12.02.1943
Sameinað þing: 25. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 437 í B-deild Alþingistíðinda. (612)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1943

Steingrímur Aðalsteinsson [frh.]:

Herra forseti. — Ég var að ræða um brtt. um hækkun á tillagi til mæðrastyrksnefndar úr 5 þús. kr. í 10 þús. kr. Hér er ekki um stórvægilega hækkun að ræða, sem mundi breyta niðurstöðu fjárl. Ég fullyrði, að hér sé um þýðingarmikla starfsemi að ræða. Ég held það starf sé svo þýðingarmikið, að sýna beri því nokkra viðurkenningu með því að veita fé til að styðja hana. Mér er kunnugt um, að það starf, seni lagt hefur verið fram í þessu skyni, hefur verið unnið án endurgjalds árum saman. Hefur fé því, sem mæðrastyrksnefnd hefur haft handa á milli, verið safnað með frjálsum samskotum. Mæðrastyrksnefnd Rvíkur hefur fengið styrk að undanförnu, en það var fyrst á þessu ári, að mæðrastyrksnefnd Akureyrar fékk styrk, þótt utan fjárl. væri. Það kostar nú vegna dýrtíðarinnar miklu meira fé en áður að halda starfinu uppi, og við fluttum þessa till. til þess, að n. þyrfti ekki að lengja árar í bát. Það verður að halda nefndinni í horfinu, því að ekki er að efast um þörfina. Ég vænti þess, að ekki þurfi að færa frekari rök fyrir þessari till., og vona, að hv. þm. sjái þörfina á henni og greiði henni atkv.

Þá vil ég minnast á brtt. 387, um framlag til byggingar sjúkrahúss á Akureyri. Mér finnst orðalag till. fjvn. geta valdið misskilningi á því, hvað er hér á ferðinni. Ég held, að þeir, sem ekki þekkja til, haldi, að hér sé ekki um byggingu nýs sjúkrahúss að ræða, heldur byggingu út úr því sjúkrahúsi, sem fyrir er. En þetta er sjúkrahús, sem áætlað er, að muni kosta um 1 millj. kr. Þetta frv, fer því ekki fram á nema örlítinn hluta af því fé, sem áætlað er, að húsið kosti. Ég held, að fjvn. hafi skorið allt of mikið við neglur sér, þar sem vitað er, að hér er um að ræða hús, sem kostar a.m.k. ekki minna en eina millj. kr., og þar sem vitað er líka, að næsta ár verður að leggja fram enn hærri upphæð en þetta. Tel ég það mjög misráðiðað skorast undan því að verða við þessari fjárbeiðni. Ég hef þó ekki séð ástæðu til þess að flytja brtt. við frv., því að ég veit, að hv. þm. Akureyrar hefur gert allt, sem hægt var í þessu efni, og vænti því ekki, að það mundi bera sérstakan árangur, þótt brtt. kæmi fram. En ég vildi aðeins vekja athygli á því, að upphæðin er of lág, og þarf því á næsta ári að leggja fram enn hærri upphæð en ef tekið hefði verið stærra spor við afgreiðslu þess fjárlagafrv., sem nú liggur fyrir.

Nokkuð svipaða sögu er að segja um till. um byggingu húsmæðraskóla á Akureyri. Til byggingar hans veitir fjvn. aðeins kr. 150000.00 á fjárl. þetta ár. Ég veit ekki, hvaða ákvarðanir hafa legið fyrir n. frá kaupstöðum úti um land um fjárveitingar í þessu efni. En hins vegar veit ég, að bæjarstjórn Akureyrar hefur tekið ákvörðun um að reisa húsmæðraskóla á Akureyri, og er ætlazt til, að framkvæmdir hefjist þegar á þessu ári, ef byggingarefni fæst. Það er vitað, að sú bygging mun kosta um 400 þús., og liggur í augum uppi, að þessi upphæð nægir ekki til þess að láta uppfyllast ósk um, að þessi skóli komist upp. Þessi upphæð er lægri en kostnaðurinn raunverulega verður, því að þessi liður hlýtur að fara mjög fram úr áætlun á árinu. Þótt ég bendi á þetta, ætla ég ekki að koma með brtt., því að ég veit, að bæjarfélagið mun halda fram kröfu sinni og að ríkið mun inna skyldur sínar af hendi.

Þá vil ég vekja athygli á brtt. 387, um fjárveitingu til atvinnuaukningar. Þegar talað er um fjárveitingar til að bæta úr atvinnuleysi og miðað er við vegagerðir, eru sérstaklega hafðir í huga þeir kaupstaðir, sem liggja nærri þeim vegum, sem talað er um. Í samlandi við þetta frv. vil ég benda á, að ekki er gert ráð fyrir að vinna neitt nálægt höfuðstað Norðurlands. Það er algerlega gengið fram hjá Akureyri. Öxnadalsheiði er þó þannig, að brýn þörf er umbóta þar.

Ég efa ekki, að frv. hefur ekki síður átt að miða að því að bæta úr atvinnuleysi, sem komið gæti á Akureyri. — Ég hef heldur ekki lagt fram brtt. um þetta mál með hliðsjón af því, að setuliðið mundi leggja fram fé til vegagerðar á Öxnadalsbeiði, og yrði auk þess því fé, sem ætlað væri til vegagerðar að einhverju leyti, varið til vegarins yfir Öxnadalsheiði.

Þá vil ég leyfa mér að minnast örfáum orðum á till. hv. Eyf. um lítils háttar styrk til Vatnsveitufélags Glerárþorps. Þm. Eyf. færði glögg rök fyrir þörf þess að koma á vatnsveitu þarna, bæði frá því sjónarmiði, að þetta væru stórkostleg þægindi, og auk þess ræddi hann málið frá heilbrigðislegu sjónarmiði, sem ég veit, að hv. Alþ. mun virða ekki svo lítils. Ég vil aðeins undirstrika þá erfiðleika, sem þorpsbúar hafa við að stríða, og hve torvelt er að koma þessu verki í framkvæmd nú í dýrtíðinni, án þess að styrkur fáist til þess. Ég vil vekja athygli á því, að eitt, sem gerði það að verkum, að þetta verk varð enn dýrara þarna en annars staðar, var það, að þegar farið var að grafa vatnsveituskurðina, var það gert í þeirri trú, að pípurnar kæmu. Var því lokið s.l. haust. En svo brást, að pípurnar kæmu, og skurðirnir tóku að hrynja saman. Var verkið orðið að nokkru leyti ónýtt þegar pípurnar komu. Auk þess eru ýmsar aðstæður þarna mjög erfiðar.

Enda þótt ég telji ekki, að ríkið beri ábyrgð á því, hvernig farið hefur með þetta mál, vænti ég þess, að þm. taki málinu vel, þar sem ekki er þó um meira fjárframlag að ræða.

Ég mun svo ekki fjölyrða frekar um þær till., sem fyrir liggja, en þær brtt., sem ég stend hér að, eru ekki svo stórvægilegar, að erfitt sé að verða við þeim lítilfjörlegu lækkunum á fjárl. sem farið er fram á.