12.02.1943
Sameinað þing: 25. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 440 í B-deild Alþingistíðinda. (614)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1943

Jakob Möller:

Herra forseti. — Það hafa ýmsir hv. þm. látið í ljós þá skoðun, að tekjuáætlun fjárlagafrv., sem lagt var fyrir Alþ., hafi verið óhæfilega lág, svo að jafnvel hefur mér virzt skína í það, að þeir teldu, að það væi beinlinis í þeim tilgangi gert að blekkja hæstv. Alþ. Og þá að furðulegt sé, þá hafa fallið orð eitthvað á þá leið, að það virtist jafnvel svo, að um það hefði verið hugsað mest af öllu, að Alþ. hefði úr sem minnstu að m , svo að ríkisstj. hefði því meira til þess að skalta og valta með fé ríkissjóðs á þessu ári. Hins vegar held ég;, að hv. þm. hafi látið það glepja sig um of, hvað tekjur ríkissjóðs urðu miklar á s.l. ári. Hv. frsm. fjvn. hefur upplýst hér, að það sé áætlað, að þær muni hafa orðið einar 86 millj. kr. Ég get vel búizt við því, — og ég yrði ekkert hissa á því jafnvel, — þó að þær yrðu eitthvað meiri. En það er bara engin sönnun fyrir því, að tekjurnar verði 86–90 millj. kr. á þessu ári; og það er ákaflega fjarri því. Og ég er svo alveg sannfærður um það, að sú tekjuáætlun, sem hér liggur fyrir af hálfu ríkisstj., hún er varleg; ég get fullkomlega gengið inn á það. En ég tel, að það hefði ekki verið forsvaranlegt að ganga miklu lengra um áætlun teknanna. Og ég skal nú reyna að gera nokkra grein fyrir þeirri skoðun minni.

Tekju- og eignarskatturinn og stríðsgróðaskatturinn voru áætlaðir í frv. 15 millj. kr. Hv. fjvn. vill áætla þá 23 millj. kr. Nú viðurkennir hv. fjvn. það, að hátekjuskatturinn, sem voru hæztu tekjurnar af fyrir ríkissjóðinn af þessum sköttum, muni reynast mun minni á þessu ári heldur en á s.l. ári. Það var líka gert ráð fyrir því, þegar áætlunin var gerð. Og það kann að vera, að ráðuneytið hafi verið um of svartsýnt á það atriði. Það eru ýmsar ástæður, sem liggja til þess. Það er kunnugt, að erfiðleikar um sölu á fiski hafa vaxið. Og það er útgerðin, sem aðallega hafði hátekjurnar á s.l. ári. Og það var gert ráð fyrir vegna vaxandi örðugleika útgerðarinnar, að skattskyldar tekjur hennar nú yrðu mun minni heldur en á síðasta ári. Þetta skilst mér líka, að hv. fjvn. telji rétt, að megi búast við þessu, og megi reyndar telja það alveg víst. En hún byggir hins vegar á því, að lægri tekjur, almannatekjur t.d., verði miklu hærri, og það er rétt. Þær verða miklu hærri. Það leiðir beinlinis af verðbólgunni, m.a. kaupgjaldshækkuninni og slíku, þ. á m. hinum miklu viðskiptum í landinu. En þess er að vænta, að þær lægri tekjur þurfi að vaxa til stórra muna til þess að vega upp tap á hátekjunum, því að lægri tekjurnar eru í skattal. undir miklu lægri og lækkandi skatti. Og það þarf marga gjaldendur með lægri tekjum til þess að vega upp á móti hverjum einum gjaldanda, sem hefur hátekjur. En svo eru það ekki aðeins þessar efasemdir um það, að framtaldar tekjur verði nokkuð nálægt því eins miklar nú eins og næst liðið ár; þar kemur fleira til greina; innheimtan kemur hér líka til greina. Þegar á að fara að taka skatt af öllum almenningi, þá vitum við, að innheimtan er miklu vafasamari heldur en þegar innheimt er hjá stórum fyrirtækjum og stórum gjaldendum. Og nú, þegar líður á þetta ár og ef þrengist um atvinnu og atvinnutekjur manna, þá er gefinn hlutur um svo og svo mikinn fjölda þeirra, sem á skattaskránni eru skrifaðir fyrir jafnvel háum sköttum, að þegar á að fara að innheimta þessa skatta, þá er bara ekkert til í þá. Það kann nú að vera, að mönnum þyki þetta furðulegt. En maður þekkir mýmörg dæmi um, að þó að einstaklingar hafi miklar tekjur, þá sér þess engan stað. Það er horfið; og þegar á að fara að innheimta skattana, ef ekki eru áframhaldandi tilsvarandi tekjur, eins og hafa verið, þá koma örðugleikar á því að ná inn sköttunum. Og það er einmitt með hliðsjón af þessu líka, sem tekjurnar hafa í frv. ekki verið áætlaðar hærra en gert hefur verið.

Nú skal ég hins vegar játa, að einmitt þessi tekjuliður er sá tekjuliður, sem langhelzt má gera ráð fyrir, að líklegur sé til að gera betur heldur en frv. gerir ráð fyrir.

Það tekur því ekki að gera að umræðuefni hina smærri liði, sem hv. fjvn. hefur hækkað. Þetta eru 100 þús. kr., eins og fasteignaskatturinn, sem er hækkaður um þetta, sennilega í sambandi við hækkað fasteignamat. En það var ekki séð, þegar þessi áætlun var gerð, þá var ekkert víst orðið um það, hvaða breyt. yrði á matinu. Og það kann vel að vera, að sú hækkun, sem á honum hefur verið gerð, sé réttlát. Sama er að segja um þá skatta, sem hv. fjvn. hefur hækkað meira og minna, þetta um 150 þús. kr. og þar fram eftir götum.

Þá eru tollarnir, vörumagnstollurinn og verðtollurinn. Það er náttúrlega gífurlegur munur á því að innheimta verðtollinn á s.l. ári upp í 30–40 millj. kr. og hins vegar að áætla hann svo 15 millj. kr. á þessu yfirstandandi ári. Og ég skil svo sem ósköp vel, hve fjvn. þykist geta verið þess fullviss, að óhætt sé að bæta þar töluverðu ofan á. En mér finnst, að hv. fjvn. hafi, eða a.m.k. ýmsir af hv. nm., gleymt því, að fyrrverandi ríkisstjórn lá undir ekki alllitlu ámæli einmitt fyrir það, hvað hún hefði innheimt háa tolla. Það er í tollskrárl. heimild til þess fyrir ríkisstj. að lækka verðtollinn, þannig að innheimta ekki verðtoll af flutningsgjaldshækkun frá víssum tíma. Þessi heimild hefur ekki verið notuð. Og fyrrverandi ríkisstj. hefur legið undir allmiklu ámæli fyrir að hafa ekki notað hana. Nú lá það fyrir að gera ráðstafanir til þess að vinna bug á verðbólgunni. Og það hefur ákaflega mikið verið haft á orði — og ég held einmitt af flokksmönnum hv. frsm. fjvn., og raunar fleirum, a.m.k. af hálfu Sósfl., — og áherzla lögð á það, að einmitt einn liður í ráðstöfunum til þess að lækka verðbólguna væri að lækka tolla, eða jafnvel algert afnám tolla á öllum vörum, sem telja mætti nauðsynjavörur. En einmitt af mörgum þeim vörum eru borgaðir allháir tollar. Nú, þar sem fyrrverandi ríkisstj. gerði ráð fyrir, að þingið, sem saman átti að koma, mundi taka einmitt þessi mál fyrst og fremst til alvarlegrar íhugunar og gera ráðstafanir til þess að vinna á móti verðbólgunni, þá er eðlilegt, að gert væri ráð fyrir, að þær ráðstafanir mundu einnig beinast a;ð því að lækka tolla, t.d. þó ekki væri annað en að nota þessa heimild tollskrárl. til þess að innheimta ekki verðtoll af flutningsgjaldshækkuninni. Það hefur ekki verið reiknað út, hve miklu það mundi nema til lækkunar á tolltekjum ríkissjóðs, ef þessi heimild væri notuð. En alveg vafalaust hefði það mjög verulega þýðingu hvað tolltekjurnar snertir. Þetta hafði ekki verið reiknað út, enda ekki að vita, nema gengið yrði enn þá lengra í tolllækkun heldur en þar er gert ráð fyrir. Það hefur mjög verið haft á orði, að tollarnir samkvæmt tollal. hefðu verið hækkaðir meira en sæmilegt væri, og það mátti þess vegna búast við, að það yrði gengið enn lengra í tollalækkun en aðeins að fara eftir þessari heimild, og að tekin yrði fyrir til endurskoðunar tollskráin og tollar lækkaðir samkv. þeim till. En þetta virðist nú vera alveg gleymt. Og ég finn ekki betur en að einmitt þeir hv. nm. í fjvn., sem kosnir eru í n. af. þeim flokkum, sem heyrzt hafa frá sterkastar raddir um tollalækkanir, séu einmitt ötulastir í því að áætla tollana sem allra hæsta.

En það verður ekki gert hvort tveggja, að afla ríkissjóði tekna með háum tollum og afnema tollana af vörum fyrir almenning til þess að lækka dýrtíðina. Ég verð því að telja alveg réttlátt að áætla verðtollinn ekki hærri en gert hefur verið hér; þegar þar við bættist líka, að vitanlegt var, að erfiðleikar á vöruinnflutningi til landsins mundu verða miklu meiri á í hönd farandi ári en á síðasta ári, og þar af leiðandi mundu tolltekjur lækka til verulegra muna. Og get ég í þessu sambandi vísað til þess, sem hæstv. núverandi fjmrh. hefur um þetta sagt.

Um hækkun á vörumagnstollinum er náttúrlega nokkuð svipuðu máli að gegna. En það skiptir minna máli í þessu sambandi. Hv. fjvn. hefur ekki borið fram till. um svo stórfellda hækkun á honum. Þó er rétt að geta þess, að á s.l. ári voru felldir niður vörumagnstollar af víssum nauðsynjavörum. Og ég hygg, að sú tollalækkun muni nema fyrir ríkissjóð 1–11/2 millj. kr. Og að sjálfsögðu gildir um þann toll, alveg eins og verðtollinn, að búast má við rýrnun á honum líka vegna minni innflutnings en áður.

Þá eru tekjurnar af ríkisstofnunum. Áætlun frv. um þær er gerð eftir till. forstöðumanna þessara stofnana. Ég skal játa, að forstöðumenn þessara stofnana, svo sem áfengisverzlunarinnar og tóbakseinkasölunnar, þeir hafa, að mér hefur virzt yfirleitt haft mikla tilhneigingu til þess að áætla tekjur þeirra verzlana ákaflega varlega, og venjulega mun ráðuneytið hafa hækkað þeirra áætlun nokkuð. Ég man það ekki, og tel það í raun og veru ekki þess vert að rifja það upp fyrir mér, hvort í þetta skipti hefur verið farið nákvæmlega Eftir þeirra till. eða eitthvað hefur verið farið fram úr þeim. Ég hygg þó, að það hafi ekki verið gert. Það er alveg rétt, að tekjur ríkissjóðs af þessum ríkisstofnunum hafa á síðasta ári orðið miklu meiri heldur en í áætluninni er gert ráð fyrir, og jafnvel nokkru meiri en hv. fjvn. vill hækka tekjurnar í. En ég get um þetta vísað til þess, sem ég hef sagt um annan vöruinnflutning til landsins. Það er allt í óvissu um það, hve mikið verður hægt að flytja til landsins af þessum vörum og hvað selzt af þeim og hve mikill ágóði ríkissjóðs verður af þeirri verzlun.

Ég get líka vísað til þess, sem hæstv. fjmrh. sagði um þetta, sem var mjög á þessa lund, og sérstaklega það, sem hann sagði um einstakar tegundir af þessum vörum, sem mjög miklir erfiðleikar eru að fá. Þar við bætist um áfengisverzlunina, að allt hefur verið í mjög mikilli óvissu um þann rekstur. Það hafa verið uppi kröfur á Alþ. um það að stöðva áfengissöluna alveg, og nú liggur fyrir þinginu frv. um heimild til handa sveitarfélögum til að banna áfengissölu hver hjá sér. Þetta frv. er nú gengið í gegnum Nd. Hvaða afgreiðslu það fær í Ed., skal ég ekki segja, en það er a.m.k. nokkur óvissa frá þeirri hlið séð, hver tekjuvon er í sambandi við áfengisverzlunina. Fyrrv. stj. hafði einnig legið undir nokkru ámæli fyrir að hafa gert of mikið að áfengissölu. Það var þess vegna alveg óvíst, hver háttur yrði upp tekinn í því efni á þessu ári, þegar ný stj. kæmi, og ekkert vitað um, hver þingviljinn mundi verða í því efni. Það var þess vegna ekki ástæða fyrir stj. til að fara fram úr þeirri áætlun, sem forstöðumaður þessarar verzlunar lagði til, að gerð væri um tekjur hennar á árinu. Ég verð þess vegna, með þessum rökum sem ég hef greint, að halda fram, að þessi tekjuáætlun hafi verið þannig úr garði gerð, að engin ástæða sé til þess, að hún sé beitt þeirri gagnrýni, sem hér hefur verið gert, eða fyrrv. stj. ámælt fyrir, að hún hafi vísvitandi verið að villa um fyrir Alþ. eða gert tilraun til þess með tekjumöguleika af þessum tekjustofni.

Þá vil ég benda á í þessu sambandi, að þrátt fyrir þessa var legu áætlun, þá var áætlunin um afkomu ríkissjóðs á árinu þó þannig, að gert var ráð fyrir 61/2 millj. kr. rekstrartekjuafgangi og hátt upp í 3 millj. kr. hagstæðum greiðslujöfnuði, svo að jafnvel með þessari varlegu áætlun var nokkuð upp á að hlaupa. Nú hefur hins vegar fyrrv. stj. sætt mjög miklu ámæli fyrir, að kastað hafi verið höndunum til gjaldaáætlunarinnar, og það svo, að mér hefur skilizt, að n., eða a.m.k. hv. frsm. hennar, hafi talið það sæta firnum, að slíkt handahófsverk skyldi koma frá ríkisstj. Ég minnist þess, að hv. frsm. barmaði sér mjög mikið yfir því m.a., að þegar n. hefði tekið til starfa, hefði hún ekki fengið neina launalista, og þegar farið hefði verið að spyrjast fyrir um það í fjmrn., hvort ekki væru til launalistar, hefði komið upp úr kafinu, að þeir væru ekki til. Ég veit ekki, hvernig hann heldur, að farið sé að því í ríkisféhirzlunni að greiða laun embættis- og starfsmönnum, ef ekki er til launalisti, og að sjálfsögðu er til launalisti, það er ekkert vafamál. Hann hefur ekki verið skrifaður upp fyrir hv. fjvn., það er allt annað mál. Mér er kunnugt um, að sumum háttv. þm., — maður getur sagt þingflokkum, — er ákaflega mikill þyrnir í augum, að felldur var niður sá siður að afhenda fjvn. launaskrá, sem gert var áður. Ég hef sjálfur átt sæti í fjvn., og ég man vel eftir því, þegar fjvn. fékk þessar launaskrár. Hún hafði ákaflega mikið fyrir að ganga úr skugga um, hvort þessar launaskrár væru réttar. Það fóru jafnvel margir dagar í það, og þessi launaskrá var aldrei rétt. Á hverju þingi sat fjvn. með sveittan skallann við að leiðrétta hana eftir upplýsingum, sem hún fékk frá einstökum stofnunum um mannahald, og það reyndist undantekning, ef þessari launaskrá bar saman við síðari reynslu frá þessum stofnunum. N. hafði mikið fyrir að koma þessu til að stemma. Mér er ekki ljóst, hvaða þýðingu þetta hefur. Ég bið hv. þm. að athuga, að áætlanir, sem n. hefur verið að leiðrétta á frv., eins og það kom frá ríkisstj., um launagreiðslur hjá einstökum stjórnardeildum og einstökum stofnunum, eru áætlanir, sem gerðar hafa verið eftir áætlunum, sem ráðuneytið hefur fengið frá þessum stofnunum. Ég sé, að n. hefur gert á þessu nokkrar breyt., sjálfsagt eftir nýrri upplýsingum alveg eins og áður, þegar launaskrá og launalistar voru til reiðu þegar í byrjun þings, og þegar n. fer að endurskoða þessa lista, koma í ljós meiri og minni skekkjur, ekki skekkjur, sem hafa nokkra þýðingu fyrir niðurstöðu fjárl.; það geta háttv. þm. sannfært sig um í sambandi við þetta frv., að leiðréttingar á launagreiðslum ýmissa stjórnardeilda hafa vitanlega enga þýðingu fyrir útkomu fjárl., því að það er alls ekki hlutverk fjvn. að framkvæma slíka endurskoðun. Það er ekki hægt að ætlast til, að fjvn. geti endurskoðað neina reikninga, henni er ætlað annað hlutverk. N. ætti að geta sannfært sig af þeim árangri, sem hún hefur fengið af þessum launalistum, hversu tilgangslaust þetta er.

Ég geri ráð fyrir, að þótt hv. frsm. gerði þetta að umtalsefni með launalistana, þá hafi hann ekki talið það svo sérstaklega mikinn galla, að þessar skekkjur skyldu koma fram. Hann þekkir, að á þessum tíma eru breyt. á kaupgreiðslum miklu tíðari en annars hefur verið, og það er satt að segja eitt af því, sem er allra mest þreytandi á þessum tímum, allt það stímabrak, sem verður að eiga við starfsliðið, sem, vegna þess hvað almenningur er álitinn hafa miklar tekjur, er endalaust að biðja um kauphækkun. Það verður ekki hjá því komizt, að slíkar launahækkanir hljóti að eiga sér stað, og þess vegna eru launagreiðslur svo breytilegar, ekki aðeins ár frá ári, heldur jafnvel mánuð frá mánuði. Undan því verður ekki komizt. Annars hefur fyrrv. stj. ekki hlotið ámæli, hvað snertir launagreiðslur til starfsfólks ráðuneytanna og ekki í raun og veru að því leyti, sem það mundi snerta launalista og launaskrá. Hins vegar hefur hv. frsm. áfellzt fyrrv. ríkisstj. fyrir launagreiðslurnar, hækkanir, sem hafi átt sér stað til einstakra embættismannastétta, og kveðið þar allfast að orði, og það hafa fleiri hv. þm. gert. Ég minnist þess, að hv. frsm. lét svo um mælt, að ríkisstj. hefði fundið upp á því furðulega tiltæki að greiða uppbætur á laun, sem hafi alls ekki verið til. Á hann þar við uppbætur á laun lækna og presta. Þetta er misskilningur hjá hv. frsm, að því leyti, að launin eru til, og það er ekki heldur rétt hjá honum, að það hefði aldrei þekkzt, að uppbætur væru greiddar á þau laun, sem væru ekki greidd úr ríkissjóði. Það er svo þekkt fyrirbrigði, að það hefur verið gert, frá því að dýrtíðaruppbótin var lögleidd hér og fram á þennan dag. Það er í sambandi við kennaralaunin. Eins og kunnugt er, eru kennaralaunin borguð að nokkrum hluta úr ríkissjóði og nokkrum hluta úr sveitarsjóði, en verðlagsuppbót og dýrtðaruppbót eru greiddar að öllu leyti úr ríkissjóði. Þannig hefur ríkissjóður greitt uppbót á laun, sem hann hefur ekki greitt. Um lækna og presta er svipað ástatt. Læknar og prestar hafa að nokkru leyti laun sín frá ríkissjóði, en að nokkru leyti annars staðar frá. Þeir fá nokkurn hluta launa sinna frá þeim almenningi, sem þeir vinna fyrir. Nú hefur þetta sérstaklega mikla þýðingu í sambandi við lækna. Þessar aukatekjur þeirra eru verulegur hluti af þeirra tekjum, en ríkissjóður hefur sett þeim hámark með taxta, sem þeir mega ekki fara yfir með gjöld fyrir verk sín. Nú kom að sjálfsögðu upp sú krafa frá héraðslæknum að fá þessum taxta breytt, fá hann hækkaðan í hlutfalli við dýrtíðina. Það var alveg eðlileg krafa, þar sem kostnaður þeirra óx í hlutfalli við dýrtíðina, en tekjur ekki. Nú bera héraðslæknar þetta mál upp við ríkisstj. og leggji eindregið til, að taxtinn verði ekki hækkaður, heldur verði læknum bætt upp þeirra kjör með öðrum hætti. Um þetta varð nokkur deila innan ríkisstj. Niðurstaðan verð þó sú, og ég get tekið fram, að það var ekki sízt fyrir atbeina þess ráðh., sem er úr flokki hv. frsm., að ríkisstj. féllst á till. landlæknis, að bæta launin á þann hátt, að þeir fengju verðlagsuppbót, eins og þeir fengju laun með því hámarki, sem verðlagsuppbót er greidd af, eða 650 kr. á mánuði. Sumir þeirra hafa áreiðanlega haft aukatekjur langt fram yfir þann mismun. Sumir þessara manna eru meðal launalægstu embættismanna, og aðrir hafa litlar tekjur. Þessi aðferð verður því til þess, að þeir, sem verst eru settir með laun, fá mesta uppbótina, en hinir minna, sem meiri hafa launin. Hefði taxtinn aftur á móti verið hækkaður, hefðu þeir fengið mesta uppbót, sem mestar höfðu aukatekjurnar. Ég hefði gert ráð fyrir, að a.m.k. flokksmenn hv. frsm., og í raun og veru fleiri nm. hefðu talið þetta ákaflega mannúðlega og fallega lausn á málinu. Hins vegar er ekki um það deilt, að til þessa hafði stj. enga heimild, en ég þori að fullyrða, að Alþ. var þetta fullkunnugt, og að því leyti er það gert með þess þegjandi samþykki, þó að það hafi ekki verið gert með formlegu samþykki. Og það liggur í hlutarins eðli, að þegar þannig var liðkað til fyrir þessari launastétt, varð ekki undan því komizt, að önnur launastétt, sem eins stóð á fyrir, prestarnir, fengju svipaða meðferð. En ég skal taka fram, að þetta var gert áður en Alþ. samþ. þá allsherjaruppbót á laun embættismanna, sem samþ. var á sumarþinginu.

Þessi óheimilu gjöld, sem þarna er um að ræða og hv. frsm. hefur áfellzt stj. fyrir að hafa innt af hendi, hafa á siðasta ári numið 7–800 þús. kr. Það er að vísu á venjulegan mælikvarða allveruleg upphæð, en að byggja á því ásakanir á ríkisstj. um óhæfilega eyðslu á fé ríkissjóðs, finnst mér hæpið, meðan ekki er fundið fleira ósæmilegt í meðferð ríkisfjár. En ég hef séð og heyrt eftir ýmsum andstæðingum stj., að hún hefði gert sig seka um taumlausa eyðslu á ríkisfé, en þetta virðist þá vera eini flugufóturinn fyrir því, sem fundizt hefur, enn sem komið er.

Hv. 2. þm. Reykv. talaði hér í gærkvöld og veik nokkuð að þessu atriði. Það var út af till., sem núverandi ríkisstj. hafði borið fram um að greiða uppbót á laun lækna, presta, sýslumanna og háskólakennara eins og greinir í þeirri till., sem hv. þm. er af sjálfsögðu kunn. Hv. 2. þm. Reykv. furðaði sig mjög á því, að ríkisstj. skyldi þannig taka út úr þessar embættismannastéttir, sem telja mætti betur stæðar, en hafa aðrar út undan, sem lakar væru launaðar, eins og kennarana. En mér er nær að halda, að ekki verði sagt með sanni, að kennarar séu verr haldnir af launakjörum tinum en t.d. prestar, svo að hv. þm. hefði a.m.k. ver ið óhætt að undanskilja þá, þegar hann var að ásaka stj. fyrir að draga taum hálaunaðra embættismanna. En eins og ég hef gert grein fyrir, þá er allt öðruvísi ástatt fyrir þessum tveimur embættismannastéttum, læknum og prestum, því að þeir eiga að taka nokkurn hluta að tekjum sínum af almenningi í gjöldum fyrir þeirra embættisverk, og þegar aðrir fá uppbætur á sín laun, eiga þeir að sjálfsögðu kröfu til að fá uppbætur á sín laun. Um kennara er allt öðru máli að gegna, því að þeim eru ekki ætluð nein laun nema af ríki og sveitarfélögum, og á þau laun fá þeir lögmælta verðlagsuppbót og aukauppbót. Ég skal leiða hjá mér, hvort launakjör kennara séu ósæmilega lág eða við unandi, en það er þá af sjálfsögðu Alþ. að taka það mál til athugunar. Hins vegar er þetta ekki heldur réttmæt ásökun hjá hv. þm. í garð fyrrv. stj., vegna þess að kjör kennarastéttarinnar voru líka í heimildarleysi bætt frá því, sem verið hafði, og það var satt að segja af þeirri einföldu ástæðu, að talið var, að ekki væri hægt að halda kennurum við þeirra störf, nema kjör þeirra væru bætt, sérstaklega farkennara, enda fengu þeir laun sín hækkuð verulega. Þetta var gert af þáverandi kennslumrh., en af sjálfsögðu með samþykki annarra ráðh. Ég læt þessa ekki getið til þess að koma mér að því leyti undan sök, því að ég átti minn fulla þátt í, að þetta var gert, en tek þetta aðeins fram til að vekja athygli á því, að við ráðh. Sjálfstfl. áttum ekki einir frumkvæðið að þessu, heldur kennslumrh. úr öðrum flokki.

Um launabætur háskólakennara er það að segja, að það var beinlínis samþ. af Alþ. 2 þús. kr. launahækkun til háskólakennara. Sömuleiðis staðhæfi ég, að launahækkun til sýslumanna hafi einnig verið ákveðin í samráði við Alþ. Hitt er rétt, að ríkisstj. hafði ekki formlega heimild til þess að gera þetta. En ég staðhæfi, að hæstv. Alþ. sé siðferðislega bundið við þessar ráðstafanir og beri siðferðislega ábyrgð á þeim, þó að sú formlega ábyrgð hvíli á ríkisstj.

Þetta er nú það, sem fundið hefur verið að um meðferð ríkisstj. á ríkisfé. Sjálfsagt verður fleira tínt til. En tiltölulega óhræddur er ég nú við þá endurskoðun, sem á sínum tíma fer fram á þeim hlutum. En það bíður náttúrlega síns tíma.

Ég hygg nú, að þessar uppbætur hafi verið látnar koma fram í fjárlagafrv. Ég hygg, að launabætur til háskólakennara séu tilgreindar í launalið háskólans. Og launabætur til sýslumanna voru einnig teknar upp í fjárlagafrv. Ég þori ekki að fullyrða um launabæturnar til prestanna. Það er verðlagsuppbót. Og það kann að vera, eins og verðlagsuppbótin var áætluð, þá hafi láðst að taka það til greina. En eins og getið var í sambandi við frv., þá var verðlagsuppbótin áætluð með þeim hætti, að tekin var sú upphæð, sem samkv. ríkisreikningnum fyrir 1941 var talið, að greitt hefði verið í verðlagsuppbót, og hún hækkuð hlutfallslega við vísitöluna, upp í 250. Þetta skyldi maður halda, að væri nokkuð örugg áættun. En ef það hefur ekki reynzt vera það, þá er það af því, að verðlagsuppbótin í ríkisreikningnum kemur ekki öll fram í þessum lið.

Hins vegar vil ég vekja athygli á því, að þegar þessi áætlun er gerð, þá er allt í óvissu um komandi ár. Það er allt í óvissu um, hvaða ráðstafanir Alþ. muni gera til þess að lækka eða draga úr verðbólgunni. Þegar áætlunin var gerð, var vísitalan 250, og hún var tekin til þess að miða við. Hins vegar var gengið út frá því sem alveg sjálfsögðum hlut, að hæstv. Alþ. einbeindi sínum kröftum að því að gera ráðstafanir til þess að draga úr dýrtíðinni og þar með að lækka þessi fjárlagaútgjöld ríkisins. Og virtist því í rauninni ekki fjarri sanni að gera ráð fyrir því, að sú áætlun, sem gerð var um verðlagsuppbætur, mundi, jafnvel þó að ekki kæmu þar öll kurl til grafar, nægja til þess að standast öll útgjöld ársins þar sem hún var áætluð í samræmi við svona háa vísitölu.

Hv. frsm. fjvn. (FJ) hefur haft orð á því, eð þær brtt., sem hv. fjvn. hefur flutt til hækkunar á útgjaldahlið frv., hafi við 2. umr. numið samtals, að viðbættum fyrstu till. n., um 17 millj. kr., en þó væri „stærri helmingurinn“ leiðréttingar á frv. Og hann vildi ekki eigna fjvn. frumkvæðið að nema „minni helmingnum“, sem aðallega væri vegna verklegra framkvæmda. Nú véfengi ég það, að það sé rétt, að þessi „stærri helmingur“ af 17 millj. sé aðeins leiðréttingar. Og ég hygg, að það hafi beinlínis legið í orðum hv. frsm. í hans grg. fyrir þessu, þar sem hann taldi fram, að það væru í brtt. leiðréttingar á röngum áætlunum og til fullnægingar á skuldbindingum ríkissjóðs, t.d. í sambandi við ýmsar framkvæmdir í landinu. Ég hygg, að framkvæmdir ríkissjóðs séu mjög umdeilanlegar í mörgum tilfellum. Í ýmsum þeim tilfellum eru skuldbindingar ríkissjóðs bundnar því, að fé á fjárl. sé ætlað til þess, sem um er að ræða. Það er því alveg á valdi löggjafarvaldsins í sambandi við fjárl., hve langt er gengið í því að fullnægja þeim skuldbindingum.

Ég tel rétt að víkja hér að nokkrum einstökum liðum, sem ég geri ráð fyrir að n. telji til leiðréttinga á áætlun frv., og sem nema verulegum upphæðum. Það er þá fyrst það, sem hún í till. sínum, sem fram komu við 2. umr., leggur til, að framlag til landhelgisgæzlu verði hækkað úr 500 þús. kr. í 1250 þús. kr. og framlag til strandferða ríkissjóðs verði hækkað úr 1 millj. kr. upp í 1600 þús. kr. Um þessa liði er það að segja, að það er ákaflega mikið vafamál, hvernig með það átti að fara. Og það var um tvo kosti að r æða að miklu leyti um þessa tvo liði. Landhelgisgæzlan er sérstakur liður þarna. En það er ekki svo gott að skilja á milli landhelgisgæzlunnar og strandferðanna, því að í framkvæmdinni er þessu allmjög blandað saman. Nú vil ég vekja athygli hv. þm. á því, að í fjárlagafrv. er í sambandi við strandferðirnar tekið fram að á síðasta ári hafi tap á rekstri strandferðaskipanna orðið 800 þús. kr., sem stafar, að því er sagt hefur verið, af því, að flutningsgjöld hafa ekki verið hækkuð í nokkru samræmi við stórum aukinn útgerðarkostnað, því að útgerðarkostnaðurinn hafi aukizt stórkostlega. Ja, ég hafði alveg eins getað búizt við því, að ríkisstj. fengi ákúrur fyrir það að hafa látið reka á reiðanum um afkomu þessarar starfrækslu ríkisins, að haldið var sömu farmgjöldum þrátt fyrir stóraukinn rekstrarkostnað. Og ég fyrir mitt leyti hefði talið það alveg eðlilegt, að farmgjöldin hefðu verið hækkuð. Þau hafa eitthvað verið hækkuð að vísu, en náttúrlega hvergi nærri sem svarar kostnaðaraukningu. Ég vek athygli á því, að sú farmgjaldahækkun kemur af sjálfsögðu ekki fram til tekjuaukningar á s.l. ári, eins og hún gerir á þessu nýbyrjaða ári, vegna þess að hún er ekki framkvæmd í ársbyrjun, heldur seint á árinu. Ég vildi ekki fyrir mitt leyti leggja til, að endilega skyldi tekinn allur hallinn á ríkissjóð, eins og gert hafði verið, þó ríkisstj. gerði það að vísu árið sem leið þá vildi ég ekki gera það að minni till., að því yrði haldið áfram. Þess vegna taldi ég rétt að áætla ekki þann gjaldalið fullkomlega, eins og gera mátti ráð fyrir að hann mundi verða, ef ekkert yrði að gert til þess að jafna það. Var því lagt á vald Alþ., hvað það vildi gera í þessu efni. Hv. n. hefur hækkað þennan lið, sennilega ekki talið rétt að hækka farmgjöldin til samræmis við kostnað, og skal ég ekkert áfellast hana fyrir það að svo stöddu. Enda er allt í óvissu um það í framtíðinni, og er komið undir því, hvaða ráðstafanir verða gerðar til lækkunar á dýrtíðinni, hve mikill þessi kostnaður verður.

Af öllum stórum gjaldaliðum, sem ég get gert ráð fyrir, að hv. flm. hafi átt við í þeim ummælum sínum, sem lutu að því, að hroðvirknislega hefði verið gengið frá, þá sé ég hér tvo liði á 17. gr., sem er kostnaður við berklavarnir, sem er hækkaður úr 1300 þús. upp í 1750 þús. kr., og styrkur til sjúklinga, samkv. 1. nr. 78 frá 1936, úr 550 þús. í 1 millj. kr. Þarna er áætlunin hækkuð mjög verulega frá því, sem var í stjfrv. Hins vegar vil ég vekja athygli á því, að í frv. voru þessir liðir hækkaðir allverulega, eða styrkurinn til berklavarna um 355 þús. Um hinn liðinn hygg ég, að hafi verið farið eftir tillögum Tryggingastofnunar ríkisins. Fjmrn. getur af sjálfsögðu ekki gert slíkar áætlanir, nema með því að fá þær frá hlutaðeigandi stofnunum.

Af sjálfsögðu er svo einn liður, sem hv. fjvn. kom ekki með brtt. um við 2. umr., heldur nú, á 16. gr., kostnaður við ráðstafanir vegna mæðiveikinnar. Um þann lið segir í aths. í sambandi við fjárlagafrv.: “Kostnaður við varnir gegn útbreiðslu sauðfjársjúkdóma og útrýmingu þeirra er áætlaður hinn sami og á síðustu fjárlögum, enda hefur ráðuneytinu ekki borizt nein áætlun um þennan kostnað fyrir næsta ár. Það hefur af sjálfsögðu verið gengið eftir því við þá hv. n., sem þau mál hefur til meðferðar, að hún gerði áætlun um kostnað næsta árs af þessum ráðstöfunum. En ráðuneytinu barst ekki slík áætlun í tæka tíð. Hins vegar skal ég játa, að í ríkisbókhaldinu er náttúrlega auðvelt að sjá, að þessi kostnaðarliður hafði farið stórmikið fram úr áætlun, sem gerð hafði verið á fjárl. á s.l. ári. En ég skal aðeins geta þess, að ég fyrir mitt leyti kveinka mér við að gera nokkrar till. um útgjöld í þessu sambandi. (FJ: Það gera víst allir). Já, það gera það víst allir, segir hv. frsm. og ég sé, að það hefur staðið eitthvað í n. að gera það, og ég skil það svo mæta vel. Mér fyrir mitt leyti fannst mjög sómasamlegt að ganga svona frá því, að taka liðinn upp eins og hann var í síðustu fjárl. og láta svo hæstv. Alþ. eftir, hvað það vill gera í þessu máli. Hins vegar er, að því leyti sem þessi liður og einhverjir fleiri hafa sjálfsagt verið of lágt áætlaðir og n. ekki þurft að dyljast, að væru það, þá er bara til þess að vísa, að frv, er þó með þeim hætti, að þar er hátt upp í þriðju millj. kr. hagstæður greiðslujöfnuður, sem var til þess að hlaupa upp á til þess að mæta þeim hækkunum, sem hv. fjvn. teldi líklegt, að þyrfti að gera, og vildi leggja til, að gerðar væru. Ég segi það sérstaklega með tilliti til þessa kostnaðar vegna sauðfjárveikinnar, sem er nú líklega stærsti leiðréttingarliðurinn, sem hv. fjvn. sennilega vill kalla svo. Þetta eru sem sagt þrjár millj. kr. Og ég skal játa, að ég geri ráð fyrir, að óhætt mundi að hækka einstaka tekjuliði nokkuð frá því, sem í áætluninni var.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um fjárlagafrv. Það liggur nokkurn veginn í augum uppi, að á slíkum tímum, sem nú eru, verða fjárlagafrv. meira og minna af handahófi vegna óvissunnar, sem er um framtíðina, jafnvel á allra nánustu framtíð, sem er það yfirstandandi ár, sem nú er verið að semja fjárhagsáætlun fyrir.

Ég hef heyrt, að hv. þm. hafi margir áfellzt fyrrv. ríkisstj. fyrir það að hafa ekki áætlað meira til verklegra framkvæmda í landinu en gert var í frv. Það er því til að svara fyrst, að niðurstaðan á fjárlagafrv. er þannig, að hún leyfir ekki miklar verklegar framkvæmdir, þegar líka tekið er tillit til þess, að einstakir gjaldaliðir mundu óhjákvæmilega verða að hækka, þ.e.a.s. mundu verða of lágt áætlaðir, ef halda ætti þeim áfram í sama horfi og gert hefur verið. Þar við bætist, að í frv. felast allverulegar hækkanir á greiðslum til verklegra framkvæmda, miðað við það, sem verið hefur. T.d. eru framlög til vegamála hækkuð um nær 4 millj. kr. frá fyrra ári, og tel ég það ekkert lítilræði. Hitt er svo annað mál, að ég tel það tilgangslitið að áætla mikið fé til verklegra framkvæmda, því að litlar líkur eru til, að mikið verði úr framkvæmdum, þar sem ýmist muni vanta efni eða vinnukraft eða þá hvort tveggja. Ég geri ráð fyrir, að þetta ár verði gott atvinnuár fyrir allan almenning, og get ekki hugsað mér, að næsta sumar verði ekki nóg að gera fyrir alla verkamenn landsins, svo að ákvarðanir um verklegar framkvæmdir verða naumast framkvæmdar nema að litlu leyti. Þegar vinna er svo mikil, að fullnægt er allri vinnuþörf, tel ég ekkert vit í, að ríkið fari í kapphlaup um vinnuaflið.

Ég á aðeins fáar brtt. við frv. og smávægilegar. Fyrst er LXXVlI. brtt. á þskj. 410, sem ég flyt ásamt hv. þm. V.–Sk., um eftirlaunabætur handa séra Böðvari Bjarnasyni á Rafnseyri, sem nú hefur látið af prestskap. Í fjárlagafrv. ríkisstj. voru þessi eftirlaun ákveðin 1400 kr., en fjvn. lækkaði töluna niður í 600 kr. Við leggjum nú til, að hún verði aftur hækkuð í 1200 kr. Ég vek athygli á því, að þessi prestur hefur unnið mjög þarft starf sem embættismaður, og það jafnvel út fyrir sjálfsagðan verkahring sinn, þar sem hann hefur í mörg ár haft unglingaskóla á heimili sínu. Með þessu hefur hann unnið þjóðnýtt starf. Ég vil í þessu sambandi geta þess; að einnig er nýlátinn af prestskap vestan lands Sigtryggur Guðlaugsson prestur á Núpi, og hafa honum verið ákveðin allhá eftirlaun á 18. gr. Mér finnst sjálfsagt að gera ekki svo mikinn mun á þessum tveim prestum að ætla öðrum 3000 kr., en hinum ekki nema 600 kr., þó að starf séra Sigtryggs hafi að vísu verið meira.

Þá á ég LXXXI. brtt. á sama þskj., um hækkun á styrk til Magnúsar Magnússonar úr 800 kr. í 500 kr. Hann hefur verið dyravörður við kennaraskólann. Ég skal játa, að hér gætir nokkurs ósamræmis í 18. gr. fjárl., og þykir mér líklegt, að þetta verði allt endurskoðað, en mér finnst hins vegar varla hægt að hafa svona styrk minni en 500 kr.

Á 419. þskj. á ég till., hina X. í röðinni, um verklegt framhaldsnám iðnaðarmanna. Til þess hafa verið ætlaðar 6000 kr. á fjárl. um langt skeið. Er svo til ætlazt, að fé þessu verði varið til að styrkja fullnuma iðnaðarmenn, sem vilja fara utan til þess að gera sig færari í iðnaðargrein sinni. Þessir menn fá flestir nokkurt kaup, meðan á ferðinni stendur, en þó ekki fullt. Þessar 6000 kr. eru lítil upphæð, þegar þess er gætt., að oft hafa 8 eða jafnvel 10 menn orðið að skipta henni milli sín. Í a-lið tillögunnar er lagt til, að fjárlagaliðurinn verði hækkaður upp í 10 þús. kr.. svo að unnt verði að vita styrk þann, sem um getur í b-liðnum, án þess að skerða um of fjárveitingar til annarra. — Jón Friðriksson rafvirki hefur hug á að fullnuma sig í þeirri grein raftækni, sem lýtur að lækningum. Ég ætla ekki að lesa þá grg., sem ég hef hér í höndum viðvíkjandi þessu máli, en aðeins geta þess, að þar er um að ræða eindregin meðmæli frá dr. med. Gunnlaugi Claessen, Vilmundi Jónssyni landlækni og Níels Dungal prófessor. Þeir lýsa yfir því, að enginn sé nú hér á landi, er kunni að gera við rafmagnslækningatæki, og auk þess fær þessi maður eindregin meðmæli manna, er til hans þekkja, meðal annarra skólastjóra iðnskólans. Þó að hv. þm. kunni að þykja sú upphæð, sem hér er tiltekin, nokkuð há, ber þess að gæta, að ekki verður komizt af með minna í Ameríku, þar ~.em hann mun dveljast, en hann mun ekki kaun fá á meðan. Við nánari athugun tel ég nú, að betur fari á því að fella b-liðinn niður, þ.e.a.s. að taka það ekki berum orðum fram, hvernig styrknum skuli skipta. Hins vegar tek ég það fram, að tilætlunin með hækkuninni er fyrst og fremst sú að gera umræddum manni kost á styrk þeim, sem hann hefur farið fram á, og með þeim fyrirvara tek ég b-lið till. aftur, en vona að a-liðurinn verði samþykktur eigi að síður.

Ég mun ekki ræða um brtt. einstakra hv. þm., og mun afstaða mín til þeirra koma fram við atkvgr.