12.02.1943
Sameinað þing: 25. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 457 í B-deild Alþingistíðinda. (619)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1943

Eiríkur Einarsson.:

Herra forseti. — Það má segja, að þeir hv. þm., sem hér tala í nótt, séu tómthúsmenn í orðsins fyllstu merkingu. Þar sem ég er nú einn þessara tómthúsmanna, er best, að ég hafi sem fæst orð yfir þessum auðu bekkjum. En það, sem veldur því, að ég stend á fætur, eru 2–3 nýjar brtt., sem nýlega hefur verið leitað afbrigða fyrir, auk þeirra, sem hafa áður verið ræddar. Þá er fyrst brtt. 425, I, sem við þm. Árn. flytjum saman, um að veittar verði 50 þús. kr. til Sogsvegargerðar. Við fluttum þessa brtt. eftir nánari athugun þessa máls, og mér er óhætt að staðhæfa, að það var í rauninni gert eftir bendingu vegamálastjóra. Hann sá við athugun þótt seint væri, að það var bráðnauðsynlegt að veita nú nokkurt fé til þessa vegar. Þessi vegur, sem liggur meðfram Þingvallavatni, getur verið mjög mikilsverður, einkum þegar snjóalög eru, en þá getur hann haft geysimikla þýðingu fyrir mjólkurflutninga. Nú vantar aðeins herzlumuninn, til þess að vegurinn verði fullgerður, en það nægir til þess, að hann verði öruggur, þegar mest liggur við. Vegamálastjóri sá þörfina á því, að vegur inn yrði fullgerður nú þegar og mælti með því að fé yrði nú fengið til þeirra hluta.

Þá er það brtt. 425, II, sem ég flyt með fleirum. Ég er ekki 1. flm. brtt., en hinir hafa nú horfið héðan, svo að ekki þyrftu allir að vaka, og hefur það því orðið mitt hlutskipti að tala fyrir henni. Þessi brtt. fer fram á, að veittar verði 5000 kr. til Stokkseyrarhrepps til þess að koma upp og reka þar ferðamannaskýli og greiðasölu. Eins og stendur, er Stokkseyri aðallandtökustaðurinn fyrir báta frá Vestmannaeyjum, enda er nú mjög tíðförult þar á milli. En er í land kemur, eiga ferðamenn hvergi höfði sínu að að halla, því að þarna er ekkert gistihús eða greiðasala, en víðast þröngt á heimilum. Þetta eru fullkomin vandræði, og er hér því farið fram á sanngjarna fjárveitingu til þess að koma upp skýli fyrir sjófarendur. Það er svo gert ráð fyrir, að Stokkseyringar ráðstafi þessu fé í samráði við Vestmannaeyinga. Er nú mikill hugur í mönnum um, að hafizt verði handa um að koma þessu upp, en það vantar nægilegt fjár magn, og er því farið fram á, að veitt verði nokkur hjálp vegna aðkallandi þarfar. Ég vona, að þessi brtt. fái góðar undirtektir, en sem varafjárveitingu höfum við farið fram á 4000 kr., og verður því ekki annað sagt en að hér sé hóflega farið í sakirnar.

Þá á ég hér brtt. 420 VI, um að orða um till. fjvn. um hrossaræktarbú á Bessastöðum, þannig að till. orðist á þessa leið : „Að greiða allt að 150 þús. kr. til þess að reisa peningshús og til aukningar bústofni á Bessastöðum.“ Í till. fjvn. er þetta framlag einskorðað við að koma upp hrossaræktarbúi, en hvort það verður uppeldisstöð graðra eða geltra hesta, er ekki tekið fram. Ég hef hins vegar lagt hér til, að þetta fé verði veitt til aukins búrekstrar á Bessastöðum. Það hefur verið nokkuð rætt hér, hvort það væri sæmandi, úr því að æðsta manni landsins hefur verið valinn þarna bústaður, að ákveða þá, að þarna skyldi einnig rekin ákveðin búfjárræktarstarfsemi og kynbótabú. Ég verð að segja, að það er vægast sagt smekklítið. Ég álít það jafnsmekklaust og ef til þess kæmi einhvern tíma, að biskup landsins flyttist að Skálholti, að þá yrði ákveðið í búhyggjuskyni að reka þar stórbú með kynbótanaut. Ég er ekki mótfallinn búfjárræktarstarfsemi, en mér þykir þetta mjög óviðeigandi. Hitt er annað mál, að til þess að Bessastaðir gæti notið sin sem bújörð, vantar mikið húsrúm fyrir búpening, til þess að það samsvari gildi jarðarinnar. En þegar á að auka áhöfn jarðarinnar, verður það fljótt kostnaðarsamt, því að nú er fljótt að koma hvert gripsverðið. Annars vil ég taka það fram, að þegar hæstv. ríkisstjóra var ákveðinn bústaður á Bessastöðum, þá var ég á móti því, því að mér þótti jörðin of umsvifamikil til slíkra hluta, enda er það nú að koma fram. En fyrst niðurstaðan varð þó þessi, þá finnst mér sjálfsagt að hagnýta á eðlilegan og frjálsmannlegan hátt gæði jarðarinnar, en lofa allri kynbótastarfsemi að eiga sér annan samastað en í einbýli eða sambýli við hæstv. ríkisstjóra. Ég vona, að ég þurfi svo ekki að ræða þetta meira, en vænti þess, að brtt. mín fái góðar undirtektir, því að hún kemur þá í veg fyrir þá smekkleysu, sem Alþ. er komið vel á veg með að hrinda í framkvæmd. Til þess að standa við orð mín um tómthúsmennina skal ég nú ekki tala mikið lengur. Ég vil þó að lokum minnast aðeins á það, sem hv. 6. landsk. sagði, en það voru mjög athugaverð ummæli, og væri ástæða til að fara nánar út í það, ef öðruvísi hefði staðið á. Hann gat þess, að þær brtt., sem hefðu komið fram við L. umr., hefðu helzt fengið áheyrn hjá fjvn., en að það væri fullt útlit á, að hinar ættu allar að fara í sömu gröfina. Þessi ummæli frá manni úr fjvn. eru mjög athyglisverð og óskemmtilega sönn. Þegar fjárlagafrv. er nú að verða að lögum og þetta er tekið með til athugunar, þá sést, að það er eitthvað bogið við þetta allt saman. Það eru nú 9 menn í fjvn., og munu sumir jafnvel hafa heimtað, að slegið yrði sameiginlegu striki yfir allar brtt., sem ekki koma frá n. sjálfri, hvort sem það væri rétt eða rangt. Ég bjóst við, að allar brtt. ættu að verða teknar til athugunar án tillits til þess, hvaðan þær kæmu, og ég held, að það væri gott fyrir fjvn. að hafa það í huga við atkvgr., að hún er ekki fyrst og fremst fjvn., sem á að standa saman í gegnum þykkt og þunnt, heldur á hver einstaklingur fyrst og fremst að standa við skoðanir sínar á því, hvað sé rétt og hvað ekki án tillits til athugana fjvn.

Þetta ættu menn að hafa í huga, og það væri réttara að nota tímann meira til athugunar á fjárl. í stað þess að hroða þeim af, þegar allt er komið í eindaga.