er þetta dæmi einstakt í sinni röð. Ég get nefnt það í þessu sambandi, að fyrir ærið mörgum árum var Eggert að vinnu sinni og var að skera beitu. Komu þá að útlendir sjómenn og námu staðar til að horfa á hann. tilburðir hans við vinnuna voru óvenjulegir og skringilegir í augum hinna útlendu sjómanna, og þeir hlógu dátt. Þegar Eggert varð var við hlátur þeirra, rétti hann úr sér og snéri handleggnum þannig, að framhandleggurinn fór í hring. Þá hættu sjómennirnir að hlægja, þegar þeir skildu, hver voru örlög þessarar íslenzku hetju. Við háttv. þm. Seyðf. leggjum til, að þessum duglega, en útslitna þjóðfélagsþegni og ágæta gamla sjómanni verði sýndur sá verðskuldaði viðurkenningarvottur að hann fái 1200 kr. í íslenzkum fjárl. Vænti ég, að hv. þm. sjái sér fært að samþykkja það.