12.02.1943
Sameinað þing: 25. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 455 í B-deild Alþingistíðinda. (618)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1943

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. — Ég vildi gjarnan segja nokkur orð um 3 brtt., sem ég stend að, en ég skal vera fáorður um þær, og það því fremur, sem mjög fáir þm. eru nú á fundi.

Ég verð þó að segja það, að .greinilega er nú fram komið, sem við þm. Sósfl. spáðum við 2. umr., að með þessari óvenjulegu aðferð, sem farin hefur verið við afgr. fjárlfrv., mun allt lenda í fjárþröng. Margir tugir brtt. hafa nú fram komið við fjárlfrv., upp á tugi millj. kr., og nú er talað um það í fjvn., að ekki sé nema ein lausn við þessu, og sú eina lausn sé að drepa allar þessar brtt. frá einstöku þm. án tillits til þess, hve réttmætar þær séu. — En allir hv. þm. hljóta að sjá, að þetta er engin lausn — alls engin, en vert er að minnast þess, að orsökin til þessa er sú, að brtt. voru yfirleitt ekki látnar koma fram við 2. umr. Þm. fengu ekki tækifæri til þess að vita um, hvernig hv. fjvn. mundi bregðast við till. þeirra, og hún fékk ekki heldur tækifæri til að láta uppi álit sitt á brtt. eftir að hafa rætt þær og athugað í n., því að þm. lögðu ekki yfirleitt brtt. sínar fram við 2. umr. Nú er því svo komið, að ekki virðist annað vera fyrir hendi en að bera hlut þeirra fyrir borð án tillits til þess, hversu réttmætur hann er. Og það er svo langt gengið, að harðar tilraunir eru gerðar til þess að fá þm. til þess að greiða miskunnarlaust atkv. á móti brtt., þó að almennt sé viðurkennt, að sumar þeirra hafi fullan rétt á sér, og ættu, ef allt væri með felldu, að ná fram að ganga. Þó að ekki væri nema því einu til að dreifa, að erfitt er að taka afstöðu til sumra brtt. á svo stuttum tíma, þá mælir það eitt svo á móti því, að brtt. komi fram við 3. umr., að sjálfsagt væri að fá fram brtt. við 2. umr.

En við þá hv. þm., sem telja sig verða hart úti við afgreiðslu þessara fjárl., vil ég segja það, að þeir geta sjálfum sér um kennt, því að þetta eiga þeir ekki að líða, því að með þessu fyrirkomulagi er í raun og veru verið að gera hv. fjvn. einráða um það, hvernig fjárl. verða. — Vil ég svo ekki hafa fleiri orð um þetta atriði.

Þá vil ég geta þess, að hv. 2. landsk. og ég skrifuðum undir nál., þó að við teldum fulla ástæðu vera til þess að áætla tekjur ríflegri en 5ert er og að liðurinn til verklegra framkvæmda hefði verið hærri og enn fremur til menntamála. En í flestum öðrum atriðum gátum við eftir atvikum orðið samferða nm., enda tóku þeir margar af okkar till. til greina í n.

En ég verð að segja, að mér þykir það vera kaldhæðni örlaganna, að við sósíalistar vorum þeir einu, er fluttum brtt, við 2. umr., og þær eru líka þær einu, sem eitthvað hafa komizt áleiðis í n. Fjvn. tók þær til athugunar og mætti þeim a.m.k. á miðri leið. — Reyndar er ekki ástæða til að ræða þetta nú, en ég vildi þó ekki láta hjá líða að sýna fram á, hversu fráleitt það er að haga afgreiðslu fjárl. svo sem nú hefur gert verið.

Út af ræðu hv. fjmrh. og annarra hv. þm. varðandi tekjuáætlunina vil ég segja þetta: Tekju- og eignarskattur hefur verið áætlaður 23 millj. kr. eða lægri en hann reyndist árið, sem leið. Þrátt fyrir að vitað er að allir launamenn í landinu hafa fengið 25–30% grunnkaupshækkun. Því ætti að mega gera ráð fyrir hækkuðum tekju- og eignarskatti á þessu ári. Því er þessi áætlun vægast sagt mjög varlega áætluð.

Þá vil ég benda á, að tekjur af útflutningsgjaldi sjávarafurða eru áætlaðar l millj. kr. En útflutningsgjaldið á árinu, sem leið, frá því í ágúst og út árið reyndist vera 11/2 millj. kr., og þó lágu togararnir á þessum tíma þónokkuð lengi í höfn. því verð ég að segja, að varlega er þessi liður áætlaður á 1 millj. kr., þegar tekjurnar lítinn hluta ársins, sem leið, reyndust vera af þessu útflutningsgjaldi 11/2 millj. kr.

Einnig vil ég leiða athygli að því, að tekjur af vörumagns og verðtolli urðu á árinu, sem leið, 47 millj. kr., en eru nú áætlaðar 27,5 millj., en ekki liggja neinar upplýsingar til stuðnings því, að rétt sé að áætla hann þetta lægri en hann reyndist vera síðasta ár.

Hv. 3. þm. Reykv. var að tala um, að það sæti sízt á kommúnistum að vera að áætla tolla mikla og gera ráð fyrir miklum tekjum á þann hátt. Það, að við sósíalistar séum á móti háum tollum, er alveg rétt hjá hv. þm., ef hann á við það, en það er alveg óskylt því að áætla tolla og skatta svo og svo mikla. Það breytir auðvitað engu um það, hve miklir þeir verða. Við sósíalistar erum reiðubúnir til þess að lækka tolla um helming, en það er auðvitað allt annað, þó að við reynum að áætla þá sem næst því, sem þeir reynast verða samkv. gildandi lögum. Ég tel því, að teknahliðin sé varlega áætluð, en ekki of hátt.

Þá kem ég að þeim brtt., sem ég stend að, að einhverju leyti: Þá er fyrst brtt. 410 nr. XXXI, sem við flytjum allmargir, um að veita 55 þús. kr. til leikfimishúss við Menntaskólann á Akureyri. Þetta litla mál hefur annað af tveimur verið eins og rekandi tundurdufl í fjvn. N. hefur alltaf verið hrædd við að minnast á þetta mál, en hitt hættumálið er styrkveitingar til listamanna. Þegar á þessi mál var minnzt, ætluðu sumir nm. alveg að springa, og tók n. því enga ákvörðun um þau, og varð það því úr, að einstakir nm. fengu aðra þm. til þess að flytja þetta með sér.

Um þörfina á því að verja 55 þús. kr. til viðbyggingar og viðgerðar á leikfimishúsi M.A. er það að segja, að skólinn hefur verið nær leikfimihúslaus undanfarin ár. Upphitunartæki hússins hafa verið ófullkomin og böð og búningsklefa vantað alveg. Íþróttafulltrúi ríkisins hefur lagt til, að þetta nái fram að ganga, og skólameistari hefur flutt málið fyrir fjvn., auk þess sem hann hefur gert ýtarlega grein fyrir því í bréfi til n. Annars hefur annar hv. þm. þegar talað fyrir þessu máli, og sé ég því ekki ástæðu til þess að minnast á það frekar.

Þá á ég brtt. á þskj. 419, lið nr. VII, um að breyta A. XI. lið 13. gr. þannig að bæta inn í orðunum: „og til vegaverkstjóraekkna“. Ég hef átt tal við vegamálastjóra, og hann óskaði eftir því, að þetta yrði tekið upp, en sú ósk kom svo seint, að fjvn. gat ekki tekið það upp, og flutti ég því brtt. um það sérstaklega.

Vegamálastjóri gat þess, að vegaverkstjóri nokkur, sem hefði verið búinn að vinna lengi hjá ríkinu, hefði nú um nokkurt árabil notið eftirlauna, en nú dó hann fyrir skömmu, og vill nú vegamálastjóri mælast til þess, að ekkjan fái að njóta eftirlaunanna áfram, en hann hefur nú ekki heimild til þess að veita henni þau. Upphæðin á fjárl. er ekki heldur nægileg, og hef ég því lagt til, að hún yrði hækkuð um 1000 kr.

Þá eigum við fjórir brtt. á þskj. 419 lið XXV, við brtt. ríkisstj. á þskj. 410, lið LXXXIII, um, að sýslumönnum, bæjarfógetum, lögmanni, sakadómara, prestum, héraðslæknum, háskólakennurum, landsbókaverði, þjóðskjalaverði og þjóðminjaverði verði veittar hverjum einstökum kr. 2000 í launabætur án uppbótar. Við leggjum til, að á þessa brtt. verði einnig teknir upp barnakennarar, með 2000 kr. hver og farkennarar, með 1000 kr. hver. Ég tel sjálfsagt, að ef áðurgreindir menn fá uppbætur á laun sín, þá fái kennarar einnig launabætur, og er þörfin á því þeim mun meir í sem laun kennara eru lægri en þessara manna. Skólastjórar í kaupstöðum komast nú hæst í rúmlega 4800 kr. grunnkaup og kennarar hæst í rúml. 3900 kr. grunnkaup. Til samanburðar má geta þess, að sakadómari og lögmaður munu hafa um 9000 kr. í grunnkaup, og er því ekki óeðlilegt, að kennarar fái launabætur, ef þessir menn fá launabætur. Með þessari brtt. okkar er ekkert sagt um það, hvort þessir menn eigi að fá uppbót eða ekki, en ef þeir fá hana, þá er full ástæða til þess að hafa kennarana með, enda miðar brtt. okkar að því, að kennararnir verði fyrst teknir upp á brtt. ríkisstj. og hún síðan borin upp í heild.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um þetta.